Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Dýrfinnu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Dýrfinnu

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu. Þau áttu lengi vel ekkert barn og undu þau því illa. Kóngur vildi ekki vera heima við það og fór í leiðangur, og gekk drottning út með honum. Og þegar hann var farinn reikaði hún inn í lystigarð þeirra og sá eina rós. Þá segir hún: „Það vildi ég að ég ætti svona fallega dóttur þegar maðurinn minn kemur heim.“ Fyrir aftan hana stóð einn af þrælum kóngsins og sagði: „Það mæli ég um og legg á að þetta gangi eftir, en þú skalt aldrei geta litið hana réttu auga og skaltu sitja um hennar líf.“ Hann fór burt, en drottning gekk heim grátandi.

Það er skjótast af að segja að eftir hæfilegan tíma fæddi hún dóttur, aðdáanlega fagra og fríða, og strax sem hún sá hana varð hún reiðugleg og skipaði þrælum að fara með barnið út á skóg og drepa það, en færa sér úr því tunguna og hárlokk úr höfði þess, en þeim þótti barnið svo fagurt að þeir gátu ekki komið sér til að drepa það, skáru úr því hárlokk og bjuggu síðan um það sem bezt þeir gátu, en drápu tík sem með þeim hafði farið og færðu drottningu úr henni tunguna. Hún lét sér þetta vel líka. Tveir Finnar bjuggu í skóginum. Þeir fundu barnið, tóku það og ólu upp og gáfu henni nafn af því að þeir fundu hana útkastaða meðal villudýra og líka af sínum nöfnum, og kölluðu hana Dýrfinnu. Hún vóx upp hjá þeim og var hin efnilegasta og fríðasta í landinu. Þeir voru á veiðum á hvurjum degi, en Dýrfinna var heima.

Nú fréttir drottning að þessi fallega stúlka var hjá Finnunum, og hún komst að því að þrælarnir höfðu ekki drepið barnið. Hún hugsaði sér þá að ráða henni bana sjálf og lét galdrakonu búa til glófa sem höfðu þá náttúru að þegar einhvur setti þá upp hertu þeir að svo hendurnar skyldu fara af, og fór drottning nú með þá út á skóg til heimilis Finnanna. Þeir höfðu farið út á skóg um morguninn, og áður en þeir fóru tóku þeir Dýrfinnu sterkan vara fyrir að þiggja nokkurn hlut í dag þó einhvur kæmi og vildi gefa henni; hún skyldi ekki einu sinni ljúka upp. Drottning kom og barði á dyr, en Dýrfinna lauk ekki upp. Drottning lagði þá glófana í gluggann hjá henni og sagði hún skyldi þó þiggja þá og fór svo heim. Dýrfinna tók ekki glófana.

Um kvöldið koma Finnar heim og þakka Dýrfinnu trúleik sinn. Þegar drottning kom heim tók hún gullbúið gler sem töfrar fylgdu og sem svaraði henni til hvurs sem hún spurði. Nú sagði hún:

„Glerið mitt, gulli búna,
hvurnig líður Dýrfinnu núna?“

Það svaraði:

„Lifir hún og lifir vel
og lifir góðu lífi,
fæða hana Finnar tveir,
fátt er henni að meini.“[1]

Þá reiddist drottning og lét galdrakonuna búa til men sem kyrkti hvurn sem léti það á sig, og fór með það daginn eftir. Finnar höfðu enn farið og enn varað Dýrfinnu við að þiggja nokkuð. Drottning kom, og fór allt eins og fyrra sinnið, og þegar drottning kom heim spurði hún glerið eins og fyrr, en það svaraði eins og fyrr. Þá varð drottning hissa og nú lét hún búa til belti sem herti sundur hvurn sem léti það yfir um sig, og lét magna það svo að Dýrfinna skyldi fýsast til að láta það um sig. Og þriðja daginn fór hún með það til heimilis Finnanna. Dýrfinna lauk ekki upp. Drottning gengur að glugganum og segir: „Aldrei hefði ég trúað því að þú værir eins og þú ert. Ég vildi gefa þér góðar gjafir, en þú forsmáir þær. Þú skalt þó vita að ég er móðir þín, og er líklegt þú þiggir ekki fremur af öðrum en mér. Þiggðu nú beltið að tarna; það er engi smánargjöf. Ég tek þá til mín glófana og menið, ljúktu upp og komdu og kysstu móður þína.“ Dýrfinna lauk þá upp og þáði beltið, og spennti drottning því um hana og fór svo heim og tók töfraglerið sitt og sagði:

