Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ágrip kvæðis um útilegumenn
Ágrip kvæðis um útilegumenn
Ein af útilegusögum fram færð í ljóðum – og upphafið þetta:
- Upp í Hreppum bóndi bjó,
- byrða Grana fleygir
- og sveigir.
En efnið var að fullþroskaður maður fór með öðrum unglingi að leita fjár og rötuðu [í] villu vegna drífu til þess reykjardaunn mætti þeim og þar mættu þeir mishæð líkast mosahrúgu og þar á fundu þeir dyr og fóru þar inn. Var þá karl þar og kerling umvafin flókum af ull, sem voru að eta kjöt, en urðu svo hrædd við mannanna aðkomu að út úr hrukku bitar er voru að tyggja. Mennirnir beiddu gistingar. Húsráðendur sögðu þeim að fara í krók þar afsíðis er svo var lágur að þeir urðu að skríða. Drengurinn sofnaði, en [hinn] vakti þar til hann heyrði aðkomu húsráðenda, en lézt þó sofa. Hann [heyrði] ráðslag þeirra að konan var öruggari, en karl illa rólfær. Hún talaði um að fyrst skyldi ráðast á eldra manninn því hægra sé að myrða hvelpinginn síðar, reiðir því [næst] sljótt axarauga tveim höndum á háls manninum. Við það sprettur hann upp og keyrir karl og kerling undir sig, lætur þau segja sér ævi þeirra. En þau kváðust vera systkini og hafi lagzt út vegna barneignar og lifað af að stela fé, biðja hann svo um líf sem hann veitir þeim og lofar að segja aldrei frá þeim, þar af þeim væri hvorki skaða- né veiðivon vegna lasleika þeirra. En eftir dauða eldra mannsins og vonlaust var að þau mundu lifa sagði yngri maðurinn þessa sögu.