Piltur og stúlka/4

Úr Wikiheimild

Þenna sama vetur var Ormur Bjarnason bróðir Sigríðar efstur í neðri bekk í Bessastaðaskóla; átti sæti í borðstofu í króknum við Brúnku á óæðrabekk og var í fati og kúpu með efribekkjar stórmennum; og var það eitt af réttindum Skrælingjakonungs, sem mest kvað að, fyrir því að þar voru vistir betri og mjólk minna blandin en þegar aftur eftir Brúnku sótti. Í skóla sat Ormur jafnan fyrir ofan litla borðið næst ofni; það sæti hafði hann sjálfur tekið sér, og báru margir hlutir til þess, en sá einkum, að þar var vígi gott og betra fyrir einn að verjast en þrjá að sækja, en land Skrælingja herskátt mjög um þær mundir. Ekki hafði Ormur neinar kvaðir af hendi kennaranna, og ekki hafði hann önnur stjórnarstörf í ríki sínu en herstjórn; var hann og hinn mesti fullhugi og reyndur í orustum. - Það var einn dag skömmu eftir miðjan vetur, að Ormur sat í sæti sínu og var að rita latínu í bók þá, er kompa heitir; ekki voru þar fleiri piltar í skólanum, því þeir voru að snæðing en Ormur hafði því ekki gengið til borðunar, að óvinurinn Sparta var á borðum. Raunar þótti það ósiður að ganga ekki til borðunar, og flestir voru svo leiðitamir að ganga í borðstofu og að minnsta kosti gína yfir kjötbollunum, þó þeir ætu ekki. Sumum gekk ekki góðmennskan ein til, heldur hitt, að þeir annaðhvort vildu vera öllum þóknanlegir, sem hlut áttu að Spörtu, eður og að þeir hugðu, að kennarinn, sem stóð yfir piltakindunum, mundi koma auga á sæti þeirra og rita það í minnisblöðin, að þeir kæmu ekki til borðunar. En Ormur skeytti lítið um þess konar hégiljur og hugsaði með sér: Riti þeir í guðs nafni, blessaðir, allt jafnar sig. Ormur hafði alltaf nógan starfa, þegar piltar voru inni, og því varð hann að nota þann tímann, sem nokkur kyrrð var á, til að bóka latínuna, ella mundi kompa hans síðbúin, þegar þjónustusveinn kennarans tók að heimta saman kompurnar. En kyrrðin varð ekki löng; allt í einu heyrast sköll og glumragangur, sem þá er margir lausir hestar eru reknir hart yfir stórgrýti; þá voru piltar að hlaupa út úr borðstofu sinn í hverja átt; og í sama vetfangi var skólahurðinni svipt upp, en maður hvatlegur hleypur inn; sá hét Vigfús og var Oddsson. Hann átti oft sökótt við Orm, og sama morguninn hafði Ormur í miðjum tíma beðið um útgönguleyfi, en þó ekki átt brýnt erindi. Vigfús sat fremstur fyrir framan stóra borðið, og rétt í því Ormur gekk út, en kennarinn sagði við Vigfús: Taktu þarna við, seqvens - lagði Ormur þvílíkan pústur utan á vangann á Vigfúsi, að enginn þóttist áður slíkan heyrt hafa, og tók undir í öllum skólanum. Ormur skrapp út; en svo var snoppungurinn laglega réttur að Vigfúsi, að fáir gátu séð með vissu, hvaðan hann kom. Vigfúsi varð ógreitt um lesturinn og ruglaðist í að snúa latínunni, því hann varð heitur við tilræðið og missti sín. Þetta var Vigfúsi ekki úr minni liðið og segir nú, í því hann kemur inn í skólann: Nú skal minnast forns fjandskapar og gjalda þér kinnhestinn þann í morgun - og tvíhendir í sama bili gamlan Kleyfsa og miðar á nasirnar á Ormi, en missir hans, og kemur Kleyfsi í blekbyttu þar á borðinu, og veltur hún yfir kompu Orms. Ormur hugsar sig ekki lengi um og snarast eins og kólfi væri skotið fram yfir borðið, hleypur að Vigfúsi og vill hafa hann undir. Verður þeirra aðgangur bæði harður og langur, en svo lauk um síðir, að Vigfús getur brotið Orm á bak aftur um skólabekkinn, grípur síðan tveim höndum um hnésbætur honum og dregur hann undir sig niður á gólfið. Tekur þá Ormur að emja og heitir á Skrælingja að þeir dugi sér og dragi illmenni það ofan af sér, en ekki var Ormur svo vinsæll meðal þeirra Neðribekkjarmanna, að nokkur vildi þá til verða að veita honum; en betur var hann þokkaður hjá Efribekkingum; og vill þá svo heppilega til, að einn þeirra, sem Þórarinn hét, kemur þar að, sem þeir lékust við.

Nauðulega ert þú nú staddur, Ormur frændi! segir hann, og með því þú hálfvegis hefur heitið mér Sigríði systur þinni, þá mun það ómannlegt að duga þér ekki.

Hún er gift dóna fyrir austan, gall einhver við af Neðribekkingum.

