Stjórnarskrá danska ríkisins

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Lög nr. 169 frá 5. júní 1953


I. kafli[breyta]

1. grein[breyta]

Stjórnarskrá þessi gildir í öllum hlutum danska ríkisins.

2. grein[breyta]

Takmarkað konungsvald er grundvöllur stjórnskipunarinnar. Konungsvald erfist til karla og kvenna samkvæmt reglum í lögum um ríkisarfa frá 27. mars 1953.

3. grein[breyta]

Konungur og þjóðþing fara sameiginlega með löggjafarvaldið. Framkvæmdavaldið er í höndum konungs. Dómstólar fara með dómsvaldið.

4. grein[breyta]

Þjóðkirkja Danmerkur er evangelíska lútherska kirkjan og nýtur hún stuðnings ríkisins.

II. kafli[breyta]

5. grein[breyta]

Konungur getur ekki án samþykkis þjóðþingsins farið með völd í öðru ríki.

6. grein[breyta]

Konungur skal vera í þjóðkirkjunni.

7. grein[breyta]

Konungurinn er lögráða við átján ára aldur. Sama gildir um ríkisarfa.

8. grein[breyta]

Áður en konungur tekur við embætti lýsir hann því hátíðlega og skriflega yfir í ríkisráðinu að hann muni í hvívetna virða stjórnarskrána. Yfirlýsingin er í tveimur upprunalegum eintökum, og fær þjóðþingið annað þeirra til varðveislu í sinni skjalageymslu, en hitt geymist í ríkisskjalasafninu. Geti konungur vegna fjarveru eða af öðrum ástæðum ekki strax gefið nefnda yfirlýsingu fer ríkisráðið með völdin, nema annað sé ákveðið með lögum. Hafi konungur sem ríkisarfi gefið þessa yfirlýsingu tekur hann þegar við völdum við konungsskipti.

9. grein[breyta]

Ákveðið skal með lögum hvernig með stjórn ríkisins skuli farið ef konungur er eða verður ólögráða, veikur eða fjarverandi. Sé enginn ríkisarfi tiltækur við konungsskipti, velur þjóðþingið konung og ákveður ríkiserfðir.

10. grein[breyta]

1. mgr. Framlög ríkisins til konungs eru ákveðin með lögum. Þessi lög kveða einnig á um hvaða hallir og aðrar eignir ríkisins konungur fær til afnota.

2. mgr. Framlög ríkisins til konungs má ekki setja til tryggingar skuldum.

11. grein[breyta]

Ákveða má með lögum árlegt fjárframlag til meðlima konungsfjölskyldunnar. Þetta framlag má ekki nota erlendis án samþykkis þjóðþingsins.

III. kafli[breyta]

12. grein[breyta]

Konungur hefur, með þeim takmörkunum sem stjórnarskrá þessi setur, æðsta vald á málefnum ríkisins og lætur ráðherra framkvæma vald sitt.

13. grein[breyta]

Konungur verður ekki dreginn til ábyrgðar og persóna hans er friðhelg. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum og ábyrgð þeirra er nánar ákveðin með lögum.

14. grein[breyta]

Konungur tilnefnir forsætisráðherra og aðra ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður fjölda ráðherra og skiptir með þeim verkum. Undirskrift konungs undir lög og aðrar stjórnarákvarðanir veitir þeim gildi, þegar ráðherra eða ráðherrar skrifa undir þau með honum. Undirskrift ráðherra felur í sér ábyrgð á viðkomandi ákvörðun.

15. grein[breyta]

1. mgr. Ráðherra getur ekki haldið embætti sínu, eftir að þjóðþingið hefur samþykkt vantraust á hann.

2. mgr. Samþykki þjóðþingið vantraust á forsætisráðherra skal hann að biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt, nema boðað sé til kosninga. Ríkisstjórn, sem lýst hefur verið vantrausti á eða beðist hefur lausnar, starfar áfram, þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Starfandi ráðherrar geta einungis sinnt verkum, sem eru nauðsynleg til óraskaðrar embættisfærslu.

16. grein[breyta]

Konungur eða þjóðþing geta ávítað ráðherra fyrir embættisfærslu þeirra. Landsdómur dæmir í málum ráðherra varðandi embættisverk þeirra.

