Fara í innihald

Piltur og stúlka/3

Úr Wikiheimild
Piltur og stúlka
Höfundur: Jón Thoroddsen eldri
[3. kafli]

Nú verður að geta fleiri manna við söguna. Maður hét Bárður, hann bjó á Búrfelli, það er hálfa þingmannaleið frá Sigríðartungu og ekki í sama hrepp. Bárður var maður auðugur að gripum og gangandi fé; jarðir átti hann og margar og góðar; en ekki var hann maður vinsæll af alþýðu. Einn son átti hann, sem Brandur hét; hann var kvongaður og átti bú á Brandsstöðum; lítið ástríki hafði hann af föður sínum; líktist Brandur meira móður sinni en föðurfrændum. Bárður hafði átt þá konu, er Guðrún hét og ættuð úr Þingeyjarþingi; hún var þá önduð fyrir fám vetrum, er hér er komið sögunni; og var það almæli, að hún hefði næsta södd lífdaganna til grafar gengið; höfðu þau hjón ekki átt lund saman; hún var mild af fé, en hann nískur, en þó hæglátur og stórillindalítill hversdagslega. Þar var margt fátækra manna í nágrenninu, og hvörfluðu þeir oft á vorum heim að Búrfelli, og vildi Guðrún jafnan víkja þeim einhverju, sem svangir voru, er matur var nógur fyrir. Ekki var Bárði mikið um þær ölmusugjörðir; tók þó sjaldan af þeim það, sem Guðrún hafði vikið þeim; en, til þess að sjá við þeim leka, að ekki drægist of mikið út úr búinu á þenna hátt, lét hann ekki konu sína hafa of mikið undir höndum; sjálfur vó hann út hjúunum bæði smjör og átmeti og taldi rækilega hvern kjötbita, sem hann ætlaði til soðningar hvert skipti, sem farið var með spað. Yfir döllunum og ólekjunni hafði Guðrún ótakmarkað einvaldsdæmi; en öðru máli var að gegna um skökuna, því henni varð hún að skila manni sínum afdráttarlaust í hvert sinn, sem hún strokkaði; og með því Bárður mundi gjörla, hve margar ær og kýr hann átti, og vissi út í æsar, hvað hver mylk skepna á heimilinu mjólkaði í mál og hve mikið smjör fæst úr hverjum fjórðungi mjólkur, tókst Guðrúnu sjaldan að klípa mikið af skökunni, svo að Bárður yrði þess ekki var. Lyklaráðin hafði hún; þó var sá einn lykill, sem hann aldrei skildi við sig vakandi eða sofandi, en það var lykillinn að skemmuloftinu; og þeir, sem vissu, hvað í því var, furðuðu sig ekki á því, þó Guðrúnu væri ekki hleypt þangað: margra ára gamlar mörtöflur og gráskjöldóttir smjörbelgir áttu þar aðsetur í geysimikilli kistu um þveran gafl. Fyrir annarri hliðinni stóð afarstór kornbyrða, en hinum megin var þrísett röð af tunnum með spað og saltaða magála; þaðan féllu straumar miklir af pækli, er kvísluðust um skemmuloftið og hurfu loks inn undir fjallháan fiskahlaða, sem girti skemmuloftið að framanverðu. Eftir endilöngu húsinu lágu rær, hlaðnar enda á milli með hörðu hangikjöti; það voru föll af sauðum og ám, og enginn mundi þar uppréttur ganga mega sakir hinna langleggjuðu skammrifjabógna. Annars var, eins og lög gjöra ráð fyrir, það kjötið, sem reykja skyldi, haft í eldhúsi, og aldrei reis hin rósfingraða morgungyðja svo úr rúmi Títonar, að Bárður bóndi kannaði það ekki innvirðulega; og ekki „hné dagstjarna nokkur svo í djúpan mar“, að hann ekki áður skemmti sér við sjón hinna bráðfeitu sauðarfalla, teldi þau og klipi í þau, áður en hann færi að sofa. Ekki verður glögglega skýrt frá öllu því, sem í þessu lofti var fólgið, því fáum auðnaðist það eftirlæti að koma lengra en upp í stigann og þó svo aðeins, að þeir hefðu sýnt Bárði áður nýja spesíu eður gamla krónu, sem hann langaði til að komast í kunningsskap við. Niðri í skemmunni voru margir eigulegir hlutir, þó hér séu ekki taldir; en flest var það óætt. Þó var þar einn hlutur, er vér hljótum að geta að nokkru, en það var sár einn mikill og merkilegur, fullur lundabagga og súrsaðra hrútssviða, blóðmörs og annars ágætis, er svam þar í hálfþykku súrmjólkurmauki. Ekki var það fyrir því, að Bárður hefði minni mætur á sá þessum en mörgu öðru, er uppi var í loftinu, að honum var valið óvirðulegra sæti, heldur hins vegna, að hann var of stór vexti til að komast í heilu líki upp um loftsgatið, enda var hann nú ekki fær um ferðir eða hreyfingar fyrir sakir gjarðleysis og elliburða; stóð hann því þar við loftsstigann og sparn jörðu allt upp að miðju og gamalli kúamykju mokað að utan. A syllunni rétt fyrir ofan sáinn voru tvær uglur; á annarri þeirra hékk stórt kerfi af gömlum hornhögldum, en á hinni héngu reiðtygi Guðmundar Höllusonar. Guðmundur þessi var fóstursonur Bárðar, og unni Bárður honum manna mest, enda var hann svo líkur honum að öllu skaplyndi, að ekki mundi sonur líkari föður; og fóru menn þeim orðum þar um, að fé væri jafnan fóstra líkt; en ekki vissu menn annan skyldugleika þeirra en að móðir piltsins hafði verið vinnukona Bárðar og heitið Halla. Halla hafði verið svo óheppin, þegar hún átti að feðra Guðmund, að hún gat ekki fundið honum neitt líklegra faðerni utan eða innan sveitar en vinnumannstetur eitt, sem var drukknaður rúmum níu mánuðum áður en pilturinn fæddist, og því hafði Bárður af einskærri manndyggð sinni tekið munaðarleysingjann að sér og alið hann upp eftir sinni mynd, og sögðu allir, að honum færist það vel, því auðséð væri, að hann gæti með öllu hrundið honum á sveitina. Bárður lagði með ári hverju meiri og meiri ást á svein þenna og gaf honum fjörutíu hundraða jörð eftir sig, og þar að auki hafði hann það jafnan á orði, að hann Guðmundur sinn ætti að tína flærnar úr rúminu sínu, þegar hann væri dauður. Fáir ókunnugir skildu þetta orðatiltæki; en nákunnugir þóttust vita, að Bárður miðaði til kistilkorns nokkurs, sem grafinn væri niður undir höfðalagið í rúmi Bárðar og í væru nokkrar kringlóttar. Þegar hér er komið sögunni, var Guðmundur orðinn fulltíða maður. Ekki þótti heimasætum þar í héraðinu hann fríður sýnum. Allir vissu, að hann var maður samhaldssamur og átti í vændum að eignast nokkuð, þar sem hann var uppáhaldið hans Bárðar ríka á Búrfelli, og því mundu feður gjafvaxta meyja hafa skoðað huga sinn, áður honum væri frá vísað, ef hann hefði leitað ráðahags við dætur þeirra. En Guðmundur var kenndur við kjöt og sauði, en ekki við konur eða kvonbænir, og það þóttust menn vita, að færi svo, að hann einhvern tíma ágirntist einhverja af Evudætrum, mundi hann ekki líta á fríðleikann einan í því efni og varla mundi hann vitið verði kaupa; sjálfur hafði hann gott gripsvit, og meira þurfti ekki til að búa og nurla, sem fyrir hann var aðalatriðið. Guðmundur hafði einhvern tíma lært að lesa og las reiprennandi hverja bæn, einkum ef hann kunni nokkuð í henni utanbókar áður, en sjaldan vildu menn hleypa honum á Jónsbókarlestur. Fóstri hans hafði látið kenna honum að rita nafnið sitt og sagði, að slíkt gæti oft komið sér vel í búskapnum, að menn kynnu að klóra nafnið sitt, til að mynda, ef menn seldu eða keyptu jarðarpart; en ekki var Guðmundur fastur í réttritunarreglunum, því jafnan ritaði hann fyrsta stafinn í nafninu sínu með litlu gei og eins í föðurnafninu, en essið í „son“ hafði hann alltaf með stórum staf. Talnafræði hafði Guðmundur ekki numið, en furðanlega æfingu hafði hann í því að telja saman fiska og fjórðunga og taldi þá upp á grænlensku, eftir tám og fingrum, og var ákaflega fljótur að því.

