Stjórnarskrá Noregs

Úr Wikiheimild

Grundvallarlög konungsríkisins Noregs, samþykkt á ríkisfundinum á Eiðsvöllum 17. maí 1814, eins og þau eru ásamt síðari breytingum, síðast gerðum 23 júní 1995 nr. 567


GRUNDVALLARLÖG NORSKA RÍKISINS[breyta]

A. Um ríkisformið og trúna[breyta]

1. gr.[breyta]

Konungsríkið Noregur er frjálst, sjálfstætt, ódeilanlegt og óháð ríki. Stjórnarfar þess byggist á takmörkuðu og erfðabundnu konungsvaldi.

2. gr.[breyta]

Allir íbúar ríkisins njóta trúfrelsis. Hin evangelísk-lútersku trúarbrögð eru opinber trúarbrögð ríkisins. Þeir íbúar sem aðhyllast hana skulu ala börn sín upp í þeirri trú.


B. Um framkvæmdavaldið, konung og konungsfjölskylduna[breyta]

3. gr.[breyta]

Framkvæmdavaldið er í höndum konungs, eða drottningar ef hún hefur erft krúnuna samkvæmt ákvæðum 6., 7. eða 48. greinar í Grundvallarlögum þessum. Þegar framkvæmdavaldið er í höndum drottningar, hefur hún öll sömu réttindi og skyldur sem konungur hefur samkvæmt þessum Grundvallarlögum og landslögum.

4. gr.[breyta]

Konungurinn skal ávallt aðhyllast hina evangelisku lútersku trú, styðja hana og vernda.

5. gr.[breyta]

Konungurinn er heilagur; hvorki má hallmæla honum né ákæra. Ábyrgðin hvílir hjá ráðherrum hans.

6. gr.[breyta]

Konungdæmið erfist í beinan ættlegg, þannig að aðeins þau börn sem fædd eru í löglegu hjónabandi drottningar eða konungs, eða réttmæts erfingja krúnunar, geta gengið til ríkiserfða og skulu þeir, er nærskyldari eru, ganga fyrir fjærskyldum og þeir eldri fyrir þeim yngri.

Ófæddir geta einnig gengið til erfða, og taka sæti í erfðaröðinni jafnskjótt og hún eða hann eru í heiminn borin.

Enginn getur gengið til erfða, nema hann sé beinn afkomandi síðustu drottningar eða konungs, bróðir eða systir síðustu drottningar eða konungs, eða beinn afkomandi bróður eða systur síðustu drottningar eða konungs.

Þegar prinsessa eða prins fæðist, sem nýtur ríkiserfða í Noregi, skal nafn og fæðingarstund hennar eða hans kunngerð fyrsta Stórþingi sem haldið er og skrásett í gerðabækur þess.

Fyrir þau sem eru fædd fyrir árið 1971, gildir þó 6. grein Grundvallarlaganna eins og hún var samþykkt 18da nóvember 1905. Fyrir þau sem fædd eru fyrir árið 1990 gildir einnig að karlmaður gengur fyrir konu.

7. gr.[breyta]

Sé engin prinsessa eða prins til, sem nýtur ríkiserfða, getur konungur gert tillögu um eftirmann sinn til Stórþingsins, en það hefur rétt til að velja hljóti tillaga konungs eigi samþykki.

8. gr.[breyta]

Lögræðisaldur konungs skal ákveðinn með lögum. Þegar konungur hefur náð þeim aldri sem lög kveða á um, lýsir hann því opinberlega yfir að hann sé lögráða.

9. gr.[breyta]

Þegar konungur, sem orðinn er lögráða, tekur við stjórn ríkisins, sver hann svofelldan eið fyrir Stórþinginu "Ég heiti og sver, að ég mun stjórna konungsríkinu Noregi í samræmi við stjórnarskrá þess og lög, svo hjálpi mér almáttugur og alvitur Guð."

Nú situr Stórþingið eigi að störfum og skal þá eiður unninn skriflega í ríkisráðinu og endurtekinn hátíðlega af konungi á fyrsta Stórþingi næst á eftir.

10. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 14 mars 1908.)


11. gr.[breyta]

Konungurinn skal búa í ríkinu. Honum er óheimilt að dveljast lengur en sex mánuði í einu utan ríkisins, nema með samþykki Stórþingsins, annars glati hann rétti sínum til krúnunnar.

Konungi er óheimilt að taka við öðru konungdæmi eða stjórn annars ríkis án samþykkis Stórþingsins, og þarf tvo þriðju hluta atkvæða til að veita slíkt samþykki.

12. gr.[breyta]

Konungurinn velur sjálfur ráð atkvæðisbærra norskra borgara. Ráðið skipa forsætisráðherra og sjö aðrir ráðherrar hið fæsta.

Meira en helmingur þeirra sem sitja í ríkisráði hverju sinni skal aðhyllast ríkistrúna.

Konungurinn skiptir verkum með meðlimum ríkisráðsins, eins og honum þykir hæfa. Við sérstakar aðstæður er konungi heimilt að kveðja aðra norska ríkisborgara til setu í ríkisráðinu en þar eiga fast sæti fyrir, en þó engan sem situr á Stórþinginu.

Hjón, foreldrar og börn, eða tvö systkini mega eigi samtímis sitja í ríkisráðinu.

13. gr.[breyta]

Meðan konungur er á ferðalagi innanlands getur hann falið ríkisráðinu stjórn ríkisins. Það skal stjórna í nafni konungs og á hans vegum. Ríkisráðið skal í hvívetna fara að ákvæðum þessarar stjórnarskrár, sem og sérstökum fyrirmælum sem konungur gefur í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Mál skulu afgreidd að viðhafðri atkvæðagreiðslu, en falli atkvæði jafnt, ræður atkvæði forsætisráðherrans eða, að honum fjarstöddum, atkvæði þess viðstaddra meðlima* ríkisráðsins sem er í forsvari þess.

