Heimskringla/Ynglinga saga/43

Úr Wikiheimild

Það var mikill mannfjöldi er útlagi fór af Svíþjóð fyrir Ívari konungi. Þeir spurðu að Ólafur trételgja hafði landskosti góða á Vermalandi og dreif þannug til hans svo mikill mannfjöldi að landið fékk eigi borið. Gerðist þar hallæri mikið og sultur. Kenndu þeir það konungi sínum, svo sem Svíar eru vanir að kenna konungi bæði ár og hallæri.

Ólafur konungur var lítill blótmaður. Það líkaði Svíum illa og þótti þaðan mundu standa hallærið. Drógu Svíar þá her saman, gerðu för að Ólafi konungi og tóku hús á honum og brenndu hann inni og gáfu hann Óðni og blétu honum til árs sér. Það var við Væni.

Svo segir Þjóðólfur:

Og við vog,
hinn er viðjar..,
hræ Ólafs
hofgyldir svalg,
og glaðfjálgr
gervar leysti
sonr Fornjóts
af Svía jöfri.
Sá áttkonr
frá Uppsölum
lofða kyns
fyr löngu hvarf.

Þeir er vitrari voru af Svíum fundu þá að það olli hallærinu að mannfólkið var meira en landið mætti bera en konungur hafði engu um valdið. Taka nú það ráð að fara með herinn allan vestur yfir Eiðaskóg og koma fram í Sóleyjum mjög á óvart. Þeir drápu Sölva konung og tóku höndum Hálfdan hvítbein. Þeir taka hann til höfðingja yfir sig og gefa honum konungsnafn. Lagði hann þá undir sig Sóleyjar. Síðan fór hann með herinn út á Raumaríki og herjar þar og fékk fylki það af hernaði.