Það var einhvern dag næsta sumar eftir það, að Indriði beiddi Sigríðar í Tungu, eins og áður er um getið, að Bárður karl var eitthvað að bauka sér út í skemmulofti og hafði lokið upp smjörkistunni miklu og sat nú réttum beinum á loftinu og raðaði kringum sig smjörbelgjum. Honum sýndist, að umbúðirnar á einum bögglinum væri farnar að bresta, og tók upp hjá sér nál og þráð og fór að rifa það saman og raulaði eitthvað fyrir munni sér, eins og hann jafnan var vanur, þegar hann var að fara með smjör eða peninga. En er hann hafði setið þar um hríð, heyrist honum vera gengið inn í skemmuna, og dettur honum þá í hug, að hann hafi gleymt að læsa eftir sér skemmunni, og hugsar, að svo megi vera, að einhver sé þar kominn, sem vilji skyggnast í sáinn. Bárður stekkur þá upp hart og títt og kallar ofan í skemmuna:

Hver er þarna niðri?

Það er ég, fóstri minn!

Á, ert þú það, Guðmundur minn! Ég gat ekki skilið í, hver það gæti verið; ég vissi ekki, að þið voruð komnir heim, piltarnir; og því varð mér hálfhverft við; maður má aldrei vera óhræddur innan um þetta horngrýtis hyski, því þó allir þykist vera ráðvandir hérna á heimilinu, þá skal nú enginn telja mér trú um það, að ekki hafi verið farið í sáinn; eða hvað minnir þig, Guðmundur minn, að vinstrarnar ættu að vera margar, sem eftir voru í vor?

Þær voru átján, sagði Guðmundur, já átján.

Já, mig minnti það; þú taldir þær fyrir mig?

Já, þú lést mig telja þær, og mig minnir ekki betur en þær væru átján, jú, það veit drottinn minn, þær voru, sem ég lifi, átján.

Og í dag eru þær ekki nema sextán; skoðum þá til, fjórar eru farnar, ekki hafa þær hlaupið sjálfar úr sánum; því segi ég það, það verður að hafa gát á því hérna, ef það á ekki að stela mann út á húsganginn; en nú getur það stolið fyrir mér, eins og það vill; ekki sé ég, þó það steli úr mér augunum, ég er ekki orðinn maður til að líta eftir því. En viltu ekki skreppa snöggvast upp til mín, Guðmundur minn, fyrst þú komst? Mig langar til þess að líta snöggvast ofan í fremstu kjöttunnuna hérna; ég held hún sé búin að míga niður úr sér öllum pæklinum; en ég ræð ekki við helluna ofan á henni.

Ójú, fóstri minn, ég skal koma, sagði Guðmundur og fór upp og tók helluna ofan af tunnunni; það er ekki von, að þú ráðir við þetta bjarg, fóstri minn!

Af því ég er orðinn svo dauður og farinn, að ég þoli ekkert á mig að reyna fyrir mjöðminni á mér - ónei, ekki hefur hún lekið enn til skemmda, held ég, tunnugreyið. - Því segi ég það, ég er ekki orðinn fær um að eiga lengur í þessu búskaparbasli, Guðmundur minn! Ég vildi helst, að þú værir búinn að taka við því öllu saman og ég mætti hírast hérna í kofunum; hafa skemmugreyið mitt út af fyrir mig; nokkrar kindur í heyjum og afgjaldið af þessum fáu jarðaskikum; ég vil þú farir að taka við jörðinni hérna, en ekki legg ég ofan á hana, það segi ég þér fyrir; þú verður að taka við kofunum hérna eins og þeir eru; og þeir eru líka allstæðilegir, nema hvað göngin eru farin að síga dálítið saman, en að öðru leyti getur bærinn hérna lafað uppi nokkur ár enn. Hvað segir þú um þetta, viltu ekki fara að reyna til að hokra?

Ég veit ekki, hvað ég á að segja um það, fóstri minn.

Og þá yrðir þú, vænti ég, að taka þér einhvern kvenmannsræfil.

Já, ekki treysti ég mér að búa með henni Guddu hérna.

Það lái ég þér ekki, Guðmundur minn. Ég er búinn að fullreyna mig á henni, og ekki ætla ég að ráða þér til þess að hafa hana fyrir framan; en hitt er það, ég held þú yrðir að fá þér einhverja konumynd.

Já, sagði Guðmundur og dró langan seim á jáinu. Þessi kvenþjóð! Og þessar konur!

Það hef ég þó komist að raun um, Guðmundur minn, síðan konan mín dó, að skárri eru konurnar en þessar ráðskonuskammir; og sannast er að segja um það, að þó að hún Guðrún mín heitin væri óráðsskepna í mörgu, þá dró hún þó ekki allt út úr höndunum á mér eins og skrattinn hún Gudda; en hvað ég ætlaði að segja, hefurðu ekki augastað á neinni hérna í sveitinni, sem þú vildir eiga?

Ónei, fóstri minn, ekki hef ég það; og það á heldur engin neitt hérna í sveitinni; og til hvers skollans er að taka þá, sem ekki á spjarirnar á sig?

Og satt er nú það, neyðarúrræði eru það; hér er þó ein fram á bæjunum, sem loðin er um lófana.

Á, hver er það, fóstri minn?

Hún Sigríður Bjarnadóttir í Tungu.

Á, ætli það? Ætli það eigi nokkuð til þar í Tungu? En ekki eru börnin mörg, trúi ég.

Læt ég nú það vera, ekki held ég það sé feitan gölt að flá, búið þar í Tungu, og ekki átti hann Bjarni heitinn jarðirnar; en hitt er það, hún kvað hafa fengið þrjár ef ekki fjórar jarðir eftir hana systur sína.

Nú, það var annað mál! sagði Guðmundur og neri saman lófunum.

Og því hefur mér dottið það í hug, að það væri ekki svo fjarri lagi fyrir þig, því góður stofn getur það orðið, ef vel er á haldið, með þessu litla, sem þú átt sjálfur, þó það sé nú ekki mikið; þú átt þó þenna part, sem ég hef ánafnað þér; og svo nokkra skildinga, hugsa ég.

Ég! skildinga, nei, ég á ekki peningana, ég er öldungis peningalaus.

Ekki trúi ég nú því; en þú vilt aldrei láta bera neitt á því; og hvað kemur til, að þú lofar mér aldrei að sjá skildingana þína, Gvendur?

Nú, þeir eru engir! En því fæ ég aldrei að sjá peningana þína, fóstri minn?

Annað mál er það; ég hef aldrei átt neina skildinga; þú skyldir fá að sjá þá, ef þeir væru nokkrir; eitt gripsverð, það er allt og sumt.

Heldur eignast þú þó skilding en ég.

Nú, það fer allt aftur; í sýslumanninn þarna varð ég að láta næstum því þrjár spesíur, og fjögur ríxort fóru til prestsins, því ekki er að bjóða þeim körlum annað en smjör, ull og peninga, og þótti mér þá ekki betra að láta sköfuna eða lagðinn; en verði einhver skildingur til eftir mig, þegar ég dey, þá veistu það, að þú átt að taka hann, því ekki get ég vitað, að það fari í eldinn hjá honum Brandi, þó það sé lítið; en hvað líst þér um þetta, sem við vorum um að tala, er ekki réttast fyrir þig, að þú reynir til að ná í þessa jarðarskika, sem hún Sigríður á?

