Móðir mín
Útlit
eftir Einar Benediktsson
- Móðir. Ég sigli minn sjó fram á haust.
- Til suðurs hver fold er í kafi. —
- En Sóley rís út, sveipuð laust
- í svellgljá og kvoldroða trafi.
- Hér á að draga nökkvann í naust.
- Nú er ég kominn af hafi.
- Í borga og stranda streymandi sveim
- mín stjarna leit til þín í vestur; —
- því hvar er svo fátt sem í hópsins geim,
- eða hljótt, þar sem glaumur er mestur?
- Og venur það ekki viljann heim
- að vera hjá sjáldum sér gestur?
- Í förum, við öldu og áttar kast,
- margt orð þitt mér leið í minni.
- — Draumarnir komu. Ég lék og þú last
- í lítilli stofu inni.
- Hvort logn var á sæ eða bára brast,
- þú bjóst mér í hug og sinni.
- Við spor hvert um Bifröst, að Heljar hyl,
- til himins vor tunga hjó vörðu.
- Þú last — þetta mál með unað og yl
- yngdan af stofnunum hörðu.
- — Ég skildi, að orð er á Íslandi til
- um allt sem er hugsað á jörðu.
- Þú elskaðir stökunnar máttuga mál,
- myndsmíð vors þjóðar anda,
- þar ættirnar fága eædgamalt stál
- í einvistum fjalla og stranda,
- — við öræfamorgunsins brúnabál,
- við brimþunga mannauðra sanda.
- Frá árbjarma fyrstu æsku ég man
- óm þinna glötuðu stefja.
- Enn finnst mér ég heyra fjallasvan
- í fjarska sín vegaljóð hefja.
- — — Svo finn ég, hjá ísunum, móðurman
- í mjúku fangi mig vefja.
- En þar brástu vængjum á fagnandi flug,
- sem frostnætur blómin heygja.
- Þar stráðirðu orku og ævidug,
- sem örlög hvern vilja beygja.
- — Mér brann ekkert sárar í sjón og hug
- en sjá þínar vonir deyja.
- En bæri ég heim mín brot og minn harm,
- þú brostir af djúpum sefa. —
- Þú vógst upp björg á þinn veika arm;
- þú vissir ei hik eða efa.
- Í alheim ég þekkti einn einasta barm,
- sem allt kunni að fyrirgefa.
- Og þegar ég leiddi í langför mitt skip
- og leitaði fjarlægra voga,
- ég mundi alltaf þinn anda og svip.
- — Þú áttir hjarta míns loga.
- Og þitt var mitt ljóð og hvert gígjugrip.
- Þú gafst mér þinn streng og þinn boga.
- Dagar þíns lífs, þínar sögur, þín svör,
- voru sjóir með hrynjandi trafi.
- Móðir. Nú ber ég þitt mál á vör
- og merki þér ljóðastafi.
- Til þess tók ég fari, til þess flaut minn knör.
- Til þess er ég kominn af hafi.