Veislan á Grund/14. kafli

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
{{{athugasemdir}}}

Það var Jón skráveifa, sem verið var að búa undir burtför sína.

Þó að fullur sigur væri nú unninn og Smiður hirðstjóri fallinn, var hatri og hefndarþorsta Norðlendinga ekki líkt því svalað. Jón lögmaður Guttormsson skyldi fara sömu förina. Hverjum manni í hópnum hefðu Norðlendingar verið fáanlegir til að gefa grið öðrum en honum. Smiði líka, hefði hann fallið lifandi í hendur þeirra. Flestir hinna höfðu það eitt til saka unnið að hafa fylgt þeim. Eiginlega var það gegn Jóni lögmanni einum, sem gripið hafði verið til vopna. Að eiga slíkan mann yfir höfði sér, hverju sem hann lofaði sér til lífs og griða, fannst engum takandi í mál. Nú höfðu þeir hann á valdi sínu, og forlög hans voru fyrirfram ráðin og innsigluð. Þar var enga vægð að nefna. Jón hafði beðið sér griða, beðið og grátbeðið, boðið allt á vald þeirra, allar eigur sínar, réttindi sín og landsvist, - allt, sem hann gæti af hendi látið, fyrir það eitt að halda lífinu, en alls enga áheyrn fengið. Það eina, sem látið var eftir honum, var, að hann mætti ná prestsfundi.

Nú kraup hann frammi á hlaðvarpanum, með hendurnar bundnar fyrir aftan bakið og fæturna bundna saman. Norðlendingar stóðu vopnaðir í kringum hann. Fram undan honum lá höggstokkurinn.

Jón skráveifa var ekki lifandi nema að hálfu leyti og kannske tæplega það. Hann var nær dauða en lífi af hræðslu og hugarkvöl. Hann var mjög víða sár, þótt ekki væru sárin stór. Spjótaoddar höfðu gengið gegnum hringana í brynjunni og nokkuð inn í hold hans; það gátu ekki stór sár kallast hjá þeim, sem margir aðrir báru nú, en þau sviðu þó og blæddu, og þar sem þau voru víða, drógu þau mjög dáð úr honum. Auk þess hafði hann orðið fyrir þungum kylfuhöggum í bardaganum, sem höfðu kramið hann og marið og sums staðar að kalla rekið hlífarnar inn í hann sjálfan. Nú lá hann bundinn frammi fyrir höggstokknum og þoldi í sárabætur hróp og hæðni vægðarlausra óvina fyrir það, hve ókarlmannlega hann bæri sig.

Munkurinn gekk til hans hljóður og alvarlegur. Það lá við, að hann kenndi í brjósti um hann, þó að hann illur væri. Svo aumlega kom nú lögmaðurinn honum fyrir sjónir.

„Hvers þarfnist þér, herra?“ spurði hann.

„Skrifta,“ stundi lögmaðurinn.

„Skrifta!“ gall einhver við í hóp Norðlendinga. „Blessaður, láttu hann ekki fara að skrifta. Hann yrði aldrei búinn. - Hann, sem tvisvar eða þrisvar hefir verið dæmdur á konungs miskunn fyrir illvirki. Við megum ekki vera að bíða eftir allri þeirri syndaskrá.“

„Við kunnum hana utanbókar,“ mælti annar. „Rógur, illmælgi, - rán, manndráp, nauðganir; - er það ekki það helsta? - Og svo auðvitað ofát og ofdrykkja, ófriðargirni og óhóf í öllu. Þess konar smámuni getur hann geymt sér að telja upp, þangað til hann hittir einhvern í hinu lífinu.“

„Ég vil skrifta,“ stundi lögmaðurinn aftur.

„Heilög kirkja neitar engum um að létta samvisku sína fyrir andlátið,“ mælti munkurinn alvarlega. „Vel kann að vera, að þessi maður hafi eitthvert það leyndarmál, sem hann vill leggja í hendur hins heilaga valds, áður en hann skilur til fulls við heiminn.“

Norðlendingar virtu alvöru og einbeitni munksins og þokuðu sér fjær, án þess að mæla á móti. Víður mannhringur stóð utan um lögmanninn og munkinn.

Munkurinn laut nú með eyrað að vörum lögmannsins, til að heyra leyndarmál hans.