Heldurðu, fóstri minn, að það gæti tekist?

Nú, það má reyna að komast eftir, hvað þær segja, mæðgurnar; ég skal reyna að staulast með þér fram eftir, ef þú vilt.

Við þetta felldu þeir fóstrar talið, en næsta dag voru hestar heim reknir að Búrfelli. Ekki voru reiðskjótar þeirra fóstra ásjálegir, meiddir í miðju baki og næsta grannir á síðu, því ekki var kostnaður gjörður eldishesta á Búrfelli, enda voru hestar þar oftar hafðir til áburðar en útreiða. Engir skrautmenn voru þeir fóstrar í klæðum, en þó var nú tjaldað því, sem til var. Guðmundur var í bláum treyjufötum af skarlati. Þessi föt höfðu í fyrstu verið keypt af Þjóðum og fóru því Guðmundi ekki sem best; Guðmundur var maður hár vexti, en treyjan var af meðalmanni, og skrolli hún upp á herðarblöðum að aftanverðu, en barmarnir héngu mjög niður að framanverðu. Guðmundur var allra manna skrefhæstur, en brækurnar stuttar, og féllu fötin lítt saman um miðjuna, og sá þar í gula skyrtuna; af þessu var Guðmundur til að sjá líkastur röndóttum jötunuxa. Bolurinn var af góðum kostum gjörður og glæsilegur; en svo óheppilega hafði til tekist einhvern tíma í kaupstaðarferð, þegar Guðmundur var að láta upp bagga, að nokkrar tölurnar höfðu hrunið af öðrum barminum; en með því að þess háttar tölur, sem á bolnum voru, ekki voru fáanlegar, hafði Guðmundur látið fylla skörðin með ósamkynja tölum. Þeir, sem ekki unna sundurgerð eða margbreytni í klæðum, mundu því líkast til hafa fundið það að bolnum Guðmundar, að tölurnar voru ekki allar af sama tagi. Stígvél átti Guðmundur, það voru vatnsstígvél. Þau hafði hann einhvern tíma orðið að taka upp í skuld af dönskum farmanni og ekki getað selt þau aftur, en nú komu þau að góðu haldi, því hvenær skyldi slíka gripi við hafa, ef þeir skyldu nú heima liggja? Guðmundur hafði og farið í stígvélin; en með því honum virtist hvor fóturinn öðrum líkur, tók hann það stígvélið á hægra fótinn, sem þeir, sem vanari eru þess konar skófatnaði, mundu hafa látið á hinn vinstra. Ekki urðu þeir fóstrar snemmbúnir, því þeir voru óvanir þessu dekri; þó komst biðillinn út á hlaðið um hádegisbilið með svipu og hatt í hendi; hatturinn var allásjálegur og „Einar Hákonarson vatnsheldur“ í kollinum. Um sama mund sem þeir fóstrar stíga á bak, kemur Fjósa-Rauðka þar út á hlaðið, setur hönd fyrir auga, glápir á Guðmund um hríð og stingur síðan nefinu að Smala-Gunnu og segir:

Nú þykir mér Guðmundur okkar vera orðinn uppdubbaður; hvert ætlar hann að fara, blessuð mín?

Hvað ætli ég viti af því, kelli mín? En það lítur svo út sem hann ætli að fara að biðja sér stúlku.

Skrattinn fjarri mér! sagði Rauðka og steypti úr því, sem hún hélt á. Þá þykir mér flestir sótraftar á sjó dregnir, ef hann Gvendur fer að biðja sér stúlku.

Þeir fóstrar komu að Sigríðartungu á áliðnum degi og berja þar að dyrum, og fór það eins og segir í vísunni, að „þar kom út einn digur dóni“ og litast um; þeir fóstrar heilsa honum með kossi, og spyr hann þá almæltra tíðinda, en þeir kváðust fá vita - en er húsbóndinn heima? sagði Guðmundur.

Já, hjá guði, því hann er dauður, sagði heimamaður, en ég á að heita ráðsmaður hérna, og allt, sem utanbæjar snertir, þá er það eins og þið talið við hana Ingveldi mína sjálfa, það sem þið talið við mig; annars heiti ég Árni, sem lengi var hjá honum síra Torfa, ég veit ekki, hvort þið kannist við það; en heitið þér ekki Bárður á Búrfelli?

Jú, Bárður heiti ég.

Já, ég þóttist hálfvegis þekkja yður, þó langt sé síðan ég sá yður; ég sótti til yðar smér hérna um árið, sem þó ekki vóst, þegar heim kom.

Og ekki kannast ég við það, að það hafi ekki vegist; en er maddaman heima? Mér er þökk á að fá að tala við hana.

Árni fór þá inn, og kom Ingveldur brátt fram og leiddi þá fóstra í stofu. Stofan var hús fyrir sig, og var gengið í hana vinstra megin úr bæjardyrum; hún var í þremur stafgólfum og ekki ólaglegt hús, eftir því sem gjöra er í sveitum; á þeim gaflinum, sem sneri út til bæjarhlaðsins, voru tveir glergluggar, og rétt undir þeim stóð dálítið, grænleitt borð og sinn stóll hvorum megin. Í fremsta stafgólfinu, næst dyrum, var gestarúmið og glitábreiða yfir; hinum megin og á móti rúminu stóð rauðlituð kista með fangamarki Ingveldar á hliðinni, sem fram sneri; það var fatakista hennar; en við endann á þessari kistu stóð önnur kista nokkuð minni, en nýlegri; hana átti Sigríður. Ingveldur leiddi Bárð til sætis við borðið og tók að spyrja hann tíðinda; en Guðmundur settist á kistu Sigríðar og sat þar með hattinn á hnjánum og hélt sinni hendi um hvort barðið, og datt ekki né draup af honum. Ekki leið á löngu, áður þar kom í stofuna stúlka með bjart hár, húfu á höfði og dökkvan skúf, á bláu pilsi, með röndótta vefnaðarsvuntu og í blárri peysu, nokkuð nærskorinni. Það var Sigríður Bjarnadóttir. Hún gekk hæversklega, en þó ófeimnislega inn gólfið og rétti að móður sinni kaffiketil, sem hún bar í hendinni; en gestirnir risu upp á móti henni og heilsuðu henni með kossi. Ingveldur tók við katlinum, brá svuntuhorninu neðan undir botninn á honum, blés í stútinn og setti hann á borðið og tók að skenkja kaffið; setti fyrst fyrir Bárð og benti Sigríði að koma og færa Guðmundi, þar sem hann sat á kistunni. Sigríður bar Guðmundi kaffibollann í annarri hendi, en sykurskál í annarri. Guðmundur þrífur með annarri hendinni einhvern álitlegasta sykurmolann úr skálinni, en með hinni hendinni tekur hann um kaffibollann, en lætur Sigríði standa eftir með undirskálina, því ekki var hann svo fróður í þess háttar efnum, að hann vissi, að hún átti að fylgja bollanum, og bar Sigríður skálina brosandi aftur á borðið. Guðmundur stýfði sykrið úr hnefa sínum, jafnóðum og hann sötraði kaffið, en stakk síðan afganginum í vestisvasa sinn. Um það leyti, sem Guðmundur var búinn að drekka kaffið, víkur Ingveldur talinu til Bárðar og segir:

Meðal annarra orða, ætlið þér langt að ferðast, Bárður minn?

Og ekki lengra, maddama góð, ég dróst hingað fram eftir með honum Guðmundi mínum, rétt að gamni mínu, og svo langaði mig til að tala við yður fáein orð einhvern tíma.

Ég vona til, að þér verðið hjá mér í nótt, Bárður minn, það er ekki svo oft, að þér komið hingað.

