Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Finna karlssyni

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Finna karlssyni

Einu sinni var kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kelling [í] koti sínu. Kóngur og drottning áttu tvo sonu og er ei getið um nöfn þeirra. Karl og kerling áttu og svo einn son er Finni er nefndur. Þeir lékust barnsleikum saman og féllst vel á með þeim í æsku. En þá þeir þroskuðust fóru kóngssynir að gjörast fálátari við Finna, því þeir þóktust miður álitnir í leikum en hann af alþýðu, því hann þókti bera af þeim í ýmsum leikum.

Það bar til einu sinni að kóngssynir gengu fyrir föður sinn og beiddu hann orðlofs að fara af landi burt til að leita sér fjár og frama. Kóngur leyfir þeim það og býr ferð þeirra með miklum kostnaði. Síðan kveðja þeir föður sinn og móðir og ferðast af stað. Segir ei frá ferðum þeirra fyrri en á kvöldi eins dags að þeir taka sér náttstað undir einum fögrum hól og á meðan þeir eru að matast kom til þeirra kvikindi nokkurt sem var ófrýnilegt ásýndar og spyr þá hvört þeir vilji heldur hafa sig með þeim eður móti og verða þeir byrstir mjög og segjast ekkert vilja með það hafa, þvílíkt ótæti, og sveia því á allar lundir og senda það á Satans fund og hverfur það þeim þá skjótt. Ferðast þeir svo þaðan og segir ei af ferðum þeirra fyrri [en] þeir koma í eitt kóngsríki. Ganga þeir fyrir kóng og biðja hann veturvista og leyfir hann þeim þar að vera um veturinn.

Nú víkur sögunni til Finna að hann gengur fyrir föður sinn og biður hann orðlofs að ferðast burt til að leita sér fjár og frama eins og kóngssynir. Að fengnu orðlofi kveður hann foreldra sína og ferðast svo af stað. Segir ei af hans ferðum fyrri en hann kemur að þeim sama hól sem fyr er getið og tekur sér þar náttstað, fer síðan að matast og kemur það fyrnefnda kvikindi til hans og spyr hann á sama hátt og kóngssyni hvört hann vilji heldur hafa sig með eður mót og segist hann miklu heldur vilja það með sér en móti og kastar til þess mat af því er hann var að snæða og sagði það þá að hann skyldi nefna sig ef honum lægi eitthvað á. Heldur hann svo leið sína þar til hann kemur í sama kóngsríki er kóngssynir vóru fyrir, en þar hann var félítill og töturlega til fara fór hann fyrst nokkuð huldu höfði þar í borginni. Fór svo að lyktum að hann kom sér í þénustu hjá drottningu til að bera vatn í borgina og sitthvað fleira er gjöra þurfti. Varð hann að lyktum svo hugþekkur drottningu að hún fékk miklar mætur á honum. Um vorið fóru kóngssynir burt þaðan og höfðu hvörki aflað sér fjár né frama, heldur urðu að gjalda kóngi fé mikið í veturvistalaun. Segir ei af ferðum þeirra fyrri en að hausti að þeir koma að öðru kóngsríki. Ganga þeir þar fyrir kóng og biðja hann veturvistar og er hún til reiðu.

Nú er að segja frá Finna að um vorið gengur hann fyrir drottningu og biður hana orðlofs til burtferðar og þakkar henni veturvistina. Hún segir hann hafi sér trúlega þjónað og sé það launa vert. Hann segir það ekki vera, en furði sig meir á lítillæti hennar að þiggja svo vel sína litlu þjónustu. Hún segist þó skuli minnast hans að nokkru og gefur honum einn disk og segir hann hafi þá náttúru að sá sem á honum haldi og eigi, geti óskað sér á hann hvörs þess matar sem hann helzt girnist. Finni kveður nú drottningu og þakkar henni innilega gjöfina. Segir ei hans ferðum af fyrri en að hausti að hann kemur í sama kóngsríki er kóngssynir eru fyrir. Fer hann að sem fyr að hann kemur sér í þénustu hjá drottningu. Leið svo af veturinn að ekki bar til tíðinda. Um vorið fóru kóngssynir burt þaðan og höfðu hvörki unnið sér fé né frama, heldur urðu að gjalda fé mikið kóngi í veturvistalaun. Getur ei um ferðir þeirra fyrri en þeir koma í þriðja kóngsríki og beiðast þar veturvista og er þeim það leyft.

