Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ólöf Eyjafjarðarsól

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ólöf Eyjafjarðarsól

Í fyrndinni er getið presthjóna nokkurra sem bjuggu að Hrafnagili í Eyjafirði. Þau áttu son er Sigurður hét og dóttir er Ólöf hét. Svo er frá sagt að presturinn fengi brauð á Austurlandi og nær hann flutti sig að því lá vegur hans um Ódáðahraun upp frá fremstu bæjum í Bárðardal. En þegar þau lögðu seinast frá byggð atvikaðist einhvern veginn þannig að hjónin með börnum sínum urðu einsömul á eftir lestinni. Og þegar þau voru komin nokkuð inn í hraunið þusti að þeim flokkur manna tólf saman og án frekari umsvifa drápu þeir þau hjónin. Sagt er að konan bæði morðingjana að drepa ekki drenginn, en samt sem áður réðu þeir það ráðum, jafnvel þó ágreiningur yrði um það; en stúlkuna fluttu þeir að bæ sínum í einum afbragðsfögrum dal og var ekki fleira manna. Ekki segir frá störfum þeirra eða háttalagi um sumarið, en einn þeirra virtist vera fyrir hinum að atgjörvi, bæði að sjá hann og reyna, og var að hans ráðum Ólöf ekki látin tilheyra einum framar en öðrum, heldur skyldi hún geymast þar til fengnar væru fleiri stúlkur og var henni á hendur falin matreiðsla og fleiri hússumsvif. Þegar á leið sumarið heyrði hún fyrirætlan þeirra að þeir ætluðu hálfum mánuði fyrir göngur á afrétt að ná sauðum í bú sitt. Þegar að þeim tíma kom að fara skyldi af stað var þessi áðurnefndi fyrirrennari þeirra svo lasinn að hann kvaðst ekki treysta sér með þeim, en gjörði ráð fyrir að sér mundi bráðum batna svo að hann gæti komið á eftir þeim til hjálpar, og eggjaði hann þá að fresta ei ferðinni sín vegna, og varð það af að þeir fóru. Þegar þeir voru nú farnir bar ekki á lasleika í manninum og spyr hann þá Ólöfu hvert hana langi ekki mikið til að komast í burtu og játaði hún því. Hann sagði það mundi ekki ganga greitt heldur en fyrir sér og sagðist hann skyldi láta hana heyra ævisögu sína þannig hljóðandi:

Ég var upp alinn hér í nálægri sveit og var þar smali. Tók ég mér það snemma fyrir að læra að skrifa og hafði jafnan með mér, þá ég sat kvífé, stóra pappírsbók og skriffæri. Þegar ég einhverju sinni sat á steini og skrifaði í bók mína komu að mér óvörum þessir ellefu menn sem hér búa og gjörðu mér tvo kosti: annaðhvert skyldu þeir drepa mig ella yrði ég að ganga í félag þeirra og neyddist ég til að taka þann kostinn framar. Síðan eru nú átta ár og hefi ég skrifað í bók þessa það sem fram hefur farið hér á því tímabili. Aldrei hefi ég fengið færi á að komast í burtu og svo sem þér mun nú hafa virzt ég umfram hina að atgjörvi verð ég þó einatt að lúta í lægra haldi fyrir þeim. Nú gjörði ég mér upp veikina þegar þeir fóru, því ég ætlaði ráða nokkuð úr fyrir þér, en ætla nú á eftir þeim það fyrsta. Þú skalt nú bíða hér þangað til um nón á þriðja degi hér frá, þá mun brúnskjóttur hestur sem ég á standa hér sunnan undir bænum og skaltu leggja reiðtygi þín á hann og stíga á bak og stýra honum til vegar. Það er áríðandi að þú farir ekki fyrri en ég hefi nú sagt þér, og svo er hesturinn ofsafjörugur að ekki máttu mynda þig til að slá í hann, en ögn verður þú að berja fótastokk ef þér liggur lífið á. Hesturinn mun sjálfkrafa hlaupa til næstu byggða og staðnæmast þar í bæjarhlaði. Þá skaltu láta safna mönnum þar um Bárðardal og Mývatnssveit (því þar eru vaskir menn?) og skal þá að hálfum mánuði hér frá liðnum njósna meðfram jökulkvíslinni miklu sem hér rennur langt fyrir vestan. Þá munum við verða búnir að safna fénu og hvíla okkur þar á völlunum hjá kvíslinni. Ég býst við að þú munir fylgja og verði þá unnið á illvirkjum þessum, og verður þú að ráða hvert þú lætur mig hreppa sama dauðdaga og hina.“

