Heimskringla/Ólafs saga helga/134

Úr Wikiheimild

Svo var sagt fyrr að Ólafur konungur var þann vetur austur í Sarpsborg er Knútur hinn ríki sat í Danmörk. Önundur Svíakonungur reið þann vetur yfir Vestra-Gautland og hafði meir en þrjá tigu hundraða manna. Fóru þá menn og orðsendingar milli þeirra Ólafs konungs. Gerðu þeir sín í milli stefnulag að þeir skyldu hittast um vorið við Konungahellu. Frestuðu þeir fundinum fyrir þá sök að þeir vildu vita áður þeir finnist hverjar tiltekjur Knútur konungur hefði.

En er á leið vorið bjóst Knútur konungur með liði sínu að fara vestur til Englands. Hann setti eftir í Danmörk Hörða-Knút son sinn og þar með honum Úlf jarl son Þorgils sprakaleggs. Úlfur átti Ástríði dóttur Sveins konungs en systur Knúts hins ríka. Þeirra sonur var Sveinn er síðan var konungur í Danmörku. Úlfur jarl var hinn mesti merkismaður. Knútur ríki fór vestur til Englands.

En er það spurðu konungar, Ólafur og Önundur, þá fóru þeir til stefnunnar og hittust í Elfi við Konungahellu. Varð þar fagnafundur og vináttumál mikil svo að það var bert fyrir alþýðu en þó ræddu þeir marga hluti sín í milli þá er þeir tveir vissu og varð það sumt síðar framgengt og öllum augljóst. En að skilnaði konunga skiptust þeir gjöfum við og skildust vinir. Fór þá Önundur konungur upp á Gautland.

En Ólafur konungur fór þá norður í Víkina og síðan út á Agðir og þaðan norður með landi og lá hann mjög lengi í Eikundasundi og beið byrjar. Hann spurði að Erlingur Skjálgsson og Jaðarbyggjar með honum lágu í safnaði og höfðu her manns.

Það var einn dag að menn konungs ræddu sín í milli um veður, hvort væri sunnan eða útsynningur eða hvort það veður væri segltækt eða eigi fyrir Jaðar. Töldu það flestir að ósiglanda væri.

Þá svarar Halldór Brynjólfsson: „Það mundi eg ætla,“ segir hann, „að siglanda mundi þykja þetta veður fyrir Jaðar ef Erlingur Skjálgsson hefði veislu búið fyrir oss á Sóla.“

Þá mælti Ólafur konungur að af skyldi láta tjöldin og leggja um skipunum. Var svo gert. Sigldu þeir þann dag fyrir Jaðar og dugði veður hið besta, lögðu að um kveldið í Hvítingsey. Fór konungur þá norður á Hörðaland og fór þar að veislum.