Wikiheimild:Texti dagsins/júlí 2007
TEXTI DAGSINS tilnefningar |
2007 · 2008 |
janúar · febrúar · mars · apríl · júní · júlí · ágúst · september · október · nóvember · desember |
- 3. júlí
- Úr Reisupassa Sölva Helgasonar:
Sýslumaðurinn yfir Norðurmúlasýslu gjörir vitanlegt: að herra silfur- og gullsmíður, málari og hárskerari m.m. Sölvi Helgason Guðmundsen, óskar í dag af mér reisupassa frá Norðurmúlasýslu yfir austur- og suður- og norðurfjórðunga Íslands, til ýmislegra þarflegra erinda. Meðfram öðrum hans erindum, ætlar hann að setja sig niður í einhverri sýslu á þessari ferð sem annar handverksmaður, hver að er þó flestum handverksmönnum meiri, og betur að sér til sálar og líkama. (meira...)
- 4. júlí
- Úr Gísls þætti Illugasonar:
Í þenna tíma voru í Noregi margir íslenskir menn. Þá var þar Teitur son Gissurar biskups og þá urðu þar þau tíðindi að íslenskur maður sá er Gísl hét vó víg og var sá maður er veginn var hirðmaður Magnúss konungs. En Gísl rak það til þessa snarræðis að hann átti að hefna föður síns en þessi maður hét Gjafvaldur er Gísl vó. Hann hafði verið að vígi Illuga föður hans. (meira...)
- 5. júlí
- Úr 15. kafla Landnámabókar:
Bræður tveir námu Akranes allt á milli Kalmansár og Aurriðaár; hét annar Þormóður; hann átti land fyrir sunnan Reyni og bjó að Hólmi. Hann var faðir Bersa og Þorlaugar, móður Tungu-Odds.
Ketill átti Akranes fyrir vestan og fyrir norðan Akrafell til Aurriðaár. Hans son var Jörundur hinn kristni, er bjó í Görðum; þar hét þá Jörundarholt. Jörundur var faðir Klepps, föður Einars, föður Narfa og Hávars, föður Þorgeirs. (meira...)
- 6. júlí
- Úr Formála yfir S. Páls pistil til Kolossia í Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar:
Líka svo sem að sá pistill til þeirra í Galata térar sér og hegðan hefir eftir þeim pistli til Rómverja og það sama í stuttu máli innilykur hvað sá til Rómverja víðar og ríkulegar útbreiðir, svo térar sér og þessi pistill til Kolosenses eftir þeim til Efesios og inniheldur það sama í skömmu máli.
Í hinum fyrsta lofar postulinn þá og æskir þeim í Kolossia það þeir blífi í trúnni og áauki sig og útbreiðir hvað evangelium og trúan sé, einkum þá visku sem viðurkennir Kristum einn Drottin og Guð fyrir oss krossfestan sem af veraldar upphafi var hulinn, og nú sé hann fyrir sitt embætti auglýstur. Það er hinn fyrsti kapítuli. (meira...)
- 7. júlí
- Úr Prologus Heimskringlu:
Á bók þessi lét eg rita fornar frásagnir um höfðingja þá er ríki hafa haft á Norðurlöndum og á danska tungu, svo sem eg hefi heyrt fróða menn segja, svo og nokkurar kynslóðir þeirra eftir því sem mér hefir kennt verið, sumt það er finnst í langfeðgatali þar er konungar eða aðrir stórættaðir menn hafa rakið kyn sitt, en sumt er ritað eftir fornum frásögnum eða kvæðum eða söguljóðum er menn hafa haft til skemmtanar sér. Þótt vér vitum eigi sannindi á því þá vitum vér dæmi til að gamlir fræðimenn hafi slíkt fyrir satt haft. (meira...)
- 8. júlí
- Sagan af Aksjid soldáni úr Þúsund og einni nótt:
„Aksjid soldán í Egiptalandi var kominn að fótum fram, og fann að hann átti skammt ólifað. Kallaði hann þá á þrjá sonu sína og mælti við þá: „Börn mín, bráðum mun ég standa fyrir guðs dómstóli með verkum mínum. En áður en engill dauðans leggur höfuð mitt út af, býð ég yður að gera útför mína virðulega, Ég vil sjá hvernig þér munið gera hana að mér látnum. (meira...)
