Wikiheimild:Texti dagsins/nóvember 2007

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
TEXTI DAGSINS tilnefningar
2007 · 2008

janúar · febrúar · mars · apríl · júní · júlí · ágúst · september · október · nóvember · desember

1. nóvember
Úr Landnámabók:

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri. En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands. (meira...)

Síðustu dagar: Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn - Allt fram streymir - Brennu-Njáls saga


skoða - spjall - saga


2. nóvember
Úr Alþingisrímum:
Fyrir stríðið fjárlaga
flestir stika þingmenn djarft,
af því víða aflaga
ýmsum þykir fara margt.


Heyrast ópin æðihá,
upp í rót er þingið fer;
stjórnar sópa strompinn þá,
strýkur sótið hver af sér.

(meira...)

Síðustu dagar: Landnámabók - Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn - Allt fram streymir


skoða - spjall - saga


3. nóvember
Úr Magnússona sögu í Heimskringlu:

Nikulás konungur sendi orð Sigurði konungi Jórsalafara og bað hann veita sér lið og styrk allan af sínu ríki og fara með Nikulási konungi austur fyrir Svíaveldi til Smálanda að kristna þar fólk því að þeir er þar byggðu héldu ekki kristni þótt sumir hefðu við kristni tekið. Var þann tíma víða í Svíaveldi mart fólk heiðið og mart illa kristið því að þá voru nokkurir þeir konungar er kristni köstuðu og héldu upp blótum, svo sem gerði Blót-Sveinn eða síðan Eiríkur hinn ársæli. (meira...)

Síðustu dagar: Alþingisrímur - Landnámabók - Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn


skoða - spjall - saga


4. nóvember
Gísls þáttur Illugasonar (úr B-gerð Jóns sögu helga):

Síðan mælti hann til konungs: „Male diarik.“ En það er á vora tungu „bölvaður sért þú konungur.“

Þá svaraði einn konungsmaður: „Herra,“ segir hann, „þessi maður mun vera þræll allra Norðmanna.“

Konungur svarar: „Olgeira ragall.“ Það er á vora tungu „ókunnig er myrk gata.“

Konungurinn var vel við þá. Magnús konungur herjaði síðan á Írland. (meira...)

Síðustu dagar: Magnússona saga - Alþingisrímur - Landnámabók


skoða - spjall - saga


5. nóvember
Úr kvæðinu Rask eftir Þorstein Erlingsson:
Því fátt er frá Dönum, sem gæfan oss gaf,
og glöggt er það enn, hvað þeir vilja.
Það blóð, sem þeir þjóð vorri út sugu af,
það orkar ei tíðin að hylja:
svo tókst þeim að meiða´ hana meðan hún svaf
og mjög vel að hnupla og dylja;
og greiðlega rit vor þeir ginntu um haf -
það gengur allt lakar að skilja.

(meira...)

Síðustu dagar: Gísls þáttur Illugasonar (úr B-gerð Jóns sögu helga) - Magnússona saga - Alþingisrímur


skoða - spjall - saga


6. nóvember
Úr Jómsvíkinga sögu:

En þeir Sveinn Hákonarson og Þorkell leira ganga þangað að honum; og er þeir koma þar, þá spurði Hávarður: „Hvernig er, sveinar,“ segir hann, „hvort kom héðan nokkur sending af skipinu í nótt þangað á land til yðvar eða engi?“

Þeir svara: „Kom að vísu,“ segja þeir; „eða hvort hefir þú því valdið?“

„Ekki er þess að dylja,“ segir hann, „að eg senda yður, eða hvort varð nokkurum manni mein að er örin nam staðar?“

Þeir svara: „Bana fékk sá af,“ segja þeir, „er fyrir varð.“

„Vel er þá,“ segir hann, „eða hver varð fyrir maðurinn?“ (meira...)

