Ég elska þig lítið
Útlit
Ég elska þig lítið
Þetta kvæði birtist í blaðinu Framfara 5. apríl 1878 undir heitinu "Kveðja Ameríkufara til Íslands".
Afritað hingað af vesturfaravef ríkisútvarpsins [1].
- Ég elska þig lítið eða alls ekki neitt,
- þú íslenska brennisteins- „pæla,“
- í heim þenna inn þótt þú hafir mig leitt,
- þar hrak er og all-lítil sæla.
- Ég elska ei Kröflu' og Ódáðahraun
- né aðrar eins fordæmdar lendur;
- þar vont er að lifa, þar vítis er raun,
- þar vikur er kolsvartur brenndur.
- Ég Heklu ei elska og hnúkana blá
- og háreista jöklanna skalla,
- því helmyrkrum dimmu þeir fleygja sér frá
- og fýlu, sem kæfa vill alla.
- Ég elska ei mórauðu elfurnar hér,
- þar allt er með jöklinum blandað,
- né lækinn hinn fúla, þar ódaunninn er,
- sem oft hefur mönnunum grandað.
- Ég elska ei hríðir né óveðrin hér,
- né ísinn frá Grænalands ströndum,
- né rjúkandi svæðin, þar eyðimörk er,
- og aldan hún dunar á söndum.
- Þótt ýmsum á stöðum sé allfögur hlíð,
- hvar ungblómin fljótlega dafna,
- þar kemur þá eldregn og öskudimm hríð,
- svo urtirnar visna og kafna.
- Ég elska' alla blómgun og ljósið og líf,
- en lít hér þó flest, sem það deyðir,
- sem dregur að nístandi kvalanna kíf,
- sem kyrkir allt lífið og eyðir.
- Hér lífið æ stríðir, því veitist ei vörn,
- hér vill ekki lífsmagnið glæðast,
- og Kronos hann elur sín ómálga börn,
- er upp þau af jörðunni fæðast.
- Hér æxlast að vísu mörg ágætis sál,
- sem ímynd er skaparans sanna,
- en stiknar í eldi og brennur við bál
- í bölmóðum ánauðarmanna.
- Sú sál er hið eina sem elska ég kann,
- en oftast þær liðu hér spjöllin,
- þær stirðnuðu upp, þegar eldurinn rann
- allt eins og á hraununum tröllin.
- Ég elska allt frelsi og framkvæmd og starf,
- en finn því úr sessinum hrundið,
- því listina' og efnin burt ánauðin svarf,
- svo allt er í járnfjötrum bundið.
- Þótt reiki' ég um stað þann hvar vagga mín var,
- á visnum og ófrjóum teigi,
- mitt hjarta það nemur ei næringu þar,
- því náttúran svarar mér eigi.
- Hún gleðst ei við bros mitt né hryggist við harm
- er hretviðrin slá mig og stinga,
- og raunirnar verð ég að byrgja í barm,
- þó brjóstið mitt ætli að springa.
- Þótt gröf minna forfeðra gangi' ég að sjá
- og grátandi vilji þar standa
- þeir eru nú hafnir þar alllangt í frá
- til ódáins farsælu landa.
- Þá röddin hin helga svo hvíslar að mér:
- Hví ert þú að leita með dauðum?
- Þeir upp eru hafnir, en ei framar hér,
- og öllum lífs horfnir frá nauðum.
- Þeir eru nú fluttir á frelsisins bú
- og flognir úr þrældóm' og nauðum;
- ég syrgði þá áður, ég syrgi ekki nú
- né sess þeirra leita að auðum.
- Fari' ég að elta mín æfinnar spor,
- mér ánægju gefst ei að finna.
- Hún er til að veikja allt þrek mitt og þor
- sú þyrnibraut daganna minna.
- Ég minnist þá vanans, - ég elska hann ei,
- hann upprétta sál mína beygði,
- hann þvingaði viljann, - öll þvingan er grey -
- og þrældóms í löðinni sveigði.
- Því mörg dó sú löngun sem innra ég ól,
- því örlög og heimurinn valda,
- og áformið góða það alloft burt kól
- í ánauðar gustinum kalda.
- Ég barst þannig áfram um ævinnar ár,
- að um mig lék dauðnöpur kylja.
- Því horfi ég áfram, - ég held það sé skár', -
- en horfi þeir aftur sem vilja.
- Ég knúinn er áfram, og kynnast vil því,
- sem komandi tíminn vill boða,
- en hreysið, í gærdag sem hírðist ég í,
- það hirði' ég ei framar að skoða.