- 9. júlí
- Tunnan valt eftir séra Jón Þorláksson:
- Tunnan valt og úr henni allt
- ofan í djúpa keldu.
- Skulfu lönd og brustu bönd,
- en botngjarðirnar héldu.
(meira...)
- 10. júlí
- 82. kafli Landnámabókar:
Rögnvaldur jarl á Mæri, son Eysteins glumru Ívarssonar Upplendingajarls, Hálfdanarsonar hins gamla; Rögnvaldur átti Ragnhildi, dóttur Hrólfs nefju. Þeirra son var Ívar, er féll í Suðureyjum með Haraldi konungi hinum hárfagra. Annar var Göngu-Hrólfur, er vann Norðmandi; frá honum eru Rúðujarlar komnir og Englakonungar. Þriðji var Þórir jarl þegjandi, er átti Álöfu árbót, dóttur Haralds konungs hárfagra, og var þeirra dóttir Bergljót, móðir Hákonar jarls hins ríka. (meira...)
- 11. júlí
- Þorvalds þáttur tasalda:
Ólafur konungur var þar fyrir í bænum, nýkominn sunnan úr landi. Og þegar konungur vissi að þar voru komnir kaupmenn heiðnir af Íslandi þá boðaði hann Þorvaldi á sinn fund og bað hann láta skírast. Þorvaldur játaði að vinna það til vinganar konungs að láta skírast og taka við kristni. Konungur sagði að hann skyldi því alvörulegri fá hans vináttu sem hann léti auðveldlegar að hans orðum og boðskap. Var Þorvaldur þá skírður og hans skipverjar. Þorvaldur var með konungi um veturinn í góðri sæmd. (meira...)
- 12. júlí
-
- Vísan Kossút, eignuð Benedikt Gröndal:
- Mér er sem ég sjái Kossút,
- á sinni gráu reka hross út,
- sína gerir svipu upp vega
- sérastefánsámosfellilega.
(meira...)
- 13. júlí
- Sagan af öfundarmanninum og hinum öfundaða úr Þúsund og einni nótt:
Í einni mikils háttar borg bjuggu tveir menn og stóðu hús þeirra hvort hjá öðru; hafði annar þeirra beiska öfund á hinum. Voru svo mikil brögð að því, að sá, sem fyrir öfundinni varð, réði það af að flytja burt, því hann þóttist sannfærður um, að nábúi hans hefði ekki orðið hatursmaður hans af öðru en því, að þeir bjuggu svo nálægt hvor öðrum, því hann hafði tekið eftir því, að hvað mikinn og margfaldan greiða, sem hann gerði honum, þá dró það ekkert úr úlfúð hans. (meira...)
- 14. júlí
- 17. kafli Jómsvíkinga sögu:
Og nú er hann verður var við kvámu þeirra Sigvalda, þá gerir Pálnatóki enn sem hann var vanur: geingur upp í kastalann með miklu liði og spyr þaðan hver fyrir liði því réði og skipum, er þá var þar komið. Sigvaldi svarar honum: „Hér ráða fyrir,“ sagði hann, „bræður tveir, synir Strút-Haralds jarls, og heiti eg Sigvaldi, en bróðir minn heitir Þorkell. En það er örendi okkart hingað, að við vildim ráðast til liðs með yður við þeim mönnum er yður þykja nýtandi vera í voru liði.“ (meira...)
- 15. júlí
-
- Úr kvæðinu „Hún kyssti mig“ eftir Stefán frá Hvítadal:
- Heyr mitt ljúfasta lag,
- þennan lífsglaða eld,
- um hinn dýrlega dag
- og hið draumfagra kveld.
- Rauðu skarlati skrýðzt
- hefur skógarins flos.
- Varir deyjandi dags
- sveipa dýrlingabros.
(meira...)
- 16. júlí
-
- Hinn fyrri pistill s. Petrus úr Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar:
Þér sem nú litla stund (hvað að byrjar) hryggvir eruð í margvíslegum freistingum upp á það að yðvar trú réttilegri og dýrðmætari fundin yrði (en það hið forgengilega gull sem í eldi reynt verður) til lofs, dýrðar og heiðurs nær eð nú Jesús Kristus man opinberast,* þann þér sáuð ekki og þó elskið og nú á hann trúið. Þó að þér sjáið hann eigi, svo munu þér og einninn gleðjast með óumræðanlegri og dýrðarsamlegri gleði og endalok yðvarrar trúar þar af berandi sem er hjálpræði yðvarra sálna. (meira...)