Þá er að snúa hann úr hálsliðnum, sagði Þórarinn og þrífur annarri hendi til Vigfúsar og hnykkir honum aftur á bak ofan af Ormi. Þetta sjá vinir Vigfúsar og ráðast þegar fjórir eða fimm á Þórarin, en hann verst með hinni mestu prýði; og verður þetta upphaf hinnar snörpustu orustu; þustu þar að bæði Efri- og Neðribekkingar, og veittu ýmsir ýmsum, en Efribekkingar þó mest Þórarni og Neðribekkingar Vigfúsi, og varð sú hríð bæði löng og skæð, og urðu þá margir atburðir jafnsnemma, og verður ekki greinilega sagt frá vopnaviðskiptum. Skólabækur flugu þá sem þykkasta drífa, heilar eða í pörtum; sumir tóku bekki og hófu í höfuð mönnum; sumir stukku upp á borðin og börðust þaðan; þá tóku nokkrir Litlaborðið, sneru því við og hlupu síðan ofan í hólfið og hlífðu sér þar fyrir skotum; en blöndukannan hin mikla valt þar á vígvellinum, og féllu úr henni lækir um allt gólfið. Neðribekkingar vildu færa leikinn upp í Efribekk, og hlupu þá fjórir hinir hraustustu af EfribekkinÐum fyrir dyrnar og vörðu þeim það. Umsjónarmaður skóla var upp í Amtmannssonarlofti er honum bárust þau tíðindi, að allur skóli berjist, svo til mikilla vandræða horfi. Hann bregður skjótt við og aflar sér liðs og gengur á milli þeirra, og fyrir viturlegar fortölur hans voru grið sett og sættum á komið; skyldu áverkar allir niður falla og svo klæðaspjöll. Þar var nýsveinn einn, sem Þórir hét; hann var stór maður og sterkur og hafði verið í liði þeirra Neðribekkinga í bardaganum og gengið vel fram. Ekki vildu Efribekkingar taka sættum, nema hann fengi nokkra ráðningu; þótti þeim ekki sæma, að busi sá sýndi sig beran að fjandskap við gamla og göfuga Efribekkinga; ekki þótti Neðribekkingum það rétt, en þó varð nú svo að vera, og áskildi Ormur sér að bera hönd að höfði honum. Er nú Þórir leiddur fram á mitt gólf, skjálfandi sem laufblað í skógi; en forsöngvarinn þrífur rifrildi af Skrifilíus, sem þar var að flækjast á gólfinu eftir bardagann, og segir: Sálmurinn er að venju 101. í bókinni: Þá Ísraelslýður einkafríður af Egiptó. - En í sama bili sem menn ætluðu að byrja sálminn, kemur einn af piltum hlaupandi inn og segir, að þar sé úti maður með bréf og vilji fá fljótt að tala við Orm.

Þá verð ég að fela þér á hendur, Þórarinn frændi, að styðja að höfðinu á busanum fyrir mig; en það getur verið, að hér sé komið bréf að austan og sendimaður frá henni móður minni; hann getur sagt henni frá, hvað ég sé vel á vegi staddur með hversdagsfötin, sagði Ormur og hljóp út og dró eftir sér aðra buxnaskálmina, sem nærri því var rifin af lítið fyrir neðan hnésbótina.

Ormur kennir brátt manninn, og eru þar komin tvö bréf að austan úr Sigríðartungu, og sest Ormur inn í borðstofu og tekur að lesa þau. Annað bréfið var frá móður hans, en hitt frá Sigríði systur hans. Bréfi móður hans fylgdu tvennir sokkar og nýsaumaðar vaðmálsbuxur, og þótti honum þær koma í góðar þarfir. Bréf Sigríðar systur hans var þannig:

Kæri bróðir!

Ég skrifa þér þenna miða í mesta flýti með manni, sem suður fer héðan úr sveitinni, og er það efnið að biðja þig að koma mér fyrir einhvers staðar þar syðra í góðum samastað; því nú er svo kamið, að mig langar til að komast sem fyrst héðan úr sveitinni; og með því að þú oft hefur talið mér trú um það, hvað skemmtilegt sé á Suðurlandi tek ég nú þetta ráð úr óyndisúrræðum og vona það, að þú reynist mér sem góður bróðir. Síðan hann faðir okkar dó, hef ég engan, sem ég get treyst, nema þig; og þó að þú sért nokkuð unggæðislegur enn, þekki ég það samt, að þú ert raungóður. Hér hefur borið svo margt og mikið til tíðinda, síðan þú fórst í haust, að fádæmum þykir sæta; en ekki ætla ég að segja þér frá því, fyrr en við finnumst, enda held ég, að nógir aðrir verði til þess að skrifa þér ávæning um það. Vertu blessaður og sæll!

Þess óskar þín elskandi systir

Sigríður Bjarnadóttir.

Ormur varð venju fremur hljóður við bréf systur sinnar; sat hann þá nokkra stund og studdist fram á borðið með hönd undir kinn. Í þessum svifum kemur Þórarinn vinur hans þar að og sér brátt, að Ormur býr yfir einhverju; hann kastar þá glaðlega orðum á Orm og segir:

Hvað gengur að þér, lagsmaður? Mér sýnist þú vera daufur, allt eins og þú hefðir fengið bréf frá henni móður þinni og hún hefði húðsneypt þig fyrir leti, slark og hirðuleysi.

Þú heldur sem sé, sagði Ormur, að það mundi koma út á mér tárunum? Ég segi þér satt, annaðhvort læsi ég ekki þess háttar bréf, eða ef ég á annað borð læsi þau, mundi ég leggja höndina á brjóstið og segja með sálmaskáldinu: Hvar samviskan er glöð og góð. En það er öðru nær en ég fái þess konar bréf frá henni mömmu, enda get ég ekki skilið í öðru en að hún megi vera ánægð með mig; um siðferðið vita allir, hversu heiðarlegt það er, og iðnina og ástundunina geta allir séð af því, að ég er þó alltaf að færast upp á við.

