Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Sagan af Hringi kóngi og herramanninum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Hringi kóngssyni og herramanninum

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu; [hann] hét Hringur. Það var hans siður að bjóða stórhöfðingjum einu sinni á ári til gleðiveizlu. Nú koma þeir einu sinni sem oftar og nú fá þeir vínföng og veizlu góða hjá hönum. So spyr hann þá að hvort nokkur muni á landinu vera eins mikill höfðingi eins og hann. Þeir segja að það muni ekki finnast annar eins höfðingi á landinu. Þá segir einn ráðgjafinn hans að það megi mikið vera að enginn fyndist jafningi hans á landinu. Kóngur verður ævareiður af þessu, þykist vera mestur og lætur taka manninn og seta í dýflissu.

So siglir kóngur og gerði sig að kaupmanni og siglir land af landi þangað til hann kemur að einu landi; hann gengur þar á land með öðrum fleirum; hann gengur fyrir eins manns dyr og sér þar kjólmann reykjandi; hann heilsar upp á hann. Hann tók kveðju hans, bauð hönum inn til sín. Hann þáði það; so fer hann inn. Hann leiðir hann upp á eitt loft og inn í eitt hús sem var allt farfað innan með bláum lit. Þegar hann var búinn að sita dálitla stund þá sér hann er lokið upp húsi á móti hinu og er með sama lit innan, og kemur þar út maður og kemur inn í húsið til hans og heldur á gullstaupi með þremur löppum í hendinni með solitlu víni í. Hann lemur lófunum ofan á staupið og verður það fullt af hvítri froðu, setur það síðan á hvirfilinn á kaupmanninum, og hann segir hönum að hann eigi að vera so fljótur að taka það og drekka það að það sé ekkert hjaðnað. Hann gerir það, þakkar hönum fyrir góðgjörðirnar og fer síðan í burtu. Þegar hann er kominn áleiðis er hann eltur og þá kemur sami maður sem gaf hönum í staupinu og með staupið og segir að herramaðurinn sendi hönum það. Hann snýr þá attur og segir með sjálfum sér að ekki megi minna vera en hann þakki hönum fyrir og hittir so herramanninn og þakkar hönum fyrir sendinguna. Hann segir það sé ekki mikið; margur hafi gefið meira. So leiðir hann kaupmanninn inn í eitt hús sem allt er blóðrautt innan. Þegar hann er búinn að vera dálitla stund inni þá sér hann lokið upp húsi þar á móti og það er með sama lit; þar kemur maður út og heldur á ógnar fallegri stöng og eru þar upp úr svolitlar þrjár eikur og sat sitt hvur fugl á hvurri eik og var enginn með sama lit; og kvökuðu allir undireins sinn með hvurju kvaki og hönum er léð stöngin til að skoða hana. So þegar hann er búinn að skoða hana þakkar hann þeim fyrir skemmtunina og fer svo í burtu. Þegar hann er kominn áleiðis hugsar hann með sér að drepa skuli hann ráðgjafann; meira hafi hann gefið en eitt gullstaup. Þegar hann var kominn frá borginni þá kemur maður með stöngina og fær hönum og segir að herramaðurinn sendi hönum stöngina með fuglunum. Hann verður hlessa á sendingunni og segir við sendimanninn að ekki megi minna en að þakka hönum fyrir það, snýr síðan aftur heim í borgina með honum og finnur herramanninn og þakkar hönum fyrir sendinguna. Hann segir það sé ekki mikið að þakka; margur hafi gefið meira. So kallar hann aðkomumanninn upp á loft; hann vísar hönum þar inn í eitt hús og er allt saman farfað með grænum lit. Þegar hann er búinn að sita þar dálitla stund þá er lokið upp húsi á móti hönum og er með sama lit, og þar komu út fjörutíu meyjar og voru með hljóðpípuna sína hvur og sitt hljóð í hvurri pípu og sýna þetta kaupmanninum; hann er hlessa að sjá þetta. So fara þær frá hönum og hann í burtu. Þegar hann er kominn spottakorn frá borginni þá koma allar meyjarnar með pípurnar og segja að herramaðurinn sendi honum þær; hann vill ekki taka við þeim af því hann kunni ekki á þær. Þær segja að herramaðurinn verði illur ef þær komi með þær aftur. Hann tekur við þeim, fer heim í borgina og hittir herramanninn og segist ekkert hafa við þær að gera. Hann segir [hann] geti átt nokkuð af þeim, en nokkuð geti hann selt, og herramaðurinn sýnir kaupmanninum allar sínar eigur og var hann hlessa hvað hann átti mikið; so hann spyr hann hvurnin hann hafi eignazt svona mikið. Hann segir það sé nú seinna að segja frá því, hann verði þá að segja hönum ævisögu sína; og sé það þá fyrst að hann sé kaupmannsson; hann hafi lært að vera stýrimaður og sér hafi gengið vel fram eftir – „þangað til einu sinni varð mikið óveður á sjónum og hrekst skipið að einu landi og brotnar í spón og allir mennirnir drukknuðu nema ég og þrír aðrir. Matföng okkar og góðs rak allt upp; við vorum að bera okkur að draga það undan sjó þó vesælir værum, byggðum okkur kofa og vorum þar í þrjú ár. So urðu tveir bráðkvaddir, en einn var orðinn gamall og dó skömmu seinna og so var ég orðinn einn. Með því ég hafði ekkert til að lifa við yfirgaf ég kofann með öllu góssinu og gekk á stað, nema einn kistil sem var fullur af peningum og lítils háttar af brauði. So geng ég lengi með sjávarsíðu þangað til að ég kom að stóru stríðsskipi og var hálft á sjó og hálft á landi;“ so yfirmaðurinn tekur hann strax „og segir ég megi velja um tvo kosti“: að hann láti drepa hann strax ellegar hann megi gefa sig á sitt vald [með] alla sína. Hann kýs að gefa sig á hans vald. „So fer hann með mig upp í skip og þar sá ég ógrynni fjölda af kvenmönnum og karlmönnum.

