Fara í innihald

Þórarins þáttur Nefjólfssonar

Úr Wikiheimild
Þórarins þáttur Nefjólfssonar

1. kafli

[breyta]

Þórarinn Nefjólfsson hafði verið með Knúti konungi hinum ríka um vetur og sá maður er Þorsteinn hét og var Ragnhildarson. Þeir gerðust vinir og mæltu til vináttu og sögðu svo ef þeir væru samlendir að þeir skyldu einn stað byggja.

Nokkuru síðar kom Þorsteinn skipi sínu í Eyjafjörð og bauð Guðmundur hinn ríki honum á Möðruvöllu. Þorsteinn segir hvað þeir Þórarinn höfðu við mælst. Þá bauð Einar bróðir Guðmundar honum til Þverár með hinn fjórða mann. Hann svarar hinu sama. Margir mæltu að hann færi í geitarhús ullar að biðja um vistartekjuna því að Þórarinn var sjaldan örbýll og bjó við útsker norður á Tjörnesi.

En þegar Þórarinn spurði útkomu Þorsteins þá rak hann fjölda hesta til Eyjafjarðar. Þórarinn var allvinsæll. Hann bauð Þorsteini til sín með alla skipshöfn sína. Þeir voru átján menn saman. Fór Þorsteinn heim með Þórarni. Þá lét Þórarinn höggva upp allt kvikt fé sitt og skorti vætta um veturinn. Þorsteinn léði konu Þórarins húsbúning góðan.

Um vorið spurði Þorsteinn verkstjóra Þórarins hvað kostað hafði þá ó...lilegu drykkju er þar hafði verið um veturinn. Hann kveðst ætla að miklu hefði kostað. Ekki fannst Öxfirðingum um það þó að menn lofuðu risnu Þórarins. Þorsteinn keypti síðan jafnmikið kvikfé með sínum ráðum og gaf Þórarni. Húsfreyju gaf hann húsbúninginn. Skipið hálft gaf hann Þórarni og bað hann utan fara með sér. Þórarinn þakkaði honum gjafirnar.

Þeir fóru utan um sumarið. Ólafur konungur bauð Þórarni til vistar með sér þegar er þeir hittust. Þórarinn kveðst það þiggja mundu og beiddi Þorstein til vistar með sér.

Konungur kvað þá Knút hinn ríka ekki hafa senst menn á meðal en kvað Þorstein sagðan góðan dreng „og mun það vel ráðið ef Þorsteinn þjónar oss svo sem Knúti konungi“ og bað Þórarin ráða.

En er Þórarinn segir hirðvistarboð við þá báða svarar Þorsteinn: „Þér mun boðin hafa verið en þú munt beðið hafa til handa mér og er betra að hafa beðna vist með Ólafi konungi en boðna með öðrum konungum.“

Síðan vísaði konungur þeim til sætis. Helgi og Þórir hétu þeir menn er næstir sátu utar frá þeim Þórarni og urðu þeir að þoka undan og þótti þeim sér óvirðing ger í þessu.

Hinn fyrsta aftan var Þórarinn út kallaður. Bjarni nefndist sá maður er hann kallaði út og kveðst vera systurson Þórarins og kominn af skipsbroti norður við Hálogaland og bað Þórarin ásjár. Þórarinn bauð að taka hann í vist að bónda nokkurs. Vera þótti Bjarna frændsemi til þó að þeir væru báðir á einni vist. Þórarinn kveðst eigi deili á honum vita hvort hann væri hans frændi eða eigi. Bjarni gekk þegar á hæla honum og fyrir konung. Þórarinn sagði konunginum um þenna mann.

Konungur kvað hann hans frænda vera mundu „en ábyrgstu að óþrjóskur sé og ráð sjálfur hirðvist hans.“

Konungur bað hann sitja á annan bekk og var honum vel skipað. Bjarni settist niður utar frá Þorsteini, nær á herðar Helga. Þórarinn kvað honum mundu vanda verða hirðvistina við þrjósku hans og bað hann eigi neina kvittu kveikja í hirð konungs. Þorsteinn var fámálugur og fylgjusamur konungi og svo Bjarni.

Og er á leið veturinn hafði Bjarni sofnað eitt kveld svo að allir menn voru brott úr höllunni þá er hann vaknaði og til aftanssöngs farið er hann sprettur upp og gekk út eftir strætinu og var myrkt orðið og sá þá Helga og Loft í skemmu einni með sveit sína og var þar ljós.

Helgi kveðst þeim ill tíðindi kunna að segja að konungur þeirra var svikinn og Knútur konungur hefði ráðið svik við hann og sendi hann því Þorstein til Íslands að gefa Þórarni stórgjafir að hann skyldi véla konunginn en skyldi vinna á honum og Þórarinn hefði þegið gullhring að Knúti til þess „og þann hefir hann á vinstri hendi og ber leynilega en þann ber hann opinberlega á hægri hendi er Ólafur konungur hefir gefið honum svo að allir sjá.“

Bjarni gekk til aftanssöngs og gat hann ekki um þetta.

Þeir Helgi tóku ekla til matar um kveldið. Konungurinn spurði hvort þeir væru sjúkir. Helgi kvað þeim verra en sótt og kveðst eigi segja mundu fyrr en annan dag á málstefnu og þá sögðu þeir þetta allt konungi. Hann kveðst eigi trúa mundu fyrr en hann reyndi um hringinn Knútsnaut.

