Fara í innihald

Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar/Hinn fyrri s. Páls pistill til Tímóteo

Úr Wikiheimild
Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar (1540)
Höfundur: Oddur Gottskálksson
(Hinn fyrri S. Páls pistill til Tímóteo)
Þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu.

Fyrsti kapítuli

[breyta]

Páll postuli Jesú Kristi eftir boðan Guðs, vors frelsara, og Drottins Jesú Kristi, sá vor von er.

Tímóteo, mínum ástúðlegum syni í trúnni. Náð, miskunn, friður af Guði, vorum föður og vorum Drottni Jesú Kristo. Svo sem að eg beidda þig það þú blifir til Efeso meðan eg færa í Makedóníam og boðaðir það sumum það þeir ekkert annað kenndu og gæfir öngvan gaum að þeim ævintýrum og ættartölusögum sem öngvan enda taka, þær meir afla spurninga en betrunar til Guðs í trúnni. Því að uppfylling boðorðsins er kærleikurinn af hreinu hjarta og af góðri samvisku og af ómengaðri trú, í frá hverri sumir hafa villst og eru umsnúnir til ónýtrar þvættunar, vilja vera ritningsmeistarar, skilja þó ekki hvað þeir segja eða hvað þeir setja.

En vér vitum það lögmálið er gott fyrst nokkur tíðkar það réttlega, vitandi það að hinum réttláta er ekkert lögmál sett, heldur ranglátum og óhlýðugum, ómildum og syndurum, illhrifsingum og illskufullum, föðurdrápurum og móðurbönum, mannslögurum, frillulífismönnum, þeim sem skömm drýgir með karlmanni og þeim mönnum í burt stelur og ljúgurum, meinsærismönnum og svo það hvað heilsusamlegum lærdómi mótstaðlegt er eftir dýrðlegu evangelion hins sæla Guðs það mér tiltrúað er.

Og eg þakka vorum Drottni Kristo Jesú sem mig styrkvan gjörir og mig trúlyndan aktað hefir, setjandi í þetta embætti sem eg var þó fyrr meir forsmánari, ofsóknari og háðungarmaður. En mér er miskunnsemi yfirkomin því að það gjörða eg af viskuleysi í vantrú. En náð vors Drottins er þess gnæfanlegri verið fyrir trúna og þann kærleika sem að er í Kristo Jesú.

Því að það er vissileg sannindi og dýrmætt, verðugt orð það Kristus Jesús er kominn í þennan heim synduga hjálplega að gjöra meðal hverra eg em hinn fremsti. En mér er því miskunnsemi yfirkomin upp á það Kristus Jesús auðsýndi á mér fyrstum alla þolinmæði þeim til eftirdæmis sem á hann skyldu trúa til eilífs lífs. En Guði eilíflegum konungi, ódauðlegum og alleina vísum sé lof og dýrð að eilífu. AMEN.

Þetta boðorð bífala eg þér, son minn, Tímóte, eftir hinum fyrri spádómum yfir þér að þú fremjir í þeim góðan riddaraskap, hafandi trúna og góða samvisku, hverri sumir hafa frá sér skúfað og á trúnni skipbrot liðið, meðal hverra er Hýmeneus og Alexander, hverja eg hefi andskotanum ofurselt svo að þeim yrði kennt að guðlasta eigi meir.

Annar kapítuli

[breyta]

Svo áminni eg nú það vér umfram alla hluti gjörum í fyrstu bónir, bænir, fyrirbeiðslur, þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og fyrir öllum yfirboðurum upp á það vér mættum hafa spakt og rósamt líferni í allri mildi og siðsemd. Því að slíkt er gott, þar til einninn þakknæmt fyrir Guði, vorum hjálpara, sá sem vill það allir menn hjálpist og til viðurkenningar sannleiksins komist. Því að þar er einn Guð og einn meðalgangari milli Guðs og mannanna sem er sá maður, Kristus Jesús, hver sjálfan sig hefir útgefið fyrir alla til endurlausnar það þetta yrði predikað í hans tíð þar eg em predikari og postuli tilsettur (eg segi sannleik í Kristo og lýg ekki), lærari heiðinna í trúnni og í sannleiknum.

