Nýji sáttmáli. — Gamli sáttmáli

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Nýji sáttmáli. — Gamli sáttmáli  (1908) 
höfundur Jón Jónsson Aðils

Nýji sáttmáli.

— Gamli sáttmáli.

Afsal eða ekki?


Eftir

Jón Jónsson

sagnfræðing.


Reykjavik

Prentsmiðjan Gutenberg

1908

blaðsíða

Þegar íslendingar laust fyrir miðja siðastliðna öld vöknuðu til fullrar meðvitundar um þjóðerni sitt, vaknaði hjá þeim um leið innileg þrá eftir stjórnarfarslegu sjálfstæði. Forvigismenn þjóðarinnar töldu það eitt af aðalskilyrðunum fyrir þrifnaði og velgengni hennar, að hún yrði sjálfri sér ráðandi í öllum innanlandsmálum, eins og hún hafði verið að lögum endur fyrir löngu. Nú vita það allir menn, að það sem mest á riður í hverri baráttu, er að gera sér ljósa grein fyrir kröfum þeim, sem barist er fyrir, að setja sér skýrt mark til að keppa eftir, því við það eykst þrótturinn og sjálfsmeðvitundin. Þetta viðurkendi og Jón Sigurðsson, foringi og leiðtogi íslendinga í stjórnmálabaráttunni, og markið, sem hann setti þjóð sinni, var það, að ná aftur þeim fornu landsréttindum, sem íslendingar höfðu áskilið sér í »Gamla sáttmála«, er þeir gengu Noregskonungi á hönd 1262—64. Frá þessari stefnu vék hann aldrei meðan hann lifði, og frá þessari stefnu hefir aldrei verið vikið í aðalatriðunum upp frá þeim tíma. Hvað sem annars hefir á milli borið, þá hefir það lengst af vakað fyrir öllum mönnum, sem fylgt hafa fram sjálfstæðiskröfum Íslands, að takmarkið, sem Íslendingar ættu að keppa að í stjórnmálabaráttunni við Dani, væri réttargrundvöllur sá, er felst í »Gamla sáttmóla«. Tækist að fá þeim kröfum framgengt, þá þótti með því íslendingum trygt það frelsi og sjálístæði, er þeir ættu fornan rétt til.

Hér skal þá í stuttu máli gerð grein fyrir, hver réttur Íslendingum er áskilinn í »Gamla sáttmála«, því þetta skjal ber að réttu lagi að skoða sem forn grundvallarlög um stöðu Íslands í sambandinu við Noreg.

Með »Gamla sáttmála« er íslendingum trygt fult og óskorað sjálfstæði í öllum innanlandsmálum og alþingi Íslendinga fult löggjafarvald í öllum slíkum málum án afskifta eða íhlutunar frá nokkurs manns hendi nema konungs eins. — Íslendingum er trygt hið æðsta dómsvald í öllum málum sínum, nema að því leyti, er alþingi kynni að dæma eitthvert mál á konungsvald. — Íslendingum er trygt fult jafnrjetti við Norðmenn í öllum greinum, og því heitið, að stjórnarvöldin á Íslandi skuli jafnan fengin íslenzkum mönnum í hendur.

Þetta er aðalinntak »Gamla sáttmála« að því er til sérmálanna kemur. Eftir þessu er þá ísland frjálst sambandsland Noregs með fullu sjálfstæði eða fullveldi í öllum innanlands málum.

En hver eru þá eftir »Gamla sáttmála sameiginleg mál Noregs og Íslands? Eftir »Gamla sáttmála« er konungur sameiginlegur með Íslendingum og Norðmönnum, en konungi sjálfum fylgja utanríkismálin. Þessa atriðis verða menn vel að gæta, því á því veltur aðalþrætan um þessar mundir, á því veltur deilan um, hvort hér er um nokkurt afsal að ræða eða eftirgjöf á fornum rétti. Utanríkismál eru að vísu hvergi nefnd berum orðum í »Gamla sáttmála«, en þess ber að gæta, að íslendingar áttu þá eigi önnur utanríkismál en verzlunarmálin, og þau er nefnd berum orðum í grein þeirri, er áskilur Íslendingum 6 skipsfarma árlega, með öðrum orðum: Þeim er skipað á vald konungs. Að þetta hafi svo verið í raun og veru, þótt því hafi eigi verið næg eftirtekt veitt hingað til, — að utanríkismálin (verzlunarmálin) hafi verið falin konungi til meðferðar á þann hátt, er honum sjálfum þóknaðist, og að hann hafi ráðstafað þeim einn eða í samvinnu við hið norska ríkisráð, án nokkurrar íhlutunar af hálfu Íslendinga, er hægt að sanna með óyggjandi rökum. Frá því á síðari hluta 13. aldar, nokkru eftir að landið gekk undir konung, hafa Noregskonungar einir og Danakonungar eftir þá, skipað til um verzlun Íslands, hafa leyft og bannað erlendum þegnum verzlun á Íslandi, gert samninga við aðra þjóðhöfðingja um slík mál, og það að Íslendingum fornspurðum, án nokkurrar íhlutunar eða afskifta af hálfu alþingis Íslendinga. Eg skal tilfæra hés nokkur dæmi þessu til sönnunar.