Satt segið þér það, heillin góð, ekki gjöri ég óþarfa útreiðirnar með öllum jafnaði; samt sem áður held ég, að ég verði að dragnast heim í kvöld, þegar erindinu er af lokið, og það vildi ég helst gjöra einhvers staðar í einrúmi, ef þér gætuð komið því við.

Ég verð þá að biðja yður að koma innar í baðstofu með mér; en Sigríður mín, ég vona til, að þú látir ekki honum Guðmundi mínum leiðast hjá þér á meðan.

Þau Bárður gengu úr stofunni, en Sigríður varð þar eftir og vænti þess, að Guðmundur mundi hefja samtalið með einhverju skemmtilegu efni; en Guðmundur gat einhvern veginn ekki fundið á því lagið og sat þar þegjandi á kistunni og barði hælunum í hliðina og gaut við og við augunum ámótlega til Sigríðar. Sigríði fannst það lítið yndi að sitja svona eins og mállaus og horfa á Guðmund, og væri því ekki annað fyrir en að yrða á hann að fyrra bragði. Hún vissi það, að oft getur lítilfjörleg byrjun orðið að löngu og skemmtilegu samtali, ef sá kann vel að haga orðum sínum, sem við er rætt; hún segir því blátt áfram:

Er ekkert að frétta neðan úr sveitinni?

Þakka yður fyrir! sagði Guðmundur; nei, ég verst allra frétta, nema það hefur verið stolið skammrifjum þar á Hamri, ég veit ekki, hvort þér hafið heyrt það.

Jú, ég trúi við heyrðum það hérna um daginn; vita menn nokkuð um það, hver það muni hafa gjört?

Ónei, sagði Guðmundur og þagnaði; Sigríður sá, að þetta samtal gat ekki loðað saman, enda þótti henni það ekki svo skemmtilegt, að hún gæti verið að halda lengur lífinu í því; þegir nú um stund, en segir síðan:

Þið fenguð í fyrravor nýjan prest þar niðri í sókninni, hvernig líkar ykkur við hann?

Og ég held hann sé afskiptalítill og meinhægur, karlinn, og sannast er að segja um það, ekki drekkur hann eins og hin skepnan, sem drakk frá sér vitið og alla blessun.

Það er vel farið; honum mun þá ganga betur búskapurinn en sagt var um hinn.

Já, það vænti ég eigi að heita; ekki er hann eins dauður; og það væri þá heldur engin furða, þó hann hefði eitthvað að éta með öllu því smjörgjaldi, maður guðs og lifandi, það mætti eitthvað verða úr því; en það er eins og einhver skrattans óblessun fylgi þessum prestum, hvað mikið sem berst að þeim; og með öllu saman held ég þó, að hann leggi ekki stórt fyrir, svo sem þar þó er borið heim af öllum sköpuðum hlutum; ég treysti mér til að verða stórríkur, ef ég hefði aðrar eins tekjur á hverju ári.

Já, það er nú ekki að ætlast til þess, að allir geti haft hagsýnina og sparnaðinn ykkar fóstranna á Búrfelli.

Og ekki má það nú kalla, að ég sé sparsamur; ég ét alltaf, og það heldur mikið en lítið; en hitt er satt, hann fóstri minn er sparsemdarmaður; því það segi ég yður satt, hann getur verið svo vikunum saman, að hann smakki ekki feitmeti, og er það ekki af því, að hann eigi það ekki til.

Það giska ég nú á, sagði Sigríður hálfbrosandi, heldur mun það vera af því, að hann vill koma því í skildinga; en hvað ég vildi segja, hvernig kennimaður þykir ykkur hann vera, presturinn ykkar?

Og ég veit það ekki, ég heyri, að sumir hæla honum; þó skömm sé frá að segja, hef ég ekki komið nema einu sinni til kirkju, síðan hann kom, og heyrði ég þó ekki nema seinni partinn af ræðunni, því það stóð svo á, að ég var að tala við mann, sem ég átti lítilræði hjá, úti undir kirkjuvegg.

Hvernig fannst yður þetta, sem þér heyrðuð?

Og ég held það hafi verið allgott; mér fannst það svona viðlíka og Strumshugvekjur.

Lengri gátu ekki viðræður þeirra Guðmundar og Sigríðar orðið að þessu sinni, fyrir því að þau Ingveldur og Bárður komu þá aftur í stofuna; en þó samtal þetta væri ekki langt, fékk Sigríður nokkra hugmynd um kunnáttu Guðmundar og hugarfar.

Skömmu eftir það býst Bárður til heimferðar, og segir Ingveldur við hann, þegar þau kvöddust:

Jæja, Bárður minn, nú látum við þetta vera svona fyrst um sinn; en fari allt eins og ég vil, skal ég undir eins láta ykkur vita það, fóstrana.

Sá hafði orðið endir samtals þeirra Ingveldar og Bárðar, að hún hét að gefa Guðmundi Sigríði dóttur sína, ef hún ekki með öllu þverneitaði þeim ráðahag. Ríða þeir nú heim, fóstrar, og líða svo nokkrir dagar, að Ingveldur vekur ekki máls á þessu við Sigríði, en var jafnan venju fremur blíð í viðmóti við hana og kallar hana elskuna sína í hverju orði, og þykir Sigríði það vel. Það var um þessar mundir eins og Ingveldur ætti í nokkurri baráttu við sjálfa sig um það, hvort hún ætti að eggja dóttur sína á að eiga Guðmund eða hún ætti að bregða því heiti, sem hún hafði gjört þeim fóstrum, og kom hún sér ekki einhvern veginn að því að nefna þetta við Sigríði; en einn morgun herðir hún upp hugann og vindur sér að Sigríði og segir ofur blíðlega:

Ekki ber ég á móti því, gæskan mín, að nokkuð hefur verið kaldara millum okkar hingað til en vera ætti; það getur verið, að það sé eins mikið mín sök og þín, en nokkuð er það þér að kenna; og það skaltu vita, að ekki elska ég þig minna en hin börnin mín; þið eruð öll undir sama brjóstinu borin, og því þykir mér í rauninni eins vænt um ykkur öll; en ekki væri þess öll ólíkindi, þó ég væri alúðlegri við það barnið, sem sýnir mér meira ástríki og alúð og vill gjöra allt að mínu skapi. Nú hef ég í fyrsta sinni sagt þér, hvað mér er innan brjósts, og vona ég, að allt verði betra millum okkar eftirleiðis; en að geði mínu átt þú að láta, það er þín skylda.

Sigríði fannst, að þessi orð móður sinnar kæmu frá hjartanu, og varð þeim grátfegin; hún hljóp um hálsinn á móður sinni og sagði:

Já, elsku móðir góð, í öllu vil ég ástunda það að gjöra yðar vilja, og það hryggir mig, hafi ég í einhverju móðgað yður, og fyrirgefið þér mér það!

Ójá, góða mín, sagði Ingveldur og kyssti Sigríði. Þú skalt þá sjá það, að ég verð þér góð móðir; en nú giska ég á, að það verði ekki svo lengi, sem mér helst á ykkur, börnunum mínum; það er vant að fara svo fyrir okkur foreldra veslingunum, þegar við erum búin að koma ykkur á fætur og sá tími er kominn, sem við mættum hafa mest yndi og stoð af ykkur, þá hverfið þið út í veröldina frá okkur, og eins mun fara um þig; þú ferð nú að giftast, býst ég við, þegar þér býðst gott gjaforð, og það væri synd fyrir mig að líta svo á minn hag að sitja þér í ljósi fyrir því, sem guð vill veita þér. - Og nú fór Ingveldur að hálfkjökra.

Ekki skuluð þér kvíða því, móðir mín, sagði Sigríður, ég giftist varla svo fljótt, held ég.

Og því skyldir þú ekki gjöra það, elskan mín! Þetta liggur fyrir þér, og á þá leið dreymdi mig manninn minn heitinn í nótt, sem þess verði ekki langt að bíða; og sá eini biður þín, sem vandi er frá að vísa, og hver heldur þú, að það sé?