Þeir verða hærri í lofti, sem hlaðið er undir, og svo er um þig, lagsmaður! Það koma ætíð einhverjir nýir á haustin, sem ýta þér upp á við, en ekki hefur þú hingað til lyft þér hátt sjálfur.

Ég hef átt við ramman reip að draga, lagsmaður, þar sem mér alltaf hefur verið að förla með gáfurnar, síðan ég kom í skóla; haustið, sem ég kom hingað og settist efstur af busunum, var ég ágætlega gáfaður, en síðan hrapaði ég um miðjan veturinn og skemmdi svo í mér gáfurnar, að þær hafa aldrei náð sér aftur; lengi varð ég að láta mér lynda að vera sæmilega gáfaður, og nú er ég fyrst ögn farinn að rétta við aftur, og er það ef til vill meira að þakka sætinu, sem ég sit í, en sjálfum mér, því nú trúi ég, að ég sé orðinn vel gáfaður.

Nú, þá máttu vera ánægður, sýnist mér, sagði Þórarinn.

Nei, til þess, sem ég á nú að gjöra og úr að ráða, finnst mér þurfa meira en að vera vel gáfaður.

Hvaða vandaverk er það?

Ekki annað en það að útvega henni Sigríði systur minni góðan samastað einhvers staðar í Reykjavík.

Er hún skilin við manninn?

Nei, það er saga að segja frá því; hún sagði skilið við mannsefnið, og nú skilst mér, að svo liggi í því, að hún eigi varla vært þar eystra út úr öllu klórinu, og af því verð ég að drekka; vandanum er hrundið á mig.

Mér sýnist vandinn ekki stór; viljir þú ekki láta hana fara til hennar maddömu Ó., þá komdu henni fyrir hjá henni maddömu Á.; og ég skal, ef þú vilt, leiða það í tal við hana.

Ormur spurði þá, hvort Sigríði væri þar gott að vera, en Þórarinn játti því og kvaðst þekkja maddömu Á. að góðu; og hvort er þeir ræddu þetta mál lengur eða skemur, þá varð það, að Þórarinn tókst það á hendur að útvega vistina hjá maddömu Á., og varð það með því skilyrði, að Sigríður skyldi hafa meira frjálsræði en griðkonur eru vanar að hafa og ekki ganga í slitvinnu, heldur vera húsmóður til aðstoðar í allri innanhússþjónustu; en ekki skyldi hún hafa þar kaup.

Nú er skjótt yfir sögu að fara, að Sigríður fór til Reykjavíkur um vorið. Maddama Á. var íslensk að ætt og uppruna; hún var væn kona yfirlitum og þá á besta aldri; bóndi hennar var verslunarmaður í Reykjavík; hann var danskur maður og nær því fertugur að aldri. Hann hafði komið út hingað með kaupmanni nokkrum dönskum, er vendi aftur til Danmerkur eftir nokkur ár, en setti Á. sem trúnaðarmann sinn fyrir verslunina; var hann þá ókvæntur um hríð, og græddist honum brátt fé; en um þær mundir voru kaupmenn í Reykjavík ekki mjög samlyndir og því síður hver öðrum hollir afheyris, og rægði einhver af þeim hann svo við lánardrottin sinn, að hann setti hann frá ráðsmennskunni; en Á. lét þá gjöra sér hús rétt við hliðina á honum og tók að versla fyrir sjálfan sig. Þá þótti Þóra, er síðar varð kona hans, einhver hin laglegasta kona þar í Víkinni, og réði hann hana til sín, en gjörði skömmu síðar brúðkaup til hennar. Vinir hans álösuðu honum fyrir það, að hann hefði ekki leitað sér ríkara og göfugra kvonfangs; en hann lét sem hann heyrði það ekki og svaraði sjaldan öðru en því: Hvað átti ég þá að gjöra? - eða: Hvað munduð þið hafa gjört í mínum sporum? Enda þarf ég ekki að iðrast þess - og var það sannmæli, því Þóra var fríð kona og vel að sér um marga hluti; en aftur var það ekki að furða, þó vinum hans virtist þessi ráðahagur smávaxinn. Reykjavík samdi sig mjög um þær mundir að siðum Dana og „annarra stórmakta“, þar sem lendir menn gengu sjaldan að eiga dætur ótiginna manna. Á Íslandi hafa aldrei vaxið upp greifar eða barúnar af innlendum rótum, og hvaðan áttu menn þá að fá þá nema þaðan, sem flest annað ágæti kom? Þeir, sem sakir jarðnæðisleysis gátu ekki orðið jarlar í Danmörku, en sendir voru til Íslands að vega saltfisk, stika léreft og mæla brennivín, þóttu ágætir barúnar, er þeir komu til Reykjavíkur, og sögðu menn, að ekki mundu kvistir verri en aðaltré. Af þessu kom það, að það þótti lítið jafnræði, að danskur kaupmaður gengi að eiga íslenska bóndadóttur. Einkum gátu hinar tiginbornu barúnafrúr lengi ekki gleymt því eður brotið svo odd af oflæti sínu að taka Þóru til jafnrar virðingar við sig; en maddama Á. gaf sig lítið að því; hún sinnti búi sínu og börnum, átti fáar vinkonur, en góðar, og vandi ekki komur sínar þangað, er hún vissi, að hún var ekki jafnt metin þeim, sem fyrir voru.