Árið 1269 leyfir Eiríkur konungur Magnússon Hamborgurum verzlun og vetrarsetu í öllu ríki sínu (Ísl. fornbréfasafn II, 302). Bréfið er á latínu og hefir því eigi verið lagt fyrir alþingi íslendinga. Árið 1302 gefur Hákon háleggur ásamt með ríkisráði sinu út bréf, er bannar útlendingum verzlun í norðurhluta Noregs og á Íslandi (Ísl. fornbrs. II, 332). Þessu bréfi er á engan hátt mótmælt af alþingi Íslendinga, en öllum kröfum öðrum, er Krók-Álfur kom út með um þessar mundir (1301—1305), t. d. um skipun norskra lögmanna á Íslandi, og skatt-tekju, er harðlega mótmælt og taldar ólögmætar eftir »Gamla sáttmála. Árið 1348 bannar Magnús konungur Eiríksson útlendum kaupmönnum verzlun í skattlönd(Ísl. fornbrs. II, 845). Árið 1419 leyfir Arnfinnur hirðstjóri Þorsteinsson í umboði konungs utanríkiskaupmönnum verzlun og útróðra á íslandi (Ísl. fornbrs. V. 269). Árið 1432 gera þeir Eiríkur af Pommern og Hinrik VI. Englakonungur samning sín á milli út úr sundurþykkju og óeyrðum, og ná nokkrar greinar í þeim samningi sérstaklega til Íslands (Ísl. fornbrs, IV, 523). Samningurinn er á latínu og hefir því eigi verið lagður fyrir alþingi íslendinga.

Svo mætti lengi halda áfram, en þetta nægir til að sýna, að afskifti konungs af þessum málum verða eigi skoðuð sem gjörræði, heldur fullheimil. Þetta eru mál, sem algerlega eru á valdi konungs og hann getur skipað til um og hagað eftir vild sinni. Því er hvað eftir annað mótmælt, að konungur hafi nokkurn rétt til að skipa fyrir um innanlandsmál án samþykkis landsmanna, en hinu aldrei. Og það er hinsvegar eigi kunnugt, að alþingi Íslendinga hafi á þessum tímum nokkru sinni skipað til um utanríkismál að sínu leyti.

Nánar ákveðið er þá réttarstaða Íslands eftir »Gamla sáttmála« þessi: Ísland er frjálst sambandsland Noregs, og Íslendingum er áskilið fullveldi í öllum sérmálum sínum, en konungi í utanríkismálum.

Þetta er sá réttargrundvöllur, sem Íslendingar hafa jafnan staðið á í stjórnmálabaráttu sinni við Dani frá því á dögum Jóns Sigurðssonar. Að fá þessum kröfum framgengt, að fá afstöðu Íslands til Danmerkur kipt í þetta horf, hefir sífelt vakar fyrir Íslendingum sem hin heitasta þjóðarósk. Um það hafa þeir meun orðið á eitt sáttir, er drengilegasta framgöngu hafa sýnt í hinni löngu stjórnmálabaráttu vorri.

Þessari þjóðarósk er nú fullnægt, þessu takmarki er náð með samningi þeim, er nú liggur fyrir. Því verður eigi á móti mælt hvernig sem að er farið og út úr er snúið, að réttarstaða vor eftir hinum nýja sáttmála, verður alveg nákvæmlega hin sama í öllum grundvallaratriðum og hún var eftir »Gamla sáttmála«. — og þó nokkuð frekar oss í vil. Þetta skal nú sýnt fram á með nokkrum rökum.

Samkvæmt hinum nýja sáttmála er ætlast til, að Ísland verði »frjálst og sjálfstætt land, er eigi verður af hendi látið«. Það fær full og óskert umráð yfir sérmálum sínum öllum, innanlandsmálunum, án nokkurra afskifta eða íhlutunar af Dana hálfu. Vér getum sjálfir skipað til um þau á hvern veg sem vér viljum og borið þau upp fyrir konungi á hvern þann hátt, er oss þóknast. Þau eru með öllu losuð undan áhrifum og afskiftum Dana, og ríkisráðstengslin slitin, haftið gamla, tjóðurbandið, sem verið hefir á sjálfstæði voru hingað til. Með þessu er aðalskilyrðinu fullnægt og réttarstöðu landsins kipt í það horf, er »Gamli sáttmáli« til skilur.

