Æfisaga Jóns Ólafssonar Indíafara/II. kap

Úr Wikiheimild

II. KAP.
Innihaldandi um mína hjeðansigling til Englands.

Á því sama ári, sem fyr var getið, þegar að skrifaðist 1615 bar svo við um vorið fyrir krossmessu, að eitt engelskt skip upp á 50 lestir sleit upp við Vestmannaeyjar i miklum stormi og hleypti inn á Ísafjarðardjúp, og lögðust fram undan þeirri veiðistöðu er Rómaborg nefndist, hvar eg var til fiskiútvega. Og með því vor leið lá daglega nálægt þessu skipi fýsti mig og mína meðfylgjara einn morgun að róa að þessu skipi. . Skipherrann hjet Isach Brommet, einn sjerdeilis ágætur, frómur og ráðvandur maður. Hans mæti hjet VilhelmHundten;[1] bátmeistarinn hjet Vinsentzius. Þessi skipherra meðtók mig og mína lagsmenn vel, og þar fyrir þarf ei sögur um að lengja, að eg án vitundar minnar e[lskulegu] móður rjeðst til fars og útferðar með þessum manni. Okkar sáttmáli var þesskonar, að eg mátti flytja góss með mjer svo mikið sem eg ætti og sjálfur vildi, og eftir engelskri vísu skyldi afgreiða honum 10 dala gildi nær við kæmum í England. Þetta fjell mínum samlagsbróður mjög þunglega og líka öllum mínum meöfylgjurum. Að þremur dögum liðnum fann eg mína elskulega móður, og kunngjörði henni slíkt sem til var fallið, en með því henni var þessi minn ásetningur fyrir löngu alkunnugnr, fjell henni ekki þetta i þyngsta máta, og ljet viljuglega mig því ráða, befalandi mig eftir daglegri venju þeim eina og þrenna almáttuga Guði í vald, vernd og umhyggju til lífs og sálar, hver hennar kröftug fyrirbón í Guði mig stutt hefir; lofaður sje Drottinn og blessað sje hans heilaga nafn æfinlega. Jónsmessukvöld um náttmálabil skildist eg við mína e[lskulega] móður Olöfu Þorsteinsdóttur, sú eð hafði öðlast af Drottni 68 ára aldur. Margir syrgðu mína burtför, þó eg ei þess verðugur væri. Hjeldum vjer svo heiman úr Álftafirði og út til djúps með góðri veðurstöðu; flutti mig minn bróðir Halldór, mágur og bestu vinir. Þungan draum dreymdi mig þá nótt er eg lá á Oshlíð, um mínar eftirkomandi raunir. Að morgni fórum við til skips, og var gjörð stór veisla. Síðan skildum við með gráti og bað hver öðrum góðs. Að morgni hjeldum við burt af Ísafjarðardjúpi vestur og frá landi til hafs, og kom það skipmönnum saman að draga fisk til matar sjer, og drógu 7 hundruð af þorski. Þá áhljóp mikið landnyrðingsveður, svo naumlega gátum vatur segli náð, og mistum 10 tunnur lýsis, og þá tunnu, sem eg hjeðan með mjer hafði að mestu. Hleyptum vjer svo vestur á Tálknafjörð, og settum upp vor mersusegl. Þar kom á borð til vor sá loflegi kennimann S. Guðmundur Skúlason,[2] er þann tíma hjelt Laugardalsstað. Hann afeggjaði mig frábært að framhalda ferðinni til Englands og bauð mjer án betalings að koma öllu mínu norður aftur. En sem skipherrann hugleiddi okkar hljóðtal gramdist hann mjög prestinum, því hann grunaði að okkar hljóðtal mundi afráðum gegna. Presturinn varð af að láta, og skildum vjer svo að gjörðri bæn og blessan yfir mjer og minni ferð. Að tveimur dögum liðnum sigldum vjér þaðan í nafni Drottins, að morgunsöng enduðum, bæn og lítaníu, og í haf suður fyrir jökul, og að öðrum morgni sáum vjer Vestmannaeyjar. Þaðan sigldum vjer austur fyrir Horn, og hjeldum í haf síðan í landsuður. Og nær landið var oss nýlega horfið rak á stór mótviðri af suðaustri i gegn oss. Eitt engelskt kræskip[3] kom á veg fyrir oss, og var í vorri ferð í 3 vikur, þar til stórir stormar oss aðskildu, svo að hvorugir vissu til annara. Skipherrann yfir þessu skipi hjet Thomas Græ.