Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Úlfsvatn

Úr Wikiheimild

Fram af Skagafjarðardölum er veiðivatn sem nefnt er Úlfsvatn og er nafn þess þannig til komið:

Einhverju sinni bjó ríkur bóndi á Mælifellsá; hann átti son þann er Guðmundur hét, efnilegasti maður að öllu, sterkur og glíminn. Hann var oft í göngum og var gangnaforingi. Einhverju sinni fór Guðmundur í eftirlit með fleiri mönnum og varð hann þá einn með dreng í leitinni og komu að Úlfsvatni; þar sáu þeir tvö lömb og tóku að eltast við þau. Vatnið var lagt og sáu þeir að maður lá út á vatninu og var að veiða; þeir Guðmundur nálguðust vatnið; stendur þá veiðimaður upp, tekur exi sem hjá honum lá, og rennir sér fótskriðu þangað sem Guðmundur er. Þegar drengurinn sér þetta tekur hann á rás, en Guðmundur veik sér undan. Varð þá útilegumanni laus exin og nær Guðmundur henni og rennir sér fótskriðu út á vatnið og útilegumaðurinn á eftir. Fara þeir svo um hríð þangað til Guðmundur sá sér færi, snýr sér við og heggur útilegumann banahögg. En er hann fékk lagið kallar hann hátt á Brand, Þorgils og Ólaf. Síðan hélt Guðmundur til sinna manna og segir þeim frá atburðinum. Fóru þeir þá fjölmennir til vatnsins og var þá hinn látni hvorfinn; sáu þeir að hann hafði verið sóttur og röktu blóðferilinn upp af vatninu.

Eftir þetta var Guðmundur heima og fór eigi í göngur þar uggvænt þótti að útilegumenn mundu sitja um hann. Einhverju sinni var það seint á sumri á Mælifellsá að smalinn varð veikur og var enginn til að smala nema Guðmundur. Hélt hann þá á stað, en finnur hvergi féð; heldur hann þá fram á heiðar, en finnur eigi að heldur. Gjörir þá á hann þoku mikla og veit hann ekkert hvað hann fer; heldur hann svo áfram um hríð þangað til hann sér fjárhnapp stóran og mann sem stóð hjá. Útilegumaður réðist undireins á Guðmund og glíma þeir lengi þangað til Guðmundur fellir hann. Biður þá útilegumaður sér griða og kvaðst honum skyldu góðu launa. Guðmundur spyr hver hann sé og hvar hann eigi heima. Útilegumaður sagðist heita Ólafur og vera bróðir þess er hann hefði drepið á vatninu, en sá hefði Úlfur heitið. „Við erum nú sex bræður og er ég þeirra yngstur og minnstur. Faðir minn býr á bæ hér skammt í burtu og hefur hann hyllt þig hingað því hann vill launa þér sonardrápið; hefur hann látið gera gröf á hlaðinu og ætlar hann þér að gista í henni. Við eigum systir eina er Sigríður heitir; hana elskar faðir okkar mest og má hún þér helzt hjálpa ef hún vildi leggja þér lið. Brandur bróðir minn er hér nálægt – og réðir þú niðurlögum hans svo þú yrðir lífgjafi okkar beggja, mundi hún leggja þér það lið er hún gæti.“

Síðan lofar Guðmundur Ólafi að standa upp og heldur áfram þangað til hann finnur Brand; glíma þeir og fær Guðmundur komið honum undir. Biður þá Brandur sér griða og heitir honum liðveizlu og segir honum frá því sama er Ólafur sagði honum. Lofar þá Guðmundur honum að standa upp og heldur til bæjarins; hittir hann þá Sigríði úti og ber henni kveðju frá bræðrum sínum og það með að þeir biðji hana að hjálpa lífgjafara sínum. Sigríður leiðir hann þá í fjósloftið og gefur honum vín að drekka svo Guðmundur hresstist mikið. Segir hún honum frá gryfjunni á hlaðinu og kennir honum það ráð að láta hrekjast fyrir föður sínum að gryfjunni; en þegar þar komi skuli hann stökkva yfir gryfjuna, en láta föður sinn falla ofan í, en lífláta hann eigi. Nú segir hún að faðir sinn muni bráðum vakna og vita af komu hans; skuli hann ganga fram að bænum og drepa á dyr. Guðmundur gjörir svo; og er karl heyrir höggin rís hann úr rekkju og segir að nú sé þó loksins Guðmundur kominn, og skuli hann nú fá að reyna karlmennskuna; hleypur síðan út og verður eigi af kveðjum, heldur hleypur strax í Guðmund og verður þar harður aðgangur. Guðmundur finnur það strax að hann eigi hefur hálft afl við karlinn og verst þess vegna, en sækir eigi. Vill karlinn koma honum til gryfjunnar og lætur Guðmundur þokast þangað undan; en þegar þar kemur stekkur Guðmundur yfir um, en steypir karlinum á höfuðið ofan í.

Í þessu kemur Sigríður að og bræðurnir tveir sem hann áður hafði glímt við og biðja hann að gefa föður sínum líf; heitir hann því ef að sér verði ekkert mein gjört þaðan í frá, og lofaði karl því hátíðlega. Er hann þá dreginn upp úr. Þakkar hann Guðmundi lífgjöfina og býður honum inn, en segist þó ekki vita hvernig eldri synir sínir kunni að eira þessu þá heim komi. Síðan er Guðmundi veittur beini og að kvöldinu lokaður inn í skála. Koma þá eldri bræðurnir heim og spyrja hvert Guðmundur gisti í gröfinni. Karl segir þeim eins og farið hafði og verða þeir þá óðir og ætla að brjóta upp hurðina, en karl gengur fyrir dyrnar og segir þeir verði þá fyrst að vinna á sér ef þeir vilji verða griðníðingar. Sefuðust þeir þá og gengu til rekkju. Um morguninn lét karl þá sjá Guðmund og fyrirbauð þeim að leggja til hans. Guðmundur var þar um veturinn því ófært var til byggða; honum leizt vel á Sigríði því hún var kona fríð sýnum og þar hjá svo sterk að hún hafði við öllum bræðrum sínum, og kom vel ásamt þeim.

Um vorið fýstist Guðmundur í sveit aftur og vildi þá Sigríður fylgjast með honum enda var hún þá með barni. Karlinn latti þess eigi og heldur þá Guðmundur á burt með hana og léttir eigi fyrr en hann kemur að Mælifellsá, og urðu honum þar allir fegnir og þóttust hafa heimt hann úr helju. Guðmundur bjó lengi að Mælifellsá og giftist Sigríði; þótti hún hinn mesti kvenskörungur. En bræður hennar fluttu smám saman í sveit og þótti dauflegt í kotinu eftir burtför hennar og dauða föður síns. Urðu þeir sumir bændur í Skagafirði og þóttu allir miklir menn fyrir sér.