Ég hef lítið hugsað um það enn, móðir mín, sagði Sigríður og roðnaði við.

Guðmundur á Búrfelli verður maðurinn þinn, taktu nú eftir, ef það er guðs vilji, og enginn annar.

Æ, ekki held ég það, móðir mín! Ég vona til þess, að hann biðji mín ekki.

Það var þó erindið þeirra fóstranna hingað fram eftir hérna um daginn.

Og hvað sögðuð þér þeim, móðir mín?

Ég lofaði þeim því, að svo miklu leyti sem mig snerti, og hét þeim að nefna það við þig, því mér gat ekki dottið annað í hug en að þú mundir þakka guði fyrir að fá slíkan mann, efnilegan og ríkan.

Sigríður varð hljóð við þessi tíðindi; og áttu þær mæðgur langa viðræðu um þetta efni, og fannst það mjög á Sigríði, þó hún færi hægt, að henni virtist á annan veg en móður hennar; fann hún það til, að maðurinn væri óálitlegur; en Ingveldur kvað fegurðina ekki til frambúðar; hefði og föður Sigríðar verið allt annað betur gefið en fríðleikurinn, og hefði hann þó verið sæmdarmaður í sveit, en taldi Guðmundi það til gildis, að hann væri ráðdeildarmaður, stilltur og efnaður vel, og mundi fóstri hans búa svo í garð fyrir hann, að hann yrði þess mest aðnjótandi, sem til væri á Búrfelli. Sigríður fann það og að Guðmundi, að hann væri mjög svo fákunnandi; en Ingveldur hafði orð fyrir því og kvað ekki bókvitið í askana látið, þegar farið væri að búa. Að svo búnu skildu þær mæðgur að því sinni; en nær því á hverjum degi flutti Ingveldur mál Guðmundar, en fór þó að öllu sem hægast við Sigríði. Sigríður vildi fyrir hvern mun ekki giftast Guðmundi, en þótti nú sem hún mætti ekki gleyma Indriða. Hafði hún það fyrir satt öðru veifinu, að hann mundi hafa huga til sín, og hefði hann sýnt henni það oft í viðmóti, þó ekki hefði hann talað margt; en einkum þóttist hún að fullu hafa ráðið það af orðum hans, þá er þau voru saman þar í stofunni. Aftur annað veifið efaðist hún um, að þetta væri annað en tómur hugarburður sinn, og væri hugsun sú einungis sprottin af því, að hún óskaði, að svo væri. Hún gat heldur ekki skilið í því, hvernig á því stæði, að Indriði hefði beðið sér stúlku annars staðar, eins og þá var altalað, ef hann nokkurn tíma hefði haft huga til sín. Það var og annað, er henni þótti undarlegt, að Indriði ekki hafði komið þar eða séð hana allan þann vetur og ekki komið á þá mannfundi, sem hún kom á, eins og hann hafði áður verið vanur. Aftur á hinn bóginn fann hún, að móður sinni mundi stórum mislíka, ef hún vildi ekki fylgja ráðum hennar og eiga Guðmund. Út úr öllu þessu var hún oftlega mjög angurvær og grét í einrúmi, en bar sig þó að láta ekki fleiri menn sjá; því við engan var að tala, er hún gæti trúað fyrir hörmum sínum.

Það var eina nótt sem oftar, að hún gat ekki sofnað fram eftir allri nótt fyrir tómri umhugsun um hagi sína og grét sáran; en nokkru eftir miðnæturbilið sofnaði hún loks út af, og dreymdi hana þá, að hún þóttist vera stödd þar úti á hlaðinu; þar var og móðir hennar hjá henni og hélt á húfu nokkurri gamalli, og þótti henni þó líkara lambhúshettu, og ætlaði móðir hennar að setja hana á höfuðið á Sigríði; en í því bili þótti henni Björg systir sín koma þar að og segja: Ekki veit ég, hvað þú hugsar, Ingveldur sæl, að setja skrattans pottlokið að tarna á höfuðið á barninu! - og sló við hettunni, svo að hún hraut ofan í skyrdall, sem stóð þar skammt frá; en síðan brá hún upp faldi einum fögrum, og þóttist hún vita í svefninum, að hún ætlaði að setja hann á höfuðið á sér, en í því vaknaði hún. Sigríður varð ofurfegin þessum draumi og réð hann eins og henni var geðfelldast, að Guðmundur væri lambhúshettan, en Indriði faldurinn, og þótti henni það eitt vanta í drauminn, að systir hennar lét ekki faldinn á höfuðið á henni. Um þetta var hún að hugsa nokkra stund og gat ekki sofnað aftur; kom henni það þá í hug, að hún læddist upp úr rúminu og klæddist og fór fram í dyraloft, er þar var. Þá var orðið svo ljóst, að vel mátti sjá til að skrifa. Hún tók sér þá penna og blek og skrifaði bréf og var búin að brjóta það og skrifa utan á, áður en heimilisfólkið kom á fætur. Bréf þetta var til Ingibjargar móður Indriða og var svona:

Göfuga höfðingskona!

Að vísu veit ég það, að það er ekki siður, að konur tali að því að fyrra bragði við karlmenn, sem til ásta lýtur eða bónorðs, og líkast er til, að þessi siður sé eðli okkar samkvæmur, því guð hefur búið oss svo úr garði, að ekki þarf orðanna við, til þess að vér með stillingu og siðsemi getum sýnt þeim sál vora, eins og hún er; en hvort sem þessi siður er réttur í sjálfu sér eða ekki, finnst mér, eins og nú stendur á fyrir mér, að hjarta mitt ekki veiti mér neina ró, nema ég opinberi einhverjum það, sem mér býr í brjósti og á hverri stundu pínir mig; og væri ég nær þeim hinum sama manni, sem ég aldrei get látið af að hugsa um, mundi ég ekki skeyta um, hvort menn kalla slíkt reglur eða óreglur, en gjöra það, sem saklaus tilfinning hjarta míns byði mér, og auglýsa honum það, sem í því er leynt, ef hann ekki sjálfur sæi það. En eitthvað, líkast til óhamingja mín, bannar mér að þessu sinni og hefur allt of lengi bannað mér að sjá hann, og hverjum á ég þá að auglýsa það, sem ég get ekki lengur dulið? Ég ræðst í að segja yður það, af því að þér eruð kona eins og ég og verðið því að hafa sál, sem að minnsta kosti getur skilið og ímyndað sér, hvaða tilfinning þeirrar konu hjarta verður að hafa, sem kremst af harmi og efa um það, hvort hennar kærasta hugsun sé eintómur hugarburður og reykur eða ekki; verðið að hafa svo viðkvæmt hjarta, að ef þér sjáið, að hugsun mín er ekki annað en draumur, sem aldrei á sér uppfyllingu, ósk án vonar, að þér aumkið mig og að minnsta kosti ekki kastið því, sem yður er falið á hendur í trúnaði, út í heiminn til að hlæja að því. En þetta, sem ég ætla að trúa yður fyrir, er það, að mig langar til að vita, hvort nokkuð sé til í því, sem ég lengi hef gjört mér í hugarlund, að sonur yðar I.... mundi hafa rennt huga sínum í þá átt, sem mig snertir. Ef svo væri, munduð þér gjöra syni yðar þægt verk og mér sannan velgjörning að komast eftir því og í kyrrþey láta mig vita það hið bráðasta. Sé þetta tómur hugarburður minn, sprottinn af því, að það mæla börn jafnan sem vilja, gjörið þér vel í að vekja mig úr þeirri saklausu vonarleiðslu, sem ég nú er í, því þá ætti ég hægra með að fylla þá skyldu, sem ég veit, að hlýðni við móður mína heimtar af mér. Fyrirgefið mér dirfsku mína, og verið með öllum yðar ævinlega blessaðar! Þess óskar yðar elskandi

Sigríður Bjarnadóttir.

