Wikiheimild:Texti dagsins/október 2007

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
TEXTI DAGSINS tilnefningar
2007 · 2008

janúar · febrúar · mars · apríl · júní · júlí · ágúst · september · október · nóvember · desember

1. október
Úr Magnúss sögu Erlingssonar í Heimskringlu:

Þeir Erlingur komu að Ögðum og héldu þegar norður til Björgynjar. Þeir drápu þar Árna Brígiðarskalla, sýslumann Hákonar konungs, og fóru aftur austur þaðan til móts við Hákon konung. En Sigurður jarl hafði ekki orðið var við sunnanferðina Erlings og var hann þá enn austur við Elfi en Hákon konungur var í Túnsbergi. Erlingur lagði við Hrossanes og lá þar nokkurar nætur. Hákon konungur bjóst við í býnum. (meira...)

Síðustu dagar: Brennu-Njáls saga - Vesturfararsaga 1873 - Haralds saga hárfagra


skoða - spjall - saga


2. október
Úr Ynglinga sögu í Heimskringlu:
Myndskreyting eftir Gerhard Munthe.
Gefjun dró frá Gylfa
glöð djúpröðul öðla,
svo at af rennirauknum
rauk, Danmarkar auka.
Báru yxn og átta
ennitungl, þar er gengu
fyr vineyjar víðri
valrauf, fjögur haufuð.

(meira...)

Síðustu dagar: Magnúss saga Erlingssonar - Brennu-Njáls saga - Vesturfararsaga 1873


skoða - spjall - saga


3. október
Úr Pontus rímum eftir Magnús prúða:
1. Elska þessa efnis bað mig aftur skunda;
so er eg rímna fús til funda,
ef fljóðin vildu þar til stunda.
2. Eitt er það sem eg hefi að gáð um ævi mína:
allir safna auð fyrir sína,
aldri meina það skuli dvína.

(meira...)

Síðustu dagar: Ynglinga saga - Magnúss saga Erlingssonar - Brennu-Njáls saga


skoða - spjall - saga


4. október
Um misseris tal úr Grágás:

Hinn fimmti dagur viku skal vera fyrstur í sumri. Þaðan skal telja 3 mánuði 30 nátta, og nætur 4 til miðsumars. En frá miðju sumri skal 3 mánuði 30 nátta til vetrar. Laugardagur skal fyrstur vera í vetri, en þaðan frá skulu vera 6 mánuðir 30 nátta til sumars, en 10 vikur skulu vera af sumri er menn koma til alþingis. Dagur skal fyrr koma alls misseris tals en nótt. Lög öll skulu vera sögð upp á þremur sumrum. Skal þá lögsögumaður af hendi bjóða lögsöguna. Nýmæli ekki skal vera lengur ráðið en 3 sumur, og skal að lögbergi hið fyrsta sumar upp segja á vorþingum helguðum eða leiðum. Laus eru öll nýmæli ef eigi verða upp sögð 3. hvert sumar. (meira...)

Síðustu dagar: Pontus rímur - Ynglinga saga - Magnúss saga Erlingssonar


skoða - spjall - saga


5. október
Úr Alþingisrímum eftir Guðmund skólaskáld:

Rímurnar voru gefnar út á prenti og Valdimar Ásmundsson er þar sagður höfundurinn.

Út við grænan Austurvöll,
sem angar lengi’ á vorin,
stendur væn og vegleg höll,
vonin mænir þangað öll.
Húsið vandað háveggjað
hlær við skærum röðli,
Bald á sandi byggði það,
Bald hefur landið margsnuðað.

(meira...)

Síðustu dagar: Um misseris tal - Pontus rímur - Ynglinga saga


skoða - spjall - saga


6. október
Úr Formáli yfir S. Páls pistil til Efesios úr Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar:

Í þessum pistli kennir hinn heilagi Páll í fyrstu hvað evangelium er, að það sé alleinasta af Guði fyrir eilífar aldir fyrirhugað og fyrir Kristum forþénað og útgengið svo að allir þeir, sem þar á trúa, verði réttferðugir, frómir, lifandi, hjálplegir og af lögmálinu, syndinni og dauðanum frjálsir. Þetta gjörir hann nú fyrir þá þrjá hina fyrstu kapítula.

Eftir það kennir hann að forðast þá hjálæru og mannaboðorð, þau sem með innfærð verða, upp það að vér blífum við eitt höfuð öruggir, réttfallnir og verðum alleina fullkomnir í Kristo, af hverjum vér höfum það algjörlega svo að vér þurfum einskis utan hans. Það gjörir hann í fjórða kapítula. (meira...)

