Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Draugasögur/Gullketill í Gufufossi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gullketill í Gufufossi

Fjarðarheiði heitir fjallvegur milli Seyðisfjarðar og Eiðaþinghár innarlega og liggur Héraðs megin vegurinn meðfram á þeirri er Miðhúsá er nefnd, því hún rennur í Eyvindará skammt frá bæ þeim er Miðhús heitir. Í nefndri á hér um bil í miðju fjallinu er foss einn æði hár, Gufufoss kallaður. Er stallur í honum eða þrep og myndast hylur á milli efri og neðri fossins.

Það er sögn að milli þessarra bríka sé járnslá og þar hangi á ketill fullur með gull, en ekki er unnt að sjá hann og því mun enginn heldur hafa reynt að ná honum ennþá.

Litlu ofar í sömu á er svokallaður Fardagafoss; hann er hærri en hinn og er undir honum skúti eða hellir og má þar ganga á bak við fossinn og reka fé þurrum fótum hvað mikil sem áin er; en með stórgripi er þar ófært sökum brattrar skriðu að utanverðu.