[4] Hvern dag var suðaustanvindur og hjeldum vjer suðaustan til við Færeyjar, hverjar vjer sáum naumast. Halda stýrimenn þær liggi í landsuður hjeðan frá landi 80 mílur. Þaðan sigldum vjer að Hjaltlandi og eru þar á milli 40 mílur eftir mínu minni; það er og eitt eyland og býr á fátækt fólk. Það hefur legið fyr meir undir Danmörk, og var í brúðarheimangjöf í pant sett þeim Engelsku, og hefur ei verið síðan til Danmerkur innleyst, og liggur því síðan undir England.[5] Þaðan sigldum vjer þar til vjer fengum Orkneyjar að líta. Á þeim sandrifum eður grynningum þar á milli sáum vjer 700 hæringsskip [6] og sigldum vjer hjá þremur, er köstuðu síld i skip til vor. Síðan sáum við Skotland, sem er nær því áfast við England, utan eitt lítið sund þar á milli [7] Þá vorum vjer þvi nær og öllausir utan eitt hofsetur[8], og átti það að vatnsblanda hefði lengur í reynt. Þá vjer hjeðan í haf hjeldum var kannað hvað mikið öl þá var til, sem voru 11 hofsetur öls; en hvert kvöld nær skipherrann var til hvílu genginn upphófu þeir sinn ölskap. Einn maður var þar innanborðs, Rúben að nafni; hann sá eg fyrst tóbak með hönd hafa og hvert kvöld taka, og þá list að læra gjörðist minn tilsagnari. Skipherrann og alt fólkið untu mjer hugástum. Skipherramætið og eg tefldum einatt kotru saman þegar tilgaf, og glímdum ; hann var glettinn og hvatorður, sem þeir fleiri, um ísland og þess fólks skikkan, hvar af eg oft firtist við hann; ei var eg hans jafnaðarmaður til glímu, því hann var hinn mesti listamaður þar til og fleira, en í tafli hafði hann aldrei við. Samt vorum við í meinleysi tilsamans, og vildi oftlega hafa fengið mig til Jarmóð[9] með sjer, þar sem hann átti heima, og koma mjer þar i vist, en skipherrann varaði mig við honum, og kvað hann misjafnlega bæði sjer og öðrum reynst hafa. Eg hafði káhyttu efst og aftur lengst hjá bátmeistara Vinsentzius, hver eð var minn fóstri og 20 sjerdeilis góður. Skipherra bað hann um mig og lofaði honum launum þar fyrir. Getum nú þess að vjer sáum England þar sem Nýkastali[10] nefnist. Urðum vjer þá allir næsta glaðir; höfðum vjer þá verið sjö vikur í sjó, og liðið megn stormviðri. Nær vjer áttum nær 3 mílur til lands kom staðarins lífskip frá landi siglandi hið harðasta og beinsta að oss. Þetta var snemma morguns. Skipherrann bauð oss kyrrum að standa til beggja handa sjer, og með afsett höfuðklæði, og fyrirbauð oss bros að sýna eða eitt einasta orð að mæla, og til hvers þeir kölluðu kvaðst ei dirfast annars en í tje láta. Þetta skip var geysistórt og veglega útbúið með stykkjum og margskonar öðrum herbúnaði, þar með einnin gylt og göfuglega stafferað um fremri og efri hluta skipsins. Kaptuginn þeirra kom og talaði til vors skipherra svo trássugt að hverju hann spurði; tóku síðan strik frá oss og urðum glaðir við. Þegar leið yfir miðdag komu út frá Nýkastala 3 hundruð skip, öll hafandi inni steinkol, er þangað viða úr löndum sækjast, og með ærnu fje kaupast; þau skip áttu heima í ýmsum stöðum, i Englandi sum, í Frans, Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Danmörk. Um nónbil á sama degi hljóp á æðistormur mikill af norðvestri, því og rjett undan ljetu öll skipin suður með landi hörfa, þar til fyrir Jarmóð kom; þar forgengu tvö skip um kvöldið, á því rifi, er þar fram undan liggur. Vor