Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Ólafur Fnjóskdælingur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ólafur Fnjóskdælingur

Ólafur hét maður; hann ólst upp í Fnjóskadal í Þingeyjarþingi Ekki er þess getið á hvaða bæ það var. Hann var mikilmenni að burðum svo hann var kallaður tveggja maki hverra meðalmanna og var þó lítið yfir tvítugt er saga þessi gerðist. Hann var vanur að róa suður á hverjum vetri, en á sumrum var hann fyrir norðan og í kaupavinnu því hann var lausamaður; græddist honum vel fé. Prestur var sá á Myrká er séra Jón hét; var hann Ólafi góðkunnugur, og kom hann þar jafnan við á suðurferðum sínum.

Það var einn vetur sem oftar að Ólafur fer í suðurferð. Kemur hann að Myrká og gistir þar eins og að vanda. Spillast þá veður og gerir kafaldshríð svo mikla að eigi léttir upp í þrjá daga. Á fjórða degi léttir nokkuð og talar þá Ólafur um við prest að hann verði að leggja upp. Ræður prestur honum að fara hvergi. Ólafur spyr prest hvernin hann haldi sér farnist suðurferðin, því hann var haldinn fjölfróður og nærfærinn um margt. Prestur kvaðst vera hræddur um að honum gengi tregt, og þó hann færi nú á stað mundi hann sanna að ekki mundi hann komast vestur af heiðinni; en færi svo að hann yrði að liggja úti eða villtist þá skyldi hann muna sig um það að drepa alla hestana, því hann hafði þrjá hesta meðferðis, og færa þá svo saman að hæfilegt væri bil fyrir hann að koma sér niður á milli þeirra og tjalda svo yfir með voðum þeim sem hann hefði og hreyfa sér ekki þaðan fyrr en nokkuð upp létti og hann sæi sér ferðafært. Ólafur lagði lítinn athuga að orðum prests, en fer að leggja á hesta sína og búa sig til ferðar því hann vildi keppa við að komast nógu snemma í verið. Skiljast þeir prestur með vináttu og biður hann Ólaf fara varlega því sér lítist illa á veðrið.

Leggur nú Ólafur leið sína vestur á Hörgárdalsheiði. En þegar hann er kominn nærfellt á hana miðja skellur að með svo mikilli kafaldshríð að hann villist og veit ekki hvað hann fer. Í þessari villu heldur hann lengi áfram þar til hann mætir svo miklum fönnum að ófært er orðið hestunum. Fer hann þá að hugsa eftir orðum prests og muni sér nú hentast að fara að viturleik hans og ráðum. Fer hann þá að leita sér eftir hól eða hæð þar sem grynnst verði fönnin. Og þegar hann hefur fundið hana drepur hann alla hestana eins og séra Jón ráðlagði og býr um að öllu eins og hann fyrir sagði, hleður böggunum í kring ofan á skrokkana og tjaldar yfir. Hírist hann þar í þrjá sólarhringa er aldrei létti hríðinni, en þann tíma allan hafði hann varma af skrokkunum. Eftir þrjá daga var komin uppstytta. Sér þá Ólafur að ekki er um annað að tefla en bjarga sér eitthvað þaðan þó ekki vissi hann hvert hann ætti að halda. Tekur hann þá malsekk sinn og það fémætasta af því sem hann gat borið og leggur síðan eitthvað af stað. Gengur hann nú nótt og dag lengstum áfram í þrjá sólarhringa um fjöll og firnindi, en fann þó enga byggð og ekki sá hann sól.