Nú er að segja frá Finna að hann hafði orðið mjög hugþekkur drottningu um vetur[inn] fyrir trúa þjónustu. Um vorið gengur hann fyrir hana og þakkar henni fyrir veturvistina og biður orðlofs til burtferðar. Hún segir sér þyki slæmt að missa hann vegna sinnar dyggrar þjónustu, en þó verði hún honum það að leyfa fyrst hann beiðist þess og segir hann eiga að sér laun skilin. Gefur hún honum þá krús eina og segir að henni skuli hann ekki lóga, því henni fylgi sú náttúra að hvörs þess drykkjar sem hann óski sér að komi í krúsina muni eftir ganga. Líka gefur hún honum skotsilfur nokkurt til ferðarinnar. Finni þakkar henni virðuglega gjafirnar og kveður síðan kurteislega. Síðan fer hann leið sína og segir ei af ferðum hans um sumarið fyrri en um haustið að hann kemur í ríki það er kóngssynir eru fyrir. Fer það sem fyrri að hann kemur sér í þjónustu hjá drottningu. Þar komst hann bráðlega í kærleika við hana og varð einn meðal helztu þjónustumanna hennar og hafði hún hann um veturinn til sendiferða og ýmsra áríðandi starfa. Einn dag nálægt miðjum vetri sendir hún hann í konungshöll. Fer hann þegar þangað og gengur fyrir konung; sat hann þá undir borðum og hirð hans. Bregður hönum þá við er hann sér með hirðinni kóngssyni þá sem fyrr eru nefndir. Vill hann víkja kunnuglega að þeim, en þeir taka því fálega og láta sem þeir þekki hann ekki, en þeir þekktu hann þó og þykja hann vera virðuglega búinn og kviknar hjá þeim meiri öfund á hönum en áður. Hann aflýkur erindum sínum við kóng og gengur síðan burtu úr höllinni. Leið svo af veturinn að ekki bar til tíðinda. Um vorið fara kóngssynir burtu og hafa hvorki unnið sér fé né frama, heldur verða að gjalda kóngi mikið fé í veturvistarlaun. Segir ei af ferðum þeirra um sumarið fyr en þeir að hausti koma í ríki meykóngs eins. Hún var ung og ógift, en drambsöm mjög og ríklunduð.

Nú víkur sögunni til Finna að um vorið beiðir hann drottningu burtfararleyfis. Hún segist eigi vilja missa hann úr sinni þjónustu, en fyrst hann óski þess þá verði það svo að vera og eigi hann mikil laun skilið fyrir dyggva þjónustu sína um veturinn. Hún spyr hann að hvað drottningar þær hafi gefið hönum sem hann var áður hjá. Hann segir henni önnur hafi gefið sér disk, en hin krús, og segir henni hvaða náttúra hlutum þessum fylgi. Hún gefur hönum þá skæri ein og segir að þeim fylgi sú náttúra að ef maður dregur þau á fingur sér þá geti maður óskað sér hvurra þeirra klæða sem hann vilji. So fær hún hönum og skotsilfur nokkuð til farareyris sér. Finni kveður síðan drottningu og þakkar henni innilega fyrir gripinn og fer so á stað. Segir ei af ferðum hans fyr en hann að hausti kemur í ríki meykóngs þess sem fyr er nefndur, og þegar hann kemur í þorp eitt nærri höfuðborginni hittir hann þar kóngssyni fyrir sér. Kveður hann þá nú kunnuglega og taka þeir því nú vel. Höfðu þeir hikað að ganga í borgina fyrir meykóng af því þeir höfðu heyrt sagt frá því að enginn kallmaður ógeltur mætti vera í hirð hennar. Ræða þeir þetta við Finna og segist hann muni ganga fyrir meykónginn óhræddur til að heyra svör hennar og skilmála; sér sé ei heldur vandara um en öðrum. Ráða þá kóngssynir af að verða hönum samferða. Fara þeir so allir inn í borgina og að hallardyrum og biðja sér orlofs til inngöngu og er það leyft. Ganga þeir nú fyrir meykóng þar sem hún situr í hásæti skrýdd gulli og gimsteinum og hirðin út í frá og var höllin alskipuð. Þeir heilsa henni kurteislega og tekur hún því. Finni verður fyrir svörum og segist ætla að biðja hana veturvistar fyrir sig og félaga sína. Hún tekur þessu fálega og spyr af hvaða landi þeir séu eða hvort þeir séu geldingar. Finni segir það ekki vera. Hún segir þeir þurfi þá ei að þenkja til veturvistar hjá sér, því hún líði ekki neinn ógeltan mann innan borgar og því síður í hirð sinni. En ef þeir vilji láta gelda sig nú þegar – „þá kann ég að leyfa ykkur að vera í borg minni vetrarlangt, en ei fáið þið að vera með hirðmönnum mínum; en ef þið viljið ei þennan kost læt ég taka ykkur til fanga og flytja út í eyðieyju eina skammt hér frá hvar þið skuluð svelta til bana.“ Finni kvað hvorugan kostinn góðan, en sagðist þó heldur þann upp taka að fara til eyjarinnar heldur en láta meiða sig eða vanvirða. Þegar kóngssynir heyrðu það kusu þeir heldur að láta gelda sig en pínast til bana af hungri. Voru þeir síðan leiddir út og geltir, en Finni var fluttur til eyjarinnar og hleypt þar einum á land upp. Þegar hann er þar kominn gengur hann um eyjuna og sér þar ekkert nema horaða menn og hungraða og suma dauða. Hann hafði haft með sér góðgripi þá sem fyr eru nefndir. Tekur hann þá diskinn og óskar sér á hann hollrar fæðu og er diskurinn þegar fullur. Fer hann þá að næra hina sjúku menn og svöngu og gengur svo um hríð og fara þeir bráðum að hressast og ganga þeir oft um eyjuna á daginn sér til skemmtunar.