Svo vil eg nú það að mennirnir biðji í öllum stöðum og upphefji heilagar hendur án reiði og örvilnunar. Slíkt hið sama konunnar að þær prýði sig í sómasamlegum búnaði með blygð og hreinferði, eigi meður hárflektan eða gulli eður perlum eða dýrmætum klæðnaði, heldur svo sem það konunum hæfir, auðsýnandi mildi fyrir góð verk. Kvinnurnar læri í þögn með allri undirgefni. En það tilsteðju vér ekki kvinnunni það hún kenni, ekki einninn það hún sé mannsins herra, heldur það hún sé þögul. Því að Adam er fyrri skapaður, eftir það Eva. Og Adam varð eigi svikinn, en konan varð svikin og hefir yfirtroðsluna innleitt. En hún mun hjálpast fyrir barnburð ef hún blífur í trúnni og í kærleikanum og í helguninni með hreinferði.

Þriðji kapítuli

[breyta]

Það er vissileg sannindi ef að nokkur girnist biskupsembætti, sá girnist ágætt verk. En biskupi byrjar að vera óstraffanlegum, einnrar kvinnu eiginmanni, sparneytnum, hóglátum, siðsömum, gestrisnum, kenningasömum, enginn vínsvelgjari, eigi baráttusömum, einskis ljótlegs ávinnings gírugum, heldur vingjarnlegum, eigi þráttunarsömum, eigi ágjörnum, sá góða fyrirsjón veitir sínu húsi, hver hlýðug börn hefir með allri virðing (svo að ef nokkur kann ekki í sínu húsi forstöðu að sýna, hverninn má hann þá Guðs söfnuði umsjón veita?), eigi nýnæmum svo að hann upphrokist ekki og hrapi svo í forsmánarans úrskurð. Hann hlýtur og einninn að hafa góðan vitnisburð af þeim sem þar utan eru upp á það hann hrapi ekki í svívirðing og snöru spéarans.

Líka einninn skulu djáknarnir vera heiðarsamlegir, eigi tvítungaðir, öngvir vínsvelgir, einskis skemmilegs ávinnings gírugir. Þeir eð hafa heimugleik trúarinnar í hreinnri samvisku. Þá hina sömu lát áður reyna, eftir það lát þá þjóna nær þeir eru óstraffanlegir.

Svo og líka skulu þeirra eiginkvinnur vera hóglátar, eigi spésamar, hreinferðugar og trúlyndar í öllum hlutum. Djáknana hvern sem einn lát vera einnrar kvinnu eiginmann, sá vel forstendur sín börn og sín eigin hús. En þeir eð vel þjóna, verðskulda sér sjálfum góðan stig og mikla framkvæmd í trúnni í Kristo Jesú.

Þetta skrifa eg þér og vona sem fyrst til þín að koma, en ef mér seinkar að þú vitir hverninn þú skalt ganga í Guðs húsi, hvert að er söfnuður Guðs lifanda, stólpi og grundvallan sannleiksins. Og ómótmælanlega mikil er mildi heimugleikans: Sá sem að opinberaður er í holdinu, réttlættur í andanum, auglýstur englunum, predikaður heiðingjum, trúður er af heiminum, meðtekinn í vegsemd.

Fjórði kapítuli

[breyta]

En andinn segir skilmerkilega það á síðustum tímum munu nokkrir af falla frá trúnni og gætur gefa að sviksamlegum öndum og djöflalærdómum fyrir þá sem í smjaðran lygimælendur eru og forbrenndar samviskur hafa, fyrirbjóðandi að giftast og bindast þeirrar fæðu sem Guð hefir skapað til meðtöku trúuðum meður þakkargjörð og þeim sem sannleikinn viðurkenna. Því að öll Guðs skepna er góð og ekkert burtkastanlegt það með þakkargjörð meðtekið verður. Því að það helgast fyrir Guðs orð og bænina. Nær þú ert þetta bræðrunum fyrirleggjandi, mantu vera góður þénari Jesú Kristi sem uppalinn ert í orðum trúarinnar og góðum lærdómum, hverjum þú hefir hér til eftir fylgt. En aldraðra kvenna skröksögur forðast þú.