seglrá brotnaði í miðju sundur. Þetta skeði laugardag i Augusto. Að morgni næstum þar eftir, sem var sunnudagsmorgun, gekk vor skipherra til kirkju. Í þann tíma voru þar í Jarmóð ei fleiri kirkjur utan sú ein; hún var geysistór með háum turni, í hverjum að voru miklar klukkur, sem frábært hljóð af sjer gáfu, og vítt umkring til heyrðist. Eftir miðdag hjeldum vjer þaðan og suður með landi þar til vjer komum til Harits[11], hvar skipherrann og fólkið átti heima. Þá komu út á bátum þeir, sem tóku fregn á hverju skipi, er í hafnarmynnið innsigldi. Þessir menn fögnuðu skipherranum vel og hans fylgdarmönnum. Og nær skipið var fyrir sínum atkerum fast orðið, norðvestan til á móðunni hinumegin og gegnt borginni, dró skipherrann til lands með mörgum af fólkinu og heim í borgina, en eg og skipherramætið Vilhelm Hundten skyldum á skipinu með nokkrum af fólkinu til kvölds eftir dvelja. Um miðdegi kom bátur frá norðvesturlandinu; sat i honum einn ríkur maður Sæmund Kock[12] að nafni. Þessi tók okkur til síns heimilis með sjer, og gjörði okkur þar mikla veislu. Hann bjó í einu þorpi og margt fínt fólk annað; þar voru þrjár kirkjur og var mjer sýnt í eina þeirra og var eg leiddur af meyjum ungum þangað, þær eð buðu mjer heim til sinna foreldra. Um kvöldið ljet hann fylgja okkur 4 menn í gegnum þann skóg er þar lá í milli þorpsins og elfunnar, og sakir morðingja og ránsmanna var oss fyrirskipað að tína grjót í vora hatta. Við eitt steinsnar urðum við varir um kvöldið, því mjög myrkt var orðið. Og er við komum að móðunni var þar strax til reiðu einn ferjumaður. Menn Sæmunds gengu heim aftur óhindraðir. Þessi Sæmund Kock var mjög kunnugur hjer í landi; eg bað hann að koma mjer þar í góða vist, en hann kvaðst ei það að sjer taka, því hann vissi misjafnt fólk og sjer vanþekt í Englandi vera. Nú er þar aftur til máls að taka, að við um kvöldið fórum með ferjumanninum yfir móðuna til borgarinnar, langt eftir dagsetur. Þá gengum við heim í borgina og til skipherrans húss; þá var hann ei heima er við þar komum, því hann var genginn til sinna reiðara, að skýra þeim frá sinni reisu [og því hann hefði atkerið mist]. Kona hans tók fegins hendi við mjer og sagði mig guðvelkominn með frábæru blíðlæti. Þá við höfðum litla stund þar setið, þá biður hann skipherrans húsfrú að lofa mjer með sjer lítinn veg at ganga; hann lofar henni að skuli með mig koma strax aftur. Hún samþykti það nauðug. Eg gekk svo með honum. Hún ljet fylgja okkur sína þjónustumey með ljóslykt, og nær við komum að einu porti gekk hún heim aftur. Vilhjálmur sló á dyrnar með þeim stálhamri er á porthurðinni hjekk, og strax kom ein stúlka að opna portið og spurði hverjir væri. Vilhjálmur sagði til sín, og sagðist vilja við herra hússins tala, hvern hann nefndi Thómas Tvidd, sá eð var herramanna gestaherbergjari og þeirra, er ríkir og mektugir voru. Þessi Thómas var vellauðugur maður, en ei fylgja auð allar dygðir, hljóðar máltak gamalt, og máske á honum ei síst sannast hafi. Kvinnu átti hann ágæta, sú eð bar kurteislega hegðan eftir mannlegu áliti, við hverja hann misjafnlega höndlaði. Hún hjet Bersabe; dóttir þeirra hjet Temperenz; hún var væn og dægileg en þó ljúf og lítillát. Þar inngekk þessi Vilhjálmur og eg. Gjörðist þar stór veisla um kvöldið. Ei vildi hann trúa því eg íslenskur væri, því eg í þann tíma hafði lært svo góða engelsku í þær 7 vikur, að hann hjelt mig engelskan