Ríkisráðið skal tilkynna konungi um þau mál, sem það afgreiðir með þessum hætti.

14. gr.[breyta]

Konungurinn getur skipað ríkisritara til að aðstoða meðlimi ríkisráðsins við framkvæmd á embættisverkum þeirra utan ríkisráðsins. Sérhver ríkisritari starfar á vegum þess ráðherra sem hann er tengdur, í þeim mæli sem viðkomandi ákveður.

15. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 18 nóv. 1905.)


16. gr.[breyta]

Konungur skipar öllum opinberum kirkjuathöfnum og guðsþjónustum, öllum fundum og samkomum um trúmál og gætir þess að opinberir kennimenn trúarinnar fylgi þeim reglum sem þeim eru settar.

17. gr.[breyta]

Konungur getur sett og numið úr gildi tilskipanir sem varða verslun, tolla, atvinnulíf, og löggæslu; þær mega þó hvorki stríða gegn stjórnskipuninni né lögum sem Stórþingið hefur sett (samkvæmt því sem greinar 77, 78 og 79 hér á eftir kveða á um). Þær gilda til bráðabirgða fram að næsta Stórþingi.

18. gr.[breyta]

Konungurinn lætur að jafnaði innheimta á skatta og gjöld sem Stórþingið ákveður.

19. gr.[breyta]

Konungurinn fylgist með því að eignir og forréttindi ríkisins séu nýtt og þeim stýrt á þann hátt sem Stórþingið hefur ákveðið og best horfir til almannaheilla.

20. gr.[breyta]

Konungurinn hefur í ríkisráði rétt til þess að náða afbrotamenn, eftir að dómur er fallinn. Afbrotamaður ræður hvort hann þiggur náðunina eða tekur út þá refsingu sem hann hefur verið dæmdur til.

Í þeim málum sem Óðalsþingið leggur fyrir landsdóm er eigi unnt að náða menn á annan hátt en þann að ógilda líflátsdóm.

21. gr.[breyta]

Konungurinn velur og skipar, eftir að hafa hlýtt á ríkisráð sitt, alla embættismenn hins opinbera, kirkjunnar og hersins. Þeir skulu, áður en skipun á sér stað, sverja, eða ef þeir eru með lögum undanþegnir eiðsvari, hátíðlega heita stjórnarskránni og konungi hlýðni og trúmennsku. Þó má með lögum leysa embættismenn sem eigi eru norskir ríkisborgarar undan þessari skyldu. Konunglegum prinsum er óheimilt að gegna borgaralegum embættum.

22. gr.[breyta]

Konungi er heimilt án undangengins dóms, eftir að hafa fengið álit ríkisráðsins þar að lútandi, að leysa meðlimi þess eða ríkisritara* frá störfum. Hið sama gildir um þá embættismenn, sem gegna störfum á skrifstofum ríkisráðsins eða í utanríkisþjónustunni eða ræðismannsstörfum, borgaralegum og kirkjulegum yfirmannsstöðum, yfirmenn herdeilda og annarra hersveita, yfirmenn í virkjum hersins og æðstu yfirmenn á herskipum. Næsta Stórþing skal ákveða hvort þeir, sem vikið er frá störfum með þessum hætti, njóta eftirlauna. Fram að því skulu þeir hljóta tvo þriðju þeirra launa sem þeir hafa haft áður.

Öðrum embættismönnum getur því konungur aðeins vikið frá störfum um stundarsakir og skal þá þegar í stað höfða mál á hendur þeim fyrir dómi en hvorki má leysa þá frá störfum né flytja þá í annað embætti gegn vilja sínum nema með dómi.

Öllum embættismönnum má víkja frá störfum, án undangengins dóms, þegar þeir hafa náð þeim aldri sem lög kveða á um. Ákveða má með lögum að ákveðna embættismenn, sem ekki eru dómarar, megi skipa tímabundið.

23. gr.[breyta]

Konungur getur veitt þeim sem honum þóknast orður fyrir sérstaklega vel unnin störf, og skal tilkynna það opinberlega; eigi má þó veita aðra stöðu eða titil en þann sem fylgir hverju embætti. Orðuveitingar leysa engan undan sameiginlegum skyldum og byrðum ríkisborgara og veita eigi forgang að embættum ríkisins. Embættismenn sem láta af störfum með heiðri og sóma halda embættisheiti sínu og stöðu. Þetta gildir þó eigi um meðlimi ríkisráðs eða ríkisráðsritara. Héðan í frá má eigi veita neinum persónuleg eða blönduð* arfgeng forréttindi.

24. gr.[breyta]

Konungur tilnefnir og víkur úr starfi samkvæmt eigin geðótta, hirð og hirðþjóna.

25. gr.[breyta]

Konungur hefur æðsta vald yfir sjó- og landher ríkisins. Eigi má minnka eða auka við heraflann án samþykkis Stórþingsins. Eigi má láta hann af hendi til þjónustu við erlent ríki og engir erlendir herir mega halda innreið sína í norska ríkið án samþykkis Stórþingsins, nema um sé að ræða herlið sem veitir aðstoð gegn óvinveittum árásum.

Landvarnarlið og annan herafla sem eigi er fastaher má aldrei nota utan landamæra ríkisins án samþykkis Stórþingsins.

26. gr.[breyta]

Konungur hefur rétt til að kalla saman herlið, hefja stríð landinu til varnar og gera friðarsamninga, ganga í og úr bandalögum, senda og taka við erindrekum.

Samningar um sérlega mikilvæg málefni, og allir samningar sem þurfa samkvæmt stjórnarskrá lagasetningu eða ákvörðun Stórþingsins til gildistöku, verða eigi bindandi fyrr en Stórþingið hefur samþykkt þá.

27. gr.[breyta]

Allir meðlimir ríkisráðsins skulu, þegar eigi er um lögmæt forföll að ræða, sitja fundi ríkisráðs og má eigi taka ákvörðun í ríkisráði nema mættir séu fleiri en helmingur ráðsmanna.