Það má nærri geta, að Sigríði varð í fyrstu margt nýstárlegt þar, sem hún nú var komin; siðir og búnaðarhættir voru þar allir aðrir en þar, sem hún hafði verið áður. Hún var svo vel viti borin, að hún fann fljótt, að margt varð hún að nema það, sem hún hafði ekki áður numið, en vera varð og betur fór að kunna; sagði og maddama Þóra henni til með alúð og hvatti hana til þess, sem henni þótti Sigríði vel sæma. Tvennt var það, sem Sigríði virtist engin nauðsyn til bera, að hún breytti, og ásetti sér jafnan að varðveita, en það var málið og klæðabúningurinn. Danska tungu hafði hún að sönnu lært af Ormi bróður sínum, og skildi hún hana allvel; en aldrei hafði hún mælt á það mál, og þótti henni betra að tala það óbjagað, sem hún kunni, en rammbjagaða dönsku; annars var þar í húsi, eins og hvervetna annars staðar í Reykjavík, danska og íslenska í svörnu fóstbræðralagi, og enginn maður nema Sigríður ein mælti þar svo orð einu atkvæði lengra, að ekki væri annaðhvort með dönskum hala eða höfði, en að öðru leyti íslenskt. Danskan hafði í Reykjavík það einkaleyfi fram yfir íslenskuna, að best þótti fara á því að kenna börnunum hana fyrri en íslenskuna; ella, sögðu menn, gæti aldrei orðið lag á errinu; á efra aldri tækist mönnum sjaldan að þröngva því svo niður í kverkarnar sem vera ætti, og því væri eina ráðið að byrja nógu snemma á því. Þetta er upphaf Reykjavíkurerrsins, sem um þær mundir auðkenndi marga Reykjavíkurbúa, hvar sem þeir komu fram í veröldu, eins og málið Galileumenn á Gyðingalandi. Kvenbúnaðurinn í Reykjavík virtist Sigríði svo hjákátlega lagaður, að hún vissi ekki, að hverju sniði hún helst skyldi semja sig, ef hún breytti því, sem hún hafði. Sumar voru þar hádanskar frá hvirfli til ilja, og þótti henni það vel sæma þeim, sem danskar voru. Aftur voru aðrar danskar að ofan til og niður að miðju, en íslenskar úr því, eða þá svo fornar að ofan sem efri hlutinn væri frá Sturlungatíð, en neðri parturinn svo nýgjörvingslegur sem hann hefði verið nýtekinn út úr glysmangarabúð í Kaupmannahöfn. Sigríður hélt því uppteknum hætti með búnaðinn, að hún var hversdagslega á peysu og pilsi, með bláa skotthúfu á höfði, sem fór henni fata best; en skrautklæði hennar voru treyjuföt vönduð, sem systir hennar hafði gefið henni. En þótt að Sigríði yrði nú margt nýstárlegt í kaupstaðnum, þá var það ekki síður, að kaupstaðarlýðnum yrði starsýnt á hana. Í litlum bæ, sem Reykjavík þá var, eru það ekki alllítil tíðindi, þegar nýr innbúi tekur sér þar bólfestu, hvort sem hann heldur kemur frá útlöndum eða úr sveitinni; það eru meiri tíðindi, ef hann er kvenmaður, en stórtíðindi má það kalla, ef hinn nýkomni kvenmaður er afbragðs fríður, því þá er eins og þar stendur, „Allra augu vona til þín“.

Þó var það einkum þeim sveinum bæjarins, sem þótti koma Sigríðar mestum tíðinum sæta; kvenþjóðinni þótti að sönnu ofur mikið gaman að því að skoða hana í krók og í kring og stinga svo saman nefjum um hitt og þetta og gjöra athugasemdir um það, sem ábóta væri vant, án þess að þeim þætti mikill fagnaðarauki í henni; öðruvísi var háttað um hina ungu mennina; þeir vissu, að þar var, ef til vildi, einum steini meira en áður til skjóls og athvarfs. Hinn fyrsta hálfan mánuð, sem Sigríður var í Víkinni, mátti svo að orði komast, að ekki gengju svo eða sætu tveir saman, að annar hvor ekki vekti þannig máls: Segðu mér, lagsmaður, hvaða stúlka er það, sem nýlega er komin þar í húsið hjá henni maddömu Á., meðallagi há, þrekleg og hnellin, ljóshærð og lagleg, með efnileg augu og hefur íslenska búninginn, en kemur, held ég, aldrei út?

