Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ólafur á Aðalbóli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ólafur á Aðalbóli

Einar hét maður og var Magnússon; bjó hann á Stóranúpi í Miðfjarðardölum. Ekki er getið um að hann væri kvæntur. Dóttir átti hann eina barna er Sigríður hét. Ólafur hét vinnumaður hans og smali; var hann ungur að aldri og eins bóndadóttir. Hafði hann alizt upp með bónda ásamt henni. Var hann snemma mikill og sterkur og að öllu hinn gjörvulegasti maður. Bóndadóttir var mjög fögur álitum og vel að sér um allt. Svo er mælt að Ólafur legði ástarhug á Sigríði því þeim kom ærið vel saman og unntust þau mikið. Lofaði hvört þeirra öðru eiginorði. Kvaðst hann enga konu eiga skyldi aðra en hana. En hún kvað vant fyrir að sjá að þau gætu notizt: „En skuli ég verða nokkrum manni gefin kýs ég þig einn, en engan ella.“ Bundu þau þetta fastmælum og fór það þó mjög leynt. Vissi enginn þeirra fyrirætlan nema þau tvö. Einar bóndi var mjög ríkur af gangandi fé; átti hann líka nokkrar jarðir þar í sveitinni. Þurfti hann mjög mikillar og dyggrar fjárgeymslu við. Fór Ólafur oft að fé bónda. Gjörði bóndi út fólk á grasafjall og aflaði þannig matfanga á hvörju vori. Var hann búsýslumaður mikill. Skorti hann hvorki útsjón né góð föng.

Eitt vor fór vinnufólk Einars bónda á grasafjall eins og þá var títt. Fór bóndadóttir með; var hún þá átján vetra. Fór það á fjall það er Tvídægra heitir. Liðu svo tímar þar til bóndadóttir tekur krankleika eður þyngd nokkra svo hún getur ekki fylgt fólkinu og liggur í tjaldi sínu. Ganga þá allir frá henni til grasatekju; og er skammt var komið frá tjaldinu gjörir þoku mikla með fýlu og myrkri. Hélzt það allt til kvelds. Birti þá nokkuð og kom fólk ekki heim fyrr en um morguninn eftir. En er það kom í tjaldið var Sigríður horfin. Vissi enginn hvað hún hafði farið. Var það helzt til getandi að hún væri farin í göngu þegar henni var batnað. En með því fólk sigraði svefn og þreyta lagði það sig til svefns og svaf til kvelds. En er það vaknaði var ekki Sigríður komin. Þótti öllum það furðu gegna og var hennar leita farið og fannst hún hvergi. Leituðu menn þrjá daga, en forgefins. Fór nú fólk heim af fjallinu og sögðu bónda frá. Við þessa tiðindasögn varð Einar mjög hryggur og auðsær harmur á öllum. Voru nú fengnir menn ekki færri en þrjátíu. Fóru þeir á fjall upp og leituðu hennar viku fulla og fundu ekki. Var Ólafur með þeim og þótti allillt að missa konarefni sitt. Varð nú svo að vera; var nú kyrrt um hríð. Var Ólafi þetta svo mikill harmur að hann gat varla borið; vildi hann þá burt fara, en bóndi kvaðst ekki mega án hans vera. Var hann vinnumaður og ráðsmaður eftir það hjá Einari bónda 17 ár. Hugði hann aldrei að kvongast þaðan í frá. Var hann bæði trúvirkur og mikilvirkur.