- 17. júlí
-
- „Tíminn“ eftir Pál Ólafsson:
- Tíminn mínar treinir ævistundir.
- Líkt sem kemba er teygð við tein,
- treinir hann mér sérhvert mein.
- Skyldi hann eftir eiga að hespa, spóla
- og rekja mína lífsins leið,
- láta í höföld, draga í skeið?
(meira...)
- 18. júlí
- Úr 7. kafla Hálfdanar sögu svarta í Heimskringlu Snorra Sturlusonar:
Hálfdan konung dreymdi aldrei. Honum þótti það undarlegt og bar fyrir þann mann er nefndur er Þorleifur spaki og leitaði ráða hvað er að því mætti gera. Þorleifur sagði hvað hann gerði ef hann forvitnaði nokkurn hlut, að hann færi í svínabæli að sofa og brást honum þá eigi draumur. (meira...)
- 19. júlí
- Úr 86. kafla Landnámabókar:
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar. (meira...)
- 20. júlí
-
- Úr vísunni „Krummi svaf í klettagjá“ eftir Jón Thoroddsen eldri:
- Krummi svaf í klettagjá,
- kaldri vetrarnóttu á,
- verður margt að meini.
- Fyrr en dagur fagur rann,
- freðið nefið dregur hann
- undan stórum steini.
(meira...)
- 21. júlí
-
- Vísa Þorbjörns hornklofa úr 16. kafla Haraldar sögu hárfagra í Heimskringlu:
- Úti vill jól drekka,
- ef skal einn ráða,
- fylkir hinn framlyndi
- og Freys leik heyja,
- ungr leiddist eldvelli
- og inni að sitja,
- varma dyngju
- eða vöttu dúns fulla.
(meira...)
- 22. júlí
-
- Kvæðið Heift eftir Grím Thomsen:
- Tveir á heiði hittust reiðir,
- hver mót öðrum feigur sneri,
- nornin kalda grimman galdur
- galið hafði þeim og vélar.
- Illum tárum augun fylltust,
- annarlegu brostu gamni,
- fann hver bana í brosi annars,
- brugðu hjörvum, týndu fjörvi.
(meira...)
- 23. júlí
- Úr S. Páls pistli til Kolossenses í Nýja testamentisþýðingu Odds Gottskálkssonar:
Páll postuli Jesú Kristi fyrir Guðs vilja og Tímóteus bróðir. Þeim heilögum til Kolossia og þeim trúuðum bræðrum í Kristo. Náð sé með yður og friður af Guði vorum, föður og Drottni Jesú Kristo. Vér þökkum Guði og föður vors Drottins Jesú Kristi og biðjum alla tíma fyrir yður af því vér höfum heyrt af yðvarri trú á Jesúm Kristum og af kærleiknum til allra heilagra fyrir þeirrar vonar sakir sem yður er tillögð á himnum, af hverri þér hafið til forna heyrt fyrir sannleiksins orðið í evangelio það til yðar er komið svo sem það er um allan heiminn, grær og frjóvgast. Svo og einninn líka meðal yðar allt í frá þeim degi er þér höfðuð það heyrt og viðurkennt Guðs náð í sannleika svo sem þér lært hafið af Epafra, vorum kæra meðþénara, hver að er trúr þjón Kristi fyrir yður, sá oss einninn kunngjörði yðvarn kærleika í andanum. (meira...)
- 24. júlí
- Þórarins þáttur stuttfeldar:
Fer Íslendingur er síðan var kallaður Þórarinn stuttfeldur og kemur að drykkjustofunni og stóð maður úti og hafði horn í hendi og mælti til Íslendings: „Það mælti konungur að þú skyldir yrkja vísu áður þú gengir inn ef þú vildir þiggja nokkura vingjöf af honum og kveða of þann mann er Hákon heitir Serksson er kallaður er mörstrútur og geta þess í vísunni.“ (meira...)