17. grein[breyta]

1. mgr. Ráðherrar skipa í sameiningu ríkisráð, og tekur ríkisarfi sæti í því þegar hann er lögráða. Konungur er í forsæti ríkisráðsins nema í tilfellum, sem greint er frá í 8. grein og í þeim tilfellum, sem löggjafarvaldið í samræmi við 9. grein hefur falið ríkisráðinu að fara með framkvæmdavaldið.

2. mgr. Öll lög og mikilvægar stjórnarráðsstafanir skal bera upp í ríkisráði.

18. grein[breyta]

Geti konungur ekki haldið ríkisráðsfund, getur hann vísað málum til ráðherraráðsins. Í því sitja allir ráðherrar undir forsæti forsætisráðherra. Atkvæði sérhvers ráðherra um mál er bókað, og ákvörðun er tekin með meirihluta atkvæða. Forsætisráðherra leggur fundarbókanir með undirritunum viðstaddra ráðherra fyrir konung, sem ákveður hvort hann samþykkir ákvörðun ráðherraráðsins eða hvort málið verði tekið fyrir í ríkisráði.

19. grein[breyta]

1. mgr. Konungur kemur fram fyrir hönd ríkisins í alþjóðasamskiptum. Án samþykkis þjóðþingsins getur hann þó ekkert gert, sem eykur eða takmarkar umráðasvæði ríkisins eða undirgengist skuldbindingar, sem atbeina þjóðþingsins þarf til að fullnægja eða hafa meiriháttar þýðingu. Konungur má ekki heldur, án samþykkis þjóðþingsins, segja upp þjóðréttarsamningum, sem þingið hefur áður samþykkt.

2. mgr. Konungur má ekki án heimildar þjóðþingsins beita hervaldi gegn öðru ríki, nema til varnar gegn vopnaðri árás á ríkið eða danskan herafla. Ráðstafanir, sem konungur grípur til í þessu samhengi skal þegar leggja fyrir þjóðþingið. Sitji þjóðþingið ekki, skal kalla það saman þegar í stað.

3. mgr. Þjóðþingið velur þingmenn til setu í utanríkismálanefnd, sem ríkisstjórn ráðfærir sig við áður en nokkur ákvörðun er tekin í mikilvægum utanríkismálum. Frekari reglur um störf utanríkismálanefndar ber að ákveða með lögum.

20. grein[breyta]

1. mgr. Ákvarðanir, sem samkvæmt stjórnarskrá þessari falla undir stjórnvöld ríkisins, má með lögum framselja alþjóðlegum stofnunum, sem settar eru á stofn með gagnkvæmum samningum við önnur ríki til að stuðla að alþjóðlegri lögskipan og samvinnu.

2. mgr. Til að lagafrumvarp samkvæmt 1. mgr. öðlist gildi þarf meirihluta fimm sjöttu þjóðþingmanna. Náist slíkur meirihluti ekki, en þó nægur atkvæðafjöldi til að samþykkja venjulegt lagafrumvarp, og styðji ríkisstjórnin frumvarpið eftir sem áður, skal bera það undir atkvæði þjóðþingskjósenda til samþykktar eða synjunar samkvæmt reglunum um þjóðaratkvæðagreiðslur í 42. grein.

21. gr.[breyta]

Konungur getur látið leggja fyrir þjóðþingið frumvörp til laga og annarra samþykkta.

22. grein[breyta]

Lagafrumvarp sem þjóðþingið hefur samþykkt tekur gildi sem lög þegar konungur staðfestir það eigi síðar en 30 dögum eftir að það var endanlega samþykkt. Konungur mælir fyrir um birtingu laga og fylgist með framkvæmd þeirra.

23. grein[breyta]

Þegar brýna nauðsyn ber til og þjóðþingið getur ekki komið saman, getur konungur gefið út bráðabirgðalög, sem mega þó ekki stríða gegn stjórnarskránni og skulu lögð fyrir þjóðþingið um leið og það kemur saman, til staðfestingar eða synjunar.

24. grein[breyta]

Konungur getur náðað menn og veitt almenna sakaruppgjöf. Konungur getur einungis með samþykkt þjóðþingsins náðað ráðherra, sem dæmdir hafa verið til refsingar af landsdómi.

25. grein[breyta]

Konungur veitir, annað hvort sjálfur eða með því að fela það hlutaðeigandi stjórnvöldum, heimildir og undanþágur frá lögum, samkvæmt reglum sem voru í gildi fyrir 5. júní 1849 og eru enn i gildi eða hafa síðar verið heimilaðar með lögum.

