Heimskringla/Ólafs saga helga/228

Úr Wikiheimild

Kálfur og Ólafur hétu frændur Kálfs Árnasonar. Þeir stóðu á aðra hlið honum, menn miklir og hraustir. Kálfur var sonur Arnfinns Armóðssonar, bróðursonur Árna Armóðssonar.

Á aðra hlið Kálfi Árnasyni gekk fram Þórir hundur. Ólafur konungur hjó til Þóris hunds um herðarnar. Sverðið beit ekki en svo sýndist sem dust ryki úr hreinbjálfanum.

Þessa getur Sighvatur:

Mildr fann gerst, hve galdrar,
gramr sjálfr, meginrammir
fjölkunnigra Finna
fullstórum barg Þóri,
þá er hyrsendir hundi
húna gulli búnu,
slætt réð síst að bíta,
sverði laust um herðar.

Þórir hjó til konungs og skiptust þeir þá nokkurum höggum við og beit ekki sverð konungs þar er hreinbjálfinn var fyrir en þó varð Þórir sár á hendi.

Enn kvað Sighvatur:

Þollr dylr sannrar snilli
seims, en það veit eg heiman,
hverr sæi hunds verk stærri,
hugstórs, er frýr Þóri,
er þvergarða þorði
Þróttr, hinn er fram um sótti,
glyggs í gegn að höggva
gunnranns konungmanni.

Konungur mælti til Bjarnar stallara: „Ber þú hundinn er eigi bíta járn.“

Björn sneri öxinni í hendi sér og laust með hamrinum. Kom það högg á öxl Þóri og varð allmikið högg og hrataði Þórir við. En því jafnskjótt sneri konungur í móti þeim Kálfi frændum og veitti banasár Ólafi frænda Kálfs.

Þá lagði Þórir hundur spjóti til Bjarnar stallara á honum miðjum, veitti honum banasár.

Þá mælti Þórir: „Svo bautum vér björnuna.“

Þorsteinn knarrarsmiður hjó til Ólafs konungs með öxi og kom það högg á fótinn vinstra við knéið fyrir ofan. Finnur Árnason drap þegar Þorstein. En við sár það hneigðist konungur upp við stein einn og kastaði sverðinu og bað sér guð hjálpa. Þá lagði Þórir hundur spjóti til hans. Kom lagið neðan undir brynjuna og renndi upp í kviðinn. Þá hjó Kálfur til hans. Kom það högg hinum vinstra megin utan á hálsinn. Menn greinast að því hvor Kálfur veitti konungi sár. Þessi þrjú sár hafði Ólafur konungur til lífláts.

En eftir fall hans þá féll sú flest öll sveitin er fram hafði gengið með konungi.

Bjarni Gullbrárskáld kvað þetta um Kálf Árnason:

Jörð réðstu vígi að varða
vígreifr fyr Óleifi.
Braustu við bragning nýstan
bág. Það kveð eg mig frágu.
Fyrr gekkstu á stað Stikla,
stórverk, en óð merki,
satt er að sókn um veittir
snjallr uns gramr var fallinn.

Sighvatur skáld kvað þetta um Björn stallara:

Björn frá eg auk af ærnum
endr stöllurum kenndu
hug hve halda dugði
hann sótti fram, dróttin.
Féll í her með hollum
hann verðungar mönnum,
leyfðr er, að hilmis höfði
hróðrauðigs, sá dauði.