Bréf þetta var skrifað í mesta flýti og, eins og á því má sjá, meira af tilfinningu en eftir föstum hugsunarreglum, eins og konum er títt; hingað og þangað var það sett blekblettum; verður það oft á þess háttar bréfum, því höndin er ekki alltaf jafnstillt, er hjartað kemst við; kalla menn þá bletti ástardropa, og þykja þeir engi lýti vera.

En nú var eftir það, sem mest á reið, og það var að koma bréfinu til Ingibjargar, svo lítið bæri á, og var Sigríður í stökustu vandræðum með það, því engan átti hún þann trúnaðarmann þar á bæ, að hún þyrði að trúa fyrir því. Þenna sama dag kom Gróa á Leiti að Tungu. Ingveldur hafði lagst að sofa um daginn, þá er Gróa kom, og vildi Gróa ekki vekja hana, en tók nú að tala við Sigríði. Sigríður var venju fremur hljóð; og verður Gróa þess brátt vör, og ávarpar hún hana blíðlega og segir:

Það gengur eitthvað að þér í dag, gæskan mín!

Ónei, Gróa mín, segir Sigríður, það er svona hinsegin.

Ekki þarf ég að spyrja að því; það liggur eitthvað illa á þér, því ekki ertu vön að vera svona fálát með öllum jafnaði; en mig skal nú ekki furða það, þó það kynni að liggja illa á þér út úr hansvítis slaðrinu, sem gengur staflaust hérna í sveitinni; því þú munt varla hafa getað komist hjá að heyra það sjálf.

Hvað er það, Gróa mín?

Nú, þú hefur þá ekki heyrt það, elskan mín, hvað það talar um þig?

Nei, ekki hef ég heyrt það; hvað er það?

Og minnstu ekki á það, ég get varla talað um það, ekki nema það að það er verið að bendla þig við þremilinn hann Gvend á Búrfelli.

Hver gjörir það?

Á, það var líklegra, að það væri ekki meiri hæfa fyrir því en mörgu öðru, sem það fer með; en guði sé lof, að það er ekki satt, þar færi illa góður biti í hundskjaft, hafði ég nærri sagt; ég var búin að heita því fyrir mér, að ekki skyldi ég koma í veisluna þína, gæskan mín, ef þú ættir þann kúalubba; en mikið er, hvað bölvað hyskið - guð fyrirgefi mér, að ég blóta - getur logið, ég segi það satt, tilhæfulaust; þetta er altalað út um alla sveit, en ég ber á móti því og segi, að það skuli ekki vera að fara með þetta slaður, því hún Sigríður mín ætti ekki fremur strákinn hann Gvend en strákurinn hann Gvendur færi ofan í mig.

Þetta gat þó vel staðist, sagði Sigríður og stundi við; það mundi þykja nógu gott gjaforð fyrir mig.

Æ, það er von þig hrylli við því, blessaður unginn, að hugsa til þess, hvað þá heldur -

Þetta hefur þó komið til orða, Gróa mín, og er mörgu skrökvað, sem minna er hæft í.

Æ, nú held ég mér verði flökurt, elskan mín, það hefði ég svarið fyrir; og hvað ætlar hann að gjöra með konu, þumbarinn sá! Ég segi fyrir mig, ég vildi heldur sofa hjá einhverjum rekaviðardrumb en honum Gvendi.

Sigríður þagði og gat þó ekki gjört að sér að brosa; en Gróa lét dæluna ganga:

Ég þykist vita, að hún Ingveldur mín hefur fljótt gefið honum góð svör og gegnileg?

Ég veit þó ekki, sagði Sigríður, hvort henni þykir það svo mikið óráð; hann er vel efnaður.

En þó, elskan mín! Hvað hefur konan gagn af því, þegar hún fær ekki að ráða svo miklu sem að gefa hundi bein? Eða ætli hann verði ekki líkur honum Bárði í því eins og öðru? Og hverju réði hún Guðrún heitin veslingurinn þar á Búrfelli? Hún varð að fara stelandi að því, ef hún vildi víkja einhverjum svöngum bita, en af óætu hafði hún ekki svo mikið undir sinni hendi sem vefja má um mannsfingur eða stungið verður upp í nös á ketti. Ekki get ég trúað því, að hún Ingveldur mín sé svo blind að láta barnið sitt í þær hendur; og aldrei hefði það við gengist, ef hann faðir þinn, hann Bjarni minn heitinn blessað ljósið, hefði lifað.

Það held ég nú og, sagði Sigríður.

En það sést nú hérna á mörgu - þó ég eigi ekki að segja annað en það, sem gott er, um hana Ingveldi mína, sauðinn - síðan hann dó, öðlingurinn.

Þetta sagði Gróa hálfkjökrandi og brá um leið svuntuhorninu upp að augunum á sér. Sigríður, er alltaf saknaði föður síns og var jafnan hlýlegt til allra, sem töluðu vel um hann, komst þá við og strauk með hendinni um vangann á Gróu og sagði:

Við skulum ekki minnast á hann, góða mín!

En Gróa hélt áfram kjökrandi og sagði:

Ég get ekki gjört að því, að mér vöknar ætíð um augu, þegar ég minnist á hann blessað ljúfmennið; en það skal ekki verða, þó ég sé í pilsi, að barnið hans Bjarna míns fari í þær hendur; ég verð að taka henni móður þinni tak, svo hún stofni ekki sér eða sínum í þá vitleysu.

Og ekki held ég það sé vert, Gróa mín, að þú minnist neitt á það við hana; en annað lítilræði gætir þú gjört fyrir mig, ef þú vilt mér vel, sagði Sigríður og leit framan í Gróu, eins og hún ætlaði að sjá inn í brjóstið á henni, en gat ekki séð þar annað en einskæra trúmennsku og einlægni.

Þú mátt reiða þig upp á mig, góða mín, því þó aldrei hefðir þú hlynnt neinu góðu að mér, sem þú oft og margfaldlega hefur gjört, þá á hann, sem nú liggur í gröfinni, það að mér, að ég reyndist þér ekki verr en aðrir í því litla, sem ég megna, eða hvað er það, gæskan mín?

Það er að koma bréfinu því arna yfir að Hóli, svo lítið á beri, og taka við svarinu aftur, og hérna er skildingur undir það. - Sigríður rétti þá að henni bréfið og spesíu með.

Það er svo lítið, og sér er nú hver ósköpin! Þú hefur það af einhverjum þínum að vera svo smátæk, elskan mín! Þetta er nú of mikið, sagði Gróa og kyssti Sigríði stundarlöngum kossi.

Ég þarf ekki að minna þig á að geta ekki um það við neinn hérna á heimilinu, Gróa mín.

Ég! óekkí; ekki hún Gróa litla; vertu öldungis óhrædd um það, gæskan mín! Ég er enginn skynskiptingur, og það, sem einu sinni er komið í hendurnar á mér, það skal enginn þaðan draga, þó það væri kóngurinn; og þagað get ég yfir því, sem mér er trúað fyrir, þó ég sé kjöftug; ég held það varði engan um það, þó eitthvað meinleysi sé á millum ykkar Indriða, held ég; en þar er maðurinn.

Í þessu kom Ingveldur inn, og var Gróa fljót að stinga bréfinu á sig og sneri ræðunni allt í einu, eins og þær hefðu verið að tala um eitthvað annað. Gróa dvaldi í Sigríðartungu fram eftir deginum, en þó skemur en hún átti venju til. Sigríður þóttist hafa komið vel ár sinni fyrir borð um bréfsendinguna; en svo liðu margir dagar, að ekkert svar fékk hún frá Ingibjörgu. Loksins kom Gróa aftur fram að Tungu, og spurði Sigríður hana, hvernig farið hefði um bréfið; kvaðst Gróa hafa farið með það daginn eftir og fengið Ingibjörgu það sjálfri í einrúmi; hefði hún lesið það og skellihlegið upp yfir sig og kastað því þar á búrhilluna, rétt eins og hún skeytti ekkert um það; og ekki hefði hún beðið sig að taka aftur neitt svar; sagðist hún þó hafa ámálgað það við hana. Þessar fréttir sagði Gróa Sigríði hálfgrátandi, og hafði Sigríður enga orsök til að efast um, að þær væru sannar; en óhlutvandir menn, sem lögðu það í vana sinn að færa allt á verri veg fyrir Gróu, mæltu það, að hún einhvern tíma löngu síðar hefði átt að sleppa því við góða kunningjakonu sína, að þegar þeir, sem bréf sendu, væru búnir að borga undir þau, gætu þeir ekki gjört að því, hvað síðar yrði um þau.