Það var og dagsanna, að Sigríður gjörði ekki margförult þar um Víkina og fór sjaldan út nema að erindum, enda átti hún þar enga kunningja nema þá, sem voru þar í húsinu, og einna helst stúlku eina, sem Guðrún hét og var Gísladóttir. Guðrún þessi var eitthvað í ætt við maddömu Á. og þó ekki nákomin; faðir hennar bjó upp á Kjalarnesi og var kallaður bjargálnamaður. Guðrún þótti vera tilhaldsrófa, og undi hún ekki í föðurgarði; og með því að hún var lagvirk til handanna, þótti henni það betri atvinnuvegur að ráðast til Reykjavíkur en að vinna að heyi eða tóvinnu heima. Sat hún þar við sauma og tók vinnu af konum þar í Víkinni, en saumaði þess á millum föt fyrir þá Bessastaðasveina og hafði jafnan nóg að starfa, er lítið var um klæðasmiði. Maddama Á. léði henni húsnæði, og hafði hún loftherbergi eitt lítið, en sat oftast um daga niðri hjá frændkonu sinni. Hún hafði nokkrum sinnum verið í giftingabralli, sem ekki gat lánast, en nú virtist svo sem hún hefði snúið huga sínum frá þess háttar efnum og léti nú flakka lausu við um hríð, þar til betur byrjaði, enda var allur dagur til stefnu fyrir henni, er hún naumast hafði enn náð tvítugsaldrinum. Guðrún var kona vænleg, nokkuð há vexti og réttvaxin, herðabreið eftir hæð, mittismjó og útlimafögur, andlitið fremur langt en breitt, munnurinn lítill og nefið rétt, en tennurnar svo hvítar sem skírt silfur væri. Hún var ekki rjóð í andliti eða þykkleit, en kinnarnar þó sléttar og hörundsliturinn hreinn og hörundið smágjört; hún var hárfögur, en hárið þó ekki mikið; augun voru svört og smá og svo tindrandi sem í hrafntinnu sæi. Hún var hæglát hversdagslega og skemmtin, og þó að hún hefði ekki notið neinnar framúrskarandi uppfræðingar í uppvexti sínum, þá var hún þó allvel að sér og kunni vel að haga orðum sínum, hver sem í hlut átti. Vel var maddama Á. til hennar, en líkaði þó ekki í öllu við hana. Brátt tókst góð vinátta með þeim Guðrúnu og Sigríði; var það bæði, að Sigríður átti ekki völ að sinni á öðrum vinkonum, enda var Guðrún hvern daginn öðrum betri við hana og vildi ekki sitja eða standa öðruvísi en Sigríði mætti best líka, og ekki mátti Guðrún neitt fara svo, að Sigríður væri ekki með. Maddömu Á. líkaði það vel, að kært var með þeim Guðrúnu og Sigríði, en segir þó einhvern tíma einslega við Sigríði:

Ef þú vilt mínum ráðum fylgja, Sigríður mín, þá ræð ég þér til þess, að þú festir aldregi svo fasta vináttu við nokkurn mann, að þú treystir ekki betur skynsemi þinni og aðgætni en þeirra ráðum, einkum á ókenndum stað, og skal lengi manninn reyna; og segi ég þetta ekki í því skyni að spilla þér við nokkurn, heldur til þess, að þú hafir jafnan varúð þína vakandi.

Sigríður þakkar henni fyrir einlægni sína og kvaðst hennar ráðum fylgja vilja. Hélst nú vinfengi þeirra Guðrúnar engu að síður.

Það var einn dag snemma um sumarið, að Guðrún kom að máli við Sigríði og segir:

Viltu ekki, Sigríður mín, koma í dag dálítið út með mér? Mér er í hug að fara að skoða varninginn hjá þeim kaupmönnunum; skipin eru flestöll komin, og senn byrja lestirnar; maður verður að flýta sér að taka það, sem maður ætlar og nýtilegt er, áður en það er allt saman hrifsað upp og kauptíðin byrjar, því þá er friðurinn úti; en nú er fátt um þessa dagana.

Það líst mér vel á, sagði Sigríður, ég hef ekkert nauðsynlegt að gjöra í dag.

Þá fer ég snöggvast upp að laga mig dálítið til, og vertu þá tilbúin, er ég kem aftur.

Þessu játti Sigríður, og fór Guðrún að búa sig, en kom síðan aftur að lítilli stundu liðinni, og var þá Sigríður ferðbúin. Á leiðinni víkur Guðrún sér að Sigríði og segir:

Eitt verð ég að segja þér, góða mín, af því þú ert ókunnug hérna í Víkinni og nýkomin úr sveitinni, þú verður að afklæðast hinum gamla manninum og vera ekki svo þyrrkingsleg eins og þér hættir við stundum, þegar þú kemur í búðirnar; við kaupmennina kemur það sér vel að vera heldur glöð í bragði og gefa þeim undir fótinn; það er saklaust.

Þeir munu sjá um sig samt, vænti ég, sagði Sigríður, að gefa ekki of góð kaupin.

Ef ekki níðist neitt úr þeim með því mótinu, þá fæst það ekki með hinu verra; ég er farin að þekkja á þeim lagið, góða mín! Húða þeim út í öðru orðinu og láta eins og maður finni allt að öllu, en fleða þá í öðru orðinu, það er aðferðin, ef maður á að hafa eitthvað gagn af þeim.

Maður getur þó ekki verið að tala þvert um huga sinn, sagði Sigríður.

Ójú, saklaust er það, Sigríður mín; þú ert barn í lögum enn þá, heyri ég, en bráðum munt þú verða betur að þér, ef þú verður hér lengi, og svona var ég fyrst; en hér skulum við þá byrja.

Þær fóru nú lengi dags úr einni búð í aðra og skoðuðu varninginn. Guðrún fór að öllu sem kunnuglegast, óð inn fyrir borð í hverri búð, reif niður úr hillunum og skoðaði; stundum fann hún sitt að hverju og öllu nokkuð; aftur, þegar henni þótti svo við eiga, gjörði hún langar og snjallar lofræður og lét aldrei munninn standa við.

Fátt ætlar okkur að fénast í dag, sagði Guðrún, í því hún sté út úr einhverri búð, sem þær höfðu dvalið í um stund. Þessu laumaði þó skinnið að mér, það eru gild tvö lóð af góðum silkitvinna.

Ekki sá ég það, sagði Sigríður.

Það var ekki von, að þú sæir það, því hann húsbóndi hans, sem augun hefur alls staðar, sá það ekki heldur.

Gaf hann þér það?

Og ekki hugsa ég hann skrifi það í bókina; hann er greiðugur, garmurinn, ef hann ætti nokkuð; en þetta á ekkert nema það, sem hann - og nú förum við í búðina hans Möllers, það hefur lengi verið féþúfan mín.

