Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Fylgjur (inngangur)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsögur, ritstjórn Jón Árnason
Fylgjur

Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Þess var getið í innganginum fyrir draugasögunum að fylgjur væru annaðhvort afturgöngur eða uppvakningar og það eru þær eftir þeirri hugmynd sem nú er orðin almenn um fylgjur. En í fornöld var allt öðru máli að skipta því þá koma fylgjur oftast fram sem andlegar verur enda eru þær annað veifið kallaðar dísir sem fylgi hverjum einstökum manni, verndi hann og farsæli, og liggur þá nærri að ímynda sér að fylgja sé sama og hamingja, gifta eða gæfa, auðna eða heill. En eins og hver einstakur maður átti fylgju eins áttu og heilar ættir kynfylgjur eða ættarfylgjur sem virðast hafa veitt hverri ætt fyrir sig fulltingi í andlegum og líkamlegum efnum. Bæði finnst það í fornsögum að þegar sá var feigur sem fylgju átti eða um það leyti sem hann dó leitaði fylgjan sér staðfestu hjá einhverjum öðrum nákomnum ættingja hans og eins hitt að maður á deyjanda degi gat gefið giftu sína og ættarinnar þeim sem hann vildi eða þótti hennar maklegastur, og enn eru þess dæmi að lifandi menn og karskir leggi til með öðrum hamingju sína og jafn-velkristinn maður og Ólafur konungur helgi. Annars virðist það hafi verið almenn trú að fylgjan dæi með hverjum manni og er þaðan dregið það orðtak að allar dísir eins séu dauðar (eða eins og nú er sagt öllu oftar: „ekki eru allar dísir dauðar enn,“ þegar ekki er úti með einhvern) eða að dísir séu orðnar þeim reiðar eða afundnar sem er heillum horfinn. Sumir er sagt að hafi átt fleiri en eina fylgju og örlar þá oft á því að önnur eða aðrar þeirra eru vondar, en hinar góðar.

Um uppruna fylgnanna er sú skoðun orðin ofan á hjá þeim sem um það efni hafa ritað að þær myndist af barnsfylgjunum. Eins og kunnugt er er belgur (hamur) eða himnur utan um barnið í móðurlífi. Í fæðingunni rifnar sá belgur sundur utan af barninu,[1] en losnar ekki frá móðurinni fyrr en skemmri eða lengri tími er liðinn frá því barnið er fætt. Þessar himnur eða belgur heitir enn fylgja eða barnsfylgja og hefur ekki verið alllítil trú á henni til forna. Finnur prófessor segir og hiklaust að fylgjan hafi verið álitin heilög sem ekki mætti á nokkurn hátt misbjóða og því hafi það tíðkazt að grafa hana undir dyraþröskuldi þar sem móðirin gengi um á degi hverjum þegar hún væri stigin af sæng. En sú var orsök til þess að menn álitu fylgjuna helga að menn ímynduðu sér að nokkur hluti af sál fóstursins yrði eftir í fylgjunni þegar barnið fæddist, en kæmi síðan með henni. Ef nú barnsfylgjunni var fleygt út á víðavang þar sem bæði vondir andar komust að henni og gjörðu barninu með því mein eða hrædýr átu hana upp eða þá að hún var brennd varð barnið fylgjulaust, en það þótti jafnillt og ef einhver var skuggalaus.[2] Þegar barnsfylgjan var grafin á þann hátt sem fyrr var sagt átti maðurinn fylgju (mannsfylgju) í einhvers þess dýrs líki er honum var sjálfum líkast, bæði að skapferli og útliti, t. d. í bjarnarlíki eða arnar, úlfs eða uxa eða galtar, ljóns eða léparda; svikulla manna fylgjur og hrekkvísra og galdramanna voru í tófu líki eða refkeilu, en fríðra kvenna í álftarlíki. Í öllum þessum myndum gjörðu fylgjur vart við sig á fyrri tímum og boðuðu komu þeirra manna er þær áttu.

  1. Það var og er jafnvel enn trú að það yrði einstakur lánsmaður sem „fæddist í sigurkufli“. En sigurkufl er himna ein sem er næst barninu og utan um það allt niður til miðs eða lengur þegar það fæðist, og er hún allt annað en belgur sá sem barnið liggur í í móðurlífi sem springur eða er sprengdur utan af því í fæðingunni. Af því það ber svo sjaldan við að börn fæðist í sigurkufli hefur því verið trúað að sá hinn sami ætti að verða skyggn, aldrei meint við gjörninga og bera sigur úr hverju máli ef hann bæri á sér sigurkuflinn hertan (Eddalæren, IV, 141. bls.); og enn er það trú að það barn sem sigurkuflinn er fenginn hertur, því honum er ávallt haldið til haga, til að leika sér að eftir að það er komið nokkuð til vits og ára og rífi það hann ekki eða skemmi, þá verði það áreiðanlega lánsmaður.
  2. Sbr. Svartiskóli í sögunum af Sæmundi fróða.