Meðlimir ríkisráðsins, sem eigi aðhyllast ríkistrúna, taka eigi átt í ákvörðunum sem varða ríkiskirkjuna.

28. gr.[breyta]

Tillögur um skipanir í embætti og önnur mikilvæg mál skulu lögð fyrir ríkisráðið af þeim ráðherra sem þau heyra undir og skal hann fara með þau í samræmi við ákvarðanir ríkisráðsins. Að því marki sem konungur ákveður, er þó heimilt að mál sem varða yfirstjórn hermála verði undanþegin umfjöllun ríkisráðs.

29. gr.[breyta]

Geri lögmæt forföll ráðherra ókleift að mæta og leggja fyrir ríkisráð þau mál sem undir hann heyra, skulu þau lögð fyrir ríkisráð af öðrum ráðherra sem konungur tilnefnir til þess.

Hindri lögmæt forföll svo marga frá mætingu að ekki séu fleiri en helmingur tilskilins fjölda viðstaddir fund, skal tilnefna nauðsynlegan fjölda karla eða kvenna til að taka sæti í ríkisráðinu.

30. gr.[breyta]

Ríkisráð færir öll mál sem til kasta þess koma í embættisbækur. Utanríkismál, sem ráðið ákveður að leynd skuli hvíla yfir, skal færa í sérstakar embættisbækur. Á sama hátt skal fara með mál sem varða yfirstjórn hermála og ríkisráðið ákveður að haldið skuli leyndum.

Sérhverjum, sem sæti á í ríkisráði, ber skylda til að greina opinskátt frá skoðunum sínum og er konungi skylt að hlýða á hann. Konungur heldur þó rétti sínum til að taka ákvörðun eftir því sem honum þykir hæfa.

Telji einhver meðlimur ríkisráðsins að konungur hafi tekið ákvörðun sem er andstæð stjórnskipun eða lögum ríkisins, eða sem er bersýnilega skaðleg hagsmunum ríkisins, er viðkomandi skylt láta andstöðu sína skýrt í ljós og láta færa mótmæli sín í embættisbók ríkisráðsins. Sá sem eigi hefur borið fram mótmæli telst hafa verið sammála konungi og ber þar með ábyrgð samkvæmt því sem síðar kann að verða ákveðið og getur Óðalsþingið sótt hann til saka fyrir landsdómi.

31. gr.[breyta]

Allar ákvarðanir sem konungur gefur út skulu til að öðlast gildi vera meðundirritaðar. Ákvarðanir sem varða yfirstjórn hermála skulu meðundirritaðar af þeim sem hefur lagt málið fyrir, eða af forsætisráðherra eða, ef hann er ekki viðstaddur, af þeim viðstöddum meðlimum ríkisráðsins sem er í forsvari þess.

32. gr.[breyta]

Þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tekur að konungi fjarverandi skulu gerðar skriflega í nafni konungs og skulu þær undirritaðar af ríkisráðinu.

33.gr.[breyta]

(Felld úr gildi 12 ágúst (24 okt) 1908.)


34. gr.[breyta]

Konungur ákveður hvaða titla réttmætir erfingjar krúnunar bera.

35. gr.[breyta]

Um leið og erfingi krúnunnar verður fullra 18 ára öðlast hún eða hann rétt til að taka setu í ríkisráðinu en þó án atkvæðisréttar eða ábyrgðar.

36. gr.[breyta]

Prinsessa eða prins sem eiga erfðarrétt til norsku krúnunnar mega eigi ganga í hjónaband án leyfis konungs. Hún eða hann mega heldur eigi taka við öðru konungdæmi eða stjórn annars ríkis án samþykkis konungs og Stórþings; til samþykkis Stórþingsins þarf tvo þriðju hluta atkvæða.

Brjóti hún eða hann gegn þessu missir viðkomandi og afkomendur hans rétt til konungdóms í Noregi.

37. gr.[breyta]

Konunglegir prinsar og prinsessur standa aðeins konungi skil um persónuleg málefni sín, eða öðrum þeim sem hann skipar til að dæma í málum þeirra.

38. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 18 nóv. 1905.)


39. gr.[breyta]

Ef konungur fellur frá og erfingi krúnunnar er eigi orðinn lögráða, skal ríkisráðið þegar í stað kalla Stórþingið saman.

40. gr.[breyta]

Þar til Stórþingið kemur saman og ráðstafar stjórn ríkisins meðan konungur er ólögráða, fer ríkisráðið með stjórn ríkisins í samræmi við stjórnarskrá.

41. gr.[breyta]

Ef konungur er utan ríkisins, án þess að vera í hernaði, eða hann er svo lasburða að hann getur eigi sinnt stjórn ríkisins, skal sá sem næstur er til erfða krúnunnar, hafi hann náð þeim lögræðisaldri sem ákveðinn hefur verið fyrir konung, veita ríkisráðinu forsæti sem handhafi konungsvalds, meðan slíkt ástand varir. Annars fer ríkisráðið með stjórn ríkisins.

42. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 18 nóv. 1905.)


43. gr.[breyta]

Stórþingið velur ólögráða konungi forráðamann til að að stýra ríkisstjórninni fyrir hans hönd.

44.gr.[breyta]

Sú prinsessa eða sá prins, sem í því tilviki sem 41. grein nefnir hefur með höndum stjórn ríkisins, skal vinna svofelldan skriflegan eið fyrir Stórþinginu: "Ég heiti og sver að ég skal veita ríkisstjórninni forstöðu í samræmi við stjórnarskrána og lögin svo hjálpi mér almáttugur og alvitur Guð"

Standi Stórþingið þá eigi yfir, skal eiðurinn svarinn í ríkisráðinu og látinn* Stórþinginu í té næst þegar að kemur saman.

Sú prinsessa eða sá prins, sem hefur unnið slíkan eið einu sinni, skal eigi vinna hann aftur síðar.