„Það er satt,“ mælti Jón skráveifa með veikri röddu. „Það er satt - því miður - allt saman, sem um mig var sagt áðan. - Ég hefi verið breyskur - allt of breyskur, pater, - mesti syndaþrjótur. - Það eru ósköpin öll af glæpum, - ja, ég nefni það glæpi, eiginlega eru það ekki annað en syndir, - algengar syndir nú á dögum, - og nú skal ég bæta það allt saman upp. - Nú skal ég verða góður maður og gera öllum gott. - - Frelsaðu mig! - Frelsaðu mig!“

„Er það ekki annað en þetta - -?“

„Frelsaðu mig, frelsaðu mig! - Ég bið þig grátandi. - Þú getur haft einhver ráð. Þeir treysta þér. Þeir gera allt fyrir þig. - Segðu þeim, að ég ætli að ganga í klaustur, verða heilagur maður, þjóna guði til æviloka. - Segðu þeim, að upp frá þessari stundu heyri ég kirkjunni til. Það sé hennar skaði að missa mig. - Segðu þeim eitthvað, - eitthvað, sem þér dettur í hug. - - En frelsaðu mig. - Gerðu það vegna guðs - - .“

„Lesið þér „De profundis“, (Kaþólskur iðrunarsálmur. Sbr. 130. sálm Davíðs.) herra. Tíminn er naumur.“

„Ekki strax. - - Frelsaðu mig. - Ég skal gera þig ríkan. Ég skal gefa þér Reykholt, - 20 hundraða jörð, - eða - - .“

„De profundis, herra,“ mælti munkurinn ósveigjanlegur og hélt róðukrossinum upp fyrir augu lögmanninum. „Lesið De profundis. - Ævistundir yðar eru augnablik, sem telja fljótt af sér.“

„De profundis, - de profundis. - - Ó, ég man það ekki. Allt hringlar í höfðinu á mér, - allt hringsnýst í kringum mig. - De profundis, - mér hefir aldrei verið um þessar latínubænir. - - Heyrðu, pater. - Ég á líka Hól í Bolungarvík. - Það er vænsta jörð, 36 hundruð, - - og svo á ég Arnarstapa og Einarslón. - Nei, ekki Einarslón, - ég gaf Kolbeinsstaðakirkju það fyrir sálu minni. - Ein sálumessa á viku, það er ekki mikið fyrir aðra eins jörð. - De profundis, - og svo er ég hræddur um, að ekkert gagn sé að þessum sálumessum. - En ef þú vilt Einarslón heldur, pater - - -. Já, já, - de profundis - hvað kemur svo?“

„- clamavi ad te, domine,“ minnti munkurinn hann á.

„Clamavi - ad te, - domine. - Ég kunni þetta einu sinni á fingrunum, en nú er ég snarruglaður í því. - Allar jarðirnar, pater, ef þú getur frelsað mig. - Heyrirðu það? - Allar jarðirnar, - hundrað hundraða í jörðum. - Clamavi ad te -. Heyrirðu það, pater? - Skerðu af mér böndin, svo hleyp ég. - Þeir skulu ekki ná mér, - ekki einu sinni á hestum. Enginn skal ná mér - - .“

Munkurinn lét sem hann heyrði ekki.

„- - Domine exaudi vocem meam.“

„Domine, - exaudi - vocem - me-am,“ át lögmaðurinn eftir, en gerði um leið tryllda tilraun til að slíta af sér böndin.

„Nú er nóg komið,“ hrópaði einn af höfðingjum Norðlendinga og gaf um leið bendingu um það, hvað gera skyldi.

Munkurinn flýtti sér að smyrja hinni síðustu olíu á enni lögmannsins og lesa hina lögboðnu latínugrein. Síðan færði hann sig frá honum, um leið og hann þó rétti honum róðukrossinn til að kyssa hann.

Lögmaðurinn fann, að öll von var úti. Grátandi og skjálfandi kyssti hann fætur myndarinnar á róðukrossinum.

Sterkar og harðar hendur læstust í hári hans og teygðu höfuðið fram yfir höggstokkinn svo fast, að vöðvarnir aftan í hálsinum stóðu stríðþandir. Lögmaðurinn hljóðaði upp af sársauka og skelfingu, en það tók snöggt fyrir þau hljóð. Sama breiðöxin, sem fyrr hafði orðið Smið hirðstjóra að bana, gekk nú einnig milli bols og höfuðs á Jóni skráveifu.