Sameiginleg mál Danmerkur og Íslands verða konungur og þau mál önnur, er báðir aðilar verða ásáttir um í þessum samningi, og eru þau síðan talin upp. En Íslendingum er áskilinn réttur til að segja þeim öllum lausum eftir 35 ár hér frá, ef þeim svo þóknast, nema utanríkismálum og hervörnum. Bæði þau mál fylgja konungi persónulega. Um hermálin skal hér eigi fjölyrt, því þau taka að vorri hyggju lítið til Íslendinga, þar sem þeir eigi leggja fé til þeirra né fólk, og þeim hins vegar er gerður kostur á að taka að sér strandvarnirnar síðar meir. Utanríkismálin ein varða oss nokkuru, en þau fylgja nú konungi, alveg eins og þau gerðu eftir »Gamla sáttmála«, — með þeirri mikilsverðu ívilnun þó, að engir þjóðarsamningar, er snerta Ísland sérstaklega, ná gildi fyrir ísland, nema rétt stjórnarvöld íslenzk samþykki.

Það er því hreint og beint ósæmileg blekking að halda því að þjóðinni, að í þessu atriði samningsins felist nokkur skuldbinding fram yfir það, sem áður hefir við gengist eftir »Gamla sáttmála«, eða nokkurt afsal á fornum landsréttindum. Þau landsréttindi, er oss voru áskilin í »Gamla sáttmála«, eru að fullu trygð í þessum nýja sáttmála. Þetta hefir oss loks orðið ágengt eftir fullra 60 ára harðsnúna baráttu. Takmark það, er er þjóðinni var sett í upphafi baráttunnar, blasir nú loks við augum, ekki í þoku og fjarska, heldur beint í framsýn og rétt fram undan oss, því þótt 35 ár séu langur tími í mannsæfinni, þá eru þau eigi nema augnablik að telja í lífi heillar þjóðar. —

En nú — nú, þegar takmarkinu er náð, þegar sjálfstæðisvonirnar fagrar og lokkandi eru að rætast, þegar sigurlaunin blasa við augum, vilja menn hrinda frá sér sjálfstæðinu og tefla sigurinn úr höndum sér í alveg ófyrirgefanlegu hugsunar-, mér liggur við að segja: hamingjuleysi.

Nú er á allar lundir reynt að glepja þjóðinni sýn, að dreifa athygli manna frá aðalatriðunum í þessu máli og tefla þjóðinní út í ófæru. Það er eins og loft alt sé »lævi blandið«, eins og segir í Eddu. Eftir í fulla hálfa öld að hafa hrópað á landsréttindi þau, sem trygð eru Íslendingum í »Gamla sáttmála«, drepa menn nú hendi við þeim þegar þau eru í boði, og fitja upp á nýjum kröfum, sem hvergi eiga sér stað í »Gamla sáttmála«, — kröfum, sem eftir mínum skilningi eru með öllu óaðgengilegar, ekki að eins fyrir Dani í þessu sambandi, heldur yfir höfuð að tala fyrir nokkra þjóð í sambandi við aðra, þegar svo ójafnt er á komið eins og hér.

Hvað er það, sem menn fara fram á? Menn fara fram á þannig lagað samband á milli landanna, að þar sé ekkert sameiginlegt mál, nema konungur einn, en vilja fela Dönum eftir samningi meðferð utanríkismálanna í voru umboði um óákveðinn tíma og með uppsagnarrétti af vorri hálfu þegar oss sýnist. Það er satt að segja óskiljanlegt, að mönnum skuli ekki vera ljóst, að þessi krafa er alveg frámunalega ósanngjörn og með öllu óaðgengileg fyrir hinn málsaðilann. Hér er farið fram á samband, er felur Dönum alla ábyrgðina, fyrirhöfnina og áhættuna af utanríkisstjórninni, en undanskilur Íslendinga allri áhættu og allri ábyrgð. Við eigum að leika lausum hala og hafa nokkurs konar yfirumsjón með utanríkisstjórninni, — því umbjóðandi hlýtur hér að hafa strangan eftirlitsrétt, — en Danir eiga að bera alla ábyrgð og áhættu, þá áhættu meðal annars, að við hleypum þeim í ófrið við aðrar þjóðir. Og svo eigum við þar á ofan að áskilja okkur rétt til að gefa þeim spark þegar okkur sýnist og segja allri sambúð slitið nema við konung einan. Í sannleika! Þetta þættu ekki sanngjarnar kröfur, ef um samning væri að ræða milli tveggja manna. Og það er satt að segja engin furða, þótt nokkrir helztu stjórnréttarfræðingar heimsins hafi talið þannig lagað samband milli tveggja ríkja óeðlilegt eða jafnvel með öllu óaðgengilegt. Því siður er það furða, þótt Danir í þessu sambandi þverneiti slíkum kröfum, Danir, sem nú halda oss í bóndabeygju eins og allir vita og eiga alls kosti við oss, — enda hafa líka nefndarmennirnir dönsku lýst því yfir einum munni, að slíkt geti ekki komið til nokkurra mála, og öll dönsk blöð, hvort sem þau eru máli voru hlynt eða eigi, taka í sama strenginn. Þau telja fullan skilnað aðgengilegri fyrir Dani, og það er hann líka áreiðanlega.