Eftir þetta virtist Sigríði öll von úti, og gjörðist hún nú jafnan harmþrungin mjög, en móðir hennar hætti ekki að gylla fyrir henni, hve girnilegt það væri að eiga Guðmund; og einn dag, er Sigríður sat fálát mjög fram í stofu, kemur móðir hennar þangað til hennar og klappar henni hálfhlæjandi utan á vangann og segir:

Á ég nú ekki bráðum að fara að skrifa þeim til og segja þeim, að nú sé björninn unninn? Eða er þér ekki farið að sýnast, elskan mín, eins og mér, að vandi sé velboðnu að neita?

Þér ráðið því, móðir mín, hvað þér gjörið; ég veit það, að þér getið ekki eggjað mig á annað en það, sem þér haldið, að mér sé til hins besta; og þó ég ekki geti fellt mig við það, veit ég samt, að það er skylda mín að hlýða yður, sagði Sigríður, og hrutu nokkur tár um leið ofan um kinnarnar á henni.

Það er öll von til þess, og ég get ekki láð þér það, góða mín, sagði Ingveldur og klappaði Sigríði aftur á kinnina, þó þú finnir í fyrstu hjá þér nokkurn efa; en ég er sannfærð um það, að eftir á muntu þakka guði fyrir, að þú lést mig ráða.

Sigríður gat þá ekki bundist tára, en með því að hún vildi ekki láta móður sína sjá, að hún gréti, stóð hún upp og gekk út úr stofunni, og töluðust þær ekki meira við, mæðgurnar; en Ingveldur tók orð Sigríðar fyrir fullt jáyrði og ritaði síðan þeim fóstrum til og sagði, hvar komið var. Komu þeir fóstrar þá fram að Tungu, og festi Ingveldur þá Guðmundi Sigríði dóttur sína. Eftir það kom Guðmundur nokkrum sinnum fram að Tungu; en jafnan var Sigríður mjög fálát við hann, og fékkst Guðmundur ekki um það. Er nú svo ráð fyrir gjört, að brúðkaupið skyldi standa að afliðnum réttum að þeim bæ, er Hvoll heitir; það var annexía prestsins í Sigríðartunguhrepp; þar voru húsakynni stærri og rúmbetri en í Tungu. Síðan fóru lýsingar fram tvo sunnudaga, hvorn eftir annan, og seinna sunnudaginn var lýst á tveimur kirkjum undir eins. Það hafa lögfróðir sagt oss, að ekki sé sú aðferð rétt; aftur höfum vér heyrt greinda presta segja, að svo megi þó vel vera, ef einhver gild ástæða sé til þess að flýta brúðkaupinu; og þannig stóð á að þessu skipti. Hrútar þeir, sem Bárður hafði ætlað til veislunnar, voru komnir af fjallinu, og hafði Bárður hlaupið til að skera þá, svo þeir legðu ekki of mikið af á mörinn, en skotið því að presti, að ef lengi stæði á lýsingunum, gæti svo farið, að farið yrði að slá í kjötið, þegar veislan yrði haldin. Daginn áður en veislan skyldi standa höfðu þeir fóstrar mikið annríki í að koma öllu fyrir. Á Hvoli var stofuhús fram í bænum, þar voru borð reist eftir endilöngu húsinu og bekkir á tvær hliðar. Hér skyldi allt fyrirfólkið sitja; brúðhjónum var ætlað sæti fyrir miðjum gafli, og voru sæti þeirra auðkennileg af tveimur stórum flossessum, sem lagðar voru á bekkinn fyrir miðjum borðsenda. Á aðra hlið brúðar skyldi sóknarprestur og kona hans sitja og út frá honum aðrir aðkomuprestar, þá hreppstjórar og aðrir valinkunnir bændur. Á aðra hlið brúðguma átti Ingveldur að sitja og hver af öðrum eftir skyldugleika og mannvirðingum. Úti á hlaðinu var stór skemma; hún var rudd og tjölduð vaðmálum á báða veggi; þar áttu að sitja hinir smærri bændurnir og meðreiðarmenn fyrirmannanna. Skemman var tvísett borðum og borðin reist á þann hátt, að eftir skemmunni endilangri voru settar kistur í röð og tómar hálftunnur og þar á ofan reft sléttum fjölum eða hurðarflekum og síðan hulið dúkum eða ábreiðum. Þetta var hin óæðri stofan. Vistir og drykkur skyldi vera eins í hvorritveggja stofunni, en sá var aðeins munurinn, að tjöld og borðbúnaður voru glæsilegri í fyrirmannastofunni en í hinni óæðri stofu. Kona var til fengin þar úr sveitinni að annast um matartilbúninginn og frammistöðumenn ákveðnir; en sjálfur ætlaði Bárður að hafa umsjón yfir vínföngunum. Þriðjudaginn í tuttugustu og þriðju viku sumars var allt tilbúið til veislunnar, og skyldi hún standa að morgni; en Bárður karl sat út við bæjarlæk og jós með trésleif vatni á 10 potta tunnu, er stóð hjá honum á lækjarbakkanum; kemur þá Guðmundur þar að og segir:

Hvað ertu nú að gjöra, fóstri minn?

Og ég er að þynna dálítið mjaðarskömmina þá arna; mér sýnist hún vera svo þykk; ég held hún sé svikin!

Nú! Ég hélt hinsegin, að þú værir að drýgja hana ögn, fóstri minn!

Ónei, ég held hún drýgist lítið á þessu, þó ég láti nokkur spónblöð hérna á kútholuna. En er nú allt tilbúið hjá þér í skemmunni, og heldurðu hún taki það allt, sem hérna kemur á morgun?

Og ég veit það ekki, þetta er svoddan sægur, sem búið er að bjóða; ég veit nú ekki, hvað það á að safna að sér öllu því hyski.

Það veit ég ekki heldur, en hún Ingveldur vill hafa það svo, og ég læt hana ráða því, og hún skal fá að borga það, sem til þess gengur; ekki ætla ég að gefa henni það, það máttu reiða þig upp á.

Nei, það sýnist mér ekki þú þurfir, og hvað selur þú henni brennivínspottinn?

Ég læt hana fá hann fyrir sama verð eins og ég hefði getað fengið fyrir hann í vetur; er það ósanngjarnt?

Nei; og mjöðina, hvað tekur þú fyrir hana?

Já, það er nú eftir að mæla hana, það var vel þú minntir mig á það; ég get ekki fært pottinn fram um meira en fjóra skildinga, vænti ég, og ég ætlast til, að það verði 10 pottar hérna á kútnum; - en nú vænti ég, að þú farir að fara fram eftir; þú verður að vera þar í nótt, til þess þið getið fylgst öll hingað á morgun.

Ójá, sagði Guðmundur og fór.

Brúðkaupsdaginn var veður fagurt, og voru menn snemma á fótum á Hvoli. Að liðnum dagmálum tók boðsfólkið að ríða í garð. Á Hvoli var fagurt heimreiðar, og létu þeir hinir ungu menn hestana fara á kostum heim traðirnar; og höfðu menn mikla skemmtun af að horfa á, hvernig gæðingarnir runnu.

Þarna kemur presturinn á rauðum og tveir með, sagði einhver, sem stóð á hlaðinu; allténd hefur hann eitthvað, góði maður, sem fallega ber fótinn.

