Piltur og stúlka/7

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Piltur og stúlka höfundur Jón Thoroddsen eldri
{{{athugasemdir}}}

Þetta sama kvöld sátu þær stallsystur Sigríður og Guðrún heima, og líður fram undir rökkrið, og ber ekkert öðru nýrra til tíðinda annað en það, að á Guðrúnu sóttu venju fremur geispar og leiðindi, og tekur þá Sigríður svo til orða:

Það væri sagt, Guðrún mín, ef þú værir núna á einhverjum bæ upp í sveit, að það mundi koma hér einhver ókunnugur og sækti að þér.

Ég vildi satt væri, Sigríður mín, sagði Guðrún, að hér kæmi einhver að rabba við okkur til skemmtunar í kvöld í leiðindunum. Allt eins á hún nú systir mín skemmtilegt að vera boðin þar hjá honum kaupmanni B. eins og við að meltast hér heima; og því segi ég það, ekki veit ég, hvað maður getur óskað sér betra en að vera kaupmannskona og vera alls staðar boðin og velkomin í hverju samkvæmi og lifa við glaum og gleði og þurfa ekki að taka hendinni til neins nema þess, sem manni má best líka; og ekki trúi ég öðru en að ég mundi minnast einhvern tíma á mína fyrri ævi, ef það ætti fyrir mér að liggja að komast í einhverja skárri stöðu en þá, sem ég er núna í, sagði Guðrún og teygði sig upp í sætinu, eins og hún fyndi það á sér, að maddömublóðið væri þegar farið að renna í æðunum á sér.

Ójá, Guðrún mín, sagði Sigríður, maður veit oft, hverju maður sleppir, en ekki, hvað maður hreppir - en þei, þei, þarna trúi ég sé barið; hann lætur ekki lengi bíða sín, sá sem að þér sækir.

Það var kaupmaður Möller, sem þar var kominn, og heilsar hann þeim blíðlega, en Guðrún verður fyrri til máls og segir:

Nú, hvernig stendur á, að þér sneiðið yður hjá að taka þátt í gleðinni og glaumnum í kvöld?

Og ég veit það ekki, sagði Möller, mér fannst, að ég hefði enga löngun til þess í kvöld; ég hélt, að mér mundi leiðast þar, og því var ég heima; en nú hefur það komið fram á mér, sem ég ætlaði að varast, mér tók að leiðast, og því kom ég hingað.

Og hér voru sumir, sagði Guðrún og leit brosandi til Sigríðar, að óska þess, að þér væruð komnir, svo að allt saman fer nú eftir óskum.

Sigríður þagði og roðnaði við, því hún vissi, hvað Guðrún átti við; en kaupmaður sneri málinu til Sigríðar og segir:

En einkum var það þó yður, bústýruefnið mitt, sem ég þurfti að tala við í kvöld; ég þarf að ráðgast um hitt og þetta við yður, áður en við flytjum saman; það er nú til að mynda eitt, húsakynnunum þarf að umbreyta, mig vantar bæði búrið og eldhúsið fyrir yður; smiðirnir koma til mín á morgun, og því þætti mér best að heyra, hvað þér leggið til um það, hvernig við eigum að haga því öllu saman; ætli þér vilduð ekki gjöra svo vel og bregða yður yfir um snöggvast núna?

Ég hef lítið vit á því, kaupmaður góður, sagði Sigríður, og í kvöld er það orðið of seint.

Það er nú satt, jómfrú góð, en skoðið þér til, ég vildi heyra, hvað yður litist, áður en farið er að hreyfa við nokkru, og nú flanaði ég til að segja þeim að koma undir eins á morgun, og því væri það, ef þér hefðuð tíma og tækifæri í kvöld.

En þér viljið nú líklegast ekki hafa mig með, herra Möller, að leggja á ráðin með ykkur, sagði Guðrún og kinkaði kolli framan í kaupmann.

Jú, það er því betra sem fleiri eru, og ég hef líka mikla trú á, að þér munduð gefa einhver góð ráð; og látum okkur þá halda af stað, eða má ég ekki vænta þess, að þér veitið mér þá ánægju?

Það sýnist mér, sagði Guðrún og hvíslaði um leið að Sigríði: Æ, hvað á nú þessi tepruskapur lengur að þýða, að láta hann vera allajafna að ganga á eftir sér um svo lítið?

Er það nú skjótt af að segja, að þær stallsystur gengu af stað með Möller.

Hús það, sem Möller átti heima í, var ekki mjög stórt, en allsnoturt, að því sem gjöra var í Reykjavík. Því var skipt í tvo hluti; í öðrum endanum var sölubúðin, það var allur nyrðri helmingur hússins. Á nyrðri húshliðinni voru dyr og anddyri inn af, næstum því svo langt sem húsið var breitt til. Til hægri handar úr anddyrinu var gengið til gestastofu Möllers; stofan var ekki breiðari en svaraði hálfri breidd hússins, en svo löng sem vestari húsendinn var til. Aðrar dyr lágu úr anddyrinu, samsíðis við stofudyrnar; þessar dyr voru að skrifstofu Möllers. Innar af skrifstofunni var aftur herbergi það, sem Möller svaf í, og mátti úr því bæði ganga í skrifstofuna og fram í gestastofuna, og sneru gluggarnir á því og skrifstofunni út að dálitlum kálgarði, er lá baka til við húsið og skildur frá strætinu austanverðu með rimagarði. Yfir þessum enda hússins var og loft og nokkur herbergi í, en ekki voru þau notuð til annars en að Kristján búðarmaður Möllers svaf í einu þeirra og piltur einn, sem Möller hafði sér við hönd til smávika og ekki voru þar fleiri í húsinu en þeir þrír því Möller fékk að mat og alla þjónustu. Möller leiddi þær stallsystur inn í stofuna, og stóð þar ljós á borði.

