Landnámabók/6. kafli

Úr Wikiheimild
Landnámabók
6. kafli

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Þá tóku þrælarnir írsku það ráð að knoða saman mjöl og smjör og kölluðu það óþorstlátt; þeir nefndu það minnþak. En er það var tilbúið, kom regn mikið, og tóku þeir þá vatn á tjöldum. En er minnþakið tók að mygla, köstuðu þeir því fyrir borð, og rak það á land, þar sem nú heitir Minnþakseyr.

Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

En um vorið vildi hann sá; hann átti einn uxa, og lét hann þrælana draga arðurinn.

En er þeir Hjörleifur voru að skála, þá gerði Dufþakur það ráð, að þeir skyldu drepa uxann og segja, að skógarbjörn hefði drepið, en síðan skyldu þeir ráða á þá Hjörleif, ef þeir leituðu bjarnarins.

Eftir það sögðu þeir Hjörleifi þetta. Og er þeir fóru að leita bjarnarins og dreifðust í skóginn, þá settu þrælarnir að sérhverjum þeirra og myrtu þá alla jafnmarga sér. Þeir hljópu á brutt með konur þeirra og lausafé og bátinn. Þrælarnir fóru í eyjar þær, er þeir sáu í haf til útsuðurs, og bjuggust þar fyrir um hríð.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.