Það bar til á einu hausti að Einari bónda var vant sjötíu geldinga. Var þeirra víða leitað og urðu ekki fundnir. Leið svo haustið undir veturnætur. Bauð Ólafur bónda að fara í leitina. Var bóndi alltregur til að samþykkja slíkt. En Ólafur kvaðst fara mundi. Bóndi fékk hönum hálfsmánaðar nesti og þrenna nýja leðurskó því hann vildi ekki með hesta fara og ekki vildi hann menn með sér. Bjó hann að öðru leyti sig út sem bezt. Fór hann síðan á fjall upp. Gengur hann nú í þrjá daga í góðu veðri; er hann þá kominn að Langjökli. Leitar hann nú víða og finnur ekki. Fer hann nú víða þar til þykknar loft og gjörir logndrífukafald. Fer þá Ólafur villur mjög. Gengur hann nú mjög lengi þar til hann kemur í dalverpi nokkurt. Veit hann nú ekki hvar hann muni vera. Gengur hann nú eftir dalnum; finnur hann nú til þreytu og mæði; gengur hann samt þar til hann finnur fyrir sér kletta nokkra og því næst bæ einn; er túngarður svo hár að hann kemst hvörgi yfir þar til hann finnur hlið á garðinum. Þar gengur hann inn. Kemur hann þá að fjárhúsum. Og því næst sér hann mikinn húsabæ; var bærinn svo háreistur að hann komst ekki á glugga. Þá barði hann að dyrum. Kemur stúlka til dyra. Hann biður gistingar og fer hún inn, kemur aftur að vörmu spori og kvað gisting til reiðu. Leiðir hún hann í stofu og dregur af hönum vosklæði. Síðan veitir hún hönum beina. Háttar hann ofan í gott rúm og sofnaði fast, en vaknar aftur við söng og lestur. Eftir lestur heyrir hann að maður kemur í húsið og heilsar sýslumanni og spurði nær hann ætlaði að skera sveitasauðina; kvað hann sér leiðast að standa yfir þeim þar þeir ekki gætu borið sig eftir eins og hinar kindurnar; væri þeir táplausir með öllu. Þá svarar hinn virðulegi maður að þeir mundu senn verða skornir eður fargað með einhvörjum hætti. Hætta þeir nú talinu. En Ólafur sofnar aftur og vaknar ekki fyrr en daginn eftir í seinna lagi. Var þá bóndi kominn á fætur og veit Ólafur ekki fyrri til en maður kemur inn tíguglegur á rauðum skarlatskyrtli eður -kjól; heilsar hann Ólafi glaðlega og býður góðan dag. Kemur þá stúlkan inn til þeirra og færir Ólafi þurr skóklæði. Fer þá Ólafur á fætur. Spyr hinn virðulegi maður Ólaf að ferðum sínum, líka að nafni og ætt, og segir Ólafur hönum hið sanna og kvaðst leita að geldingum Einars bónda. Spyr bóndi Ólaf hvört hann sé ógiftur. Hann kvað það satt vera. Bóndi spyr hvörsu gamall hann væri. Ólafur kvaðst vera sex um þrítugt. Bóndi kvað sig undra að hann væri konulaus, svo gjörvulegur maður sem hann væri. Hinn kvað vera orsök til þess. Bóndi spyr að orsökum. Segir Ólafur hönum alla söguna um hvarf unnustu sinnar og það hann hefði ekki í hyggju að kvongast framar. Bóndi kvað það misráðið og kvað menn oft kvænast þó að í fyrstu mislukkaðist; mundi ekki hjálpa að uppgefast við svo búið. „Vil ég,“ segir hann, „gefa þér dóttir mína og er hún hér. Mun hún ekki vera í neinu minni fyrir sér en Sigríður móðir hennar; vil ég þér nú kunnugt gera að ég hef valdið hvarfi hennar og er hún nú mín kona og getur þú ekki fengið hana; og er dóttir hennar og mín engu síður. Líka hef ég valdið hvarfi sauða þeirra, er þú leitar að, til að ná þér hingað til mín. Vil ég nú gefa þér dóttir mína svo þú verðir ekki vanhaldinn af giftumálunum. Skal ég gjöra þig svo vel úr garði að þú verðir vel ánægður að skilnaði. Er ég hér sveitarhöfðingi. Eru hér í dalnum átján bæir og einn prestur mjög gamall; er hann mjög margvís. Messar hann á hvörjum helgum degi og verða þá margir að koma til kirkju. Þefar hann þá af hvörjum manni og finnur það á lyktinni hvört nokkur maður hefur komið í dal þennan; svo er hann fjölkunnugur. Má nú enginn sjá þig nema við. Ég á einn mann í hrossaleit og skal hann fara til messu á næstkomandi helgi.“ Síðan býður hann Ólafi til borðs með sér og þá hann það. Kemur hann þá í hús bóndans og þekkir hann þá Sigríði vinkonu sína gömlu og töluðust þau við öll saman. Er Ólafur þar um kyrrt um daginn; var þá gott og bjart veður. Leiðir höfðinginn hann þá á hæð eina og sýnir hönum þá um allan dalinn og þykir Ólafi það fagurt pláss og fallegar byggingar. Fer svo að Ólafur þiggur þennan ráðakost og er hönum heitið konunni. Hét hún Sigríður eftir móður sinni.