En sjálfan þig heldur vekra til mildinnar. Því að líkamleg vekran er til lítils nytsamleg, en mildin er til allra hluta nytsöm, hafandi þessa lífsins fyrirheit og svo hins eftirkomanda. Þetta er vissileg sannindi og dýrmætt verðugt orð. Því að til þess sama erfiðum vér einninn og verðum formæltir um það vér höfum vonað upp á lifanda Guð, sá sem að er frelsari allra manna, en sérdeilis trúaðra. Þetta boða og kenn. Enginn forsmái þína æsku, heldur vert fyrirmynd trúaðra í orðinu, í breytninni, í kærleikanum, í andanum, í trúnni, í hreinlífinu.

Vert þrifinn með lesningum, með áminningum, með kenningum þangað til það eg kem. Gleym ekki þeirri gáfu sem þér er gefin fyrir spádóma með handaupplegging öldungsins. Iðka þetta og umgakk svo að þinn frami sé opinber hverjum manni. Haf gætur á sjálfum þér og á lærdóminum, og blíf í þessum greinum. Því ef þú gjörir þetta, muntu sjálfan þig hjálplegan gjöra og þá sem þér heyra.

Fimmti kapítuli

[breyta]

Gamlan lasta ekki, heldur áminn hann sem föður, unga sem bræður, aldraðar konur sem mæður, ungar sem systur með öllu hreinlífi. Ekkjurnar heiðra, þær sem réttar ekkjur eru. En ef ekkja hefir börn eður barnabörn, þá lát hana fyrst læra sitt eigið hús guðlega að stjórna og foreldrunum líkt aftur að gjalda því að það er vel gjört og þakknæmt fyrir Guði. En það er sannarleg ekkja sem einsaman er og sína von setur upp á Guð og staðnæmist í bænum og ákalli dag og nótt. En hún, sem í girndum lifir, er lifandi dauð. Og bjóð þetta upp á það þær sé óstraffanlegar. En ef einhver rækir ekki sitt, sérdeilis sín hjú, sá hefir afneitað trúnni og er vantrúuðum verri.

Lát öngva ekkju út gefast sem sextigi ára er og verið hefir eins manns eiginkvon og hefir vitnan góðra verka, það hún hafi sín börn vel uppalið, það hún hafi gestrisin verið, það hún hafi heilagra fætur þvegið, það hún hafi harmþrungnum lífsnæring veitt, það hún hafi til allra góðra verka kostgæfin verið. En ungar ekkjur varast þú. Því nær þær taka lostasamar að gjörast í gegn Kristo, þá vilja þær giftast, hafandi sinn dóm það þær hafi hina fyrstu trú brotið. En jafnframt þessu eru þær gagnlausar og læra um hús að hlaupa, en þær eru eigi alleinasta gagnlausar, heldur einninn örðugar og ávítunarsamar og tala það sem ekki hæfir.

Því vil eg það ungar ekkjur giftist, ali börn, heimilinu forstöðu veiti og gefi mótstandaranum ekkert tilefni það hann megi formælingarsök með hafa. Því að þar eru þegar nokkrar frá horfnar, andskotanum eftirfylgjandi. En ef einhver trúaður maður eða trúuð kvinna hefir ekkjur, veiti hann þeim sömum framfærslu og láti söfnuðinn ekki þyngdan verða svo að þær, sem sannar ekkjur eru, mættu nægð hafa.

Þeir öldungar, sem vel forstanda, haldist tvefaldlegs heiðurs verðugir, sérdeilis þeir sem erfiða í orðinu og í lærdóminum. Því að ritningin segir: Eigi skaltu til binda múlann á erjanda nauti, - og: Verkmaðurinn er síns kaups verðugur. Í móti öldungi átakst ekkert klögumál nema tveggja eður þriggja vitnisburði. Þá sem syndgast, straffa fyrir öllum upp á það hinir aðrir hafi ótta af.