Hérna sjáið þér nú híbýlin, jómfrú góð! Ég vildi óska þess, að yður litist vel á yður; sjáið þér, þetta er gestastofan; hérna innar af er herbergi, sem ég hef haft til að sofa í; en nú hef ég hugsað mér það svona: Hérna á hliðinni, sem snýr út til kálgarðsins, læt ég gjöra dyr og setja þar fram af dálítið trébyrgi og læt svo gjöra eldhús þar, sem skrifstofan nú er; en hvernig líst yður á þessa ráðagjörð?

Ég hef lítið vit á því, sagði Sigríður, þér ráðið því öllu og sjáið, hvað haganlegast er, betur en ég get séð; en ég get ekki séð annað en þetta megi fara vel.

Það er mest undir því komið, hvernig yður þykir best fara, því þegar þér eruð setstar hérna að hjá mér, eiga allir hlutir að lúta yður og vera eftir yðar vilja, rétt eins og þér væruð húsfreyjan í húsinu. Hér er að sönnu allt viðhafnarlítið, en ef til vill eins viðkunnanlegt eins og í baðstofunum í sveitinni; hérna á vegginn hef ég hugsað mér að hengja spegil, sem ég á; því í þessum, sem þarna er rétt fyrir ofan legubekkinn, getið þér ekki séð yður, þegar þér vaknið með rósunum á morgnana.

Nei, þess ætla ég að biðja yður, herra Möller, að hafa ekki fyrir því að fjölga speglunum fyrir mínar sakir, sagði Sigríður hálfhlæjandi, eða hvað ætlið þér þá að gera af myndaspjöldunum, sem þar hanga núna?

Þau mega, held ég, missa sig; þetta er myndin af honum Napóleon, mér er farið að leiðast að horfa lengur þarna á hana; og þetta er myndin konunnar minnar.

Þegar Sigríður heyrði þessi orð, varð henni eins við eins og hún hefði verið rekin í gegn og roðnaði út undir eyru, en svaraði engu. Það fór eins fyrir Möller þessu skipti eins og mönnum verður oft, að þeir tala stundum það í athugaleysi, sem þeir mundu hvað helst láta ótalað, ef þeir hefðu gáð að kringumstæðunum, og á þann hátt kemur margt upp, sem fæsta mundi gruna. En af því að Möller gáði ekki að, hvað hann sagði, varð hann þess heldur ekki var, að honum hafði orðið mismælt, eður réttara sagt, að hann hafði sagt það, sem hann ætlaði ekki að segja; það var því eins og hann vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið, er hann leit framan í Sigríði og sá, að hún allt í einu varð blóðrauð í framan. Guðrún hafði tekið eftir, hvað fleipraðist fram úr Möller, og segir:

Ég þykist skilja, að þér hafið ekki tekið eftir því, sem þér sögðuð, herra Möller!

Hvað sagði ég?

Þér sögðuð, að þetta væri myndin konunnar yðar; varð yður þá ekki mismæli?

Á, sagði ég það? Ha! ha! Ónei, mér varð ekki háskalega mismæli. Skoðið þið! Ég gjöri það að gamni mínu, að ég kalla hana konuna mína, af því það er sú eina konumyndin, sem ég hef að búa við og hérna er til í húsinu; ég býð henni góðan dag á hverjum morgni og góðar nætur á kveldin, en ekki þori ég að hafa hana í svefnherberginu, því þá held ég, að ég yrði myrkfælinn; það er einhver gömul kerlingarmynd, eins og þið sjáið, ljót og leiðinleg, en það vill til, að það er ekki hætt við, að nokkur mundi trúa því, að önnur eins skepna væri konan mín; og látum okkur ekki tala meira um það, stúlkur. En líst ykkur ekki, að við drekkum nokkur staup af víni, áður en þið farið heim aftur, og röbbum dálítið saman og setjumst hérna inn í svefnherbergið mitt, því ef ljósið sést hérna í glugganum út til strætisins, er ekki að búast við öðru en að þeir streymi hér inn, undir eins og þeir koma frá skytningnum, og við fáum þá enga ró að tala og skemmta okkur. En nú læsum við stofunni, og hérna er lykillinn, jómfrú Gíslasen, þér skuluð ráða, hvað lengi við sitjum að drykkjunni, sagði Möller og rétti hann að henni brosandi. En þér, jómfrú Sigríður, ég ætla að biðja yður að láta sem þér séuð þegar orðin bústýra hjá mér, og setjist þér hérna í bekkinn, og ég ætla að leyfa mér að tylla mér við hliðina á yður. -