Wikiheimild:Texti dagsins/29. ágúst 2007

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Brúðardraugurinn eftir Benedikt Gröndal:
Riddarinn og frúin. Koparstunga frá 15. öld.

Barúninn fylgdi riddaranum út í hallargarðinn, þar stóð hestur riddarans og stappaði í steingólfið; tungl var í fyllingu og glóðu fáksaugun við mánageislanum eins og helstjörnur í myrkheimi. Þá nam riddarinn staðar og mælti við barúninn, en rödd hans var eins og feigðarómur úr dauðra manna gröfum: "Nú mun ég segja yður, hvað því veldur, að ég fer á brottu héðan. Ég hef heitið að koma" - . Barúninn tók fram í ræðu riddarans og mælti: "Þér getið sent annan fyrir yður." "Það má ég eigi," mælti riddarinn, "ég verð að koma á þessari miðnæturstundu til kirkjunnar í Trentuborg." "Það getið þér geymt til morguns," mælti barúninn, "komið þér nú og stígið þér á brúðarbeðinn."

"Nei", mælti riddarinn með dimmri röddu, "mitt hjarta byggir engin brúðarást og mitt hold mun eigi byggja brúðarsæng, því að köldum ná skal kuldi fróa og andaðan ormar örmum vefja, um miðnætti skal ég und mána blunda og brostin augu und brúnum glóa."

Að því mæltu sté hann á bak; hesturinn þaut með hann út í náttmyrkrið eins og stormbylur, og var þegar horfinn. (meira...)

Síðustu dagar: Landnámabók - Piltur og stúlka - Rímur af Grámanni í Garðshorni