Að áliðnum þriðja degi kemur hann að gili; var það bæði þröngt og klettótt og rann eftir því lítil á og ofan í dalverpi nokkurt. Ólafur vill komast yfir gilið því hann sá sér ekki fært að komast þeim megin ofan í dalinn. Fer hann svo fram með gilinu, en komst þó ekki yfir það. Örmagna af þreytu sezt hann þá niður á stein ráðþrota og vonlaus að komast nokkru sinni til mannabyggða. Þegar hann hefur setið þar litla stund sér hann að maður kemur og stefnir beint til sín; sá er í víðri skinnúlpu yzt klæða. Það veit Ólafur að þetta muni útilegumaður vera. Verður hann þá hálf-hræddur þó hann léti lítið á því bera, því hann treysti sér ekki svo gangmóður að reyna þrekraunir við hann. Þegar aðkomumaður hefur komið svo nærri að talazt verður við kastar hann á Ólaf kveðju sinni og segir um leið: „Því ertu hérna, Ólafur?“ Ólaf furðar mjög á slíku er hann skuli nefna sig með nafni, því ekki þykist hann þekkja nein deili á honum. Ólafur spyr hann að heiti; hann sagðist heita Eyjólfur. Ólafi þótti hann fríður sýnum og höfðinglegur og var á klæðisfötum undir skinnúlpunni. Segir hann honum af ferðum sínum og bágindum. Eyjólfur býður honum að koma með sér; leggja þeir þá á leið ofan í dalinn. Ólafur spyr hvert hann þekki nokkuð til sín er hann nefndi sig með nafni. „Við séra Jón á Myrká fundumst í dag og sagði hann mér frá ferðum þínum, og því fór ég að vitja þín,“ sagði Eyjólfur. Þetta þótti Ólafi allt saman kynlegt. Fara þeir nú ofan eftir dalnum og gerist hann rauður þegar niður eftir honum kemur.

Þegar skammt er til dagseturs koma þeir að litlu en laglegu timburhúsi og er þar ræktaður völlur um kring; þar leiðir hann Ólaf inn. Þrjá pilta sér Ólafur þar, sá elzti þeirra var að sjá fulltíða maður, en hinir nokkru miður, og eina stúlku frumvaxta. Ekkert sá hann þar annara manna. Þóttist hann sjá að öll mundu þau vera börn Eyjólfs. Þar þótti Ólafi furðu mikil híbýlaprýði svo hann þóttist ekki hafa séð annað fegurra þó í stórmannabýlum væri eða í verzlunarmannabústöðum, og það sem honum fannst mest um af öllu var að allir mötuðust við eitt borð að útlenzkum sið og var vínsúpa borðuð svo hann vissi ekki hverju slíkt sætti hjá útilegumönnum ef svo væri, eða væri þetta sjónhverfingar og hann hylltur af álfum. Eftir máltíð var honum vísað að rúmi og fylgdi stúlkan honum til sængur. Svaf hann af um nóttina því hann var mjög aðþreyttur orðinn bæði af gangi og vökum svo hann vaknar ekki fyrr en Eyjólfur býður honum góðan dag. Þegar hann hefur klæðzt og matazt býður bóndi honum að ganga út með sonum sínum að skemmta sér. Ganga þeir nú út á völlinn og er þar stór steinn reistur upp. Þar bjóða þeir piltarnir Ólafi til glímu; hugsar hann þá með sér nú ætli þeir að drepa sig og líkast að hryggbrjóta sig á steininum.

Taka þeir nú að glíma, sá yngsti drengjanna fyrst, en bóndi sat hjá og horfði á. Fellir nú Ólafur brátt þennan og svo þá báða yngri bræðurna því hann var hraustmenni og nær tveggja maki að burðum. Takast þeir þá á elzti bróðirinn og Ólafur. Glíma þeir svo lengi að ekki var að sjá hver annan mundi sigra. Þó fer svo um síðir að Ólafur fellir hann einneginn; fannst það þá á Eyjólfi að honum þótti hann gildlegur maður. Glímdu bræðurnir líka sjálfir sín á milli og þótti Eyjólfi það góð skemmtan. Fór nú smásaman að fara allur ótti af Ólafi. Að miðdagsborðun hættu þeir glímunni og var nú Ólafur þar um veturinn í yfirlæti og er ekki getið að neitt bæri til tíðinda fram að sumardegi fyrsta, en hýrt var á milli [Ólafs] og stúlkunnar. Á sumardaginn fyrsta býður Eyjólfur honum að ganga með sér ofan til sjóar, því það var skammt frá sæ. Ganga þeir nú báðir til sjóar. Það sá Ólafur að í túninu var grasi vaxinn rani svipaður dysi og að systkinin gengu þangað oftlega. Þar sem þeir komu að sjónum var vík ein, en klettar meðfram sjó á báðar síður. Þar við víkina settust þeir niður og var hún full af trjáviði ýmiskonar og mikið af böndum og öðru úr dönsku skipi. Tók þá Eyjólfur til orða:

