Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Útilegumannalest

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Útilegumannalest

Þorkell Helgason bróðir Erlendar var vinnumaður hjá séra Auðuni á Stóruvöllum og síðan hjá ekkju hans. Þá var það á einhvurju vori að hann kom úr Njarðvíkum og fór þaðan á áliðnum degi með öðrum manni. Þegar þeir voru skammt komnir mættu þeir lest sem þrír menn voru með; þeir voru í sauðsvörtum prjónafötum og dimmleitir. Á hestunum voru prjónaðir sekkir. Þeir Þorkell heilsuðu þeim. Þeir tóku lítið eða ekki kveðju þeirra og skildu svo. Þorkell átti seinna Sesselju Ámundadóttur sniðkara, ekkju Jóns Einarssonar frá Baugsstöðum. Þau bjuggu í Geldingaholti.