Daginn eftir er gott veður. Lætur bóndi söðla tvo hesta, annan fyrir sig, en annan fyrir Ólaf. Ríða þeir nú báðir á stað þar til þeir koma að einum fjárhóp; er þar maður fyrir. Þekkir Ólafur þar geldinga Einars bónda. Fer þá smalamaður á stað með sauðina og rekur á undan þeim til byggða. Fara þeir þar til þeir koma að einum hellir. Þar stíga þeir af baki og hvílast. Taka þeir þá til matar. Segir þá bóndi við Ólaf: „Nú veizt þú hvað þú átt að fara þar þú þekkir þig; og munum við hér skilja. Þegar þú kemur heim færir þú hvörjum sitt. Í vetur mun bóndinn deyja á Aðalbóli og mun þeirri jörð sagt lausri. En þú skalt fá þessa jörð hjá húsbónda þínum til byggingar og mun það auðsótt. Þú skalt taka tvær vinnukonur og einn smaladreng og tvo vinnumenn og flytja þangað búslóð þína á réttum tíma. Síðan skaltu koma á tilteknum degi með sjö hesta undir reiðingi. Fær þú þá hjá mér heimanmundinn með konunni og það sem þú þarft til bús.“ Ólafur kvað svo vera skyldi. Síðan skildu þeir. Fer Ólafur leiðar sinnar þar til hann kom til byggða; var hönum þar vel fagnað og þóttust vinir hans hann úr helju heimt hafa. Kvaðst hann hafa fundið féð til og frá um heiðina. Leið nú á veturinn þar til bóndinn á Aðalbóli sýktist og dó, en ekkja hans treystist ekki að vera við búskap og sagði lausri jörðinni.