45. gr.[breyta]

Þegar stjórnartíma þeirra lýkur skulu þeir gera konungi og Stórþingi grein fyrir störfum sínum.

46. gr.[breyta]

Ef þeir, sem sú skylda hvílir á samkvæmt 39. grein, láta undir höfuð leggjast að kalla þegar í stað Stórþingið saman, er það ófrávíkjanleg skylda Hæstaréttar að fjórum vikum liðnum að sjá til þess að svo verði gert.

47. gr.[breyta]

Umsjón með uppeldi konungs, sem ekki er orðinn lögráða, skal ákveðin af Stórþinginu, ef báðir foreldrar hans eru fallnir frá og hvorugt þeirra hefur skilið eftir sig nein skrifleg fyrirmæli þar að lútandi.

48. gr.[breyta]

Ef konungsættin deyr út og enginn hefur verið tilnefndur erfingi að krúnunni, skal Stórþingið velja nýja drottningu eða konung. Á meðan fer með framkvæmdarvaldið eftir 40. grein.


C. Um rétt borgaranna og löggjafarvaldið[breyta]

49. gr.[breyta]

Þjóðin fer með löggjafarvaldið fyrir milligöngu Stórþingsins. Stórþingið skiptist í tvær deildir, Lögþing og Óðalsþing.

50. gr.[breyta]

Kosningarétt hafa allir norskir ríkisborgarar, karlar og konur, sem orðnir eru eða verða fullra átján ára á því ári sem kosningar eru haldnar.

Ákveða skal með lögum kosningarétt þeirra norskra borgara sem eru búsettir utan Noregs á kjördegi, en uppfylla framantalin skilyrði.

Reglur um kosningarétt þeirra sem að öðru leyti fullnægja skilyrðum fyrir honum en eru bersýnilega haldnir alvarlegum geðtruflunum eða skertri meðvitund á kjördegi, má setja með lögum.

51. gr.[breyta]

Reglur um kjörskrár og færslu kosningabærra manna í hana skulu settar með lögum.

52. gr.[breyta]

(Felld brott 26. okt. 1954.)


53. gr.[breyta]

Kosningaréttur glatast:

a. með dómi fyrir refsiverðan verknað samkvæmt því sem lög ákveða;

b. við að ganga í þjónustu erlends valds án samþykkis ríkisstjórnarinnar;

c. (FELLD BROTT 23. APRÍL 1959)

d. við að verða uppvís að því að hafa keypt atkvæði, selt atkvæði sitt eða kosið á fleiri en einum kjörstað.

e. (FELLD BROTT 17. JAN 1980)

54. gr.[breyta]

Kosningar skal halda fjórða hvert ár. Þær skulu vera afstaðnar fyrir lok septembermánaðar.

55. gr.[breyta]

Kosningar fara fram á þann hátt sem lög ákveða. Kjörstjórn sker úr ágreiningi um kosningarétt, en úrskurði hennar má skjóta til Stórþingsins.

56. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 23 mars 1972.)

57. gr.[breyta]

Til Stórþingsins skal kjósa 165 fulltrúa.

58. gr.[breyta]

Hvert fylki telst eitt kjördæmi.

157 fulltrúar Stórþingsins skulu vera kjördæmakjörnir en jöfnunarþingsæti vera 8.

Kjördæmasæti skiptast milli kjördæma ríkisins sem hér segir: frá Austurfold koma 8, frá Ósló 15, frá Akershus 12, frá Heiðmörk 8, frá Upplöndum 7, frá Buskerud 7, frá Vesturfold 7, frá Þelamörk 6, frá Austur-Ögðum 4, frá Vestur-Ögðum 5, frá Rogalandi 10, frá Hörðalandi 15, frá Sogni og Fjörðunum 5, frá Mæri og Raumsdal 10, frá Suður-Þrændalögum 10, frá Norður-Þrændalögum 6, frá Norðlandi 12, frá Troms 6 og frá Finnmörk 4.

59. gr.[breyta]

Hvert sveitarfélag telst sérstök kjördeild.

Kjörfundi skal halda í hverri kjördeild. Í kjördeildum eru þingmenn og varaþingmenn kosnir beinum kosningum fyrir allt kjördæmið.

Þingmenn eru kosnir hlutfallskosningu í kjördæmum og skiptast þingsæti milli flokka skv. eftirfarandi reglum.

(Regla Laguës.)

Deila skal í atkvæðatölu hvers flokks í hverju kjördæmi með 1,4, 3, 5 og 7 og þannig áfram svo oft sem hver flokkur getur vænst að fá þingsæti í sinn hlut Sá flokkur, sem eftir þessu hefur stærsta hlutatölu, hlýtur fyrsta þingsæti, en næsta þingsæti kemur í hlut þess flokks, sem hefur næst stærsta hlutatölu, og þannig áfram uns öllum þingsætum hefur verið úthlutað. Hafi flokkar sömu hlutatölu skal hluta um þingsæti.

Listabandalög eru ekki leyfð.

Jöfnunarsætum er úthlutað milli þeirra flokka, sem rétt eiga til þeirra eftir atkvæðafjölda þeirra í öllu ríkinu, í því augnamiði að jafna hlutfallið milli flokkanna sem mest má verða. Til að finna þingsætatölu hvers flokks skal beita sömu reglu fyrir allt ríkið og gildir fyrir kjördæmin um þá flokka sem rétt eiga á jöfnunarsætum. Flokkarnir fá svo mörg jöfnunarsæti, að þau ásamt kjördæmasætum, sem þegar hefur verið úthlutað, séu jafn mörg og hver flokkur á að fá samkvæmt því sem að framan er sagt. Séu tveir eða fleiri flokkar jafn nálægt því að hljóta þingsæti samkvæmt þessum reglum, hefur sá flokkur forgang sem fleiri atkvæði hefur hlotið; sé atkvæðatalan jöfn skal hlutkesti ráða. Hafi flokkur þegar fengið fleiri þingsæti við úthlutun kjördæmasæta en hann ætti að fá samkvæmt framansögðu, skal úthluta jöfnunarsætum á ný milli hinna flokkanna eingöngu, en nú án atkvæðatölu og kjördæmasæta þessa flokks.