„Glerið mitt, gulli búna,
hvurnig líður Dýrfinnu núna?“

Það sagði að nú væri Dýrfinna að dauða komin, því þegar drottning var farin fór beltið að herða að Dýrfinnu, svo um kvöldið þegar Finnar komu heim þá þoldi hún ekki við. Þeim féll þetta ofur þungt, því þeir höfðu engin ráð að bæta úr því. Þeim lá við að átelja Dýrfinnu fyrir óhlýðni, en höfðu ekki brjóst til þess. Í dauðans vandræðum fóru þeir með hana út á skóg, og þoldi hún þó valla að ganga. Þeir mættu manni. Sá hafði belti yfir um sig. Þeir biðja hann hafa einhvur ráð að hjálpa Dýrfinnu. Hann sagði það væri nú ekki víst sér tækist það, tók þó af sér beltið og sló utan um beltið hennar; það [fór] í ótal parta.

Nú batnar Dýrfinnu og Finnarnir verða fegnir og þakka manninum. Hann sagði þetta lítinn greiða. Þeir fóru nú heim til sín með Dýrfinnu og þótti vel hafa úr ráðizt.

Meðan þessu fór fram hafði kóngurinn alltaf verið í leiðangri, og hafði ungur kóngsson úr öðru landi slegizt í félagið við hann seinni árin. Þeir hættu nú hernaðinum og skildu. Kóngssonurinn fór til föður síns, en kóngurinn heim í ríki sitt. Hann frétti nú að drottning hans hefir átt dóttur og látið bera hana út. Hann heimtaði barnið af henni. Hún féll honum til fóta og sagði honum upp alla sögu. Kóngurinn lét strax taka þrælinn og drepa hann. Þá brá drottningunni svo við að hún fekk fullkomna móðurást til dóttur sinnar, og nú vildi hún fegin að hún lifði. Og í ráðleysu tók hún glerið og spurði:

„Glerið mitt, gulli búna.
lifir Dýrfinna núna?“

Það svaraði:

„Lifir hún og lifir vel,
lifir góðu lífi,
fæða hana Finnar tveir,
fátt er henni að meini.“

Nú varð drottning allshugar fegin og lét sækja Finnana og dóttur sína. Þeir komu með hana til kóngs. Hann varð glaður þegar hann sá dóttur sína svo fallega. Lét hann þá setja upp fagnaðarveizlu og bjóða öllum beztu vinum sínum og meðal þeirra kóngssyninum félaga sínum. Þegar hann sá kóngsdóttur fekk hann elsku til hennar og bað hennar. Kóngur játaði því og hafði hann svo til ætlað, því hann unni honum dóttur sinnar áður en annað kæmi í veginn. Hann hafði Finnana við borð sitt til dauðadags.

Var nú haldin brúðkaupsveizla og þegar hún var liðin fór kóngsson heim með konu sína. Skömmu seinna dó faðir hans og varð hann þá kóngur. Þeir mágar lifðu í vináttu og velgengni til ellidaga, og ekki kann ég þessa lokalygi lengur.[2]

  1. Í Vilfríðar sögu er þetta þannig að sagt er:
    „Segðu mér það, glerið mitt góða, gullinu búna,
    hvurnig líður (aðrir: lifir o. s. frv.) Vilfríði Völufegri núna?“
    Þar kvað glerið svara:
    „Vel líður Vilfríði Völufegri (núna).
    Hana ala dvergar tveir í steini.
    Henni verður flest til gleði, en fæst að meini.“ [Hdr.]
  2. Sagan af Dýrfinnu og Völu kvað vera að því frábrugðin að Vala er stjúpa Dýrfinnu. Hún gefur henni glófa, belti og hatt; hún þáði allt. Finnarnir skáru af henni glófana og beltið þegar þeir komu heim um kvöldið, en þriðja sinnið þoldi hún ekki að bíða þeirra, stökk í ofboði út á skóg og steypti sér fram af sjávarhömrum af kvölum. Þar sigldi skip hjá. Skipsmenn tóku hana og skáru af henni hattinn. Á þessu skipi var faðir hennar. Hann kom þá úr leiðangrinum, fór síðan heim og lét drepa Völu. Að öðru leyti er sú saga eins, að kalla má. [Hdr.]