„Nú vil ég segja þér bæði ævisögu mína og hvers vegna þú ert hingað kominn. Þegar ég var ungur fór ég utan að nema skólalærdóm; gekk mér það allákjósanlega svo ég var haldinn engu lakari en aðrir jafnaldrar mínir að bóknámi. Þegar ég hafði lokið lærdómi giftist ég þar og fékk mér hús á leigu. Nokkru síðar bar svo við að ég var á gangi í götu nokkurri meðfram stóru húsi og voru skrautlegar svalir á múrbrúnum þess. Þar voru fjöldi manna að skemmta sér og þar á meðal kóngur. Bar þá svo undir að kóngi var hrundið ofan af einhverjum skálki óforvarandis nærri því sem ég var staddur. Hljóp ég þá til og greip hann á lofti svo hann sakaði ekki. Aldrei varð það uppvíst hver það gerði, en kóngur launaði mér ríkuglega snarræði mitt og sæmdi mig bæði virðing og fégjöfum og vináttu sinni. Gjörðist ég af því ríkur og vel metinn. Af þessari hamingju minni jukust mér öfundarmenn sem stunduðu eftir að ófrægja mig við kónginn; en svo leið nokkur tími að þeim tókst það ekki. Loks tóku sig saman skálkar nokkrir og drápu einn af náfrændum konungs á næturtíma úti fyrir húsi mínu, brutu síðan glugga á svefnherbergi mínu og köstuðu honum þar inn. Ég sá nú angurvær og áhyggjufullur í hvern voða þeir ætluðu að koma mér því ég þekkti skaplyndi konungs að hann var bæði skapbráður og refsigjarn þegar um slík stórræði var að gjöra og að ég með engu móti mundi komast hjá þungri hegningu eða lífláti. Í húsi skammt frá mér átti ég trúnaðarvin sem ég var vanur að leita ráða til þegar um nokkuð vandasamt var að gjöra og sem mér reyndist ætíð ráðhollur. Í þessum vandræðum mínum kom mér til hugar að leita hans. Klæddist ég þá skjótt og fór að hitta hann. Sagði ég honum frá því sem gjörzt hafði og vandræðum mínum og bað hann góðra ráða. Sagði hann mér sem var að enginn mundi annar kostur en flýja þá strax um nóttina ef þess væri auðið; og það sæi hann hið helzta undankomufæri að nú ætti hann skip á höfninni hlaðið alls konar nauðsynjavarningi, en svo stæði á að nú í svipinn væri það mannalaust og skyldi hann hjálpa mér að bera mig á það um nóttina og reyndi ég svo að flýja eitthvað til hafs áður dagaði. Boð hans þáði ég þakksamlega. Gengum við þá í það að flytja mig á skipið; það var dálítil jagt. Tókum við það nauðsynlegasta úr húsi mínu og ég þurfti með að hafa. Störfuðum við svo að því að ekki urðu varðmenn bæjarins við varir. En eignir mínar allar er eftir urðu fékk ég vin mínum til eignar, allt sem hann gæti yfir komizt. Skildum við síðan við skipsfjöl og árnuðum hver öðrum heillaóskum. Vatt ég þá upp segl og sigldi til hafs út, en byrinn var svo þægilegur að ég var kominn úr sýn er dagaði.

