Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Holta-Jóka á Álftamýri

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Holta-Jóka á Álftamýri

Jórunn þessi fyrirfór sér sjálf, en beiddi prest áður en hún dó að hann léti grafa sig í kirkjugarði, en hann synjaði henni þess. Gekk hún síðan aftur og drap prest, en næsti prestur á Álftamýri, séra Árni, setti hana niður í holtunum fyrir utan Krákudalsá, en fyrir innan túnið á Álftamýri, og þar sveimaði hún um og gat komizt inn að Bauluhúsum, en komst aldrei út að Álftamýri.

Hrólfur hét vinnumaður á Álftamýri, hann átti þar kindur í heyjum, en varð heylaus og bjargþrota fyrir þær æ þegar kom fram á góu; nú leggur hann poka á bak sér og fer inn á bæi að draga sér hey í pokann og reytir hann hey í pokann svo hann er fullur, leggur hann síðan á bak sér og heldur á stað, en nú er komið myrkur. Leiðin lá út með sjó um Bauluhúsaskriður og lágu móðskaflar með allri strönd. Nú kemur hrævareldur og leiftrar framan í Hrólf svo að annað veifið veður hann út í sjó, en annað veifið er hann uppi í móðsköflum og rekur sig á þá. Hann var þá ýmist hryggur eða reiður og batnaði þá ætíð nokkuð þegar hann reiddist. Nú fer hann þannig þar til hann kemur undir Bauluhúsabakka, þá sér hann hvar kona gengur uppi á bökkunum og hafði háa skuplu á höfði, og lafði trafhorn aftur og hékk ofan á miðjan hrygg. Hún var í síðu fati og bakbeltuð. Hrólfur átti ekki þessara gesta von og kallar á konuna og spyr hver hún sé, en hún svarar engu. Þá spratt kaldur sviti út um hann allan. Nú færast þau út eftir, hún gengur ávallt á bí við Hrólf, en hann hefur hliðsjón af henni og gekk aldrei hraðara. Þau ganga út eftir Krákudalseyrum og yfir Krákudalsá. En þegar kemur út í holtin fyrir utan ána þá hverfur hún. Gengur nú Hrólfur heim að Álftamýri og var löngu dagsett þegar hann kom þangað og kveikt ljós. En þegar Hrólfur sá ljósið ætlaði að líða yfir hann eins og ávallt er ef maður hefur séð afturgöngu og kemur síðan í ljós, og gekk hann þá út aftur. Á Álftamýri var gamall maður sem hét Einar. Þegar hann sá í augun á Hrólfi og hann gekk út aftur veitti hann honum eftirför og spurði hvað hann hefði séð, en Hrólfur lét lítið yfir og neitaði, en þó linlega, en síðan sagði hann upp alla sögu. Einar kannaðist þá við og sagði: „Þar hefur þú séð Holta-Jóku sem hefur dys sína hér inn í holtunum og er niðursett þar af Árna presti;“ sagði hann honum síðan uppruna þessarar sögu.