Það var einn dag að Ólafur kom að máli við Einar húsbónda sinn og biður hann að leigja sér Aðalból því hann vilji nú kvænast og búa. Einar mælti: „Hvörnin má það vera að þú getir búið og eiga ekki meira lausafé en til er?“ Ólafur kvaðst mundi sjá þar fyrir. Einar mælti: „Þá muntu vilja fara frá mér.“ Ólafur kvað svo vera, „og vildi ég biðja þig að þú beindir að með mér og kæmir öllu vel í lag sem mig á brestur að laga til búskapar fyrir mig.“ Einar kvað svo vera skyldi. Fékk Einar hönum nú byggingarbréf. Breytir nú Ólafur háttum sínum að öllu eins og fjallbúi hafði hönum áður kennt. Um vorið flutti hann á jörðina með tvær vinnukonur, tvo vinnumenn og smalamann. Síðan bað hann Einar á stóranúpi að lána sér sjö hesta með reiðingi og reipum. Var það auðfengið. Fór Ólafur með smalamann sinn, og var hann mjög huglítill og grannvitur, þar til er hann fann við hellirinn á ákveðnum stað fjallbúann með konarefni sitt. Var þar margt fólk samankomið og varð smalamaður ákaflega hræddur og þorði ekki nærri að koma. Tekur Ólafur þar reiðing af hestum sínum spottakorn frá, fól smalamaður sig þar í reiðingi hans, en Ólafur fann fjallbúa, og varð hinn mesti fagnaður. Greiddi fjallbúi mund dóttur sinnar í gangandi fé og góðum gripum. Fékk þar Ólafur hundrað ær og áttatíu gemlinga, tíu hross með reiðingi og reipum, tvo reiðhesta, hina mestu gripi. Flutti hann þaðan klyfjar á tuttugu hestum; var það mest kjöt, smjör, tólg, skyr, ull og búsgögn og fleira. En áður þeir skildu mælti fjallbúi: „Nú verðum við að skilja verr en vera skyldi þar sem ég get ekki séð að þér komi meira að gagni í þetta sinni. En áður þú fer í kaupstað í sumar þá kemur þú hingað og sækir ullarhár. Skaltu fara með sjö hross undir reiðingi. Ekki heldur skaltu kvænast fyrr en í haust og er hér skírnarattesti konarefnis þíns og kúabóluattest. Þetta hvörutveggja skaltu geyma vandlega. En ef sóknarprestur ykkar vill ekki gefa ykkur saman sem mig grunar þá skaltu fara til prófastsins og fá hönum bréf frá mér; mun hann þá viljugur gefa ykkur í hjónaband því hann er skólabróðir minn. En fyrir því að mig henti slys nokkuð varð ég að fara í útlegð. Í haust skaltu hingað koma og sækja til mín nokkra geldinga til að skera. Getur þú þá selt það kjöt sem þú þarft ekki við þar þú getur ekki höndlað þá hjá þér. Hér eru áttatíu ríkisdalir í peningum sem þú getur fengið fyrir þrjár kýr. Svo vona ég þú sért búfær í bráð.“

Eftir það skildu þeir með miklum kærleikum. Segir ekki af ferðum Ólafs fyrr en hann kemur heim með konarefni sitt. Kvað hann hana vera austan að. En smalamaður hans sagði ekki frá hvört hann hefði farið, annað en að hann hefði séð margt fólk og fengið feitt kjöt að éta. Nú tekur Sigríður við öllum búsráðum og fer það vel; var hún hin ástaverðasta kona og vel að sér um allt sem móðir hennar. Fyrir túnaslátt fór hann í hellirinn og fann þar fjallbúa; varð þar fagnaðarfundur. Tók hann hjá hönum þar ull á sjö hesta og flytur til byggða. Lagði hann ullina í kaupstaðinn og gjörði undarlega mikinn reikning. Fór hann að öllu eins og hönum var ráð til gefið. Vildi ekki prestur gefa þau í hjónaband. Fór hann þá til prófasts og fær hönum bréfið. Þegar prófastur hafði lesið bréfið brosti hann og tók hans máli vel. Gaf prófastur þau saman eftir að hann hafði yfirheyrt hana. Reyndist hún vel uppfrædd í sínum kristindómi. Var það veglegt brullaup. Eftir það fer hann að finna mág sinn og varð það við hellirinn. Fagnaði tengdafaðir hans hönum vel og fékk hönum áttatíu sauði gamla og bað hann lífláta þá sem fljótast. Fer Ólafur nú heim og slátrar geldingum sínum. Situr hann nú í búi sínu langa stund; var það mikið og reisuglegt. Græddi hann mikið fé og varð mjög ríkur. Oft fundust þeir mágar við hellirinn og er ekki getið viðskipta þeirra þaðan í frá. Ólafur bóndi á Aðalbóli og Sigríður kona hans áttu mörg börn og er mikill ættbogi frá þeim kominn á Vesturlandi. Og endar svo þessi frásaga.