Bárður stóð fyrir miðjum bæjardyrum og heyrði það, setur nú hönd fyrir auga og segir:

Ójá, það er víst hann á honum Rauð sínum - snýr sér síðan við og kallar hátt inn í bæjardyrnar: Helga mín! hafðu nú til í litla katlinum, nú sést til prestsins! En hver þeysir þarna á ljósum, hérna megin við kvíarnar?

Það getur ekki verið neinn annar en hann Þorsteinn kaupi eða matgoggur, sem sumir kalla; já, líkt er það honum og henni Hlíðar-Ljósku.

Já, ekki er honum boðið, sagði Bárður í hálfum hljóðum, en það stendur ætíð svo á, að hann á þar ferð um, sem veisla er haldin; og ég vænti ég verði að bjóða honnm, fyrst hann á annað borð er kominn; en hvað verður af brúðhjónunum, piltar, sjáið þið ekkert til þeirra enn?

Þau eru rétt að segja komin að túninu.

Þá var nær hádegi en dagmálum, er hjónaefnin riðu í hlað. Guðmundur ætlar ekki að láta standa á sér og stekkur af baki til að taka konuefnið af baki, en laust var á klárnum, og snarast reiðverið út í aðra hliðina, og verður Guðmundi fastur annar fóturinn í ístaðinu, en maðurinn var ekki liðugur, og fellur hann á bak aftur ofan í bleytuna, og flekkuðust nokkuð fötin Guðmundar; hlupu þá nokkrir af þeim, sem þar voru á hlaðinu, til að hjálpa Sigríði af baki; en aðrir gripu til sjálfskeiðinganna og tóku að skafa bleytuna úr brókum Guðmundar, og var ekki ugglaust, að þeir hinir yngri menn hefðu ófarir Guðmundar í flimtingi. Sigríður gekk til stofu, og þóttust menn ekki hafa séð konu fegri yfirlitum eða rösklegri á velli en Sigríði; og töluðu það margir sín á milli, að mikið gæfuleysi legðist fyrir jafnvæna konu að eiga svo óliðlegan mann sem Guðmundur var. Sigríður var mjög fálát um daginn, og tók enginn til þess; brúðkaupsdagurinn er svo mikilvægur dagur á mannsævinni, að eftir líkindum þykir fara, þó nokkur alvörusvipur sé á brúðinni. Er nú gengið í kirkju og undan vígslu sunginn 309. sálmurinn í Nýju bókinni, og þegar komið er í seinasta versið, leiðir djákninn brúðhjónin til bekkjar; en að því búnu tekur prestur að þylja vígsluræðuna, og hafði hann tekið sér til umtalsefnis: „Efndanna er vant, þó heitin sé góð!“ Ekki þóttust menn vita þess nokkur dæmi, að heilagur andi hefði nokkurn tíma áður talað með þvílíkum krafti og áhrifum fyrir munn þjónustumanns síns, Tómasar prests; öll framkirkjan að norðanverðu flaut í tárum; í kórnum var þurrt og framkirkjunni sunnanverðri, en þó var þar margur hraustur drengur, sem hitnaði um hjarta. Sigríður sat með samanlagðar hendur á brúðarbekknum, og virtist mönnum hún harla föl útlitum og áhyggjumikil; en af Guðmundi datt ekki né draup; ekki táraðist hann, en endur og sinnum sáu menn varir hans bærast, en fingur kvika; þeir, sem þekktu lundarfar Guðmundar, gátu þess síðar til, að fremur mundi honum hafa það skipti flogið í hug að telja saman jarðarhundruð Sigríðar og landskuldavættir en að hann væri að hugfesta það, sem prestur sagði um kristilegt hjúskaparhald. Að lokinni ræðu tekur prestur, eins og vant er, að spyrja brúðhjónin lögspurninga þeirra, sem standa í handbókinni. Guðmundur svaraði þeim öllum vel og einarðlega, enda er það lítill vandi að svara þeim rétt; því reglan er sú að segja allajafna já til hvers, sem að er spurt. Að svo búnu snýr prestur sér til brúðarinnar og segir:

Sömuleiðis aðspyr ég yður, virðulega yngisstúlka jómfrú Sigríður Bjarnadóttir, hvort þér hafið ráðfært yður við guð í himninum, þar næst við yðar eigið hjartalag og svo þar eftir við náunga yðar og vini að taka þennan virðulega yngismann, monsér Guðmund Hansson, sem hjá yður stendur, yður til ektamanns?

Þessari spurningu játti Sigríður og þó nokkuð lágt.

Þá spyr prestur hana í annað sinn, og játti Sigríður enn.

Í þriðja máta aðspyr ég yður, hvort þér vitið yður fría fyrir að bafa gefið nokkurri mannspersónu, sem nú lifir, yðar ektatrú, sem þetta hjónaband hindra kunni?

Þá var eins og Sigríður allt í einu vaknaði af svefni. Nei, segir hún og svo hátt, að nær því heyrðist um alla kirkjuna. Prestur var óvanur slíkum svörum og varð nokkuð bilt við. Allir urðu öldungis forviða. Djákninn var maður forn og fastur í embættisverkunum; hann hugsaði með sér eins og segir í málshættinum: Slíkt verður oft á sæ, kvað selur, var skotinn í auga - stúlkunni hefði orðið mismælt, en ætti þó leiðrétting orða sinna; hann sat ekki langt frá Sigríði og hnippar í hana með handleggnum og segir: Segið þér já, blessuð! - Sigríður þagði eins og steinn og hallaði sér á bak aftur upp að hjónastólsbríkinni; en prestur rankar við sér aftur og hefur nú upp aftur hátt og skýrt sömu orðin sem fyrr. Sigríður þagði. Prestur starir á hana um hríð, snýr sér síðan til fólksins og segir: Hinn kristlegi söfnuður hefur heyrt, að brúðurin, jómfrú Sigríður Bjarnadóttir, hefur neitað spurningum kirkjunnar; rítúalið leyfir mér ekki að halda lengra út í það, piltar! Getur og verið, að stúlkunni hafi orðið snögglega illt. - Eftir það gengur prestur út úr kirkjunni; en allir þyrpast í eina bendu utan að Sigríði, en hún er náföl og talar ekki orð; halda flestir hana mállausa eða vitfirrta eða hvorttveggja, og er hún studd inn í bæinn, og stumra menn þar yfir henni um hríð. Boðsmenn sáu það á öllum lotum, að ekki mundi verða neitt úr veislunni þann dag, og fóru smátt og smátt að tínast í burtu, þegar á daginn leið. Sigríður komst um kvöldið fram að Tungu; og urðu menn þess nú varir, að hún var hvorki mállaus eða vitskert, en aftók nú með öllu að setjast í annað sinn á brúðarbekkinn hjá Guðmundi; og flýgur þessi atburður um öll héruð, og var álit manna allmisjafnt; sögðu sumir, að þetta væri orðið mjög að líkindum og væri betur seint séð en aldrei; hinir voru þó fleiri, er lýttu Sigríði fyrir og töldu þess öll líkindi, að þessi atburður hefði ekki verið að öllu tilviljun; en Þorsteinn matgoggur lagði aldrei annað til þeirra mála en að hann fór að kjammsa með munninum og sagði: Hver ætli hafi þá étið alla steikina þar? Það kemur allténd vatnið fram í munninn á mér, þegar ég hugsa um hana. - Margir eggjuðu þá fóstra að höfða sök á hendur þeim mæðgum og töldu, að ekki hefði allt verið brigðalaust af þeirra hendi; þó fórst það fyrir, og varð sá endir málanna, að þær mæðgur hétu að gjalda Guðmundi 6 ær loðnar og lembdar í fardögum auk veislukostnaðarins, og létu þeir fóstrar sér það lynda úr því, sem komið var. Ekki sýndi Ingveldur Sigríði miklar ástir um þetta leyti, og var við sjálft búið, að Sigríður yrði að hrökkva burt frá Tungu; þó bar Sigríður þetta mótlæti með stillingu, en var heldur óglöð og fálát; og leið svo fram veturinn. -