Engum flokki má úthluta jöfnunarþingsæti nema hann hafi fengið að minnsta kosti 4 af hundraði af atkvæðunum í öllu ríkinu.

Jöfnunarsæti hvers flokks ganga til lista flokksins í kjördæmum þannig að fyrsta þingsætið fer til þess lista sem hefur stærsta hlutatöluna eftir að þingsætum kjördæmisins hefur verið úthlutað, næsta þingsæti til þess lista sem hefur næststærsta hlutatöluna, og þannig áfram þar til öll jöfnunarsætum flokksins hafa gengið út.

60. gr.[breyta]

Ákveða skal með lögum hvort og með hvaða hætti þeir, sem kosningarétt hafa, skuli geta greitt atkvæði utan kjörfundar.

61. gr.[breyta]

Engan má kjósa til þings, nema hann hafi verið búsettur í ríkinu í 10 ár og hafi kosningarétt.

62. gr.[breyta]

Starfsmenn stjórnarráðsins, að undanskildum aðstoðarmönnum ráðherra, sem og hirðþjónar, þótt komnir séu á eftirlaun, eru eigi kjörgengir. Hið sama gildir um þá sem starfa í utanríkisþjónustu eða við ræðismannsstörf.

Þeir sem sæti eiga í ríkisráði geta ekki setið á Stórþinginu sem þingmenn meðan þeir eiga sæti í ríkisráðinu. Aðstoðarmenn ráðherra geta heldur ekki setið á þingi, meðan þeir gegna embætti.

63. gr.[breyta]

Hverjum þeim, sem kjörinn er á Stórþingið, ber skylda til að taka við kosningu, nema:

a) hann hljóti kosningu í öðru kjördæmi en því þar sem hann á sjálfur kosningarétt.

b) hann hafi setið öll regluleg Stórþing frá síðustu kosningum.

c) hann hafi náð fullum 60 ára aldri á því ári sem kosningar eru haldnar.

d) hann sé flokksbundinn og hljóti kosningu af lista sem ekki er boðinn fram af þeim flokki.

Með lögum skal ákveða innan hvaða tíma og á hvern hátt hver sá, sem hefur rétt til þess að hafna kjöri, beitir þeim rétti.

Ennfremur skal ákveða með lögum innan hvaða tíma og á hvern hátt hver sá, sem kosinn er á Stórþing í tveimur eða fleiri kjördæmum, lýsir yfir því hvar hann vill taka kosningu.

64. gr.[breyta]

Hinir kjörnu fulltrúar skulu fá í hendur kjörbréf, og sker Stórþingið úr um lögmæti þeirra

65. gr.[breyta]

Þingmenn og varaþingmenn sem kallaðir eru til starfa fá greiðslu úr ríkissjóði sem ákveðin er með lögum, fyrir ferðakostnaði til og frá Stórþinginu og frá Stórþinginu heim til sín og aftur til baka, þegar hlé verður störfum þingsins í 14 daga eða lengur.

Auk þess þiggja þingmenn greiðslu, sem einnig er ákveðin með lögum, fyrir setu á Stórþinginu.

66. gr.[breyta]

Eigi er heimilt að handtaka þingmenn á leið til eða frá Stórþinginu né meðan á dvöl þeirra stendur þar nema þeir séu staðnir að refsiverðum verknaði. Eigi má heldur draga þá til ábyrgðar utan þings fyrir ummæli þeirra í þinginu. Öllum ber skylda til að fara eftir þeim reglum sem þar eru samþykktar.

67. gr.[breyta]

Þeir sem kosnir eru þingmenn á þann hátt sem lýst er hér að framan skipa Stórþing konungríkisins Noregs.

68. gr.[breyta]

Stórþingið kemur að jafnaði saman fyrsta rúmhelgan dag í októbermánuði ár hvert í höfuðborg ríkisins, nema konungur af sérstökum ástæðum, svo sem innrás fjandmanna eða farsóttum, ákveði annan kaupstað í ríkinu.

Slíkar ákvarðanir skal tilkynna í tíma.

69. gr.[breyta]

Konungi er heimilt að kalla Stórþingið saman utan hefðbundins þingtíma telji hann að nauðsynlegt.

70. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 13 júlí 1990 nr. 550)


71. gr.[breyta]

Þingmenn Stórþingsins sitja í fjögur ár samfleytt.

72. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 13 júlí 1990 nr. 550)


73. gr.[breyta]

Stórþingið úr hópi þingmanna fjórðung til að skipa Lögþingið; aðrir þrír fjórðu hlutar þingmanna skipa Óðalsþingið. Kosningin skal fara fram á fyrsta reglulega þingi eftir kosningar. Eftir það verður skipan Lögþingsins óbreytt á öllum Stórþingum sem þannig eru kosin, nema því aðeins að þingmaður forfallist og fylla þurfi í skarðið með sérstakri kosningu.

Þingin halda fundi hvort í sínu lagi og kjósa hvort sinn forseta og ritara. Þingfundi má eigi halda nema minnst helmingur þingmanna sé viðstaddur. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga er þó eigi unnt að taka fyrir nema viðstaddir séu að minnsta kosti tveir þriðju hlutar þingmanna.

74. gr.[breyta]

Um leið og Stórþing er komið saman (og hefur kosið embættismenn ATH), setur konungur, eða sá sem hann tilnefnir, það með ræðu, þar sem hann greinir því frá hag ríkisins og þeim viðfangsefnum sem hann vill beina athygli þingsins sérstaklega að. Engar umræður mega fara fram meðan konungur er viðstaddur.

