Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Nykur eða nennir

Úr Wikiheimild

Snið:Header Hann er dökkgrár að lit, faxstór, vart frá hesti þekkjanlegur nema að því að það snýr fram á hóf nykursins sem aftur snýr á hóf hestsins. Hefur nykurinn sézt bæði í stöðuvötnum og við þau, og hefur það að borið að smalar eða hestaleitarmenn hafa tekið hann í misgripum fyrir hest og hann oftast hlaupið með þá í vatnið og týnt þeim þar. Sagt er að nykurinn geti borið svo marga menn sem vill því hann stækkar að því skapi sem fleiri eru á baki honum. Sá sem vill ríða nykur sér að bagalausu má aldrei nefna nón meðan hann er á baki honum eða neitt það orð sem n er fyrsti stafur í, og því til sönnunar er saga þessi:

Piltur einn kom að árbakka og var að leita fjár. Við bakkann var nykur. Piltur fór á bak honum og reið til bæjar þar í grennd og spurði hvert ekki væri komið nón, en þá var ekki nykurinn lengi að bregða við og rann til vatns og steypti sér þar út í með piltinn.

Enginn hefur grand af nykur er áður hefur krossað sig og því var það að einu sinni er níu menn komu að fljóti þar er nykur var á bakkanum, að sá sem aftast ætlaði að sitja krossaði sig, en hinir ekki, heldur fóru þeir á bak. En sá sem hafði krossað sig varð eftir, því nykurinn tók þegar viðbragð út í fljótið er hann sá manninn gjöra krossmark fyrir sér.