Fara í innihald

Ísland (Bjarni Thorarensen)

Úr Wikiheimild
Ísland
Höfundur: Bjarni Thorarensen
Þú nafnkunna landið sem lífið oss veittir,
landið sem aldregi skemmdir þín börn,
hvert þinnar fjærstöðu hingað til neyttir,
hún sér þér ódugnaðs framvegis vörn.
Undarlegt sambland af frosti og funa,
fjöllum og sléttum og hraunum og sjá;
fagurt og ógurlegt ertu þá brunar
eldur að fótum þín jöklunum frá!
Fjör kenni´ oss eldurinn, frostið oss herði,
fjöll sýni torsóttum gæðum að ná;
bægi sem kerúb, með sveipanda sverði
silfurblár Ægir oss kveifarskap frá.
Þó vellyst í skipsförmum völskunum meður
vafri að landi, eg skaða ei tel;
því út fyrir kaupstaði íslenskt í veður
ef hún sér vogar, þá frýs hún í hel.
Ef læpuskaps ódyggðir eykjum með flæða
út yfir haf vilja læðast þér að:
með geigvænum logbröndum Heklu þær hræða
hratt skalt þú aptur að snáfa af stað.
En megnirðu´ ei börn þín frá vondu að vara,
og vesöld með ódyggðum þróast þeim hjá,
aftur í legið þitt forna þá fara
föðurland áttu, - og hníga í sjá.