26. grein[breyta]

Konungur lætur gefa út peninga samkvæmt lögum.

27. grein[breyta]

1. mgr. Reglum um skipun opinberra embættismanna skal skipað með lögum. Engan má skipa embættismann, nema hann sé danskur ríkisborgari. Embættismenn, sem konungur skipar, heita því hátíðlega að virða stjórnarskrána.

2. mgr. Um brottvikningu, flutning í starfi og eftirlaun embættismanna fer eftir lögum, sbr. þó 64. grein.

3. mgr. Konunglega skipaðir embættismenn verða aðeins fluttir til í starfi, án samþykkis þeirra, haldi þeir óskertum embættislaunum og fái að velja á milli slíks flutnings og lausnar frá embætti á eftirlaunum samkvæmt almennum reglum.

IV. Kafli[breyta]

28. grein[breyta]

Þjóðþingið starfar í einni málstofu. Á því sitja mest 179 fulltrúar, þar af tveir kosnir í Færeyjum og tveir á Grænlandi.

29. grein[breyta]

1. mgr. Kosningarétt við kosningar til þjóðþingsins hafa allir danskir ríkisborgarrétt sem eiga lögheimili í ríkinu og hafa náð tilskildum kosningaaldri skv. 2. mgr., þó þannig að viðkomandi hafi ekki verið sviptur lögræði. Það ákvarðast með lögum, að hve miklu leyti refsing og aðstoð, sem samkvæmt lögum er álitin fátækrahjálp, varðar missi kosningaréttar.

2. mgr. Kosningaaldur er ákveðinn af meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum frá 25. mars 1953. Kosningaaldri má breyta með lögum. Konungurinn getur aðeins staðfest frumvarp til slíkra laga, sem þjóðþingið hefur samþykkt, eftir að ákvörðunin um breytingu á kosningaaldri hefur, í samræmi við 5. mgr. 42. gr., verið lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem breytingin hefur ekki verið felld.

30. gr.[breyta]

1. mgr. Kjörgengur við kosningar til þjóðþingsins er hver sá sem á kosningarétt til þeirra, nema honum hafi verið refsað fyrir verknað, sem samkvæmt almenningsáliti gerir hann óhæfan til setu á þjóðþinginu.

2. mgr. Embættismenn, sem eru kosnir á þjóðþingið þurfa ekki leyfi ríkisstjórnar til að taka kosningu.

31. gr.[breyta]

1. mgr. Þingmenn eru kosnir almennum, beinum og leynilegum kosningum.

2. mgr. Nánari reglur um kosningar skulu settar í kosningalögum, sem tryggja réttláta/jafna skiptingu fulltrúa í samræmi við mismunandi skoðanir kjósenda, þ.á m. reglur um það, hvort hlutfallskosningar skuli framkvæma með eða án tengsla við einmenningskjördæmi.

3. mgr. Við kjördæmaskiptingu skal tekið tillit til íbúafjölda, fjölda kjósenda og dreifingu byggðar.

4. mgr. Í kosningalögum skal setja nánari reglur um kosningu varamanna og setu þeirra á þjóðþinginu sem og framkvæmd mála í tilvikum, þar sem nauðsynlegt reynist að kjósa að nýju.

5. mgr. Sérstakar reglur um fulltrúa Grænlands á þjóðþinginu má ákveða með lögum.

32. gr.[breyta]

1. mgr. Þjóðþingmenn eru kosnir til fjögurra ára.

2. mgr. Konungur getur hvenær sem er, boðað til kosninga með þeim afleiðingum að umboð þingmanna falla niður þegar kosningar hafa farið fram. Þegar nýtt ráðuneyti hefur verið skipað, er þó ekki hægt að boða til kosninga, fyrr en forsætisráðherra hefur kynnt ráðuneyti sitt á þjóðþinginu.

3. mgr. Forsætisráðherra skal efna til kosninga, áður en kjörtímabili lýkur.

4. mgr. Umboð þingmanna falla ekki niður fyrr en að loknum kosningum.

5. mgr. Með lögum má setja sérstakar reglur um upphaf og lok umboðs þingmanna frá Færeyjum og Grænlandi.

6. mgr. Missi þingmaður kjörgengi fellur umboð hans niður.

7. mgr. Sérhver nýr þingmaður skal heita því að virða stjórnarskrána, þegar kjör hans hefur verið tekið gilt.

