Heimskringla/Magnússona saga/14

Úr Wikiheimild

Eysteinn konungur hafði mart gert í landinu, það er nytsamlegt var, meðan Sigurður konungur var í ferð. Hann hóf munklífi í Björgyn í Norðnesi og lagði þar fé mikið til. Þar lét hann gera Mikjálskirkju, hið veglegsta steinmusteri. Hann lét og gera í konungsgarði Postulakirkju, trékirkju. Þar lét hann og gera höll hina miklu er veglegast tréhús hefir gert verið í Noregi. Hann lét og gera kirkju á Agðanesi og þar virki og höfn sem áður var öræfi. Hann lét og gera í Niðarósi í konungsgarði Nikuláskirkju og var það hús allmjög vandað að skurðum og allri smíð. Hann lét og gera kirkju í Vogum á Hálogalandi og lagði próventu til.