Ástarsaga

Úr Wikiheimild
Ástarsaga
höfundur Jón Thoroddsen yngri
Ég er ung stúlka, sem dansa eftir veginum og syng. Þegar ég mæti honum, hætti ég og hlæ.
Hvers vegna hætti ég og hlæ?
Ég dansa eftir veginum og syng. Þegar ég mæti honum, hætti ég og hlæ.
Hvers vegna hættið þér að syngja?
Ég veit það ekki.
Hvers vegna hlæið þér?
Ég veit það ekki.
En ég veit það. Þér eigið gimstein, sem þér ætlið að gefa.
Ég dansa eftir veginum og syng. Áður en ég mæti honum, sný ég við og flýti mér. Hann nær mér og réttir fram hendurnar:
Gimsteininn.
Ég skil yður ekki.
Þér elskið mig.
Hann tekur utan um mig og kyssir mig.
Hann tók utan um mig og kyssti mig.
---
Ég er gömul kona, sem geng eftir veginum og græt. Ég mæti honum aldrei oftar.
Hvers vegna geng ég eftir veginum og græt?
Ég á gimstein, sem ég get ekki gefið.