Eg votta fyrir Guði og Drottni Jesú Kristo og útvöldum englum það þú varðveitir þetta án eiginlegs hugboðs, ekkert gjörandi eftir vorkunnmælum. Legg eigi bráðlega hendur yfir nokkurn. Samlaga þig ekki annarlegum syndum, geym þig sjálfan hreinferðugan. Hér eftir drekk ekki vatn, heldur iðka lítils víns fyrir þíns maga sakir og það þú oftsinnis ert sjúkur.

Sumra manna syndir eru opinberar svo að vér kunnum þær fyrir fram að dæma. En sumra verða hér eftir á opinberar. Líka einninn sumra góðverk eru fyrir fram opinber og hinna annarra blífa ekki niðri byrgð.

Sétti kapítuli

[breyta]

Þér þjónustumenn, sem undir okinu eru, skulu halda sína drottna í öllum heiðri upp á það að Guðs nafn og lærdómurinn verði ekki lastaður. En þeir sem trúaða drottna hafa, skulu ekki forsmá þá hinu sömu fyrir það þeir eru bræður, heldur skulu þeir því þénugri vera með því það hinir eru trúaðir og elskanlegir og velgjörningsins hluttakarar.

Þetta kenn og áminn. Ef að nokkur kennir öðruvís og blífur ekki við heilsusamleg orð vors Drottins Jesú Kristi og við þann mildileiksins lærdóm, sá er uppbelgdur og veit ekkert, heldur er sóttlera í spurningum og orðadeilum, af hverjum uppsprettur öfund, þrætur, guðlastanir, illar óvenjur, misgreiningar þeirra manna sem fordjörfuð hugskot hafa, þeir eð sannleiknum sviptir eru, hverjir það meina að mildileikurinn muni fjárafli vera. Forða þig þeim sem þess konar eru. En það er mikill afli, hver mildilegur er, og lætur sér sína lukku nægja. Því að vér höfum ekkert innflutt í þennan heim, af því er það opinbert að vér munum ekkert í burt hafa. En nær vér höfum fæði og klæðnað, svo látum oss nægja. Því að þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og í margar fávíslegar og skaðsamlegar girndir, þær eð manninum drekkja í fordjarf og fyrirdæming. Því að ágirnd er rót alls ills, þeirrar sumir girntust og eru trúnni frávilltir og gjöra sér svo sjálfum margar meinsemdir. En þú, Guðs maður, flý þetta og eftir fylg réttlætinu, mildinni, trúnni, kærleikanum, þolinmæðinni, hógværðinni. Berst góðri baráttu trúarinnar, höndla svo eilíft líf, þar þú einninn ert til kallaður og játað hefir góða játning fyrir mörgum vottum.

Eg býð þér fyrir Guði sem alla hluti lífgar og fyrir Kristo Jesú, sá undir pontverskum Pílato vottað hefir góða játning, það þú varðveitir þetta boðorð án flekkunar, óstraffanlegur, allt til auglýsingar vors Drottins Jesú Kristi, hverja sá hinn sæli og alleinasta voldugur man auglýsa á sínum tímum, konungur konunganna, Drottinn drottnanna. Hann sem einsamall ódauðleikinn hefir, sá sem byggir í ljósinu þar enginn kann til að komast, hvern enginn maður hefir séð né sjá kann, hverjum að sé heiður og ævinlegt veldi. Amen. Ríkum þessarar veraldar bjóð þú það þeir sé ekki mikillátir og leggi öngva von upp á þenna fallvaltan ríkidóm, heldur upp á lifanda Guð sem oss gnóglega gefur allsháttað til notnunar og það þeir gjöri nokkuð gott, það þeir auðgist í góðum verkum, sé gjafmildir, vinsælir, safnandi sér sjálfum í svo að þeir höndli eilíft líf.

Ó, Tímóte, varðveit það þér er tiltrúað og varast fáfengilegt hégómahjal og kappdeilur falsfrægðaðrar listar, hverri að nokkrir frammi haldi og eru trúnni frávilltir. Náðin sé með þér. Amen.

Skrifaður frá Laódíkea sem að er ein höfuðborg landsins Frýgia og Pakatíane.