33. gr.[breyta]

Þjóðþingið sker sjálft úr um, hvort þingmenn eru löglega kjörnir og hvort þingmaður hefur misst kjörgengi.

34. grein[breyta]

Þjóðþingið er friðheilagt. Sérhver, sem ógnar öryggi þess eða frelsi, og sérhver, sem gefur út eða hlýðir slíkum hvatningum gerir sig sekan um landráð.

V. Kafli[breyta]

35. gr.[breyta]

Nýkjörið þjóðþing kemur saman á hádegi tólfta rúmhelga dag eftir kjördag, hafi konungur ekki kallað þing saman fyrir þann tíma.

2. mgr. Þegar farið hefur verið yfir umboð þingmanna, er þjóðþingið sett og forseti og varaforsetar kosnir.

36. gr.[breyta]

1. mgr. Þingár hefst fyrsta þriðjudag í októbermánuði og því lýkur sama þriðjudag ári síðar.

2. mgr. Á fyrsta þingdegi þingárs, koma þingmenn saman til fundar á hádegi og þjóðþingið er sett að nýju.

37. gr.[breyta]

Þjóðþingið kemur saman á sama stað og ríkisstjórnin hefur aðsetur sitt. Í sérstökum tilvikum getur þingið þó komið saman á öðrum stað í ríkinu.

38. gr.[breyta]

1. mgr. Á fyrsta fundi þingársins, gerir forsætisráðherra grein fyrir stöðu ríkisins og stefnu stjórnar sinnar.

2. mgr. Á grundvelli ræðu hans verða haldnar almennar umræður.

39. gr.[breyta]

Forseti þjóðþingsins kallar þingið saman með birtingu dagskrár. Forseti skal kalla saman þjóðþingið, þegar a.m.k. tveir fimmtu hlutar þingmanna eða forsætisráðherra fara skriflega fram á það og tilgreina dagskrá.

40. gr.[breyta]

Ráðherrar hafa í krafti embættis síns rétt til að taka þátt í störfum þjóðþingsins og geta krafist þess að fá orðið eins oft og þeir vilja að þingsköpum aðgættum. Atkvæðisrétt hafa þeir því aðeins, að þeir séu einnig þingmenn.

41. gr.[breyta]

1. mgr. Sérhver þingmaður hefur rétt til að leggja fram frumvarp til laga og annarra samþykkta.

2. mgr. Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir þrjár umræður á þingi.

3. mgr. Tveir fimmtu hlutar þingmanna geta krafist af þingforseta, að þriðja umræða um lagafrumvarp fari fyrst fram tólf rúmhelgum dögum eftir að það hefur verið samþykkt við aðra umræðu. Krafa þar að lútandi skal vera skrifleg og undirrituð af hlutaðeigandi þingmönnum. Frest má þó ekki veita, ef um er að ræða frumvarp til fjárlaga eða fjáraukalaga, frumvarp til laga um tímabundnar fjárveitingar, um ríkislán, um ríkisborgararétt, um eignarnám, um óbeina skatta og í áríðandi tilfellum frumvarp til laga, sem ekki er hægt að fresta gildistöku á með tilliti til tilgangs þeirra.

4. mgr. Við kosningar til þings og í lok þingárs falla niður öll lagafrumvörp og tillögur, sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar.

42. gr.[breyta]

1. mgr. Þegar þjóðþingið hefur samþykkt lagafrumvarp getur þriðjungur þingmanna innan þriggja rúmhelgra daga, frá því að frumvarpið var samþykkt, krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Kröfu þar um verður að beina skriflega til þingforseta og skal hún undirrituð af öllum hlutaðeigandi þingmönnum.

2. mgr. Lagafrumvarp, sem má bera undir þjóðaratkvæði skv. 6. mgr., getur konungur aðeins staðfest í samræmi við ákvæði 7. mgr. fyrir þann frest sem getið er í 1. mgr. eða áður en þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram.

3. mgr. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslu hefur verið krafist um lagafrumvarp, getur þjóðþingið innan fimm rúmhelgra daga frá endanlegri samþykkt frumvarpsins ákveðið, að það skuli falla niður.

