Veislan á Grund/15. kafli

Úr Wikiheimild
Veislan á Grund höfundur Jón Trausti
15. kafli

Inni í skálanum var ægilegt um að litast. Þar lágu 13 menn dauðir, og gólfið flaut allt í lifruðu blóði. -

Helga húsfreyja gekk þar um með þjónustustúlkum sínum og batt um sár manna. Hún líknaði öllum, sem hún fann, að hjálpar þörfnuðust, hvort sem þeir voru að sunnan eða norðan, hvort sem þeir höfðu barist með henni eða móti. Og þá, sem verst voru haldnir, lét hún bera út í kirkju til frekari hjúkrunar.

Að lokum gekk hún um endilangan skálann og tók á hinum föllnu, til að vita, hvort úti væri um alla lífsvon. Hún hélt að sér kyrtlinum, stiklaði gætilega í blóðpollunum og steig yfir líkin. Hugur hennar og kjarkur var hinn sami í líknarstarfseminni sem í baráttunni og hættunni.

Eyfirðingar komu inn í skálann eftir aftöku Jóns lögmanns. Munkurinn var í för með þeim.

„Eigum við ekki að ryðja skálann, húsfreyja?“ spurði einn af fyrirliðum þeirra.

„Ekki að svo stöddu,“ mælti hún. „Ekki fyrr en Björn sonur minn er kominn heim. Ég hefi sent eftir honum. Ég vil að hann sjái, hvað móðir hans hefir að unnið í nótt.“

„Og spjótsoddurinn þarna skal standa í þilinu, þar til Einar bóndi minn kemur heim,“ mælti hún enn fremur. „Ég fyrirbýð öllum að hreyfa hann. - Það er ekki á hverjum degi, að spjóti sé stefnt á konu.“

Hún var nú komin að dyrunum, sem lágu út í afhúsið, og skyggndist þangað inn. Þar sat Skreiðar- Steinn auðum höndum og japlaði skegglausum skoltunum yfir fiskasteininum.

„Og vesalings Steinn gamli hefir fórnað sínu fagra, gráa skeggi okkur til sigurs. - Ég þakka þér fyrir, Steinn minn. Fórnin hefir komið að góðu haldi. Og ég skal reyna að láta þig eiga gott, - að minnsta kosti meðan skeggið er að vaxa aftur.“

Skreiðar-Steinn leit upp og glápti á húsmóður sína um stund. Hann skildi ekkert í þessari hlýju kveðju. Loks mælti hann:

„Mér þykir verst af öllu að finna hvergi nokkurs staðar sleggjuna.“

„Sleggjan er vís,“ mælti húsfreyjan og brosti við. „En það verður ekki barinn fiskur með henni framar. Hún verður geymd inni í dyngju minni sem helgur gripur. - Þú skalt bráðum fá aðra sleggju.“

Steinn skildi hvorki upp né niður í þessu.

En húsfreyjan tók hörpuna sína í fang sér og bar hana inn í dyngju sína. Hún var ötuð blóði, eins og allt annað í skálanum.

Þegar húsfreyjan var komin inn í dyngjuna, kom Dísa litla á eftir henni og rétti henni hnífinn og beltið.

„Ég þurfti ekki á því að halda,“ mælti hún feimnislega.

„Það var gott, barnið mitt. Fórst þessum manni vel við þig?“

„Hann sat hjá mér eins og góður bróðir og hélt um höndina á mér. Hann háttaði ekki og fór ekki úr herklæðunum. Hann sagðist bíða og hlusta, hvort enginn þyrfti síns liðsinnis við. - Hann sagðist vona, að ekki yrði farið illa með neina af okkur stúlkunum, því að eiginlega væri það ekki nema einn maður í hópnum, sem hann vissi, að einskis svifist. En hann hlustaði samt með athygli eftir hverju hljóði, sem hann heyrði.“

Dísa þagnaði um stund, og augu hennar stóðu full af tárum, en Helga sá það á henni, að henni var enn þá eitthvað niðri fyrir. Loks kastaði Dísa sér grátandi um háls henni og mælti:

„Láttu gefa þessum manni líf, fóstra mín. Hann er svo góður og göfuglyndur, - og mér þykir svo vænt um hann. Gerðu það fyrir mín orð, elsku fóstra. Láttu gefa honum líf.“

„Hann verður ekki drepinn,“ mælti Helga. „Hann er frændi okkar í framættir. Vertu óhrædd. Hann verður ekki drepinn. - Það verður enginn maður drepinn af þeim, sem nú hafa gengið til griða.“

Dísa hoppaði upp af fögnuði.