Það sást úr landi að menn vóru á gangi á eyjunni og var það sagt meykóngi. Þykir henni það undarlegt og hugsar að því muni valda maður sá er síðast bað hana veturvistar og kaus að fara til eyjarinnar ómeiddur. Sendir hún þá menn á skipi til eyjarinnar og segir sendimönnum að ef so reynist sem sér segi grunur um þá skuli þeir færa sér mann þennan nauðugan, komi hann ei viljugur. Sendimenn koma til eyjarinnar, ganga alvopnaðir á land og hitta þeir þar Finna og félaga hans. Þeir sjá þeir eru allir feitir og þriflegir og bregður mjög í brún og þykir það mjög undarlegt. Bera þeir Finna orð meykóngs að hann boðaði hann á sinn fund. Finni tekur því vel og segist skuli fara með þeim; en sem félagar hans sjá það hryggjast þeir mjög, því þeir þykjast nú sjá þar vísan bana sinn úr hungri. Finni segir þeir skuli ei láta hugfallast, því þeim verði ætíð eitthvað til lífs sem ei séu feigir þó óvænlega á horfist. Finni kveður þá síðan og fer so til lands með sendimönnum og gengur fyrir meykóng og heilsar henni kurteislega. Hún tekur því fálega og spyr hvort það sé af hans völdum að bæði hann og fleiri sem hún hafi áður sent til eyjarinnar í útlegð séu enn á lífi og í góðu yfirlæti. Hann segir það vera. Hún spyr hvurnig hann geti það. Hann er tregur að segja henni það, en hún leitar eftir því fastlega og segir hann henni þá að lyktum að hann eigi disk þann sem hafi þá náttúru að hvurs þess matar sem hann óski sér gangi jafnskjótt eftir. Hún biður hann að sýna sér disk þennan. Hann segir hún megi sjá hann, en hann sleppi hönum ei úr hendi sér hvorki við hana né aðra. Hann tekur upp hjá [sér] diskinn og sýnir henni. Henni lízt hann forkunnar fagur og brennur nú af ágirnd að eignast hann og falar hann sterklega og býður hönum mikið fé fyrir. Finni segir hann sé ei falur hvað mikið fé sem hún bjóði. Hún spyr hvort hann sé ei falur fyrir nokkurn hlut. Hann sér hún sækir ákaft eftir og svarar þá að hann kunni að vera falur fyrir einn hlut. Hún verður mjög glöð við og án þess að ígrunda það frekar heitir [hún] hönum að fá það sem hann beiðist ef hún mögulega geti. Hann segir hún skuli fá hann með því móti hún lofi hönum að sofa á gólfinu í svefnherbergi hennar sjálfrar næstu nótt og skuli hann þá að morgni fara sjálfviljugur út til eyjarinnar. Hún verður ókvæða við og segir það sé makleglegt að hann sé drepinn fyrir ofdirfsku sína að koma upp með þá skömm að láta ógeldan mann liggja í svefnherbergi sínu þar hún líði öngvan ógeltan mann í hirð sinni undir lífsstraff. Finni segir það sé líka ókónglegt fyrir hana að bregða orð sín, því þennan hlut geti hún gert og því hafi hún heitið. Henni þykir nú vandast málið og sér að Finni hefur orðið sér slægari í viðskiptunum og segir svo að lyktum að hún skuli halda orð sín að hann skuli liggja á gólfinu í herbergi hennar um nóttina, en þó með því móti að fjórir geldingar úr lífverði hennar vaki þar yfir hönum alla nóttina með ljósi og brugðnum sverðum og ef hann hreyfi sig hið minnsta verði hann þegar drepinn. Hann lætur sér þetta vel líka og fær henni so diskinn. Liggur hann so í herbergi hennar um nóttina og ber ekkert til tíðinda. Um morguninn er hann fluttur út til eyjarinnar og hleypt þar á land og líður so nokkur tími að ekki ber [til] tíðinda.