4. mgr. Taki þjóðþingið ekki ákvörðun í samræmi við 3. mgr. skal tilkynna forsætisráðherra eins fljótt og auðið er, að lagafrumvarpið skuli borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsætisráðherra lætur birta frumvarpið og gerir kunnugt að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram í samræmi við nánari ákvörðun forsætisráðherra, í fyrsta lagi tólf og í síðasta lagi átján rúmhelgum dögum eftir birtinguna.

5. mgr. Í þjóðaratkvæðagreiðslu eru atkvæði greidd með og á móti lagafrumvarpi. Til að lagfrumvarpið falli niður, verður meirihluti þeirra sem atkvæði greiða, en þó minnst þrjátíu af hundraði allra atkvæðisbærra manna, að greiða atkvæði gegn því.

6. mgr. Fjárlagafrumvarp, frumvarp til fjáraukalaga og laga um tímabundnar fjárveitinga, frumvarp til laga um ríkislán, laga um fjölda stöðugilda hjá ríkinu, launa- og eftirlaunalaga, laga um ríkisborgararétt, laga um eignarnám, um beina og óbeina skatta og laga um hvernig framfylgja á samningsbundnum skuldbindingum sem þegar eru fyrir hendi verða ekki borin undir þjóðaratkvæði. Hið sama gildir um frumvörp til laga, sem fjallað er um í 8., 9., 10. og 11. gr., svo og ákvarðanir, sem getið er um í 19. gr., svo framarlega að þær séu í lagaformi, nema það sé ákveðið með lögum í sambandi við síðastnefndu ákvarðanirnar að slík atkvæðagreiðsla skuli fara fram. Um stjórnarskrárbreytingar gilda reglurnar í 88. gr.

7. mgr. Í sérstaklega áríðandi tilvikum getur konungur staðfest lagafrumvarp sem má bera undir þjóðaratkvæði, um leið og það hefur verið samþykkt, þegar frumvarpið geymir ákvæði þess efnis. Krefjist þriðjungur þingmanna þjóðaratkvæðisgreiðslu um frumvarpið eða hin staðfestu lög í samræmi við 1. mgr., verður hún haldin samkvæmt fyrrnefndum reglum. Ef lögin eru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, tilkynnir forsætisráðherra niðurstöðuna án ónauðsynlegra tafa og í síðasta lagi 14 dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Frá tilkynningardegi falla lögin úr gildi.

8. mgr. Frekari reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.á m. í hve ríkum mæli þjóðaratkvæðagreiðslur skuli haldnar í Færeyjum og á Grænlandi, skulu ákveðnar með lögum.

43. grein[breyta]

Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur kalla fólk til herþjónustu eða taka ríkislán án heimildar í lögum.

44. grein[breyta]

1. mgr. Enginn útlendingur getur fengið ríkisborgararétt nema með lögum.

2. mgr. Um heimild útlendinga til þess að eiga fasteignir skal skipað með lögum.

45. grein[breyta]

1. mgr. Frumvarp til fjárlaga fyrir næsta fjárlagaár skal leggja fyrir þjóðþingið í síðasta lagi fjórum mánuðum áður en fjárlagaárið hefst.

2. mgr. Ef búast má við því, að frumvarp til fjárlaga verði ekki afgreitt, áður en fjárlagaárið hefst, skal frumvarp til laga um tímabundna fjárveitingarheimild lagt fyrir þingið.

46. grein[breyta]

1. mgr. Ekki má krefja um greiðslu skatta, fyrr en þjóðþingið hefur samþykkt fjárlög eða tímabundna fjárveitingarheimild.

2. mgr. Ekkert gjald má inna af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum, fjáraukalögum eða lögum um tímabundnar fjárveitingar.

47. grein[breyta]

1. mgr. Ríkisreikningur skal lagður fyrir þjóðþingið í síðasta lagi sex mánuðum eftir lok fjárlagaársins.

2. mgr. Þjóðþingið kýs endurskoðendur. Þeir fara yfir árlegan ríkisreikning og ganga úr skugga um, að allar tekjur ríkisins séu þar færðar og engin greiðsla sé innt af hendi án heimildar í fjárlögum eða öðrum heimildarlögum. Þeir geta krafist allra nauðsynlegra upplýsinga og gagna. Nánari reglur um fjölda endurskoðenda og störf ákveðast með lögum.

3. mgr. Ríkisreikningur með athugasemdum endurskoðenda skal lagður fyrir þjóðþingið til samþykktar.

48. gr.[breyta]

Þjóðþingið ákveður sjálft þingsköp, sem kveða nánar á um fundarstörf og skipulega framkvæmd þeirra.