Síðustu dagar: Rask - Gísls þáttur Illugasonar (úr B-gerð Jóns sögu helga) - Magnússona saga


skoða - spjall - saga


7. nóvember
Veislan á Grund eftir Jón Trausta:

„Ætíð sérðu illar vættir í hverju horni,“ gegndi Smiður glaðlega. „Hvað ætti að búa hér undir? Ertu hræddur við munkana hinum megin við ána? Eða við hvað ertu hræddur? Það hélt ég ekki, lögmaður, að þér lægi heyvisk í hjartastað. Nú er ekki margt manna heima um Eyjafjörð. Ég hefi sannfrétt, að Einar bóndi er vestur á landi með alla menn sína. Og Þorsteinn Eyjólfsson býr nú skip sitt í snatri úti á Eyrum og hyggur á það eitt að vera lagður frá landi áður en vér komum. Það hefi ég líka sannfrétt. Eða heldurðu ekki, að honum sé það hollast? - Við hvað ertu þá hræddur?“

„Oft býr kalt undir kvennablíðu,“ mælti Jón og vildi ekki fyllilega gleðjast láta. „Mér þykja viðtökurnar hér helst til vel undir búnar.“ (meira...)

Síðustu dagar: Jómsvíkinga saga - Rask - Gísls þáttur Illugasonar (úr B-gerð Jóns sögu helga)


skoða - spjall - saga


8. nóvember
Lítið ágrip um nýja eldsuppkomu í vestara parti Skaftafellssýslu og þess verkanir sem framkomnar eru eftir Jón Steingrímsson:

Nú er að tala um mállausar skepnur. Þegar öskufallið og brennisteinsregnið yfir dreif gat enginn kvikfénaður sér til nokkra nota gras bitið heldur hvað þar af varð bitið gjörði þá mestu ólyfjan í innyflunum. Hlupu því skepnurnar hingað og þangað í torfærur og ófæra vegu. Öllu ærfé var sleppt því það sinnti ei lömbum og það ei bráðdó og ei var afskorið hefur ei síðan sést nema fáeinar skepnur sem nú eru að hrynja niður og þeir bestu gömlu sauðir sem hér voru finnast nú hingað og þangað hordauðir svo það lítur út til þess að hér á Síðu verði ei eftir ein lifandi skepna af sauðfé. Naut og kúpeningur er hér og einnin einn dag eftir annan af grassins ólyfjan að drepast. (meira...)

Síðustu dagar: Veislan á Grund - Jómsvíkinga saga - Rask


skoða - spjall - saga


9. nóvember
Úr kvæðinu Ísland eftir Jónas Hallgrímsson:
Ó, þér unglinga fjöld
og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð
fallin í gleymsku og dá!

(meira...)

Síðustu dagar: Lítið ágrip um nýja eldsuppkomu... - Veislan á Grund - Jómsvíkinga saga


skoða - spjall - saga


10. nóvember
Úr Landnámabók:

En Einar, son hennar, var eigi heima. Hann kom heim, þá er Lón-Einar var nýfarinn á braut. Hildigunnur sagði honum þessi tíðindi og færði honum kyrtil nýgörvan. Einar tók skjöld sinn og sverð og verkhest og reið eftir þeim; hann sprengdi hestinn á Þúfubjörgum, en gat farið þá hjá Mannafallsbrekku. Þar börðust þeir og féllu fjórir menn af Lón-Einari, en þrælar hans tveir runnu frá honum. Þeir nafnar sóttust lengi, áður sundur gekk bróklindi Lón-Einars, og er hann tók þar til, hjó nafni hans hann banahögg. (meira...)

Síðustu dagar: Ísland - Lítið ágrip um nýja eldsuppkomu... - Veislan á Grund


skoða - spjall - saga


11. nóvember
Þórarins þáttur stuttfeldar:

Það barst að eitt sinn er Sigurður konungur gekk frá skytningi og til aftansöngs, voru menn drukknir og kátir, sátu úti fyrir kirkju og lásu aftansönginn. Varð söngurinn ógreiðlegur.

Mælti konungur: „Hvað karla er það er eg sé þar hjá kirkju í feldi nokkurum stuttum?“

Þeir svöruðu, kváðust eigi vita.