Síðustu dagar: Alþingisrímur - Um misseris tal - Pontus rímur


skoða - spjall - saga


7. október
Úr Brennu-Njáls sögu:

Það var siðvenja þeirra Gunnars og Njáls að sinn vetur þá hvor þeirra heimboð að öðrum og veturgrið fyrir vináttu sakir. Nú átti Gunnar að þiggja veturgrið að Njáli og fóru þau Hallgerður til Bergþórshvols. Þá voru þau Helgi eigi heima. Njáll tók vel við þeim Gunnari. Og þá er þau höfðu þar verið nokkura hríð kom Helgi heim og Þórhalla kona hans.

Þá gekk Bergþóra að pallinum og Þórhalla með henni og mælti Bergþóra til Hallgerðar: „Þú skalt þoka fyrir konu þessi.“

Hún svarar: „Hvergi mun eg þoka því að engi hornkerling vil eg vera.“ (meira...)

Síðustu dagar: Formáli yfir S. Páls pistil til Efesios - Alþingisrímur - Um misseris tal


skoða - spjall - saga


8. október
Fingurnir:
Þumalfingur, þumalfingur, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég.
Góðan daginn, daginn, daginn.
Vísifingur, vísifingur, hvar ert þú?
Hér er ég, hér er ég.
Góðan daginn, daginn, daginn.

(meira...)

Síðustu dagar: Brennu-Njáls saga - Formáli yfir S. Páls pistil til Efesios - Alþingisrímur


skoða - spjall - saga


9. október
Úr Ragnars sögu loðbrókar:
„Þorik eigi þann þiggja,
er Þóra hjörtr átti,
serk við silfd of merkðan;
sama ælig mér klæði;
því em ek Kráka kölluð,
í kolsvörtum váðum,
at ek hefi grjót of gengit
ok geitr með sjá reknar.“

(meira...)

Síðustu dagar: Fingurnir - Brennu-Njáls saga - Formáli yfir S. Páls pistil til Efesios


skoða - spjall - saga


10. október
Mamúð soldán og vezír hans úr Þúsund og einni nótt:

Einu sinni kom munkur til Khas-Ayas, sem var vezír Mamúðs soldáns og réði miklu, og beiddi hann að útvega sér féstyrk hjá soldáni. Vezírinn kvaðst fús á það, en setti honum þann kost, að hann yrði að lofa soldáninum því, að kenna sér, vezírnum, að skilja fuglamál. Munkurinn lofaði soldáninum þessu, líklega með því skilyrði að efna það, þegar hann sjálfur skildi fuglamál, og gaf soldán honum þá þrjú hundruð gullpeninga í laun á mánuði. (meira...)

Síðustu dagar: Ragnars saga loðbrókar - Fingurnir - Brennu-Njáls saga


skoða - spjall - saga


11. október
Úr Landnámabók:

Hrollaugur fór til Íslands með ráði Haralds konungs og hafði með sér konu sína og sonu. Hann kom austur að Horni og skaut þar fyrir borð öndvegissúlum sínum, og bar þær á land í Hornafirði, en hann rak undan og vestur fyrir land; fékk hann þá útivist harða og vatnfátt. Þeir tóku land vestur í Leiruvogi á Nesjum; var hann þar hinn fyrsta vetur. Þá frá hann til öndugissúlna sinna og fór austur þann veg; var hann annan vetur undir Ingólfsfelli. (meira...)

Síðustu dagar: Mamúð soldán og vezír hans - Ragnars saga loðbrókar - Fingurnir


skoða - spjall - saga


12. október
Úr Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu:

En Eiríkur jarl síbyrti Barðanum við hið ysta skip Ólafs konungs og hrauð það og hjó þegar það úr tengslum en lagði þá að því er þar var næst og barðist til þess er það var hroðið. Tók þá liðið að hlaupa af hinum smærrum skipunum og upp á stórskipin en jarl hjó hvert úr tengslunum svo sem hroðið var. En Danir og Svíar lögðu þá í skotmál og öllum megin að skipum Ólafs konungs. En Eiríkur jarl lá ávallt síbyrt við skipin og átti höggorustu en svo sem menn féllu á skipum hans þá gengu aðrir upp í staðinn, Danir og Svíar. (meira...)