49. grein[breyta]

Fundir þjóðþingsins eru haldnir í heyranda hljóði. Þingforseti eða sá fjöldi þingmanna sem ákveðinn er í þingsköpum eða ráðherra geta þó krafist þess að öllum óviðkomandi aðilum sé vísað burt. Skal þá ákveðið án umræðna, hvort um málið verður fjallað á opnum eða lokuðum fundi.

50. grein[breyta]

Eigi getur þjóðþingið ákveðið mál nema meira en helmingur þingmanna sé viðstaddur og taki þátt í atkvæðagreiðslu.

51. gr.[breyta]

Þjóðþingið getur skipað nefndir þingmanna til að rannsaka mikilvæg mál. Slíkar þingnefndir geta krafið einstaklinga sem og opinbera aðila um skriflegar eða munnlegar upplýsingar.

52. grein[breyta]

Við kjör þingmanna í nefndir og til verkefna ræður hlutfallstala.

53. gr.[breyta]

Sérhver þingmaður getur með samþykki þjóðþingsins krafist umræðna um sérhvert opinbert mál og krafið ráðherra um skýringar.

54. gr.[breyta]

Þjóðþingið má ekki taka við neinu máli nema einhver þingmanna flytji það.

55. gr.[breyta]

Með lögum skal ákveðið, að þjóðþingið velji einn eða tvo menn, sem ekki eru þingmenn, til að hafa sem umboðsmenn þjóðþingsins eftirlit með opinberri og hernaðarlegri stjórnsýslu.

56. gr.[breyta]

Þjóðþingsmenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

57. gr.[breyta]

Ekki má ákæra þingmann eða fangelsa án samþykkis þjóðþingsins, nema hann sé staðinn að verki. Ekki er hægt án samþykkis þingsins að draga þingmann til ábyrgðar utan þings fyrir ummæli hans á þingi.

58. gr.[breyta]

Þingmenn skulu hljóta þóknun og skal upphæð hennar ákveðin í kosningalögum.

VI. Kafli[breyta]

59. gr.[breyta]

1. mgr. Landsdómur er skipaður allt að fimmtán af þeim dómendum við æðsta dómstól landsins, sem hafa hæstan embættisaldur, og jafn mörgum meðlimum kosnum hlutfallskosningu af þjóðþinginu til 6 ára í senn. Fyrir hvern aðalmann eru kjörnir einn eða fleiri varamenn. Ekki má kjósa þingmenn til setu eða starfa í landsdómi. Ef einn eða fleiri af fulltrúum æðsta dómstólsins geta ekki í einstaka tilfelli tekið þátt í umfjöllun og ákvörðun máls, víkja jafn margir fulltrúar síðast kjörnir af þjóðþinginu úr dómi.

2. mgr. Rétturinn kýs sér forseta úr eigin röðum.

3. mgr. Komi mál fyrir landsdóm, halda fulltrúar kjörnir af þjóðþinginu sæti sínu í réttinum í viðkomandi máli, jafnvel þó málið taki lengri tíma en nemur kjörtímabili þeirra.

4. mgr. Nánari reglur um landsdóm skulu ákveðnar með lögum.

60. gr.[breyta]

1. mgr. Landsdómur dæmir í málum sem konungur eða þjóðþingið höfða gegn ráðherrum.

2. mgr. Fyrir landsdómi getur konungur, með samþykki þjóðþingsins, höfðað mál á hendur öðrum vegna brota, sem hann telur sérlega hættuleg ríkinu.

61. grein[breyta]

Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum. Ekki má setja á stofn sérdómstóla sem fara með dómsvald.

62. grein[breyta]

Dómstörfum skal sífellt haldið aðgreindum frá stjórnsýslu. Reglur þar um skulu ákveðnar með lögum.

63. grein[breyta]

1. mgr. Dómstólar skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði með því að skjóta máli til dómstólanna.

2. mgr. Ákveða má með lögum, að ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda megi skjóta til stjórnsýsludómstóla. §rlausnum slíkra dómstóla má þó skjóta til æðsta dómstóls ríkisins. Nánari reglur hér um skulu settar með lögum.

64. grein[breyta]

Dómendur skulu í störfum sínum fara einungis eftir lögunum. Dómendum verður ekki vikið úr embætti nema með dómi og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á að verið er að koma á nýrri skipan dómstólanna. Þó má veita þeim dómara sem orðin er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en án þess að hann missi tekjur, þar til þeim tíma er náð, að hann hefði látið af störfum sökum aldurs.