Þegar Stórþingið er að störfum, hafa forsætisráðherrann og aðrir ráðherrar rétt til setu á fundum þess og beggja deilda þess til jafns við þingmenn, þó án atkvæðisréttar, og að taka þátt í umræðunum að svo miklu leyti sem þær fara fram fyrir opnum tjöldum, en aðeins um mál sem fjallað er um fyrir luktum dyrum, að því leyti sem þingið heimilar.

75. gr.[breyta]

Það fellur undir Stórþingið:

a. að setja lög og fella úr gildi lög; að leggja á skatta, gjöld, tolla og aðrar opinberar álögur sem þó skulu ekki gilda lengur en til 31. desember næsta ár þar á eftir, nema næsta reglulegt Stórþing endurnýi þær sérstaklega;

b. að taka lán með ábyrgð ríkisins;

c. að hafa umsjón með fjármálum (ATH peningamálum?) ríkisins;

d. að veita fé til ríkisútgjalda;

e. að ákveða hve konungi skal greitt mikið fé til handa hirðinni og ákveða lífeyri konungsfjölskyldunnar, sem þó má ekki vera fólginn í fasteignum;

f. að kanna embættisbækur ríkisráðsins, allar opinberar skýrslur og skjöl;

g. að fá upplýsingar um þau bandalög og samninga við erlend ríki sem konungur hefur gert á vegum ríkisins;

h. að geta kallað hvern sem er fyrir út af ríkismálefnum, að konungi og fjölskyldu hans þó undanþeginni; þessi undantekning gildir þó ekki um þá konunglegu prinsa sem hafa embætti með höndum;

i. að endurskoða skrár yfir tímabundin laun og eftirlaun og gera á þeim þær breytingar sem það telur nauðsynlegar;

k. að kjósa fimm endurskoðendur, sem endurskoða árlega ríkisreikninga og gefa út á prenti útdrætti úr þeim; ríkisreikningar skulu því lagðir fyrir endurskoðendurna innan sex mánaða frá lokum þess árs sem heimildir Stórþingsins eru veittar fyrir; ennfremur að setja reglur um það fyrirkomulag sem gilda skal um ákvörðunarvald gagnvart starfsmenn ríkisbókhaldsins;

l. að tilnefna einstakling, sem situr ekki á Stórþinginu, til að hafa eftirlit, á þann hátt sem nánar er kveðið á um í lögum, með stjórnsýslu hins opinbera og öllum þeim sem að henni starfa, í því skyni að tryggja að hinn almenni borgari sé ekki órétti beittur;

m. að veita útlendingum ríkisborgararétt.

76. gr.[breyta]

Öll frumvörp til laga skulu fyrst lögð fram á Óðalsþinginu, annaðhvort af þingmönnum þess eða af ríkisstjórninni fyrir atbeina ráðherra.

Ef frumvarpið er samþykkt, er það sent Lögþinginu sem annaðhvort samþykkir það eða fellir; sé það fellt þar fer það aftur til Óðalsþingsins ásamt athugasemdum. Þær skulu teknar til athugunar í Óðalsþinginu, sem annaðhvort vísar frumvarpinu frá eða sendir það aftur Lögþinginu með eða án breytinga.

Þegar frumvarp frá Óðalsþinginu hefur tvisvar verið lagt fyrir Lögþingið og öðru sinni verið synjað af Lögþinginu og sent til baka, kemur Stórþingið saman og þarf þá tvo þriðju hluta atkvæða þess til að afgreiða frumvarpið.

Að minnsta kosti þrír dagar skulu líða milli umræðna um lagafrumvörp.

77. gr.[breyta]

Þegar frumvarp til laga, sem Óðalsþingið hefur afgreitt, hefur hlotið samþykki Lögþings eða sameinaðs Stórþings skal það sent konungi til staðfestingar.

78. gr.[breyta]

Fallist konungur á lagafrumvarpið, undirritar hann það og þar með verður það að lögum.

Fallist konungur ekki á lagafrumvarpið, sendir hann það aftur til Óðalsþingsins með þeirri yfirlýsingu að hann vilji ekki veita því staðfestingu að svo stöddu. Þegar svo stendur á má sameinað Stórþing ekki leggja frumvarpið að nýju fyrir konung.

79. gr.[breyta]

Sé frumvarp til laga samþykkt óbreytt á tveimur Stórþingum, sem kosin hafa verið í tvennum kosningum í röð, og milli þeirra séu haldin a.m.k. tvö Stórþing, án þess að neitt Stórþing hafi, á því tímabili sem líður milli fyrri samþykktar frumvarpsins og síðari samþykktarinnar, sett lög er ganga í aðra átt, og sé frumvarpið síðan lagt fyrir konung með beiðni um að hans hátign neiti ekki staðfestingu lagafrumvarps sem Stórþingið telur að vandlega íhuguðu máli vera nytsamleg, þá verður frumvarpið að lögum jafnvel þótt konungur hafi ekki staðfest áður en Stórþingi lýkur.

80. gr.[breyta]

Stórþingið situr eins lengi sem það telur nauðsynlegt og lýkur fundum þegar störfum þess er lokið.

Í samræmi við reglur þingskapa getur þingið komið saman að nýju, en fundum þess lýkur ekki síðar en síðasta virkan dag í septembermánuði.

Fyrir þann tíma kunngjörir konungur úrskurð sinn um þau lagafrumvörp sem enn hafa ekki hlotið afgreiðslu (sbr. gr. 77-79), með því annaðhvort að staðfesta þau eða synja þeim staðfestingar. Þau lagafrumvörp sem konungur staðfestir ekki telst hann synja staðfestingar.

81. gr.[breyta]

Öll lög, að undanskildum þeim sem greinir í 79. grein, skulu birt í konungs nafni með innsigli norska ríkisins og með eftirfarandi yfirlýsingu: "Vér N.N. gjörum kunnugt: að fyrir oss hefur verið lögð samþykkt Stórþingsins, dags. svohljóðandi: (síðan fylgir frumvarpið). Hana höfum vér samþykkt og staðfest á sama hátt og vér nú samþykkjum hana og staðfestum sem lög undir vorri hönd og innsigli ríkisins."

82. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 7 júlí 1913.)


83. gr.[breyta]

Stórþingið getur leitað álits Hæstaréttar um lögfræðileg efni.

84. gr.[breyta]

Fundi Stórþingsins skal halda í heyranda hljóði, og umræðurnar gefnar út á prenti, nema annað sé samþykkt með meirihluta atkvæða.

85. gr.[breyta]

Hver sem hlýðir fyrirmælum, sem ætlað er að raska frelsi og friðhelgi Stórþingsins, er sekur um landráð.


D. Dómsvaldið.[breyta]

86. gr.[breyta]

Landsdómur er fyrsta og síðasta dómsstig í málum sem Óðalsþingið höfðar gegn ráðherrum, hæstaréttardómurum eða þingmönnum Stórþingsins, fyrir refsivarðan verknað er þeir gera sig seka um sem slíkir.

Nánari reglur um kærur Óðalsþingsins eftir þessari grein skulu settar með lögum. Þó má ekki ákveða skemmri fyrningarfrest en 15 ár til að draga menn til ábyrgðar fyrir landsdómi.

Þingmenn sem kjörnir eru í Lögþingið og þeir sem eiga fast sæti í Hæstarétti eru dómarar í landsdóminum. Reglurnar í 87. gr. gilda um skipan (HB: samsetning) landsdómsins í einstökum málum. Forseti Lögþingsins hefur forsæti í landsdómi.

Sá sem tekið hefur sæti í landsdómi sem þingmaður á Lögþingi skal ekki víkja úr landsdómi þótt kjörtímabili hans renni út áður en meðferð máls fyrir landsdómi lýkur. Hverfi hann af þingi af annarri ástæðu víkur hann úr landsdómi. Sama gildir ef hæstaréttardómari sem sæti á í landsdómi lætur af störfum við Hæstarétt.

87. gr.[breyta]

Ákærði og sá sem flytur málið fyrir hönd Óðalsþingsins (HB: saksóknari, skýra neðanmáls), hafa rétt til að ryðja svo mörgum úr landsdómi, að eftir sitji sem dómarar 14 þingmenn Lögþingsins og 7 dómarar Hæstaréttar. Hvor aðili hefur rétt til að ryðja jafnmörgum þingmönnum Lögþingsins úr réttinum, en ef ekki er unnt að deila jafnt skal hinn ákærði hafa rétt til að ryðja einum umfram. Sama gildir um hæstaréttardómara. Séu fleiri en einn ákærðir í sama máli ryðja þeir sameiginlega eftir reglum sem setja skal með lögum. Fullnýti málsaðilar ekki rétt sinn til að ryðja dóminn ræður hlutkesti hverjir víkja úr réttinum þannig að eftir sitji 14 þingmenn og 7 dómarar Hæstaréttar.

Þegar málið er tekið til dóms, skal dregið um hverjir dæma það þannig að 15 dómarar verði í réttinum, þar af ekki fleiri en 10 þingmenn og 5 hæstaréttardómarar.

Forseti Landsdóms og forseti Hæstaréttar missa aldrei sæti sitt með hlutkesti.

Sé ekki unnt að skipa dóm með þeim fjölda sem að framan er ákveðið, getur landsdómur eftir sem áður tekið mál til meðferðar og dæmt það ef minnst 10 dómarar eiga sæti í réttinum.

Nánari reglur um skipan landsdóms skulu settar með lögum.

88. gr.[breyta]

Hæstiréttur er æðsti dómstóll. Þó má með lögum takmarka málskot til hans.

Hæstarétt skipar forseti og að minnsta kosti fjórir aðrir dómarar.

89. gr.[breyta]

(Felld úr gildi 17 des. 1920, sbr. stj.skr.breyt. 7 júlí 1913.)


90. gr.[breyta]

Dómum Hæstaréttar verður eigi áfrýjað.

91. gr.[breyta]

Eigi má skipa hæstaréttardómara nema hann hafi náð 30 ára aldri.


E. Almenn ákvæði[breyta]

92. gr.[breyta]

Í embætti ríkisins má aðeins skipa norska ríkisborgara, karla eða konur, sem tala tungu landsins og:

a. annaðhvort eru fæddir í ríkinu af foreldrum sem þá voru þegnar ríkisins.

b. eða eru fæddir erlendis af norskum foreldrum, sem þá voru ekki þegnar annars ríkis.

c. eða sem héðan í frá dveljast í ríkinu í 10 ár.

d. eða sem Stórþingið hefur veitt ríkisborgararétt.

Þó má skipa aðra í kennarastöður við háskóla og á efri skólastigum, sem og í læknastöður og ræðismannsembætti í erlendum ríkjum.

93. gr.[breyta]

Til að tryggja frið og öryggi í heiminum eða stuðla að alþjóðlegri réttarskipan og samvinnu getur Stórþingið með meirihluta þriggja fjórðu hluta atkvæða veitt samþykki sitt til að alþjóðastofnun sem Noregur er aðili að eða gerist aðili að, geti á greinilega afmörkuðu sviði farið með heimildir sem samkvæmt stjórnarskrá þessari eru falin stjórnvöldum, þó ekki heimild til að breyta þessari stjórnarskrá. Þegar Stórþing veitir samþykki sitt skulu a.m.k. tveir þriðju hlutar þingmanna vera á fundi, eins og við afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpa.

Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um þátttöku í alþjóðastofnun, hafi ákvarðanir hennar eingöngu þjóðréttarleg áhrif á Noreg.

94. gr.[breyta]

Nýja einkaréttarlögbók og refsilögbók skal setja á fyrsta, eða ef það er ekki hægt á öðru reglulegu Stórþingi. Á meðan standa núgildandi lög, að svo miklu leyti sem þau stríða ekki gegn stjórnarskránni eða bráðabirgðalögum sem kunna að verða gefin út.