Eitt sinn sést af landi að menn eru á gangi á eyjunni og það þegar sagt meykóngi. Grunar hana enn að þetta sé af völdum Finna. Sendir hún þá menn til eyjarinnar og boðar hann á sinn fund. Hann fer þegar og gengur fyrir hann og fara samræður milli þeirra líkt og fyrri og að lyktum segist hann eiga krús þá sem hvör sá drykkur komi í sem hann óski sér og hafi það haldið lífinu í sér og félögum sínum. Hún falar sterklega af hönum krúsina og býður hönum bæði gull og gersemar fyrir, en hann segir þess öngva von að hann láti af hendi við hana góðgripi sína. Hún sækir því fastar á og að lyktum lofar hann henni krúsinni með því móti hann fái að liggja næstu nótt við rúmstokkinn í svefnherbergi hennar. Henni þykir slíkt harðir kostir, en af því hana langaði að ná í krúsina og ei hafði bært á hönum þá nótt er hann lá þar fyrri þá ganga kaup þessi saman, þó með því móti að átta menn vopnaðir vaki yfir hönum þá nótt með ljósum. Líður so af nóttin að ekki ber til tíðinda. Að morgni er hann fluttur út til eyjarinnar og er meykóngur glöð yfir að hafa náð gripum þessum. Líða so nokkrir tímar.

Einn dag bar það við að menn sjást á gangi í eyjunni og er það þegar sagt meykóngi. Grunar hana það muni vera af völdum Finna. Sendir hún enn til eyjarinnar að vita hvað títt er og ef þeir hitti Finna þá boða hann á sinn fund. Þegar sendimenn koma til eyjarinnar ganga þeir á land upp og hitta Finna og félaga hans og bregður þeim mjög í brún er þeir sjá að þeir eru allir klæddir hinum dýrasta vefnaði, en þó bera klæði Finna af öllum, því þau eru alla vega skrýdd gulli og gimsteinum eins og dýrmætasti konungsskrúði. Þeir bera fram erindi sín að meykóngur boði hann á sinn fund. Finni tekur því vel og fer á skip með þeim, en biður félaga sína eftir vera. Fara þeir so til lands og gá sendimenn valla róðurs síns fyrir því að horfa á Finna og skrautklæði hans. Þegar þeir eru komnir á land gengur hann í borgina og fyrir meykóng og heilsar henni virðuglega. Hún tekur því fálega, en þó hnykkir henni við að sjá Finna svo virðuglega búinn og var eigi trútt um að hvarflaði að henni að líta girndarauga til hans. Hún spyr hvað komi til að hann og þeir félagar hans geti lifað á eyjunni og hvaðan þeim komi klæði þau hin góðu er þeir beri. Finni segist eigi mega segja henni það. Hún leitar því fastar eftir þar til að lyktum að hann segir henni að hann eigi skæri þau sem hafi þá náttúru að ef maður dragi þau á fingur sér geti maður óskað sér hvurra þeirra klæða sem maður girnist. Hún falar þau af hönum, en hann neitar því þverlega og segist eigi mega láta frá sér sona góðgripi sína hvurn af öðrum. Hún sækir því fastar eftir og spyr hvort þau séu fyrir ekkert föl. Hann aftekur það eigi með öllu. Hún spyr hvað það sé. Hann segir það sé að ef hann fái að sofa næstu nótt fyrir framan hana í rúminu ofan á fötunum í nærklæðunum. Hún verður ókvæða við og segir það firn mikil að hann skuli koma upp með slíka dirfsku að hún láti ógeltan mann liggja svo nærri sér og sé maklegt að hún léti drepa hann. Hann segir að góðgripur sinn sé sér ei útbær og geti hann haft hann sjálfur og sé hún þá af kaupunum. Hana langar mjög að eignast skærin og hugsar með sér að vel hafi farið fyrri næturnar er hann lá í herbergi hennar og muni hún því verða að gera það, og segir Finna að hún ætli að ganga að kaupunum, en þó með því móti að tólf menn vaki með ljósum við rúmstokk hennar og brugðnum sverðum og skuli þeir reka hann í gegn ef hann hreyfi sig hið minnsta. Fær Finni henni þá skærin.

