Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ólöf hin eyfirzka og útilegumaðurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ólöf hin eyfirzka og útilegumaðurinn

Einu sinni var kaupamaður er hér fór að sunnan á hverju ári norður í Eyjafjörð; hann var ávallt hjá sömu hjónum. Þau áttu dóttur er Ólöf hét; hún þótti ungum stúlkum fremst að hannyrðum þar í sýslum og öllum þeim kostum er konur má prýða. Bað hann hennar sér til handa. Voru þau feðgin öll treg í fyrstu, en þó gekk það um síðir. Fór hann svo með hana suður. Þeir voru þrír á ferð saman, en á leiðinni gjörðust þeir ölvaðir félagar; riðu þeir á undan stúlkunni. Kom svo loks að leiti bar á milli. Varð þá hestur hennar svo staður og óþekkur að hún fékk engu tauti við ráðið; hljóp hann með hana langt af vegi og leið svo allt fram í koldimmu um kveldið að hún sá þá aldrei. Vissi hún eigi fyr til en hún kom að túngarði einum. Hélt hún með honum unz hún kom að hliði einu; hélt hún þar inn og mætti þar manni. Hann heilsar henni, en hún þagði við. Tók hann í tauma hestsins og teymdi hann heim að bæ einum veglegum og reisuglegum, tók hana af baki og spretti af og lét hestinn inn, en bað hana í bæ ganga með sér. Kvaðst hún það með engu móti vilja. Kaus hún heldur að vera hjá hesti sínum, en þó fekk hann talið svo um fyrir henni að hún fór með honum inn. Leiddi hann hana í stofu; þar sat maður ungur og ung stúlka. Bækur voru þar miklar. Hún var hæglát og mjög dauf í skapi. Í stofunni voru tvö rúm. Í öðru rúminu háttaði ungi maðurinn, en hún átti að sofa í öðru. Kvaðst stúlka sú er fyrir var skyldi sofa hjá henni ef hún vildi. Hún kvað það mundu standa á sama; svaf hún þar ein um nóttina. Um nóttina sofnaði hún ekki dúr. Um morguninn kvaðst hún vilja á stað halda. Vildu þau unga stúlkan og pilturinn það með engu móti; sögðu þau henni að hún skyldi hvíla sig þar um daginn. Það varð og að hún lét að orðum þeirra. Um kveld[ið] áður hún gekk til hvílu fengu þau henni blað og sögðu henni að leggja það á brjóst sér til þess hún gæti sofnað; gjörði hún það og svaf vært um nóttina. Um morguninn kvaðst hún vilja fara af stað og var hún áköf mjög. Fengu þau þó talið hana á að vera um daginn og næstu nótt. Um kveldið háttaði hún í sama rúmi, en gat ekki sofnað. Um miðnæturskeið sté hinn ungi maður upp í rekkju hennar; lézt hann jafnskjótt sofna. En er hún hélt að hann væri sofnaður fékk hún sér kníf og ætlaði að drepa hann. Hann talaði þá til hennar á þessa leið: „Eigi skaltu hugsa að fá drepið mig. Er þér ekkert annað ráð en setjast hér að. Unnusti þinn er dauður og drukknaði hann í vetur. Þér er bezt hent að ganga að eiga mig.“ Varð það af á endanum að þau giftust.

Og er tvö ár voru liðin bauðst hann til að fara með henni til foreldra hennar kynnisför. Hún þá það og fóru þau til Eyjafjarðar. Foreldri hennar lifðu þá og urðu mjög fegin komu þeirra og það því fremur sem þau vissu ekkert um hana. Voru þau þar nokkra hríð, en héldu síðan heim aftur og lifðu lengi saman.