„Hreinsaðu nú hörpuna mína, Dísa mín. Hún hefir orðið okkur að ómetanlegu liði, - enda ber hún þess merki.“

Dísa var svo glöð, að hún vildi allt gera húsmóður sinni til þægðar, - líka það að þurrka upp mannablóð. En svo mælti hún allt í einu:

„Hver var það, sem sló hörpuna í nótt? - Það var ekki Skreiðar-Steinn.“

Húsfreyjan varð hugsandi.

„Það var maður, sem forsjónin sendi mér eins og verndar- og hjálparengil, þegar mér lá mest á. Þeim manni fæ ég aldrei að fullu launað.“

Samtal þeirra varð ekki lengra, því að ein af griðkonunum kom með gríðarlegu írafári inn í dyngjuna.

„Hvað gengur á?“ spurði húsfreyjan.

Stúlkan stóð á blístri af skelfingu, og augun ætluðu út úr henni. Hún gat engu orði upp komið, en benti og baðaði út höndunum.

Húsfreyjan sá, að eitthvað var mikið á seyði, og fylgdi stúlkunni eftir inn í mjólkurbúrið.

Þar lágu mjólkursletturnar um allt gólfið, en niðri í einu mjólkurtroginu lá höfuð Smiðs hirðstjóra. Það, sem eftir var í troginu, var rautt af blóði.

Það var sem húsfreyjunni yrði bilt við í svip, er hún sá þetta höfuð, sem hvílt hafði við barm hennar um nóttina. Svo varð svipur hennar harður sem stál, og hún hló kuldalega.

„Er það ekki annað en þetta, sem komið hefir fyrir?“ mælti hún. „Einhvers staðar varð höfuð þetta að lenda, fyrst það hrökk inn fyrir bitann.“

„En, húsfreyja -?“ mælti stúlkan ráðþrota.

„En - hvað? Þetta höfuð kallaði mig „helvítis norn“ í morgun. - Og nú liggur það þarna.“

Síðan ætlaði hún að ganga fram í skálann, en stúlkan kallaði á eftir henni:

„Á ekki að fleygja mjólkinni?“

Helga sneri sér við í dyrunum og mælti hvatlega:

„Fleygja mjólkinni? - Hvers vegna ætti að fleygja mjólkinni? - Má ekki slá henni saman við hitt til grautargerðar? - Að minnsta kosti má þó kasta henni fyrir kálfana.“

Að svo mæltu gekk hún fram í skálann, en lét griðkonuna eina um það, hvað hún gerði við höfuð hirðstjórans og mjólkina.

„Nú standa menn þessir allir fyrir dómstóli drottins,“ mælti hún hátt við munkinn. „Syngdu sálumessu, pater. Ekki mun af veita.“ Rétt á eftir laut hún að eyra munksins og mælti hljótt: „Bráðum get ég búið mig til suðurgöngu, pater, þegar Björn minn vex betur upp. Lengi hefir mér leikið hugur á að sjá Rómaborg. Hingað til hefir það hindrað mig, að ég hefi ekkert sögulegt haft til að segja hinum heilaga föður, páfanum. Illt var að gera sér og honum slíkt ómak fyrir smáyfirsjónir einar. - Hvað segirðu um það, pater, að slást í förina?“


Skömmu seinna hóf munkurinn sálumessu í sjálfum skálanum, yfir blóðugum valnum. Eyfirðingar og Sunnlendingar þeir, sem gengið höfðu til griða og rólfærir voru fyrir sárum, voru þar inni og hlýddu á hina hátíðlegu kirkjuathöfn.

Munkurinn var skrýddur öllum prestsskrúða og bar stóran róðukross og reykelsisker. Hann veifaði reykelsiskerinu yfir líkunum og söng með þýðri, karlmannlegri röddu:

„Requiem aeternam dona eis, domine,
et lux perpetua luceat illis - - .“

Latínusöngurinn og reykelsisilmurinn fylgdust að um skálann sem boðberar hins heilaga, eilífa og óskiljanlega valds, leggjandi friðandi og friðþægjandi, en þó myndugar móðurhendur á hinar æstu öldur í hugsunum manna og tilfinningum, vaggandi þeim til værðar og jafnvægis.