Konungur mælti:

Villir hann vísdóm allan.
Veldr því karl í feldinum.

(meira...)

Síðustu dagar: Landnámabók - Ísland - Lítið ágrip um nýja eldsuppkomu...


skoða - spjall - saga


12. nóvember
Úr ljóðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson:
Jóreykur lífsins þyrlast til himna,
menn í aktygjum,
vitstola konur í gylltum kerrum.
- Gefið mér salt að eta, svo tungan skorpni í
mínum munni
og minn harmur þagni.

(meira...)

Síðustu dagar: Þórarins þáttur stuttfeldar - Landnámabók - Ísland


skoða - spjall - saga


13. nóvember
Úr Snjáfjallavísum eftir Jón lærða:
Bandagormurinn gleiði,
þig guðs son burt sneiði,
lymskur árinn leiði,
þig límdan á breiði;
ryð eg þig burt með reiði,
ríf sundur og meiði;
belgdur sért með bleyði,
þig bæði særi og neyði.

(meira...)

Síðustu dagar: Sorg - Þórarins þáttur stuttfeldar - Landnámabók


skoða - spjall - saga


14. nóvember
Úr S. Matteus guðspjöllum í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar:

Þessi er fæðingarbók Jesú Kristi, sonar Davíðs, sonar Abrahams. Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júdam og bræður hans, Júdas gat Farem og Saran af Tamar, Fares gat Esron, Esron gat Ram, Ram gat Amínadab, Amínadab gat Nahasson, Nahasson gat Salma, Salma gat Bóas af Rahab, Bóas gat Óbeð af Rhat, Óbeð gat Jesse, Jesse gat kónginn Davíð. En Davíð kóngur gat Salamon af þeirri sem var húsfrú Úríe, Salamon gat Róbóam, Róbóas gat Abía, Abía gat Assa, Assa gat Jósafat, Jósafat gat Jóram, Jóram gat Ósía, Ósía gat Jótam, Jótam gat Akas, Akas gat Esekía, Esekía gat Manasses, Manasses gat Amon, Amon gat Jósía, Jósía gat Jekonía og bræður hans um babyloneskan herleiðingartíma, og eftir babyloneska herleiðing gat Jekonía Sealtíel, Sealtíel gat Sóróbabel, Sóróbabel gat Abíúd, Abíúd gat Eliakím, Eliakím gat Asór, Asór gat Sódók, Sódók gat Akín, Akín gat Elíúd, Elíúd gat Eleasar, Eleasar gat Matan, Matan gat Jakob, Jakob gat Jósef, mann Maríu, af hverri eð fæddur er Jesús sá er kallast Kristur. (meira...)

Síðustu dagar: Snjáfjallavísur hinar síðari - Sorg - Þórarins þáttur stuttfeldar


skoða - spjall - saga


15. nóvember
Allir krakkar eftir Sveinbjörn Egilsson:
Allir krakkar, allir krakkar
eru í skessuleik.
Má ég ekki, mamma,
með í leikinn þramma?
Mig langar svo, mig langar svo
að lyfta mér á kreik?

(meira...)

Síðustu dagar: S. Matteus guðspjöll - Snjáfjallavísur hinar síðari - Sorg


skoða - spjall - saga


16. nóvember
Konan sem fór í svartaskólann úr Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri:

Nú leið ekki langur tími þangað til að grá loppa kemur upp á borðið með steinspjöld og stíli. Þau taka við sínu spjaldinu hvört eins og hinir fleiri sem þar sátu allt í kring við borðið. Nú fóru allir að klóra eitthvað hvör á sitt spjald, en vinnumaður skrifaði Jesú nafn á spjaldið sitt.

Undir daginn leggja nú allir spjöldin á borðið og loppan sama kemur og tekur þau öll nema spjald vinnumanns, það lá eftir á borðinu. (meira...)

Síðustu dagar: Allir krakkar - S. Matteus guðspjöll - Snjáfjallavísur hinar síðari


skoða - spjall - saga


17. nóvember
Úr Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen eldri:

Er þá tekið til að spila, og gekk þeim Indriða betur; hver strokan og múkurinn eftir annan.