65. grein[breyta]

1. mgr. Málsmeðferð fyrir dómstólum skal vera opinber og málflutningur munnlegur í eins ríkum mæli og unnt er.

2. mgr. Leikmenn skulu taka þátt í meðferð opinberra mála. Nánar skal ákveðið í lögum, í hvaða málum og með hvaða hætti leikmenn taka þátt í málsmeðferð, þ.á m. í hvaða málum kviðdómendur koma við sögu.

VII. Kafli[breyta]

66. grein[breyta]

Skipulag þjóðkirkjunnar skal ákveða með lögum.

67. grein[breyta]

Landsmenn eiga rétt á að stofna félög til að þjóna guði með þeim hætti, sem best á við sannfæringu hvers eins; þó má ekki kenna eða fremja neitt, sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

68. grein[breyta]

Enginn er skyldur til að inna af hendi gjöld til neinnar annarrar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist.

69. grein[breyta]

Um stöðu annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar skal nánar ákveðið með lögum.

70. grein[breyta]

Enginn má neins í missa af borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum fyrir sakir trúar sinnar eða uppruna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan borgaralegum skyldum sínum.

VIII. Kafli[breyta]

71. gr.[breyta]

1. mgr. Persónufrelsi má í engu skerða. Ekki má skerða frelsi dansks ríkisborgara á neinn hátt vegna stjórnmálaskoðana, trúarsannfæringar eða uppruna.

2. mgr. Frelsisskerðingu má einungis beita með heimild í lögum.

3. mgr. Sérhver, sem er handtekinn, skal innan sólarhrings leiddur fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus, skal dómari með rökstuddum úrskurði, eins fljótt og auðið er og í síðasta lagi innan þriggja daga, ákveða, hvort hann skuli settur í varðhald. Megi láta fangann lausan gegn tryggingu, skal ákveða tegund tryggingar og upphæð. Á Grænlandi má víkja frá þessu ákvæði með lögum, sé það nauðsynlegt vegna staðbundinna aðstæðna.

4. mgr. Viðkomandi getur þegar skotið úrskurði dómara til æðra dómstóls.

5. mgr. Ekki má setja mann í gæsluvarðhald fyrir brot, sem eingöngu varðar sektum eða varðhaldi.

6. mgr. Eftir kröfu þess sem sviptur hefur verið frelsi, eða fulltrúa hans, meta dómstólar lögmæti frelsiskerðingar sem beitt er án tengsla við refsimál, og er ekki ákveðin af dómara. Þetta á þó ekki við um frelsisskerðingu samkvæmt lögum um útlendinga. Nánari reglur hér um skulu settar með lögum.

7. mgr. Ráð, kjörið af þjóðþinginu, skal hafa eftirlit með málsmeðferð einstaklinga, sem um er fjallað í 6. mgr. og skulu þeir geta snúið sér til ráðsins.

72. gr.[breyta]

Heimilið er friðhelgt. Húsrannsókn, hald á eignir og rannsókn á bréfum og öðrum skjölum svo og rof á bréf-, skeyta- og símtalaleynd, má ekki framkvæma nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild.

73. gr.[breyta]

1. mgr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.

2. mgr. Þegar lagafrumvarp um eignarnám hefur verið samþykkt, getur þriðjungur þingmanna innan þriggja rúmhelgra daga, krafist þess að konungur staðfesti ekki lögin fyrr en að loknum kosningum til þjóðþingsins og eftir að þingið hefur að nýju samþykkt frumvarpið.

3. mgr. Allan ágreining um lögmæti eignarnáms og upphæð bóta má bera undir dómstóla. Með lögum má setja á fót dómstól í því skyni að skera úr um upphæð bóta.

74. gr.[breyta]

Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.

75. grein[breyta]

1. mgr. Kappkosta skal með tilliti til almannaheilla, að sérhver vinnufær maður eigi möguleika á starfi með kjörum sem tryggja afkomu hans.

2. mgr. Sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði, sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður, sem lög áskilja.

76. gr.[breyta]

Öll börn á skólaskyldualdri eiga rétt á kennslu í opinberum skólum án endurgjalds. Foreldrar eða lögráðamenn, sem sjá sjálfir til þess, að börn fái kennslu sambærilega þeirri, sem veitt er í opinberum skólum, eru ekki skyldugir til að láta börnin ganga í opinbera skóla.

