Landnámabók/90. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Landnámabók: V. hluti höfundur óþekktur

Ketill hængur hét ágætur maður í Naumdælafylki, son Þorkels Naumdælajarls og Hrafnhildar dóttur Ketils hængs úr Hrafnistu. Ketill bjó þá í Naumudal, er Haraldur konungur hárfagri sendi þá Hallvarð harðfara og Sigtrygg snarfara til Þórólfs Kveld-Úlfssonar, frænda Ketils. Þá dró Ketill lið saman og ætlaði að veita Þórólfi, en Haraldur konungur fór hið efra um Eldueið og fékk skip í Naumdælafylki og fór svo norður í Álöst á Sandnes og tók þar af lífi Þórólf Kveld-Úlfsson, fór þá norðan hið ytra og fann þá marga menn, er til liðs ætluðu við þá Þórólf; hnekkti konungur þeim þá. En litlu síðar fór Ketill hængur norður í Torgar og brenndi inni Hárek og Hrærek Hildiríðarsonu, er Þórólf höfðu rægðan dauðarógi; en eftir það réð Ketill til Íslandsferðar með Ingunni konu sína og sonu þeirra. Hann kom skipi sínu í Rangárós og var hinn fyrsta vetur að Hrafntóftum.

Ketill nam öll lönd á milli Þjórsár og Markarfljóts; þar námu síðan margir göfgir menn með ráði Hængs. Ketill eignaði sér einkum land milli Rangár og Hróarslækjar, allt fyrir neðan Reyðarvatn, og bjó að Hofi.

Þá er Ketill hafði fært flest föng sín til Hofs, varð Ingunn léttari og fæddi þar Hrafn, er fyrst sagði lög upp á Íslandi; því heitir þar að Hrafntóftum.

Hængur hafði (og) undir sig lönd öll fyrir austan Rangá hina eystri og Vatnsfell til lækjar þess, er fellur fyrir utan Breiðabólstað og fyrir ofan Þverá, allt nema Dufþaksholt og Mýrina; það gaf hann þeim manni, er Dufþakur hét; hann var hamrammur mjög.

Helgi hét annar son Hængs; hann átti Valdísi Jólgeirsdóttur. Þeirra dóttir var Helga, er átti Oddbjörn askasmiður; við hann er kennt Oddbjarnarleiði. Börn þeirra Oddbjarnar og Helgu voru þau Hróaldur, Kolbeinn, Kolfinna og Ásvör.

Stórólfur var hinn þriðji son Hængs. Hans börn voru þau Ormur hinn sterki og Otkell og Hrafnhildur, er átti Gunnar Baugsson; þeirra son var Hámundur faðir Gunnars að Hlíðarenda.

Vestar hét hinn fjórði son Hængs; hann átti Móeiði; þeirra dóttir var Ásný, er átti Ófeigur grettir. Þeirra börn voru þau Ásmundur skegglaus, Ásbjörn, Aldís móðir Valla-Brands og Ásvör móðir Helga hins svarta; Æsa hét ein.

Herjólfur hét hinn fimmti son Hængs, faðir Sumarliða, föður Veturliða skálds; þeir bjuggu í Sumarliðabæ; þar heitir nú undir Brekkum. Veturliða vógu þeir Þangbrandur prestur og Guðleifur Arason af Reykjahólum um níð.

Sæbjörn goði var son Hrafns Hængssonar, er átti Unni dóttur Sigmundar; þeirra son var Arngeir.

Sighvatur rauði hét maður göfugur á Hálogalandi; hann átti Rannveigu, dóttur Eyvindar lamba og Sigríðar, er átt hafði Þórólfur Kveld-Úlfsson; Rannveig var systir Finns hins skjálga.

Sighvatur fór til Íslands að fýsn sinni og nam land að ráði Hængs í hans landnámi fyrir vestan Markarfljót, Einhyrningsmörk fyrir ofan Deildará, og bjó í Bólstað, hans son Sigmundur, faðir Marðar gígju, og Sigfús í Hlíð og Lambi á Lambastöðum og Rannveig, er átti Hámundur Gunnarsson, og Þorgerður, er átti Önundur bíldur í Flóa. Annar son Sighvats var Bárekur, faðir Þórðar, föður Steina.

Jörundur goði, son Hrafns hins heimska, byggði fyrir vestan Fljót, þar er nú heitir á Svertingsstöðum; hann reisti þar hof mikið.

Bjór lá ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár og Jöldusteins; það land fór Jörundur eldi og lagði til hofs.

Jörundur átti... Þeirra son var Valgarður goði, faðir Marðar, og Úlfur aurgoði, er Oddaverjar eru frá komnir og Sturlungar. Margt stórmenni er frá Jörundi komið á Íslandi.

Þorkell bundinfóti nam land að ráði Hængs umhverfis Þríhyrning og bjó þar undir fjallinu; hann var hamrammur mjög. Börn Þorkels voru þau Börkur blátannarskegg, faðir Starkaðar undir Þríhyrningi, og Þórný, er átti Ormur hinn sterki, og Dagrún, móðir Bersa.