So þegar ég var búinn að vera þar um tíma – þegar ég var farinn að kynnast fólkinu á skipinu – þá var þar lagleg stúlka sem helzt talaði við mig; hún sagði mér einu sinni að yfirmaðurinn á skipinu vildi eiga sig, en hún vildi hann með öngvu móti,“ og hún sagði að hún þyrði ekki að láta hann vita að hún talaði við hann meira en aðra. Einu sinni verður hann var við að þau eru á tali; „þá verður hann svo ævareiður, tekur stúlkuna og setur hana í sjóinn; so tekur hann mig og fleygir mér út í sjóinn og segir ég skuli eiga hana nú; og veltist ég í sjónum nokkra stund og vissi ég ekkert af mér þangað til loksins fleygir mér sjórinn upp í sandinn og ýmist skríð ég, en ýmist geng. So fer dálítið fjör að koma í mig; ég legg mig niður í mikið graslendi. Þegar dálítið er komið fram eftir nóttunni“ – þá sér hann – „hvar maður kemur með poka á bakinu og lagði pokann skammt frá mér í grasið og fer síðan í burtu. Þegar hann er hvorfinn þá geng ég að pokanum og sé það að það er bundið fyrir; ég leysi frá hönum. Þegar ég er búinn að leysa þá sé ég þar kvenmann með átján stungum og er nær dauða en lífi; hún vísar mér heim að einni borg; batnaði henni so stungurnar. Hún var borgmeistaradóttir, en hann var dáinn og vildi maðurinn hana sem fór með hana í pokanum, en hún vildi hann ekki, og var það kaupmaður skammt frá henni. So ég var nú hjá henni lengi; so hún er að þessu lúalagi við mig lengi að hafa einhvur ráð að drepa hann; hann hafi tekið til sín tvær stúlkur og hafi þær báðar dáið voðalegum dauða hjá hönum. So býð ég hönum í veizlu til mín; þiggur hann það; verður hann drukkinn og dettur so í svefn, en þegar hann er sofnaður rek ég hann í gegn. So fer ég til stúlkunnar og segi að ég megi nú ekki lengur vera – „því það sá þegar hann fór úr búðinni með mér, so ég verð drepinn ef ég finnst.“ Hún segir það verði so að vera þó hún sjái ettir mér; so hún fær mér mikið af peningum.