Ólafur konungur gekk til handlauga og tók um ermi Þórarins og þá fann hann gullhringinn undir skyrtuermi hans sem Helgi hafði sagt og trúði hann þá svikum við sig og spurði þá með reiði hvaðan sá hringur væri að kominn. Þórarinn sagði að Knútur hefði átt og gefið honum sem var.

„Hví berð þú hann svo leynilega,“ sagði konungur, „eða á annan veg en þann sem eg gaf þér?“

Þórarinn svarar: „Því ber eg hann leynilega herra og á vinstri hendi að gjafamunurinn er fjarri. En þann gullhring ber eg á hægri hendi er mér gaf hinn merkilegasti konungur, sá vér þjónum nú.“

Ekki vildi konungur á hlýða nú hvað Þórarinn sagði og lét taka þá alla, Þórarin og Þorstein og Bjarna, og setja í myrkvastofu og kallaði þá drottins svika. Mörgum mönnum þóttu þetta ill tíðindi. Biskup fór að skrifta þeim og sagði konungi að engi voru svik af þeirra hendi og beiddi konung að skírsla væri ger um þetta mál og bæri guð vitni um þetta hvorir satt segðu.

Það fékkst að biskup gerði skírslu. Bjarni bar járn hraustlega og karlmannlega. Bóla var á hendi Bjarna þá er skírsla var sén. Kallaði konungur hann brunninn en biskup veitti engin atkvæði.

Konungur bað Þórarin sjá en hann svarar: „Þó að þér kallið Bjarna eigi skíran þá gjöldum vér aldregi þess er þér berið á oss hér um.“

Konungur bað Þorstein sjá.

Þorsteinn mælti í því er hann sá höndina: „Þar er og svona.“

Konungur innti til: „Hví kvaðstu svo að?“

Þorsteinn kvað þeim mundu of lengi frestast uppfesting þeirra ef hann segði áður söguna. Konungur kvað þessa vera skyldu dvölina.

2. kafli

[breyta]

Þorsteinn hóf svo þetta mál: „Ríkarður hét faðir minn en Ragnhildur móðir. Þau voru göfug að kyni. Faðir minn andaðist þá er eg var barn. Móðir mín giftist þeim manni er hét Þrándur. Björn og Þrándur hétu synir þeirra og var lítið miseldri á millum okkar bræðra. Björn andaðist brátt og fór Ragnhildur heim til Svíþjóðar en Þrándur réð fyrir föðurleifð sinni. Eg var í förum og fór eg í Austurveg og allt til Jórsala og tók eg þar skírn og kom eg norður hingað til Svíþjóðar. Þá vildi eg kenna móður minni rétta trú og hún vildi það eigi og þóttist týnt hafa syni sínum er eg hafði trú tekið. Þau urðu málalok að við sættumst að því að það skyldi eftir öðru líkja eða víkja er goðin ætti rammari. Síðan voru goð hennar sett í hverfing úti og vel búin og kastað járni glóanda á kné því er máttkast var og tók þegar að loga hvert að öðru og brunnu að köldum kolum. Síðan var heitt það sama járn og gert glóanda og bar eg níu fet eftir dæmum kristinna manna óvígt járn svo að öngvir klerkar voru hjá og var höndin leyst eftir þrjár nætur. En á hinni þriðju nótt dreymdi mig að bjartleitur maður kæmi til mín og ávítaði mig um dirfð mína en kvað mig njóta skyldu góðvilja míns er eg kenndi móður minni rétta trú og kvað fegri mundu hönd mína en heila þá er til væri leyst „og muntu hafa síðan glófa á hendinni og hrósa eigi dýrð minni“ og kvað mig skyldu gjalda hér í heimi svo að eg mundi rægður við konung og bað mig þá sýna höndina ef líf mitt lægi við. Og er höndin var leyst var sem gullpeningur lægi í lófanum þar sem járnið hafði legið og rauður þráður um utan og var þar hærra holdið en annarstaðar. Móðir mín tók kristni og allir vinir okkrir af þessi jarteign. Eg hefi og eigi sýnda mína hönd.“

Síðan dró Þorsteinn af sér glófann og sýndi á sér höndina og kveðst ætla að svo nokkuru mundi Bjarni hafa að goldið fyrir sakir fávisku sinnar í skírslunni sem hann mundi ef hann fengi eigi þessa jarteign. Konungur sefaðist þá og leitaði að við Bjarna og þeir biskup hvers hann mundi að hafa goldið. Þá sagði Bjarni hver svik að hann hafði heyrt og leynt og kvað Þórarin það hafa boðið sér að reifa öngvan hlut eða kvittu í konungs höll.

Þá voru þeir Helgi teknir og fjötraðir og neyddir til sagna. Gengu þeir þá við um rógið. Konungur vildi að þeir Þórarinn réðu hegningu þeirra og væru þeir drepnir. En Þórarinn gerði þá úr Noregi og tók af þeim fé allmjög svo og kallaði Þórarinn þetta konungs gæfu er hið sanna var vitað um þetta mál.

Þórarinn var með Ólafi konungi alla stund síðan og féll með honum.