Möller sá, er átti búð þessa, var maður danskur og fór á milli landa, átti aðsetur í Kaupmannahöfn, en var hér á sumrum. Hann var ungur maður og fríður maður. Viðsjáll þótti bændum hann í kaupum, og sjaldan hafði hann mikið af nauðsynjavörum, en jafnan hafði hann nægtir af klútum og öðrum óþarfa og sá ávallt svo um, að hann hefði það, sem aðrir höfðu ekki af þess háttar, og því varð sjaldan snúið sér í búð hans fyrir kvenfólki. Þá er þær Sigríður komu þar í búðina, hittist svo á, að þar voru engir nema kaupmaður og búðarmaður hans, er Kristján hét, og nokkrir róðrarmenn sunnan af Álftanesi, er vöktu þar yfir, hvort ekki mætti hlotnast dálítið í staupinu. En er þær komu inn í búðina, segir Guðrún við Sigríði:

Nú er illt, að þú kannt ekki dálítið að snakka dönskuna, því Möller kann betur við það.

Já, ekki held ég læri það í dag, sagði Sigríður.

Þú getur þó allténd sagt, „gú moren“, góðan mín! Það er betra en ekkert að byrja með.

Í því þær gengu inn eftir búðinni, sagði Guðrún:

Hérna skaltu sjá klúta og glingur, góða mín, sem er nokkuð öðruvísi en hjá hinum bjánunum.

Þetta sagði Guðrún nokkurn veginn hátt, og var auðheyrt, að hana gilti einu, þó það heyrðist. Kaupmaður Möller var að grúfa ofan í búðarbók sína, er þær komu inn; en er hann heyrir meyjarraustina fram í búðinni, lítur hann upp og gengur á móti þeim og biður þær koma heilar - eða hver er þessi fallega stúlka, sem þér nú færið mér, jómfrú góð? segir hann við Guðrúnu.

Á, þekkið þér hana ekki? Hún er þó búin að vera hérna í Víkinni meir en tvo mánuði; hún heitir jómfrú Sigríður Bjarnadóttir og kom í vor að austan til hennar maddömu Á.

Ég hef heyrt þess getið, að þangað væri komin einhver falleg stúlka, en ég hef aldrei haft þá ánægju að sjá hana fyrri; maður er svo sokkinn niður í þetta búðarvastur, að maður fær ekki einu sinni tíma til að kynna sér, hverju fjölgað hefur hérna í Víkinni, síðan ég fór í fyrra.

En nú er að gjöra vel við gesti sína og tilvonandi skiptavini.

Það er ekki orðamál, sagði kaupmaður, og allt er nú til, vona ég, og gjörið þið svo vel að koma inn fyrir og sjá það, sem ég hef; Kristján, sæktu okkur eina flösku af víni, ég verð að drekka velkomandaminni gestanna og tilvonandi skiptavina; gjörið þið svo vel að koma inn fyrir.

Þær stöllur gengu inn fyrir borðið; skenkti kaupmaður þeim fyrst sitt staup af víni hvorri; en eftir það fóru þær að blaða í klútunum, og var kaupmaður ofur stimamjúkur við þær; var það auðséð, að honum fannst mikið um Sigríði, en var þó allt fátalaðri við hana en Guðrúnu; og er þær höfðu skoðað klútana um hríð, segir Guðrún:

Ekki þykir mér klútarnir hjá yður núna eins fallegir eins og þeir, sem þér höfðuð í fyrra; léreftin og klæðin hjá yður eru afbragð, kjólaefnin eru yndislegri en ég nokkurn tíma hef séð áður, en sjölin sé ég hvergi. Hafið þér gleymt þeim, herra Möller?

Kaupmaður sagði, að hann væri ekki búinn að taka allt upp hjá sér enn og lægju fallegustu herðaklútarnir í kistu upp á búðarlofti, og skipaði búðarmanni sínum að fylgja þeim stöllum þangað upp, ef þær vildu. Sigríður kvaðst halda, að þær mundu ekki hafa tíma til þess að því skipti, er þær nú yrðu að fara að halda heim aftur, en Guðrún sagðist þó vilja sjá eitthvað af þeim, og fór hún með búðarmanni; en Sigríður varð þar eftir niðri í búðinni, og mældi kaupmaður henni léreft, er hún var búin að biðja um. En er því var lokið, var Guðrún enn ekki aftur komin úr loftinu, og beið Sigríður hennar þar í búðinni, og ræddi kaupmaður við hana og spurði hana um hitt og þetta, sem honum datt í hug, og var hinn blíðasti í öllu viðmóti. Loksins tók Sigríði að lengjast biðin og fór að sýna á sér ferðasnið, er hún ekki gat komið sér að biðja kaupmann að kalla á hana; en í því kom Guðrún og Kristján aftur, og varð Sigríður þess vör, að hann talaði nokkuð hljóðlega við kaupmann, en leiddi síðan Guðrúnu að hillunni og lét hana velja sér þar silkiklút; og var þá ekki tekinn sá lakasti. Eftir það gengu þær stöllur úr búðinni. En ekki leið á löngu, áður vísur nokkrar komu upp suður á Álftanesi og eignaðar útróðrarmanni norðlenskum, er verið hafði þar í búðinni, og þóttust menn vita, að þær lytu eitthvað til þess, er Guðrúnu dvaldist svo lengi í loftinu hjá búðarlokunni. Vísurnar eru svona:

Búðar- í loftið hún Gunna upp gekk,
gráfíkjur nógar og sætabrauð fékk;
Sigríður niðri í búðinni beið,
bylti við ströngum og léreftið sneið.
Fagurt er loftið, og fullt er það ull,
fáséð mun Kristján sýna þér gull;
og lengi var Gunna í loftsölum há,
og litverp í framan hún kemur þeim frá.
Síðan tók Kristján silki ágætt
(selja þeir þess háttar öðrum á vætt)
og hvíslar að Gunnu: Á herðarnar þín
hafðu hann, fallegur stúlkurinn mín!
Missæl er þjóðin, oss dónunum dýr
dropinn oft gjörist og varningur nýr;
en ókeypis stúlkurnar fallegu fá
fyrirtaksklútana Danskinum hjá.

