Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Krossfarir

Úr Wikiheimild

Snið:Header Hjá Arnarbæli í Ölfusi heitir á einum stað Kerlingagöng og úti á Selvogsheiði heita Kvennagönguhólar; til beggja þessara staða fóru konur þær sem ekki treystust að fara krossför alla leið til Kaldaðarness, þær úr Ölfusi í Kerlingagöng, en þær úr Selvogi í Kvennagönguhóla, af því frá báðum þessum stöðum mátti sjá Kaldaðarnes fyrir austan Ölfusá þar sem krossinn var sem mest helgi og trú var höfð á í páfadómi. En því sóttu menn eftir að sjá krossinn að því var trúað að menn fengju af því lækning meina sinna.

Í Þjórsárdal fyrir ofan Stóranúp heitir enn Krosssteinn. Þangað fóru menn og krossfarir í páfadómi og ekki eru meira en 40-50 ár síðan að það tíðkaðist að ferðamenn sem þar fóru um lögðu blóm á stein þenna, gras, hrís eða bein o. s. frv. En nú er öllum slíkum hégiljum hætt.