- 25. júlí
-
- Fimmta ferð Sindbaðs farmanns úr Þúsund og einni nótt:
„Ég hafði enn þá svo mikið yndi af unaðsemdum lífsins, að ég gleymdi öllum þrautum og hörmungum, sem ég hafði þolað, en gat samt ekki orðið afhuga nýjum ferðum. Keypti ég því vörur, lét búa um þær, hlaða þeim á vagna og flytja til næstu hafnar. Nú vildi ég eigi vera háður neinum skipráðanda, og lét því gera skip á sjálfs mín kostnað og búa það. (meira...)
- 26. júlí
-
- 3. kafli Haraldar sögu hárfagra úr Heimskringlu:
Hún svaraði á þessa lund að eigi vill hún spilla meydómi sínum til þess að taka til manns þann konung er eigi hefir meira ríki en nokkur fylki til forráða. „En það þykir mér undarlegt,“ segir hún, „er engi er sá konungur er svo vill eignast Noreg að vera einvaldi yfir sem hefir Gormur konungur að Danmörku eða Eiríkur að Uppsölum.“ (meira...)
- 27. júlí
- Úr Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen eldri:
Ég þykist skilja, að þér hafið ekki tekið eftir því, sem þér sögðuð, herra Möller!
Hvað sagði ég?
Þér sögðuð, að þetta væri myndin konunnar yðar; varð yður þá ekki mismæli?
Á, sagði ég það? Ha! ha! Ónei, mér varð ekki háskalega mismæli. Skoðið þið! Ég gjöri það að gamni mínu, að ég kalla hana konuna mína, af því það er sú eina konumyndin, sem ég hef að búa við og hérna er til í húsinu; ég býð henni góðan dag á hverjum morgni og góðar nætur á kveldin, en ekki þori ég að hafa hana í svefnherberginu, því þá held ég, að ég yrði myrkfælinn; það er einhver gömul kerlingarmynd, eins og þið sjáið, ljót og leiðinleg, en það vill til, að það er ekki hætt við, að nokkur mundi trúa því, að önnur eins skepna væri konan mín; og látum okkur ekki tala meira um það, stúlkur. (meira...)
- 28. júlí
-
- Úr Þjóðfundarsöngi 1851 eftir Bólu-Hjálmar:
- Móðir vor með fald og feldi
- fannhvítum á kroppi sér,
- hnigin að æfi kalda kveldi,
- karlæg nær og holdlaus er:
- grípi hver sitt gjald í eldi,
- sem gengur frá að bjarga þér.
(meira...)
- 29. júlí
- 31. kafli Landnámabókar:
Auðun sá um haust, að hestur apalgrár rann ofan frá Hjarðarvatni og til stóðhrossa hans; sá hafði undir stóðhestinn. Þá fór Auðun til og tók hinn grá hestinn og setti fyrir tveggja yxna sleða og ók saman alla töðu sína. Hesturinn var góður meðfarar um miðdegið; en er á leið, steig hann í völlinn til hófskeggja; en eftir sólarfall sleit hann allan reiðing og hljóp til vatnsins. Hann sást aldri síðan. (meira...)
- 30. júlí
- Þorvalds þáttur víðförla:
Maður er nefndur Eilífur örn. Við hann er kennt eitt hið hæsta fjall á Reykjaströnd í Skagafirði. Eilífur örn var son Atla Skíðasonar hins gamla, Bárðarsonar jarls. Eilífur örn átti Þorlaugu dóttur Sæmundar hins suðureyska er nam Sæmundarhlíð. Þau áttu þrjá sonu. Hét einn Sölmundur, faðir Guðmundar, föður Víga-Barða og bræðra hans. Annar var Atli hinn rammi. Hann átti Herdísi dóttur Þórðar frá Höfða. Þeirra dóttir var Þorlaug er átti Guðmundur hinn ríki á Möðruvöllum. Þriðji son Eilífs arnar hét Koðrán er bjó að Giljá í Vatnsdal. Hann var auðigur maður. Kona hans hét Járngerður. Son þeirra hét Ormur en annar Þorvaldur. (meira...)
- 31. júlí
-
- Úr 1. rímu Pontus rímna eftir Magnús prúða:
- 46. Spanía kom að soldáns son,
- sá sem Pródus heitir,
- dró sér þá að vísu von
- að vinna kristnar sveitir.
- 47. Á Galisía gekk hann land,
- grimmur í brynju skærri,
- tuttugu mönnum beint í bland
- borg Sólógírem nærri.
(meira...)