Nú lét ég vindinn bera mig um hafið. Ekki voru aðrir menn á skipi en ég og kona mín og tvö eldri börnin sem þá voru ung. Eftir ekki alllanga útivist bar mig hingað að vík þessari. Lagði ég fyrst skipinu við ankeri meðan ég flutti farminn af og tjaldaði með seglunum yfir honum á landi og svo mér til skýlis. Eftir það hleypti ég skipinu hér upp í fjöruna og dró það í sundur; byggði síðan af viðum þess með tilstyrk af rekavið timburhúsið sem við búum í. Hafði ég þá ærið að vinna að starfa einn að því öllu er börn mín voru svo ung og sum ókomin því nú eru liðin nítján ár síðan mig bar hér að landi, en yngsti sonur minn nú tólf vetra, en kona mín er nú dáin fyrir nokkrum árum og jarðaði ég hana í túninu þar sem þú sérð að dysin er í því. Þegar ég fór fyrst að koma mér upp fjárstofni varð ég að stela mér nokkrum kindum, fyrst til undaneldis, en síðan ég gat komið upp nokkrum fjárstofni hef ég engri skepnu stolið, en geymt hef ég skrifuð mörk á þeim sem ég tók, ef eigendurnir yrðu upp spurðir seinna, því þá vildi ég óska þess að þeim yrði fullkomlega endurgoldið verð þeirra. Má nú ekki dylja þig þess lengur að það er að beggja okkar ráði séra Jóns á Myrká að þú ert hingað kominn. Hann er líka sá eini landsmanna er veit hér um mig, og höfum við oft talazt við. Það var tilgangur minn með því að fá þig hingað að gifta þér dóttur mína ef þú vildir að þeim kostum ganga og setjast hér að búi ásamt sonum mínum og að þú sæir þeim fyrir kostum því ég þekki þig að ráðdeild og dugnaði, en ég gjörist gamall og á máske ekki langt eftir ólifað.“ Játaði Ólafur öllu þessu fúslega og því heldur sem hann hafði fengið ástarþokka á dóttir hans. „Skaltu nú,“ segir Eyjólfur, „fara heim til þín og ráðstafa eigum þínum og koma þeim öllum í peninga og koma að því búnu. Nú eru nítján ár síðan ég kom hingað og máttu því hér eftir segja frá bústað mínum og hver hér býr; munu þá máske fleiri fýsa að búsetjast hér í nágrenninu.“

Semst þetta allt með þeim eftir því sem Eyjólfur mælir fyrir; ganga þeir þá heim. Leiðir hann þar Ólaf að skemmu; þar sýnir hann honum bagga hans sem hann skildi eftir um veturinn á fjöllunum. Kvaðst hann hafa látið vitja þeirra og flutt þá heim til sín heldur en að láta þá fara í ófögnuðinn. Það kvað hann hefði verið venja sín að fara í kaupstað á sumrum til matfanga og annara aðdrátta án þess að láta sig þekkja af mönnum.

Fer nú Ólafur að búa sig til heimferðar og var það löng leið. Segir ekki neitt af ferð hans fyrr en hann kemur til átthaga sinna. Þótti þar öllum mikils um vert að sjá hann lifandi því þeir töldu hann hafa orðið úti um veturinn. Segir hann mönnum hið ljósasta af ferðum sínum og hvar hann hafi verið. Selur hann nú fjármuni sína eins og til var ætlað og verzlar í peninga því hann var orðinn vel fjáreigandi. Að því búnu fer hann til baka og tók við búráðum hjá Eyjólfi og giftist dóttur hans og bjó þar vel og lengi og jók kyn sitt; en skamma hríð lifði Eyjólfur hjá honum. Hann útvegaði sonum hans kvonföng og færðu þeir út byggðina og gjörðust gildir bændur. Vík þessi sem Eyjólfur lenti skipi sínu átti að vera Raufarhöfn í Þingeyjarsýslu og hann fyrstur manna sem þar bjó. – Og lýkur svo þessari sögu.