- Mitt lífsskeið var oft eins og eyðimörk ber
- og athvarfið lítið hjá mönnum,
- því heims manna vinátta út enduð er,
- þá ölið er burtu af könnum.
- Ég lærði' aldrei heims lag né höfðingja tak
- né hélt mig að stórmennum neinum.
- Því er ég stirður að beygja mitt bak
- og brauðið að hnoða af steinum.
- Þótt fari' ég að ganga þann stórmanna stig
- og stritast við hrygg minn að beygja,
- þá mótlætið að ber, mátt þú sjá um þig.
- Það finnst mér þeir gjörvallir segja.
- Horf' ég til fjalls, er þar sviplegt að sjá,
- svei, svei, þá dreymir mig illa,
- eg lít þar á svarthol og gapandi gjá
- og glyrnur sem ég á að fylla.
- Og elskan er flotin úr ísköldum reit,
- svo ekki' er nú stætt meðal granna,
- því Hydra hin illa hún svamlar um sveit
- og svelgir upp eigurnar manna.
- Og Satan hann vélar og verpir sem kann
- og vagar sem ormur á lyngi,
- því spillingin ill, sem af eplinu rann,
- í öndvegi situr á þingi.
- Og fjárkláðinn illi hann ganar um grund,
- hann græðir ei mannlegur kraftur,
- inn fyrir húðina' hann hrökklast um stund,
- og hverfur svo jafnóðum aftur.
- Og feðranna foldin er síður en sæl,
- þótt syngirðu' um frelsið hið blíða,
- því drottnandi herra og þiggjandi þræl
- þá er nú verið að smíða.
- Nú sumblið er drukkið, menn sjá allt er tál,
- þeir sitja í laganna smiðju.
- Í endunum báðum er eldur og bál,
- en eitur er falið í miðju.
- Já sumblið er drukkið, - og sokkið er hér
- þeir sóninn í djúpinu heyra,
- því víðar og lengur sem eldurinn er
- eftir því sekkur hér meira.
- En drottinn hann kallar, og styrk er hans stoð:
- þér strítt hafið lengi og varist;
- gangið út allir, sem elskið mín boð,
- í eldinum svo þér ei farist.
- Ég sný mér því að hinni ókomnu tíð,
- og einhverjum fjarlægum ströndum.
- Sólin guðs ljómar svo fögur og fríð
- í frjálsari mannheima löndum.
- Þá herrann mig leiðir og hressir mitt sinn',
- og hagkvæmur staður er fenginn,
- ég lít ei til baka á lystigarð minn
- af löngun, því til var hann enginn.
- Því frændur og vinir þeir fara með mér,
- vér fáum að vera þar saman;
- þeir eira ei lengur í eldinum hér,
- en elta mig, - það verður gaman.
- Því öruggan huga þá aldan rís há
- og áfram til framandi láða,
- en himnanna drottinn, sem alla sér á,
- mun auðnu og kjörunum ráða.
- Sá frelsi er ann, hann fari með mér,
- farsælli heimkynna' að vitja,
- en ánauðar postular ættu nú hér
- við eldinn og mistrið að sitja.
- Sá loka vill sundum og fá alla fest
- og fornar oss binda við slóðir,
- hann sitji við eldinn, er brennur hér best,
- og bakist við eldfjalla glóðir.
- Nú bendir oss herrann á himnanna sal
- með hávöxnum jarðeldastrokum.
- Burt allir mínir úr dimmviðrisdal,
- í djúpið hann sekkur að lokum.
- Líttu' á, hve svæðið' er saurugt og ljótt
- og svartvæddar merkur og engi,
- því annan í páskum var eldhríð og nótt
- sem áður á Herkúlans vengi.
- En andinn er ráðlaus og eirir ei kyrr
- í eldmisturs kjörunum þungu;
- þeir detta nú niður, sem sem Faeton fyrr,
- í fyrra sem dýrðina sungu.
- Hér fæðist nú ánauð og farsældarmein
- svo frelsinu liggur við strandi;
- því væri mér kærast að bera mín bein
- langt burtu frá óhappa landi.
- Það rofar í vestri, þótt byrgist vor ból,
- þeir bramla á þingi með sleðann;
- vér tökum oss upp þegar sést aftur sól
- og siglum í burtu á meðan.
- Ísland, ég kveð þig í síðasta sinn,
- um sæinn mér örlögin fleygja;
- heldr en að uppeta meðbróður minn
- mun ég hjá erlendum deyja.