mann vera. Þessi Vilhjálmur kom því til leiðar, að eg vistaðist um kvöldið hjá honum, þvert í móti mínum vilja. Þetta gjörði Vilhjálmur því hann fjekk mig ei með sjer til Jarmóð, og til móðs við þann fróma mann Isach Brom met, til hvers hann bar jafnan kælu undir niðri, því hann þóttist ofgóður að vera hans mæti, með því hann var einn skálkur i þeli niðri. Þar hvíldist eg um nóttina í frábæru eftirlæti og af honum til sængur fylgt. Meðtók hann svo mitt alt meðhafandi góss til geymslu, sem var 5 vættir af vorfiski, tvær kistur fullar, item tvær voðir; fjekk eg Isach aðra, fyrir þá 10 dali, er eg var honum um skyldugur, fyrir utanför með honum; item lítið lýsi, sem eftir varð af fullri tunnu, er spiltist og fyr var umgetið. Um morguninn gengum við Vilhjálmur aftur til Isach og kunngjörðum honum og hans kvinnu hvar komið var. Varð hann mjög reiður við Vilhjálm, og lofaði hann skyldi þess af sjer gjalda á meðan hann til entist, því hann sagðist mig þar síst til vista vita vilja sakir Thómasar Tvidds harðýðgis, fláttskapar og vonsku, en hresti sig þó við hans kvinnu dygðir. Hann hjelt 3 sveina og skyldi eg í eins þeirra stað á Mikaelsmessutíð innganga, en þangað til skyldi eg mig sjálfur kosta. Tók eg mjer ferð til Nýkastala fyrir laun, sem voru 4 dalir, og líka hans vegna, í þann máta að kynna mjer leið, þegar hann mig í sín erindi þangað senda vildi. Sigldum vjer þangað i 4 daga. Skipherrann hjet Thómas Græ[13] og fengum vjer gott byrleiði þangað.

  1. Nafnið er afbakað; máske er þetta enska nafnið Hunter eða þá Huntden(?) Nafnið Brommet er líklega ɔ: Bromhead, ritað eftir framburði. Til er á þeim tímum ensk ætt með því nafni.
  2. Síra Guðmundur Skúlason var síðan prestur á Rafnseyri, og dó 1623 (Sv. N. Prestat. XI. 1).
  3. Svo nefndust einskonar lítil verslunarskip á þeim tímum; orðið er uppr. komið ár miðaldalatínu craiera, creyera, en verður á ensku craye, crayer, dönsku krejert, sænsku krejare og lágþ. kreier, kreiger, kreger.
  4. líkl. = Thomas Gray.
  5. Jakob 3 Skotakonungur giftist 1469 Margrjeti einkadóttur Kristjáns 1.; gaf Kristján konungur þá Skotum eftir afgjald það, er Noregskonungar áttu að fá af Suðureyjum, enda hafði það ekki verið greitt í mörg ár. Margrjet átti að fá 60,000 gyllini í heimanmund, en þar eð konung skorti fje til að greiða hann út í einu, veðsetti hann Skotum Orkneyjar, og ári síðar Hjaltland. En fje þetta var aldrei goldið og komust eyjar þessar þannig undir Skotlandskrúnu. Tiltœki Kristjáns konungs gramdist Norðmönnum miög. (Sjá um þessa atb. Kr. Erslev í Danmarks Riges Hist. II. 551 og 565).
  6. ɔ: síldveiðaskip; hæringur = e. herring, síld.
  7. Landafræðiskunnattu höf. er stundum nokkuð áfátt, einsog hjer, þó hann auðvitað hafi haft langt um meiri þekkingu á slíku, en flestir landar hans á þeim tímum, einsog vœnta mátti.
  8. Líkl. = d. oxehoved, e. hogshead, og mun orðið vera komið inn í íslensku úr ensku.
  9. ɔ: Yarmouth.
  10. ɔ: Newcastle.
  11. ɔ: Harwich.
  12. Líkl. hefur hann heitið á ensku Simon Cock, en skírnarnafnið verið afbakað eftir framburðinum [Saimon] í íslenska nafnið Sœmundur. Sjá athugasenulirnar um orðamuninn aftantil í bókinni.
  13. Höf. nefnir líka annan skipstjóra bls. 14 þannig, og getur verið að annaðhvort nafnið sje misminni; sbr. líka bls. 21 Vilhelm Gray; annars er nafnið Gray svo algengt, að það er ekkert því til fyrirstööu að þetta sje rjett.