Nú skulum við einu sinni fá stroku, Ormur litli! sagði Ingveldur, í því hún rétti spilin að Indriða til að draga, en það er verst, að hún Sigga á útsláttinn.

Nei, nei, ekki held ég verði stroka í þetta sinn, segir Sigríður ofur glöð, í því hún tók upp spilin, því hérna fékk ég fjóra besefa í einum slag. (meira...)

Síðustu dagar: Konan sem fór í svartaskólann - Allir krakkar - S. Matteus guðspjöll


skoða - spjall - saga


18. nóvember
Úr kvæðinu Krummi svaf í klettagjá eftir Jón Thoroddsen eldri:
Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor
svengd er metti mína.
Ef að húsum heim ég fer
heimafrakkur bannar mér
seppi´ úr sorp að tína.

(meira...)

Síðustu dagar: Piltur og stúlka - Konan sem fór í svartaskólann - Allir krakkar


skoða - spjall - saga


19. nóvember
Úr Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu:

Þetta sama haust kom Þangbrandur prestur af Íslandi til Ólafs konungs og segir sínar farar eigi sléttar, segir að Íslendingar höfðu gert níð um hann en sumir vildu drepa hann og lét enga von að það land mundi kristið verða. Ólafur konungur varð svo óður og reiður að hann lét blása öllum íslenskum mönnum saman, þeim er þar voru í bænum, og mælti síðan að alla skyldi drepa. (meira...)

Síðustu dagar: Krummi svaf í klettagjá - Piltur og stúlka - Konan sem fór í svartaskólann


skoða - spjall - saga


20. nóvember
Úr Ragnars sögu loðbrókar:

Þá stendr jarl upp ok kveðr sér hljóðs ok talar, biðr menn hafa þökk fyrir, er vel hafa skipast við hans orðsending, ok segir síðan atburð þann, sem orðinn er, fyrst frá því, hversu hann hafði um mælt við þann mann, er orminum yrði at bana, síðan, at „ormrinn er nú dauðr, ok sá hefir látit eptir standa spjótit í sárinu, er unnit hefir þetta frægðarverk. Ok ef nokkurr er sá hér kominn til þingsins, er þat skapt hafi, er þessu spjóti hæfi, beri hann þat fram ok sanni svá sögn sína, þá skal ek þat allt enda, er ek hefi um mælt, hvárt sem hann er af meirum stigum eða minnum.“ (meira...)

Síðustu dagar: Ólafs saga Tryggvasonar - Krummi svaf í klettagjá - Piltur og stúlka


skoða - spjall - saga


21. nóvember
Úr Brennu-Njáls sögu:
Spari eg eigi goð geyja.
Grey þykir mér Freyja.
Æ mun annað tveggja
Óðinn grey eða Freyja.

(meira...)

Síðustu dagar: Ragnars saga loðbrókar - Ólafs saga Tryggvasonar - Krummi svaf í klettagjá


skoða - spjall - saga


22. nóvember
Úr Postulagjörningar skrifaðir af s. Lúkas úr Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar:

En þeir sem þar voru til samans komnir, spurðu hann að og sögðu: Herra, viltu nú á þessum tíma upp rétta Ísraels ríki? En hann sagði til þeirra: Það er eigi yðart að vita stundir eður punkta tímanna, hverja faðirinn setti í sjálfs síns valdi, heldur munu þér öðlast kraft heilags anda, þess er yfir yður mun koma, og þér skuluð mínir vottar verða til Jerúsalem og í öllu Júdea og Samaría og allt til ins yðsta jarðarenda. (meira...)

Síðustu dagar: Brennu-Njáls saga - Ragnars saga loðbrókar - Ólafs saga Tryggvasonar


skoða - spjall - saga


23. nóvember
Lausavísur og brot eftir Egil Skalla-Grímsson:
Þat mælti mín móðir,
at mér skyldi kaupa
fley ok fagrar árar,
fara á brott með víkingum,
standa upp í stafni,
stýra dýrum knerri,
halda svá til hafnar
hǫggva mann ok annan.