Nú skilja þau og fer hann eftir félögum sínum og nær þeim brátt, en hún bíður með óþolinmæði til þriðja dags. En strax sem dagur rann framkvæmdi hún heimanferðina og gat ekki lengur þolað biðina. En áður hún hafði lengi riðið sér hún ræningjana, þó í nokkurri fjarlægð, og sjá þeir hana þá um leið. „Ó, þarna fer hún þá, bölvuð pútan!“ segja þeir. „Já, og ríður honum Skjóna mínum; það er bótin hann verður ekki lengi að klára hana,“ segir sá áður um getni. Þeir vilja nú reyna að elta hana, en hann gat tafið það þar til hún hvarf þeim því nú fór hún að berja fótastokkinn, og segir ekki af hennar ferð fyrr en Skjóni staðnæmdist á hlaði að Stórutungu í Bárðardal. Var þá brátt safnað mönnum og farið af stað að leita fjallabúanna. Hún Ólöf var og með til að vísa þeim veginn og fundust þeir í þeim til tekna stað á þeim degi sem maðurinn áður fyrir sagði. Þar lágu þeir nú sofandi í röð, en sauðirnir svo hundruðum skipti breiddu sig um fletjurnar. Nú var engin þjónustugjörð brúkuð, en allir hálshöggnir nema sá sem yzt lá var fyrir bæn Ólafar fluttur til byggða, en þó samt dæmdur til lífláts sem annar óbótamaður og skyldi hann fara utan til líflátsins. Frá Ólöfu er sagt að hún flutti sig í Eyjafjörð og þókti afbragð annara kvenna og var hún kölluð Ólöf Eyjafjarðarsól. Öllum vísaði hún frá sem báðu hennar hversu tignir menn sem voru.

Nú er að segja frá Þorleifi (hann hefur heitið það þó þess sé ekki fyrri getið!) að þar kom að að hann skyldi líflátast í Kaupmannahöfn; þá bað hann lofa sér að koma fyrir kóng og var honum veitt það. Rétti hann þá kóngi gömlu smalaskrudduna sína. Þegar kóngur hafði nú látið lesa sér hana og heyrði hvað á daga Þorleifs hafði drifið gaf hann honum líf og þar með leyfi til að stunda hverja lærdómsiðn sem hann kysi. Síðan las hann lög og þegar hann hafði lært var sýslumannsembættið í Eyjafirði laust og fékk nú Þorleifur það. Sigldi hann þá til Íslands og settist að á Grund í Eyjafirði. Þá var Ólöf Eyjafjarðarsól enn nú ógift þar í héraði, og leitaði hann sem fleiri að fá hennar, en hún þverneitaði sem hún var vön. En þar sem hann hafði völdin lét hann reka hana nauðuga í brúðarskartið og á brúðarbekkinn hjá sér, og þókti þá ekki Eyjafjarðarsólin skína glatt. Þegar setið var að veizlu ávarpaði brúðguminn borðgestina að þeir hefðu einhverjar skemmtanir um hönd til að hafa af brúðinni; en þar lítið varð um það af þeirra hendi lagði hann fram skruddu sína gömlu og var hún lesin. Þá sá brátt gleðibragð á brúðinni, og bjuggu þau saman upp frá því með ánægju til dauðadags.

Og lýkur þar sögunni af Ólöfu Eyjafjarðarsól.