Síðustu dagar: Landnámabók - Mamúð soldán og vezír hans - Ragnars saga loðbrókar


skoða - spjall - saga


13. október
Lofsöngur eftir Matthías Jochumsson:
Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

(meira...)

Síðustu dagar: Ólafs saga Tryggvasonar - Landnámabók - Mamúð soldán og vezír hans


skoða - spjall - saga


14. október
Sagan af hinum unga konungi á svörtu eyjunum úr Þúsund og einni nótt:

„Faðir minn hét Mamúd, og var konungur í borg þeirri, er hér lá áður, og ríkti hann yfir hinum fjórum svörtu eyjum. Andaðist hann á sjötugasta aldurs ári, og er ég var setztur að völdum eftir dauða hans, gekk ég að eiga bróðurdóttur mína. Hún hafði slíka ofurást á mér, að þegar ég fór burt frá henni, neytti hún hvorki matar né drykkjar, fyrr en ég kom heim aftur. En er fimm ár voru liðin, tók ég eftir því, að ást hennar fór að kólna, og komst ég að þessu móti eigin vilja. (meira...)

Síðustu dagar: Lofsöngur - Ólafs saga Tryggvasonar - Landnámabók


skoða - spjall - saga


15. október
Ívars þáttur Ingimundarsonar:

Konungur mælti: „Þykist þú af mér hafa minna sóma en þú vildir?“

„Eigi er það herra,“ segir hann.

„Hefir þú séð nokkura hluti,“ segir konungur, „þá er þér hafa svo mikið um fundist hér í landinu?“

Hann kveður eigi það vera.

„Vandast oss nú getan,“ segir konungur. „Viltu hafa forræði nokkur yfir eignum nokkurum?“

Hann neitti því.

„Eru nokkurar konur þær á yðru landi,“ segir konungur, „er þér sé eftirsjá að?“

Hann svaraði: „Svo er herra.“ (meira...)

Síðustu dagar: Sagan af hinum unga konungi á svörtu eyjunum - Lofsöngur - Ólafs saga Tryggvasonar


skoða - spjall - saga


16. október
Friðrik áttundi eftir Jón Trausta:

Hann var kallaður Friðrik áttundi af því að hann var áttundi maðurinn, sem skipaður var árlega í fjallgöngunum til þess að ganga í Búrfellsheiðina. Raunar voru aldrei skipaðir nema sjö menn til að smala þann hluta afréttarinnar, en síðan Friðrik komst upp og fór að taka þátt í fjallgöngunum, var honum æfinlega bætt við töluna þar.

Það kom ekki til af góðu, því miður. (meira...)

Síðustu dagar: Ívars þáttur Ingimundarsonar - Sagan af hinum unga konungi á svörtu eyjunum - Lofsöngur


skoða - spjall - saga


17. október
Úr Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen eldra:

Ekki grunaði mig það, sagði kaupmaður L., að þú mundir taka svo illa gamanyrðum mínum; en fyrir því, að þú hefur snúist þannig undir þetta mál, þá skaltu og vita, að ekki þykir mér það sóma sér vel fyrir þig, sem ert maður kvongaður, að draga á tálar einfalda og saklausa stúlku, sem er óvitandi um hagi þína; en að öðru leyti virðist mér réttast að láta þetta mál niður falla. En yður, jómfrú Sigríður, sýnist mér sæmra að ganga út héðan og tala við Indriða fornvin yðar, sem hér er kominn og stendur hér fyrir utan, en að taka ástarhjali kvongaðra manna. (meira...)

Síðustu dagar: Friðrik áttundi - Ívars þáttur Ingimundarsonar - Sagan af hinum unga konungi á svörtu eyjunum


skoða - spjall - saga


18. október
Úr Einars þætti Skúlasonar:
Oss lét abbadissa
angri firrð um svangan
dygg þótt víf hin vígðu
Viti fyr það gyrða.
En til áts með nunnum,
ógnar rakks, á Bakka,
drós gladdit vin vísa,
varat stallarinn kallaðr.

(meira...)

Síðustu dagar: Piltur og stúlka - Friðrik áttundi - Ívars þáttur Ingimundarsonar


skoða - spjall - saga


19. október
Presta þáttur úr Grágás:

Prestar eiga að vera hlýðnir biskupi og sýna honum bækur sínar og messuföt. Sá prestur skal syngja messu er biskup vill, en sá eigi er hann bannar þá þjónustu. Prestar skulu eigi fara með sundurgerðir þær er biskup bannar og láta af að höggva kampa sína og skegg og láta gera krúnu sína um sinn á mánuði og hlýða biskupi að öllu. (meira...)

