Guðmundar saga Arasonar/30

Úr Wikiheimild

Herra Guðmundr byskup sitr nú heima um vorit, en Kolbeinn linar enn lítit, heldr gerir hann nú eftir styrk móti byskupinum í syðra byskupsdæmi at fjölmenna sem mest til héraðsþings, ok þat orð yfirfram, at með öllum þessum liðdrætti munu þeir fara eftir þingit í þriðju heimsókn at herra byskupi ok taka út með valdi undir sverð þá menn af húsi, sem þeir kalla, fyrir ýmis tilfelli.

Nú sem komit er at þvílíkri ófæru, hlutast til góðir menn, at friðr mætti formerast, en þar gekk seint á, því at dómi byskupsins neitar Kolbeinn þverliga, en byskupinn sér hallat sínu valdi, ef undan honum leggst réttr dómr yfir sinnar kirkju meingerðum ok hennar klerka. En þó enn sem fyrr sýnir hann sik vera sannan vin friðarins, ok því leggr hann sinn rétt ok samþykkir, at öll þau mál, sem ganga milli kirkjunnar ok Kolbeins, skal standa á dómi erkibyskups. Þiggr Kolbeinn lausn undir þeim veg, en gefr upp sektir allar, er hann kallaði á byskupsmenn. Skyldu nú heita sáttir, ok því svo, at eigi varð langt friðkaupit, sakir þess, at menn Kolbeins rugla æ kirkjunnar rétt með eins hverjum óhæfum, heldr tíund hennar eða annat vitafé, svo at þeir máttu engan tíma frjálsir fara án kirkjunnar refst. En þann hirtingar sprota, sem byskupinn nauðbeygðist til kviðjanar á at leggja fyrir þeirra löstu, rangsneru þeir svo, at hann ryfi sættir allar ok engi maðr mætti frið fá fyrir hans ónáðum.

En þessi ógifta Kolbeins var góðum vinum hans it mesta angr ok hörmungarefni. Má þar fremsta til telja húsfrú hans, Gyðríði, frændkonu byskupsins, því at hún elskaði þá báða.

Hér af kveinkar hún fyrir frænda sínum, sem þau finnast, ok tekr svo til orðs: „Þat angrar mik yfir alla hluti fram, er bóndi minn reynir þik svo margfaldliga, minn sæti faðir ok frændi, því at ek óttast, at hér fyrir falli hann í guðs reiði ok fái svo harða hegning sem eigi sé orð eftir sendandi.“

Byskup svarar: „Ef ek mætta því ráða, þá mundi honum létt falla þat, er hann meingerir mik, en þat er honum hræðiligra, er guði tilheyrir ok hans heilagri kristni.“

Hún svarar: „Hvat mun in sæla guðs móðir til sín taka í þessu máli? Mun hún nokkura umbun skipa Kolbeini fyrir þann óð, sem hann þykkist hafa samsett henni til lofs?“

Byskup svarar: „Sannliga, frændi, mun hún umbuna.“

„Nær þá?“ segir hún.

„Þá er hann þarf mest,“ segir byskup.

„Hvar mun þat?“ segir hún.

„Þar sem málskiptin ok hjálpin liggr við,“ segir byskup.

Hún grætr þá sárliga, en byskup mátti ekki aumt sjá ok vill gjarna hugga hana, þótt hér væri eigi brýn efni til hugganar.

Hann segir svo: „Grát eigi, sæti mín, vel mun verða. Kann verða með guðs miskunn ok minnar frú, at endinn verði líkari en upphafit.“

Eigi er getit fleiri orða þeirra at sinni. Á þessum tímum Guðmundar byskups verðr höfðingjaskipti í Niðarósi. Kallaðist burt Eiríkr, vígslufaðir hans, en herra Þórir vígðr, fyrsti Nidrosiensis með því nafni.