(meira...)

Síðustu dagar: Postulagjörningar skrifaðir af s. Lúkas - Brennu-Njáls saga - Ragnars saga loðbrókar


skoða - spjall - saga


24. nóvember
Brúardrápa eftir Hannes Hafstein:
Ölfusárbrú.
Vakni von, og kvikni
varmur neisti' í barmi,
vilji, von og elja
vinnu saman inni.
Þá mun hefjast brú til betri tíða,
brú til vonarlanda frónskra lýða,
brú til frelsis, brú til mennta hæða,
brú til mannfélagsins æðstu gæða.

(meira...)

Síðustu dagar: Lausavísur og brot - Postulagjörningar skrifaðir af s. Lúkas - Brennu-Njáls saga


skoða - spjall - saga


25. nóvember
Vopnadómur Magnúsar prúða:

En hvör skutulsveinn skal eiga [alla] harneskju, fyrst spandílar, vopntreyju, brynju, brynkollu, brynglófa, brynhosur, hjálm, stálhúfu, skjöld og sverð, spjót og plátu og buklara, handboga með tveimur tylftum brodda.

Þar fyrir í þennan máta höfum vér nú dæmt með fullu dóms aðkvæði alla skattbændur skylda að kaupa og eiga eina luntabyssu og iii merkur púðurs, þar með einn arngeir og annað lagvopn gilt og gott. (meira...)

Síðustu dagar: Brúardrápa - Lausavísur og brot - Postulagjörningar skrifaðir af s. Lúkas


skoða - spjall - saga


26. nóvember
Illugadrápa eftir Stephan G. Stephansson:
Þaklausa skálanum skautaði lýsingin,
skuggaleg var þó og óvistleg hýsingin:
Grettir í fletinu fallinn og örendur,
fimm lágu andvana spellvirkja gjörendur.
Kurluðu búkarnir bærðust og titruðu,
blóðpollar storknir á gólfinu sytruðu,
lágu sem hráviði hrunið í drífunum
hrækasir skornar og leifar af hlífunum.

(meira...)

Síðustu dagar: Vopnadómur - Brúardrápa - Lausavísur og brot


skoða - spjall - saga


27. nóvember
Vísur eftir Pál Vídalín:
Kúgaðu fé af kotungi,
svo kveini undan þér almúgi.
Þú hefnir þess í héraði,
sem hallaðist á alþingi.

(meira...)

Síðustu dagar: Illugadrápa - Vopnadómur - Brúardrápa


skoða - spjall - saga


28. nóvember
Úr Þorleifs þætti jarlaskálds:

Nú skal segja þann ævintýr er gerðist á ofanverðum dögum Hákonar Hlaðajarls, í hverjum kynstrum, göldrum og gerningum hann varð forsmáður og mjög að verðugu, því að hans mannillska og guðníðingskapur varð mörgum manni til mikils þunga og óbætilegs skaða andar og líkama. (meira...)

Síðustu dagar: Vísur eftir Pál Vídalín - Illugadrápa - Vopnadómur


skoða - spjall - saga


29. nóvember
Krummavísa:
Krummi krunkar úti,
kallar á nafna sinn:
„Ég fann höfuð af hrúti
hrygg og gæruskinn.“
Komdu nú og kroppaðu með mér,
krummi nafni minn.

(meira...)

Síðustu dagar: Þorleifs þáttur jarlaskálds - Vísur eftir Pál Vídalín - Illugadrápa


skoða - spjall - saga


30. nóvember
Vísur Vatnsenda-Rósu eftir Rósu Guðmundsdóttur:
Beztan veit eg blóma þinn,
blíðu innst í reitum.
Far vel Eyjafjörður minn,
fegri öllum sveitum.

(meira...)

Síðustu dagar: Krummavísa - Þorleifs þáttur jarlaskálds - Vísur eftir Pál Vídalín


skoða - spjall - saga