Fara í innihald

Ýmisríma

Úr Wikiheimild

Ýmisríma - Eptir séra Eirík Hallsson (1614-1698)

1. Viljið þér heyra víf um stund
vísna litla kæti
göngum þá í gleðinnar lund
og gjörum oss nokkur læti.
2. Sit eg nú við sögunnar lestur,
sem hún Edda hreytir,
virðist mér sá vaxtar mestur
vera, sem Ýmir heitir.
3. Mig því kveðja menja bríkur
með so fögrum orðum:
"Segðu oss nokkuð, séra Eiríkur,
satt af Ýmir forðum."
4. Þetta greidda eg þagnar bann
þeirra heyrnar ljórum:
Ýmir er fæddur á minn sann
af elementum fjórum.
5. Ærinn þroski á hann dróst,
ætla eg lítt sér feimi,
saug hann þeirrar baulu brjóst,
sem bezt hefur verið í heimi.
6. Hvítavín um hvoftabarð,
hann ei drakk við fingur,
Ýmir jötunn af því varð
enginn mannpeðringur.
7. Auðumbla því ýta satt
alda fróðir meina,
hafi bæði hart og hratt,
hrjúfa sleikti steina.
8. Dægrið fyrsta úr dverga ranns
drjúgum kolli hreykti
hári, þar næst höfði manns,
hún so ákaft sleikti.
9. Á morgni þriðja maðurinn allur
mátti úr steini ganga
Bur var nefndur snotur og snjallur
af sniðugum ættartanga.
10. Bur gat son, er Börvi hét,
barnið þetta hann gifti,
með Beslu lagði í brúðar flet,
blíð voru þeirra skipti.
11. Sérlega ólu syni þrjá,
sögðu hjónin stóru,
Óðinn, Víla og Ve skal tjá,
þeir vaxa og ergjast fóru.
12. Ýmir drápu börnin Burs,
blæddi honum eftir vonum,
af því safnan sjóar úrs,
segist dreyri úr honum.
13. Hárið skógur, holdið jörð,
hausa grjót og jaxlar,
bein og hnútur björgin hörð,
bæði mjaðma og axla.
14. Segi eg minnst í söguna skarð
svinnum hringa niftum,
ærið drjúgur Ýmir varð
í þeim hluta skiptum.
15. Hver sem allan Ýmir skal
út í kvæðum mála,
góma þyrfti fróðan fal
og fylli Sónar skála.
16. En mig stanzar einka mest
eitt á marga vega,
hversu þeir hafa hausinn fest
hátt og dáfallega.
17. Eddu vil eg í orða stað
af því nokkuð glósa,
vorri trú og vitið þér það,
vér skulum betur hrósa.
18. Elementa býsna barns
Börva synir afhýddu
bláfarðaða bólið hjarns
björtum gneistum prýddu.
19. Ýmirs víða skjanna skel,
skrýdd með glansa öllum,
hátt var sett og hafin so vel,
himin þann vér köllum.
20. Úr Ýmirs heila sköpuð ský,
skruggu reipið stríða,
en of gott þótti að ausa því
inn í loftið fríða.
21. Börva synir heilir og hraustir
hittu dverga fjóra,
hverjir að bera háir og traustir
himins byrði stóra.
22. Austri og Vestri oss er kenndur,
einninn Suðri og Norðri,
heyrða eg sagt að hver einn stendur
heims á yzta sporði.
23. Á höndum upp og fótum fastir
fá sig lítt að hræra,
í munni og anda máttugastir,
móð í brjósti stæra.
24. Í Ýmis holdi óskaplyndir
illan skapnað tóku,
yzt á lofti geyma grindir,
gusta megnið jóku.
25. Ekki er kyn þó ýfist hlé
þá opna sjónar gáttir,
vinda port hefur sinn hver sjö,
so eru margar áttir.
26. Austra kallar Edda þann,
ætlar Börnum hefna,
kafloðinn og kreppleitan,
kváðu þangað stefna.
27. [Illa lítur?] fjötrið fast
fólsku blæs að vanda,
vona eg hann muni viðspornast
og vill þar ekki standa.
28. Þegar hann grenjar gusta móð,
grimmur í storma leiki,
upp þá vellur Ýmirs blóð,
öll er fold á reiki.
29. Vænn og þegar var þar settur
Vestri honum á móti,
oft hans verður ærið þéttur
andardrátturinn fljóti.
30. Er þá Suðri andaheitur
undir stjörnuhúsi,
mjög sællífur og mikilleitur,
mesti kampabrúsi.
31. Honum í móti Norðri naumur
nálega öngvu eirir,
rammur og kaldur refils raumur
ramma vinda keyrir.
32. Þessa fjóra meina eg mestum
miðla andardrætti,
Neptunus með nösum flestum
nógum gusti í bætti.
33. Því sagt var mér um Hræsvelgs ham,
hvoftana kunni þeyta,
Neptunum þann gusta gram
get eg að láti heita.
34. Enn mun fleira á eftir sagt,
ekki er búið að rausa,