Síðustu dagar: Einars þáttur Skúlasonar - Piltur og stúlka - Friðrik áttundi


skoða - spjall - saga


20. október
Úr Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu:
Landvættirnir á skjaldarmerki Íslands.

Haraldur konungur bauð kunngum manni að fara í hamförum til Íslands og freista hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi og bar höfuðið hærra en fjöllin og margir aðrir jötnar með honum. (meira...)

Síðustu dagar: Presta þáttur - Einars þáttur Skúlasonar - Piltur og stúlka


skoða - spjall - saga


21. október
Úr Íslands minni eftir Bjarna Thorarensen:
Hafnar úr gufu hér
heim allir girnumst vér
þig þekka' að sjá;
glepur oss glaumurinn,
ginnir oss sollurinn,
hlær að oss heimskinginn
Hafnar slóð á.

(meira...)

Síðustu dagar: Ólafs saga Tryggvasonar - Presta þáttur - Einars þáttur Skúlasonar


skoða - spjall - saga


22. október
Úr Höllu eftir Jón Trausta:

Hún hafði áður um ævina fengið talsverða æfingu í því að leyna tilfinningum sínum og koma fram önnur en hún var. Nú kom sú æfing henni að góðu haldi, því undir þessari list var framtíð leyndarmálsins komin.

En þetta gervi hennar færðist fljótt í áttina til að verða hennar annað eðli. Það óx og þroskaðist og varð henni svo tamt, að hún notaði það án þess að hún vissi af því. Gríman varð holdgróin og var það þaðan af.

En innan undir þessu ískalda gervi færðist hin eiginlega Halla meira og meira saman utan um helgidóm sinn, sem geymdi dánar vonir og kærar minningar ástar og unaðar og sárra harma. (meira...)

Síðustu dagar: Íslands minni - Ólafs saga Tryggvasonar - Presta þáttur


skoða - spjall - saga


23. október
Úr Sonatorrek eftir Egil Skalla-Grímsson:
1. Mjǫk erum tregt
tungu at hrœra
eða loptvætt
ljóðpundara;
esa nú vænligt
of Viðurs þýfi
né hógdrœgt
ór hugar fylgsni.

(meira...)

Síðustu dagar: Halla - Íslands minni - Ólafs saga Tryggvasonar


skoða - spjall - saga


24. október
Ríðum fram í Laugaland eftir Benedikt Gröndal:
Ríðum fram í Laugaland.
Lítum fagurt meyjastand.
Kvennaskólans klóta fjöld
klórar sér um vetrarkvöld.
Þar er mál, þar er prjál.
Þar er allt, þar er kalt
Gásasteik og grásleppur
og göfug grúsin valsaður.

(meira...)

Síðustu dagar: Sonatorrek - Halla - Íslands minni


skoða - spjall - saga


25. október
Úr Leiðarvísi í ástamálum eftir Ingimund gamla:

Eg er þegar kominn svo til ára minna, að tími er kominn til að birta þær athuganir mínar, sem í þessari bók eru. Eg hefi komist í margt um dagana og reynt sitt af hverju. Ráð þessi eru aðallega bygð á reynslu minni og að nokkru leyti á annarra reynslu, og ef þú ert ekki sammála mér alstaðar, ætla eg að minna þig á málsháttinn: „Greindur nærri getur, en reyndur veit þó betur.“

Sumir kunna ef til vill að hugsa sem svo, að óþarft sé, að leggja mönnum ráð í þessu efni, en það er misskilningur. Það, sem aðallega hvatti mig, til að gefa út bækling þennan, er sú von, að með því kunni mér að takast að koma í veg fyrir einn eða fleiri hjónaskilnaði, ef menn hlýta mínum ráðum. Eg hefi, sem sé, veitt því eftirtekt, að árlega fjölgar hjónaskilnuðum, bæði til sveita og í kaupstöðum, en þó einkum hér í Reykjavík. (meira...)