Um kvöldið er Finni leiddur í herbergi meykóngs og fer þar af yfirhafnarfötum sínum og leggst síðan í sængina ofan á klæðin, en tólf menn eru við stokkinn með brugðnum sverðum og mörg ljós loga í herberginu. Líður so að miðri nótt að Finni bærir ei á sér hið minnsta. Þá kemur Finna í hug að heita nú á kvikindi það er hann hitti hjá hólnum forðum og óskar nú að ef það geti nokkru orkað þá skuli það koma sér undir klæðin hjá meykóngi og styrkja sig að framkoma sínum vilja. Og sem hann hefur talað þessi orð er hann í einu augnabliki kominn undir klæðin hjá meykóngi og liggur á maga hennar; og sem vaktararnir sjá þetta vilja þeir þegar upp spretta og drepa Finna, en þeir eru allir fastir þar sem þeir stóðu og geta ei að gjört. Verða þeir þá hryggvir og hugsa að meykóngur muni grimmilega hefna á sér þegar þeir standa sona kjurir; en í þessu bili hugsar meykóngur að þeir muni þegar koma og drepa Finna, því hún vissi ei að þeir voru fastir. Þá kallar hún til þeirra snögglega og segir:

„Æ, slökkvið ljós og slíðrið sverð,
sláið ei að sinni,
því hann er með sinn fyðil á ferð
í fögrubrekku minni.“

Þegar vaktararnir heyra þetta slíðra þeir sverð sín og slökkva ljósið og urðu þegar lausir. Skipar þá meykóngur þeim út í lífvörð sinn það eftir var nætur. Sofa þau Finni so saman það eftir var nætur; og um morguninn þá þau eru klædd leiðir hún Finna með sér í höllina og sezt í hásæti og setur Finna hið næsta sér. Lýsir hún þá ráðgjöfum sínum og hirðinni að hún ætli að taka sér Finna fyrir mann og hann skuli kóngur verða. Var það samþykkt af öllum. Var þá búizt við brúðkaupi og boðið til öllu stórmenni í ríkinu. Lét Finni þá sækja félaga sína á eyjuna og setti Finni þá hið næsta sér.

Kóngssynir þeir sem fyrr eru nefndir höfðu dvalið þar í ríkinu og þegar þeir heyrðu að Finni var kóngur orðinn þá gengu þeir fyrir hann og féllu á kné fyrir hönum og báðu hann fyrirgefningar á því sem þeir höfðu verið hönum afundnir áður. Finni tók þeim blíðlega og setti þá líka hið næsta sér. Gekk veizlan vel fram og voru menn útleystir með góðum gjöfum. Tók Finni þá við konungsstjórn og varð ríklundaður, en þó ástsæll af þegnum sínum. Friðaði hann ríki sitt og lagði undir sig skattlönd þau sem undan höfðu gengið. Hann gerði suma sem höfðu verið með hönum í eyjunni að ráðgjöfum sínum, en suma gerði hann að jörlum eða landvarnarmönnum í fjarlægustu pörtum ríkis síns. Annan kóngssoninn gjörði hann að æðsta ráðgjafa sínum, en hinn sendi hann heim í ríki föður hans svo hann skyldi taka þar við ríkisstjórn föður síns. Hann sendi með hönum fé mikið, gull og gersemar, til þess að færa þeim karli og kerlingu föður Finna ef þau væru á lífi og beiddi hann kóngsson að annast um þau eins og hann væri þeirra sonur. En ef þau vildu til sín koma þá ætti hann að annast um að sjá um ferð þeirra til sín með góðri fylgd og er þess ei getið hvort þau kusu að vera kyr eða fara til Finna. Með þeim Finna kóngi og drottningu tókust brátt góðar ástir. Áttu þau mörg börn er þroskuðust og urðu hin mannvænlegustu. Lifðu kóngur og drottning lengi og önduðust í góðri elli. Og lýkur so sögunni af Finna karlssyni.