þiggja dvergar mikla makt,
en miður fá sig lausa.
35. Ýmirs skapi illu fylldir,
oftar móði blása,
ber þó til að blíðir og mildir
bláhlæjendur mása.
36. Loftplánetur ljósar sjö
lina þeim móði og herða,
so sem í göngu samlyndi
sáttar um fleira verða.
37. Máni hinn ljósi með honum vekur
margar grindur Norðra,
í köldu þálfi kampa skekur,
klýfur góma sporða.
38. Þaðan gisar ryk og reyk,
rótar Ýmirs heila,
fleygiskýin verða veik,
villa sundur og geila.
39. Þar af stendur hagl og hríð,
hart kann Norðri blása,
svellur marinn, foldin fríð
festir vatna lása.
40. Ef ei skeði afturhald
andardrætti Norðra,
enginn hefði vörn né vald
við honum sér að forða.
41. En til varnar er svörull settur
Suðri honum á mmóti,
furðu snar, í lofti léttur,
á landi og marar róti.
42. Með honum deilir hagl og hríð,
heldur Möndulfara,
er því Suðra andinn hýr,
alheims þægur skara.
43. Það sem Norðri Mána með
mestum hörkum reitir,
mýkir Suðra góða geð
og gleði vökva dreitir.
44. Espist þegar hann Austri blæs
argur í blístraverki,
með honum stendur mjög uppæs
Mars eður Týr hinn sterki.
45. Miðlar þessu með honum Þór,
máttar blossa ströngum,
vasa úr Austra veðra kór
vindeldingar löngum.
46. Eldspýtingar, og er þess von
af þeim gneistum velgi,
dregur þar Ýmirs drúldinn son
dimma veðurbelgi.
47. Skruggur, blys og skýjaleiftur
skrykkjast honum úr munni,
Vulkanus í varma steyptur
vélin maka kunni.
48. Miðlar Austri mjög fyrir það
mörgum slettitárum,
hagleldingum um stjörnu stað,
styrjar lönd fyrir bárum.
49. Merkúríus eður Heimdall hægur
honum í þessu sinnir,
ærið ríkur og furðu frægur
flæðar dýrum brynnir.
50. Eykur þessi Austra strítt
offurs ljósum hranna,
eftir blístra örvar títt
allan heim að kanna.
51. Honum í móti Vestri víkur
veðurbelgja sköllum,
vindsnari áður er varla slíkur,
vægstur af hinum öllum.
52. Því hún Venus væn og mjúk
við hann skiptir Freyja,
andramman þó hvæsi um hnúk,
hana má væna segja.
53. Flest oft er hann fagur og ljós
fögrum búinn skinnum,
varla sérðu rauða rós
rétt á Vestra kinnum.
54. Dvergar hafa það samið og sett,
þá sunna er ljós í merki,
að skemma ekki loftið létt
með ljótu stormaverki.
55. Leika þá með sopp so sagt
sér á mjúkum skinnum,
leyfa að rigni um landa fax
lög af Ýmirs kinnum.
56. Eftir því sem stendur stríð
stórljósanna á milli,
láta þessir logn og hríð
leika í ofsa og stilli.
57. Þegar í Ýmirs heila höll
höfðingjarnir snakka,
heiftar gusa Hræsvelgs öll
hleypur í Burnirs krakka.
58. Blæs þá hver sem megnar mest
mótspýtandi öðrum,
hast þó Ýmirs heilinn verst
hrekst fyrir þæsiblöðrum.
59. Þegar so með grimmdar grein
gusurnar saman vella,
vindar kynda mikið mein,
menn og fénað hrella.
60. Glamma rótar grefur land,
grenjar lögur á skerjum,
rætir ljótar greina grand,
gliðnar kjölur á ferjum.
61. Skógar rjúka skriðu fold,
skjálfa hauðurs rengur,
álfur strjúka, en Ýmirs hold
allt á þræði gengur.
62. Veit ei betur ófróð öld
í því skrykkja bramli,
en frá hafi sparkað fjöturin köld
Fenrisúlfurinn gamli.
63. Eður rökkva ragna húm
rekist loks úr garði,
og Miðgarðs snákur skaða skúm
skyrpi landa barði.
64. Ellegar Bifröst bresti í sundur,
brotni hlýrnis festi,
hrjáist við og heyri undur
Heimdalls lýðurinn mesti.
65. .......... hugsa voga,
harka stendur tími,
saman slengi Surtarloga.
Sagt er nóg af Ými.
66. Þetta veldur þústnar hart,
þorna niftir góðar,
eruð þið ekki orðnar snart
á Ýmirs sögunni fróðar?

Heimild

[breyta]

Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Rit Rímnafélagsins IX : Stakar rímur frá 16., 17., 18. og 19. öld. Reykjavík: Rímnafélagið. 1960.

Þessi síða hefur ekki verið prófarkalesin.