77. grein[breyta]

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar opinberlega á prenti, í rituðu máli og töluðu; þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar fyrirbyggjandi tálmanir má aldrei leiða í lög að nýju.

78. grein[breyta]

1. mgr. Borgararnir eiga rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja um leyfi til þess fyrirfram.

2. mgr. Félög, sem starfa eða reyna að ná markmiðum sínum með ofbeldi, hvatningu til ofbeldis eða svipuðu refsiverðu athæfi gegn þeim sem hafa aðrar skoðanir, má leysa upp með dómi.

3. mgr. Ekkert félag má leysa upp með stjórnarráðsstöfun. Þó má banna félag um sinn, en þá verður þegar að höfða mál gegn félaginu til þess að það verði leyst upp.

4. mgr. Málum sem varða bann við starfsemi stjórnmálasamtaka má án sérstaks leyfis skjóta til æðsta dómstóls ríkisins.

5. mgr. Réttaráhrif þess, að félag er leyst upp skulu nánar ákveðin í lögum.

79. gr.[breyta]

Borgarar eiga rétt á að safnast saman óvopnaðir án sérstaks leyfis. Lögregla hefur heimild til að vera á opinberum samkomum. Banna má mannfundi undir berum himni, þeggar uggvænt þykir, að af þeim leiði óspektir.

80. gr.[breyta]

Á mannfundum má vopnuð lögregla aðeins skerast í leikinn eftir að mannfjöldinn í þrígang í nafni konungs og laga hefur fengið fyrirmæli um að dreifa sér.

81. gr.[breyta]

Sérhver vopnfær maður er skyldur til að taka sjálfur þátt í vörnum föðurlandsins, eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt með lögum.

82. gr.[breyta]

Rétti sveitafélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.

83. gr.[breyta]

Forréttindi í lögum bundin við aðal, titil og tign eru afnumin.

84. grein[breyta]

Ekkert lén, óðal, erfðaeign eða aðra ættarinnistæðu má stofna héðan í frá.

85. gr.[breyta]

Um herinn verður ákvæðum í 71., 78. og 79. gr. aðeins beitt með þeim takmörkunum sem leiðir af reglum hersins.

IX. Kafli[breyta]

86. gr.[breyta]

Kosningaaldur við kosningar til sveitastjórna og sóknarnefnda, er á hverjum tíma hinn sami og við þingkosningar. Í Færeyjum og á Grænlandi ákvarðast kosningaaldur við kosningar til sveitastjórna og kirkjusókna með lögum eða í samræmi við lög.

87. gr.[breyta]

Íslenskir ríkisborgarar, sem í samræmi við lög um afnám sambandslaganna njóta sama réttar og danskir ríkisborgarar, halda réttindum þeim sem stjórnarskráin veitir og eru bundin dönskum ríkisborgararétti.

X. Kafli[breyta]

88. gr.[breyta]

Samþykki þjóðþingið frumvarp sem felur í sér stjórnarskrárbreytingu og beiti ríkisstjórn sér málinu í vil, skal boða til nýrra þingkosninga. Ef nýkjörið þing samþykkir frumvarpið óbreytt, verður innan hálfs árs eftir endanlega samþykkt að leggja breytingarnar undir dóm kjósenda. Nánari reglur um atkvæðagreiðsluna skulu ákveðnar með lögum. Samþykki meirihluti þeirra, sem atkvæði greiða og minnst fjörutíu hundraðshlutar atkvæðisbærra manna ákvörðun þjóðþingsins og staðfesti konungur ákvörðunina, fær hún gildi sem stjórnlög.

XI. Kafli[breyta]

89. gr.[breyta]

Stjórnarskrá þessi tekur þegar gildi. Í samræmi við stjórnarskrána frá 5. júní 1915 með breytingum frá 10. september 1920, situr þó síðastkjörið ríkisþing þar til nýjar kosningar hafa farið fram í samræmi við reglurnar í kafla IV. í stjórnarskránni. Þar til kosningar hafa farið fram, eru ákvæði stjórnarskrárinnar frá 5. júní 1915 með breytingum frá 10. september 1920 um ríkisþingið í gildi.

Þessi þýðing er tekin af vefnum Stjórnskipun.is