Síðustu dagar: Ríðum fram í Laugaland - Sonatorrek - Halla


skoða - spjall - saga


26. október
Úr Sögu Inga konungs og bræðra hans í Heimskringlu:

Eiríkur konungur og hans menn sóttu upp í býinn en sumir runnu eftir þeim Þjóstólfi. Þjóstólfur skaut broddi að þeim manni er Áskell hét, hann var stafnbúi Eiríks konungs, og laust undir kverkina svo að yddi út hnakkann og þóttist Þjóstólfur eigi hafa skotið betra skot því að ekki var bert á honum nema það eitt. Skrín hins helga Hallvarðs var flutt upp á Raumaríki og var þar þrjá mánuði. Þjóstólfur fór um Raumaríki og safnaði hann liði um nóttina og kom ofan til býjarins um morguninn. (meira...)

Síðustu dagar: Leiðarvísir í ástamálum I. karlmenn - Ríðum fram í Laugaland - Sonatorrek


skoða - spjall - saga


27. október
Úr Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson:
„Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
    fénaður dreifir sér um græna haga,
    við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una æfi minnar daga
    alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
    bróðir og vinur!“ — Svo er Gunnars saga.

(meira...)

Síðustu dagar: Saga Inga konungs og bræðra hans - Leiðarvísir í ástamálum I. karlmenn - Ríðum fram í Laugaland


skoða - spjall - saga


28. október
Úr Hálfdanar sögu svarta í Heimskringlu:

Hálfdan konungur tók jólaveislu á Haðalandi. Þar varð þá undarlegur atburður jólaaftan er menn voru til borða gengnir og var það allmikið fjölmenni, að þar hvarf vist öll af borðum og allt mungát. Sat konungur hryggur eftir en hver annarra sótti sitt heimili. En til þess að konungur mætti vís verða hvað þessum atburð olli þá lét hann taka Finn einn er margfróður var og vildi neyða hann til sannrar sögu og píndi hann og fékk þó eigi af honum. Finnurinn hét þannug mjög til hjálpar er Haraldur var sonur hans og Haraldur bað honum eirðar og fékk eigi, og hleypti Haraldur honum þó í brott að óvilja konungs og fylgdi honum sjálfur. Þeir komu þar farandi er höfðingi einn hélt veislu mikla og var þeim að sýn þar vel fagnað. (meira...)

Síðustu dagar: Gunnarshólmi - Saga Inga konungs og bræðra hans - Leiðarvísir í ástamálum I. karlmenn


skoða - spjall - saga


29. október
Úr Brennu-Njáls sögu:
Duncansby Stacks.

Skotar höfðu látið fara sumt liðið laust og kom það í opna skjöldu jarlsmönnum og varð þar mannfall mikið þar til er þeir Njálssynir sneru í móti þeim og börðust við þá og komu þeim á flótta. Verður þá þó bardaginn harður. Snúa þeir Grímur og Helgi þá fram hjá merkinu jarls og berjast hið djarflegasta. Nú snýr Kári í móti Melsnata jarli. Melsnati skaut spjóti að Kára. Kári henti og skaut aftur spjótinu og í gegnum jarlinn. Þá flýði Hundi jarl en þeir ráku flóttann allt þar til er þeirspurðu til Melkólfs Skotakonungs að hann dró her saman í Dungalsbæ. Átti jarl þá ráð við menn sína og sýndist það öllum ráð að snúa aftur og berjast eigi við svo mikinn landher. Sneru þeir þá aftur. (meira...)

Síðustu dagar: Hálfdanar saga svarta - Gunnarshólmi - Saga Inga konungs og bræðra hans


skoða - spjall - saga


30. október
Allt fram streymir eftir Kristján fjallaskáld:
Fölna grös, en blikna blóm,
af björkum laufin detta.
Dauðalegum drynur róm
dröfn við fjarðar kletta.


Allt er kalt og allt er dautt,
eilífur ríkir vetur.
Berst mér negg í brjósti snautt
en brostið ekki getur.

(meira...)

Síðustu dagar: Brennu-Njáls saga - Hálfdanar saga svarta - Gunnarshólmi


skoða - spjall - saga


31. október
Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn úr Þúsund og einni nótt:

Minnist yðar hátign þeirra orða, sem Mahómet sagði í andarslitrunum: „Ég skil svo við mannkynið, að ein sundrungar uppspretta er eftir, og hefur hún upptök sín hjá konum. Ég gekk ríkt eftir að minna boðorða væri gætt, og leitaðist við að útrýma syndinni úr heiminum, en ég gat ekki rifið upp hina dýpstu rót hennar, sem er kvenkynið, því það er friðarspillir mannkynsins, og þó hauðsynlegt til að halda því við.“ (meira...)

Síðustu dagar: Allt fram streymir - Brennu-Njáls saga - Hálfdanar saga svarta


skoða - spjall - saga