So fór ég á stað í burtu frá henni. Þegar ég er kominn langa vegi mæta mér ræningjar og ræna mig öllum peningunum. So geng ég þar í skóga og eru þar tré og eikur og finn ég þar fjögur epli, geng so á stað með þau nokkuð lengra. Þá mæti ég hræðilega ófélegum karli og heilsa hönum, en hann tekur ekki undir. Ég gef hönum eplin; hann tekur við þeim þegjandi og fer síðan í burtu. Þegar hann er [farinn] finn ég sex epli. Daginn eftir mæti ég þessum sama karli. Ég heilsa hönum; hann tekur ekki undir. Ég gef hönum eplin; hann tekur við þeim þegjandi og fer so í burtu. Daginn eftir finn ég átta epli; so kemur þessi sami karl til mín í þriðja sinn. Ég heilsa upp á hann; hann tekur undir og brosir; so gef ég hönum eplin öll. So við setustum niður og fer kall að spurja mig hvurnin á mér standi. Ég segi honum upp alla sögu; so kallinn spyr mig að hvort ég vilji koma heim til sín. Ég þigg það þó mér þyki hann ógurlegur. Þegar við erum komnir heim þá fer hann með mig í hellir og þar gerir hann mér gott. So spyr hann mig að hvort ég vilji vera alla mína ævi hjá sér, ég skuli þá fá allt ettir hann. Ég þigg það og hann fer með mig eins og ég væri sonur hans og hann er sterkríkur af öllu; og kallinn var sonur álfakóngs og álfadrottningar; hann sýndi mér í einn hellir sem allur var gulli roðinn innan og þar sátu þau sitt á hvorum gullstól og voru öll smurð. Hann var með kórónu, en hún í öllum drottningarskrúðanum. So deyr karlinn og ég smyr hann þar líka; so jarða ég þau öll og læt allt í sömu kistu og hef hana mjög praktuga og flyt so allt úr hellirinum og byggi mér bæ sem ég er nú í.“

Og kaupmaðurinn þakkar herramanninum fyrir skemmtunina og fer síðan í burtu og segir með sjálfum sér á leiðinni að nú skuli hann taka ráðgjafann sinn úr dýflissunni; meira hafi herramaðurinn gefið en hann: gullstaupið og stöngin og allar hljóðapípurnar. Nú kemst hann heim og tekur manninn úr dýflissunni.

Hringur kóngur átti son og var komið með kóngsdóttur úr öðrum löndum sem hann ætlaði að eiga. Þegar hún var búin að vera þar um tíma þá biður kóngurinn hana að fara til herramannsins og reyna að fá að sofa hjá hönum og drepa hann; en Hringur gat ekki vitað að herramaðurinn væri ríkari en hann og ætlaði so að taka allan auðinn þegar búið var væri að drepa hann. Hún fer og kóngsmenn fylgja henni að bænum og eru þar á næstu grösum í leyni. So kemst hún að herramannsbænum og er ekki getið um annað heldur en að henni var tekið vel. Fer so þessi stúlka á eintal við herramanninn og segir að hún hafi farið nauðugt þessa ferð, Hringur kóngur hafi sent sig – „til að svíkja þig af því hann gæti ekki vitað að þú ættir meiri auð en hann.“

Þegar hún er búin að vera þar nokkurjar nætur þá tekur herramaðurinn einn dag klút og bindur fyrir augun á henni og leiðir hana langa vegi. Hún kemur hvorki fyrir sig orði né eiði og hugsar hann ætli [að] fara að drepa sig. So nema þau staðar og þá finnur hún að hann er að fálma utan um sig alla, og so leiðir hann hana eitthvað áfram; so tekur hann skýluna frá augunum á henni; þá sér hún að hún er komin í fallegasta drottningarskrúðann. Hann segir að hún eigi að eiga þetta fyrir það að hún sveik sig ekki. Hún býst við að Hringur verði illur af þessu; hann segir hún sé þá velkomin til sín, ellegar koma henni til hans föður síns. Hún þakkar hönum fyrir og fer so og kemur til Hrings aftur og segist ekki hafa viljað svíkja hann so vænan mann og segist fara strax í burtu frá þeim ef þeir oftar siti á svikráðum við hann. Þeir gefa so þennan þanka frá sér og býður Hringur hönum í gleðiveizlu til sín aftur; hann kemur so með öðrum fleirum. Hringur segir að hann hafi nú ekki nema tvö hús að sýna hönum á móti hinum sex; so hann leiðir hann inn í eitt sem allt er farfað með rauðu. Hann sér er lokið upp húsi á móti þessu og þar koma út fjörutíu meyjar og Hringur segir hann megi eiga hvurja sem hann vill af þeim. Þær ganga hvur á ettir annari út úr húsinu; hann þegir þangað til að sú seinasta kemur, þá segir hann að hann taki þá seinustu, hún hafi verið sett í sjóinn undireins og hann; slá so saman og sezt [hann] að ríkinu eftir föður sinn, en herramaðurinn verður kóngur ettir föður stúlkunnar sem hann gaf búninginn.

Og endar so sagan af Hringi og herramanninum.