Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Ævintýri/Skinnbrók, Skinnskálm og Skinnhetta

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Skinnbrók, Skinnskálm og Skinnhetta

Það var einu sinni kóngur og drottning í ríki sínu og áttu sér einn son sem hét Sigurður og eina dóttur sem hét Ingibjörg. Þegar þau voru orðin stálpuð dó móður þeirra. So fékk kóngur kvonfang aftur og hún var mjög góð við börnin. Þau voru að biðja hana þegar gott var veðrið að lofa sér út í aldingarð að leika sér. Hún vildi aldrei lofa þeim það. So einu sinni hættu þau ekki við hana fyr en hún gerði það. Hún segir þau skuli strax koma inn ef þau syfji og muna sig um það; þau lofa því og fara so. Þau eru að leika sér; þau sjá hvar dregur upp svartan skýflóka og þá sofnuðu þau. En þegar Sigurður vaknar þá er Ingibjörg hvorfin. So fer hann og segir stjúpu sinni, Hún segir það hafi farið eins og sig grunaði og mætti hann til að leita að henni. Hún bjó hann út og so fékk hún hönum þrjá gullhringi og vó sá fyrsti þrjár merkur, annar sex merkur, þriðji níu.

So fer hann og gengur lengi þangað til hann kemur að einum hellir; þar stendur skessa úti. Hún segir: „Það ber eitthvað nýrra við þú ert kominn hingað. Sigurður kóngsson,“ – segir að hann hafi víst erindi. Hann biður hana að lofa sér að vera í nótt. Hún segir að hann fái það, því hún drepi hann; hann megi liggja í öskustónni til morguns. Þegar hann á að fara að hátta fer hún með hann í hellir og þar er uppbúin sæng. Hún segir hönum að liggja þar. So um morguninn kemur hún með handklæði og munnlaug og [segir] að ekki henti hönum að liggja sona ef hann hugsi til að leita að henni Ingibjörgu systir sinni. So þvær hann sér og fær henni so minnsta hringinn. Þá segir hún ef hönum liggi lítið á þá megi hann nefna sig; hún heiti Skinnbrók. So fylgir hún hönum á leið og segir að ekki geti hún sagt hönum af henni systir hans. Hann kæmi til systur sinnar í kvöld; hún gæti kannske sagt hönum það. So skilja þau og gengur hann so lengi þangað til komið var kvöld. Kemur hann að öðrum hellir og þar stendur úti skessa og hún segir sama við hann og hin; og so um morguninn segir hún við hann sama og hin og fær hönum munnlaug og handklæði. Hann fær henni miðhringinn. Hún segir hann megi nefna sig ef hönum liggi lítið á; hún heiti Skinnskálm. Hún fylgir hönum og segir að ekki viti hún af henni Ingibjörgu systir hans; hann komi til systur sinnar í kvöld; hún geti kannske sagt hönum það. So skilja þau. So kemur hann að þriðja hellirnum. Það fer á sömu leið; og um morguninn kemur hún með munnlaug og handklæði og segir að ekki dugi hönum að liggja sona ef hann hugsi til að ná henni Ingibjörgu. Hann þvær sér; so gefur hann henni gullhringinn. Hún segir hann megi nefna sig ef hönum liggi lítið á; hún heiti Skinnhetta. Hún segir að hún Ingibjörg sé hjá einum risa og sé hann að pína hana að eiga son sinn. Hún segir hún atli að gera hann að barni; en risadóttrin mundi fara að þvo lín og skuli hann vera skammt frá og orga og hún mundi leita hann uppi og bera hann heim og mundi risinn vilja drepa hann, en hún ekki, og mundi hún verða yfirsterkari; hún mundi vilja ala sér hann upp fyrir mann. So fylgir hún hönum og gerir hann að barni hjá læknum. Þá kemur risadóttrin með þvottinn og þá heyrir hún barnsgrát. Hún rennir á hljóðið og finnur barn, fer með það heim. So faðir hennar vill láta drepa það, en hún ekki, sig langi til að ala sér hann upp fyrir mann. Hún verður yfirsterkari. So hann er þar og eltir hana alltaf. Hann biður hana að sýna sér í húsin so hún gerir það. Eitt hús sem fyrir var járnhurð biður hann hana að sýna sér í. Hún segir það sé þar [svo] sum ekkert. So hún lýkur upp. Hann sér þá hvar Ingibjörg hangir á hárinu. Hann segir þetta sé ljótt, hann vilji fara héðan. So læsir hann.

Nú kemur að því að það atlaði út á skóg að höggva við til eldiviða og vill allt fara og drengurinn líka vill fara. So hún biður hann að vera heima. Hann er tregur til þess, en gerir það loksins. Þegar það er farið fer hann að reyna að brjóta upp hurðina, en getur það ekki. Þá segir hann: „Hvunar atli mér liggi meira á en núna, Skinnbrók, Skinnskálm og Skinnhetta?“ So þær koma allar og brjóta upp húsið og taka so Ingibjörgu og þær taka það sem fémætt var og seta so þau á bak. Þá kemur það af skógnum. Risinn segir það hafi farið eins og sig hafi grunað. So skessurnar drepa þau öll og so gefa þau þeim fyrir. Skessur segja að nú verði þau að flýta sér heim, kóngur sé búinn að frétta að þau séu hvorfin og gruni hana stjúpu þeirra um það og eigi að fara að brenna hana. So [þau] flýta sér heim og þá er búið að kynda bál og stjúpa þeirra er borin út í línklæðum og á að fara að brenna hana. So þau segja upp alla sögu. So það verður fagnaðarfundur og er slegið upp gleðiveizlu og lifðu vel og lengi. Endar so þessi saga.