Skömmu eftir þessa búðarferð kom Guðrún einu sinni að máli við Sigríði og segir:

Mér þykir vera orðinn vandi að lifa hérna í henni Reykjavík, ef maður getur ekki gengið svo tvö fet ein saman með karlmanni, að maður sé ekki orðuð við hann.

Það hef ég ætíð haldið, sagði Sigríður, að það væri nokkuð vandasamt.

Það má nú fyrr vera, eða veistu, hvað því verður nú taldrjúgast um hérna í Víkinni?

Nei, ég tala við svo fáa.

Og ekki nema það, að það er búið að koma okkur Kristjáni, sem er hjá honum Möller, saman; og það hélt ég þó, að því gæti síst dottið í hug, blessuðu, því orsök verður að vera til alls.

Ekki held ég það sé; það er víst ekki nema hugarburður þinn, og ekki hef ég heyrt neitt talað um það.

Það veit ég; það forðast að láta þig heyra það, af því að það hugsar, að þú segir mér það aftur; en ég trúi, að það sé komin út einhver drápa suður á Álftanesi út úr því, að ég fór með honum hérna um daginn upp í loftið að sjá klútana, eins og þú vissir.

Ég hugsaði það og, að það væri varlegra að fara þangað ekki, og því sagði ég það við þig; en hvernig veistu þetta?

Ég hef heyrt sagt, að þær hafi verið þrjár að stinga saman nefjunum um það inni hjá henni maddömu ...; þær tala ekki um sjóferðirnar sínar samt; en það er ekki þar fyrir, mig gildir einu, hvað þær þvaðra.

Það hefur spillt fyrir, að hann lét alla, sem voru í búðinni, sjá, að hann gaf þér klútinn.

Og ekki var, þó hann gæfi mér klútbleðilinn þann arna, ég held ég hafi þá gjört svo margt fyrir hann, sem ekki hefur allt komið til reiknings; en látum það þvaðra, ég kippi mér ekki upp við það, sem hlaupið er með hérna á milli húsanna; mér þykir verra, ef það lætur þig ekki vera í friði og fer að bendla ykkur kaupmann Möller saman.

Það þykir mér þó líklegt, að menn láti það vera.

Það væru þó eins mikil líkindi til þess eins og um okkur Kristján.

Það veit ég ekki, hvernig þú getur farið að segja; þú veist þó, að ég hef varla séð hann nema þarna í búðinni um daginn.

Þú heldur þá, að enginn hafi tekið eftir þessum litlu augum, sem hann skotraði til þín; þú þekkir, vænti ég, ekki þess háttar augu?

Ónei, sagði Sigríður og skipti nokkuð litum við svarið.

Og það mátti heldur ekki heyra þessi smáræðis andartök, þegar hann var að tala við þig; svei mér, ef það suðar ekki fyrir eyrunum á mér enn, þegar ég hugsa til þeirra; þú heldur enginn hafi heyrt það nema ég; og seinast kyssti hann á fingurna á sér, þegar þú fórst, sástu það ekki?

Jú, það sá ég, en ég vissi ekki, hvað það átti að þýða.

Á, góða mín, þá skal ég segja þér það; þeir hérna kunna ýmisleg piparalæti, sem þeir bera ekki skynbragð á í sveitinni, og svo mikið veit ég, að honum líst vel á þig; ég talaði við hann í fyrradag, því ég kom þar snöggvast inn í búðina, og þá fór hann undir eins að tala um þig og spyrja mig að þér, og seinast bað hann mig að bera þér kveðju sína og það með, að hann vonaði til að fá að sjá þig einhvern tíma bráðum aftur.

Æ, ekki held ég, að ég fari að gjöra mér ferðirnar til hans, og ég vona til þín, að þú verðir ekki fyrst til þess að koma þess háttar umtali á loft.

Það getur þú reitt þig á, að ekki skal ég tala um það við nokkurn, nema hvað ég segi þetta í trúnaði við þig; en hitt er það, mér þykir vænt um fyrir þína hönd, að honum líst á þig; hver veit, nema það fari svo á endanum, að þú verðir konan hans? Og þá held ég megi segja um það, að þú hafir ekki farið til einskis hingað suður, ef þér auðnast að ná í mann, flugríkan og fallegan mann og þar að auki kaupmann.

Það er ekki víst, að menn þurfi að fara hingað suður á land til þess að giftast, góða mín!

Og hvað getur maður þá fengið, Sigríður mín, upp til sveitanna? Prest, ef vel tekst, og tekurðu það saman við það að vera kaupmanns maddama hérna?

Æ, það hæfir okkur best, held ég, bóndadætrunum, að eiga bónda; ég fyrir mitt leyti hugsa mér ekki hærra en eignast bónda, ef það á annað borð liggur fyrir mér að giftast.