Núverandi skipan skattamála gildir fram að næsta Stórþingi.

95. gr.[breyta]

Eigi má veita undanþágur, konungsvernd, greiðslufrest eða uppreisn æru eftir að hin nýju lög ganga í gildi.

96. gr.[breyta]

Engan má dæma nema samkvæmt lögum né refsa án undangengins dóms. Eigi má beita pyntingum við yfirheyrslur.

97. gr.[breyta]

Lög mega eigi vera afturvirk.

98. gr.[breyta]

Af greiðslum til réttarþjóna skal engar álögur greiða til ríkissjóðs.

99. gr.[breyta]

Engum má halda í fangelsi nema með heimild í lögum og á þann hátt sem lög mæla fyrir um. Fyrir óheimila handtöku og ólöglegt varðhald eru yfirvöld ábyrg gagnvart þeim sem í hlut á.

Ríkisstjórnin má ekki beita ríkisborgarana hervaldi, nema á þann hátt sem ákveðinn er í lögum og þá aðeins þegar mannsöfnuður raskar almannafriði og ekki er unnt að leysa hann upp þegar í stað eftir að borgaraleg yfirvöld hafa þrisvar sinnum lesið hárri raustu þær greinar landslaga sem varða uppþot.

100. gr.[breyta]

Prentfrelsi skal ríkja. Engum má refsa fyrir ritað orð, hvert sem efni þess er, og hann hefur látið prenta eða gefa út, nema hann hafi af ásetningi og bersýnilega annaðhvort sjálfur óhlýðnast eða hvatt aðra til að óhlýðnast lögum, lítilsvirt trú, siðgæði eða stjórnarskrárbundna valdhafa, óhlýðnast skipunum þeirra, eða haft í frammi rangar og ærumeiðandi ásakanir í garð einhvers. Skorinorð ummæli um stjórnvöld eða hvaða efni annað sem er, eru öllum heimil.

101. gr.[breyta]

Nýjar og ótímabundnar takmarkanir má ekki setja atvinnufrelsi manna.

102. gr.[breyta]

Húsleit má ekki gera nema við rannsókn á refsiverðum verknaði.

103. gr.[breyta]

Ekki má veita griðland þeim sem verða gjaldþrota.

104. gr.[breyta]

Jörð og búslóð má aldrei gera upptæk í refsingarskyni.

105. gr.[breyta]

Krefjist hagsmunir ríkisins þess að einhver láti af hendi fasteignir sínar eða lausafé í opinbera þágu, skal fullt verð koma fyrir úr ríkissjóði.

106. gr.[breyta]

Kaupverð og tekjur af verðmætum sem falin hafa verið kirkjunni skal aðeins nota í þágu kirkju og menntunar. Eignir líknarstofnana má eingöngu nota í þeirra eigin þágu.

107. gr.[breyta]

Óðals- og ábúðarrétt má eigi afnema. Nánari skilyrði fyrir réttindum þessum, þar á meðal hvernig þeim skal skipað til hagsbóta fyrir ríkið og í þágu landsmanna, skal setja á fyrsta eða öðru Stórþingi héðan í frá.

108. gr.[breyta]

Greifadæmi, barónsdæmi, ættaróðali eða erfðabundnum afnotaréttindum má ekki koma á fót framvegis.

109. gr.[breyta]

Öllum ríkisborgurum er almennt jafnskylt að taka þátt í vörnum föðurlandsins í ákveðinn tíma án tillits til ættar eða eigna.

Með lögum skal ákveða hvernig þessari meginreglu er beitt og þær takmarkanir sem það sætir.

110. gr.[breyta]

Yfirvöldum er skylt að skapa aðstæður til að vinnufærir menn geti séð fyrir sér með vinnu sinni.

Nánari ákvæði um aðild starfsmanna að ákvörðunum á vinnustað sínum, skulu sett með lögum.

110. a.[breyta]

Yfirvöldum er skylt að skapa skilyrði til þess að samar geti viðhaldið og ræktað tungumál sitt, menningu sína og samfélag.

110. b.[breyta]

Allir eiga rétt til umhverfis sem tryggir heilbrigði, og náttúru sem fær haldið framleiðslugetu sinni og fjölbreytni. Auðlindir náttúrunnar skulu nýttar með almenn langtímasjónarmið í huga, sem tryggir komandi kynslóðum einnig þennan rétt.

Til að geta tryggt rétt sinn samkvæmt undanfarandi málsgrein, hafa borgararnir rétt á vitneskju um ástand náttúruumhverfisins og um áhrif fyrirhugaðrar og þegar hafinnar röskunar á náttúrunni.

Stjórnvöld setja nánari fyrirmæli um framkvæmd þessara meginreglna.

110. c.[breyta]

Stjórnvöldum ber að virða og tryggja mannréttindi.

Nánari fyrirmæli um framkvæmd alþjóðasamninga um þau skal setja í lög.

111. gr.[breyta]

Fáni ríkisins, litir og gerð eru ákveðin með lögum.

112. gr.[breyta]

Beri nauðsyn til að breyta hluta þessarar stjórnarskrár Konungsríkisins Noregs, skal frumvarp um það lagt fram á fyrsta, öðru eða þriðja reglulegu Stórþingi eftir kosningar og prentað. Á fyrsta, öðru eða þriðja reglulegu þingi eftir næstu kosningar ákveður Stórþingið hvort frumvarpið nær fram að ganga. Breytingar á stjórnarskránni mega þó aldrei ganga gegn meginreglum hennar, heldur aðeins varða útfærslu á einstökum ákvæðum hennar sem ekki breyta anda stjórnarskrárinnar og þurfa tveir þriðju Stórþingingsins að gjalda jákvæði sitt slíkri breytingu.

Breytingar á stjórnarskránni, sem þannig eru samþykktar, skulu undirritaðar af forseta Stórþingsins og ritara þess, prentaðar og birtar konungi sem gild ákvæði í stjórnarskrá Konungsríkisins Noregs.