Það er því með öllu óhugsandi, að slíkri breytingu á samningnum fáist framgengt, að vér fáum í hendur fullveldi í utanríkismálunum, nema með því móti að slíta þá um leið konungssambandinu, — og við höfum heldur engan rétt til að krefjast þess. Utanríkismálin verða að fylgja konungi nú, eins og þau fylgdu konungi eftir »Gamla sáttmála« 1262. Og það megum við að minni hyggju vel við una með þeirri ívilnun, sem samningurinn að öðru leyti veitir oss um hlutdeild í öllum þjóðarsamningum, er snerta Ísland sérstaklega. Við megum ekki fara að skrökva neinu að sjálfum okkur í þessu máli. Það er of hættulegur leikur. Á réttarins og sannleikans grundvelli erum við ósigrandi, en sé út af honum vikið, þá er lítil von um góðan árangur. Í sannleikanum einum felst sigurinn.

Menn mega heldur ekki í þessu máli festa augun á aukaatriðunum og láta sér gleymast aðalatriðið, en aðalatriðið er það, að vér höfum fengið öllum réttmætum, grundvallarkröfum vorum framgengt með þessum samningi, án þess að afsala oss nokkrum fornum réttindum eða fjötra oss á nokkurn hátt. Við verðum að festa sjónir á því, að eins og nú stöndum vér er samningurinn afar átakanleg réttarbót oss til handa. Því hefir enginn treyst sér til að mótmæla. Hann kippir okkur úr fullkomnu réttleysis- og innlimunarástandi og yfir á ákveðinn og aðgengilegan réttargrundvöll, þann sama og vér stóðum á eftir »Gamla sáttmála«, með skýlausu fullveldi yfir öllum sérmálum vorum, með sívaxandi rýmkun á sérmálasviðinu og með viðurkendri hlutdeild í utanríkismálunum. Þetta stendur okkur til boða ef við tökum samningnum. Falli hann aftur á móti, þá stöndvið slyppir eftir á þeim grundvelli, er nú stöndum við á, og þó at verr settir. Danir hafa nú einir í höndum utanríkismálin og öll sameiginlegu málin, hvort sem okkur er það ljúft eða leitt, og geta farið með þau alveg eins og þeim þóknast án nokkurra afskifta af Íslendinga hálfu. Sérmálin íslenzku eru tjóðruð í ríkisráðinu undir eftirliti og áhrifum Dana, ef þeir vilja beita þeim, og verða ekki þaðan losuð nema með ljúfu samþykki þeirra. Stjórnarskrá vor, sérmálastjórnarskráin, er eins og allir vita bygð á stöðulögunum nafntoguðu frá 1871, sem Danir einir hafa sett og geta því undan kipt hvenær sem þeir vilja. Danir hafa lengi þótt oss örðugir og þungir í viðskiftunum, en það ættu allir að geta gert sér í hugarlund, að ekki yrðu þeir ljúfari eða liðlegri, ef samningum væri spilt. Nú er konungur sjálfur oss Íslendingum mjög svo fylgjandi, að því er mælt er, en heldur mundi það að vonum gera hann oss fráhverfan, ef samningurinn væri feldur, samningur, sem hann sjálfur hefir í upphafi hrundið á stað og átt mestan þátt í að útvega oss, svo aðgengilegan, sem raun hefir á orðið.

Hér er þá um tvent að velja: Annars vegar ákveðna réttarstöðu, er samsvarar í öllum greinum ákvæðum þeim, er felast í »Gamla sáttmála«, og vér höfum barist fyrir í fulla hálfa öld, — og hins vegar fullkomið réttleysis- og innlimunarástand, eins og nú er, og at verra þó, ef illa færi.

Kjósi nú þeir þennan síðari kostinn sem það vilja og treystast til að verja það fyrir samvizku sinni og niðjum sínum. Hinir munu fleiri verða áður lýkur, sem kjósa sér til handa hinn fyrri kostinn — ef það þá ekki verður um seinan.
Sérprentun úr »Reykjavik«.