Já, ekki sýnist mér þeir girnilegir núna, blessaðir sveitabændurnir, og sannast er að segja um það, skárri er hún í því, Víkurskömmin, að skemmtilegra er að horfa á þá hérna, og ekki ganga þeir þó í ótal hlykkjum og bugðum eins og blessaðir sveitapiltarnir okkar; því þó þeir hafi ekki staðið nema svo sem hálfan mánuð í búð hérna í Víkinni, þá kemur undir eins eitthvað viðfelldnara látbragð á þá en dónana.

Það er svoddan gáski í þér núna, Guðrún mín! Ekki þoli ég að heyra piltunum mínum í sveitinni mikið lasprað, sagði Sigríður og gekk burt; og varð samtal þeirra stallsystra ekki lengra að því sinni.

Líður svo fram sumarið, og ber ekki neitt til tíðinda, og kemur að því, að skip taka að sigla; verður það þá kunnugt, að kaupmaður Möller ætlar ekki að fara utan um haustið, og býr hann skip sitt og lætur það fara til Kaupmannahafnar; hefur hann nú lítið að starfa, er verslun var úti, og tekur hann þá að fjölga komum sínum í hús kaupmanns Á. og situr þar löngum um daga á tali við kaupmann Á.

Þessu næst taka skólapiltar að koma suður, og kom Ormur bróðir Sigríðar með þeim fyrstu, og varð þar mikill fagnaðarfundur með þeim systkinum; færði hann henni bréf frá móður þeirra Ingveldi, og var það allástúðlegt; segir Ingveldur þar, að hún sakni hennar mikið, og er það ekki ólíklegt, því sumir menn eru svo gjörðir, að þeir sakna þeirra manna hvað mest, er þeir aldrei gátu litið réttu auga, meðan þeir áttu saman við þá að sælda. Ormur dvaldist nokkra daga í Reykjavík, en fór síðan suður að Bessastöðum ag ætlar að bíða þar, þangað til skóli væri settur. Kaupmaður Á. og kona hans báðu hann að vera velkominn hjá sér svo oft sem hann vildi og ætti hægt með að finna systur sína.

Það var einn dag um þetta leyti og skömmu eftir að Ormur var suður kominn, að veður var fagurt, en vegir þurrir, og var réttað upp í Kollafjarðarrétt, og reið margt fólk úr Víkinni sér til skemmtunar upp í réttirnar, bæði konur og flestar gervistúlkur bæjarins, svo og margir karlmenn, sem við voru látnir. Gjörðist þá mikill skortur reiðskjóta í bænum, og urðu margir að setjast aftur, sem höfðu ætlað að fara. Kaupmaður Á. og kona hans fóru. Guðrún hafði einhvers staðar getað aflað sér hests, en Sigríði vantaði reiðskjóta, og leit út fyrir, að hún yrði heima að sitja, en þó langaði hana til að fara, því hún hafði aldrei komið þar upp eftir. Möller átti hest gráan, það var gæðingur, norðlenskur að kyni, af Bleikáluætt úr Skagafirði, er þá var mest orðlögð um landið. Hesturinn var stríðalinn á hverjum vetri, en lítið riðið á sumrin, því sjaldan kom nokkur annar maður honum á bak en eigandi, og ekki hlýddi nokkrum að biðja um hann til láns, hvað sem við lá. Líður nú fram að hádegi, og ríða allir á stað, sem hesta höfðu fengið, en ekki hafði Sigríður enn getað útvegað sér neinn reiðskjóta, en Guðrún beið hennar þó, ef verða mætti, að eitthvað réttist úr fyrir henni.

Nú er hvergi fyrir sér að leita, Sigríður mín! Ég býst við, að þú verðir að sitja kyrr, nema þú viljir biðja hann kaupmann Möller um hann Grána hans; ég held það sé eini hesturinn, sem til er hérna eftir í Víkinni, sagði Guðrún.

Það gjöri ég ekki, og ég get ekki ætlast til þess, að hann ljái mér hann, þar sem hann vill ekki ljá nokkrum öðrum hann.

Veit ég það, að hann hefur afsagt þeim þremur eða fjórum hérna í morgun um hann, en hvar kemur það þá fram, sem hann segir um þig, ef hann gjörir sér ekki mannamun? Og farðu, Sveinki litli, og skilaðu við hann kaupmann Möller, að hún Sigríður, sem er hjá honum kaupmanni Á., biðji hann að ljá sér hann Grána sinn upp að réttunum í dag.

Sveinn litli fór og kom aftur að lítilli stundu liðinni og teymdi þá Grána og sagði, að kaupmaður hefði beðið sig að skila, að hann hefði ekki vitað, að hún ætlaði að fara, ella mundi hann hafa boðið henni hann að fyrra bragði.

Sér þú nú, góða mín, sagði Guðrún, hvernig Möller er, þar sem hann tekur því, enda vissi ég það, hvernig fara mundi, ef hann fengi boð frá þér, en ekki hefði hann gjört það fyrir aðrar hérna í Víkinni; því það er eins og ég segi þér, þó þú trúir því ekki.

Ekki trúi ég því nú heldur fyrir að tarna, sagði Sigríður, en nú er þá best að ríða á stað, fyrst reiðhesturinn er fenginn.

Síðan ríða þær stöllur, og með því hestarnir voru góðir, náðu þær flokknum, sem á undan var riðinn, skammt fyrir innan Hellisárnar; og brá þá mörgum í brún, er þeir sáu Sigríði koma þeysandi á Grána Möllers og varð mönnum harla fjölrætt um það, hverju það sætti, að Sigríður hefði orðið fyrir þeirri mildi að fá hann. Um daginn skemmtu menn sér við réttirnar, en sneru heim um kvöldið, og var þá komið fram á nótt, er menn komu aftur til Reykjavíkur.