Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Útilegumenn í Hágöngum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Útilegumenn í Hágöngum

Haust það (1858) sem Gnúpverjahreppsmenn keyptu sér fjárstofn í Þingeyjarsýslu eftir fjárkláðann riðu fjórir kaupamenn norðan nokkru seinna en fjárreksturinn fór. Þeir hétu Jósep Jónsson frá Haga í Gnúpverjahrepp, Ásgrímur frá Laxárdal í Gnúpverjahrepp (dáinn fyrir 1-2 árum), Ingimundur Guðmundsson af Skeiðum og Halldór nokkur úr Flóa. Þeir lögðu upp um morgun úr Hreysisveri (ᴐ: Eyvindarkofaver) og riðu fram í Þúfuver. Það er litlu fyrir innan Sóleyjarhöfða. Þeir sáu hesta undir öldu einni suður og austur í verinu. Töluðu þeir Jósep og Ásgrímur um að það mundu vera hestar frá fjárrekstrarmönnum sem þeir hefði týnt, og vildu taka þá. Halldóri og Ingimundi þótti krókur að fara þangað og vildu ekkert við það eiga. Þeir þæfðust um þetta þangað til þeir voru komnir nálægt móts við hestana, og var ekki að nefna að þeir Halldór vildi skipta sér af þeim. Jósep sagði þá að þeir mætti slíta félagið ef þeir vildi, og reið frá þeim og Ásgrímur með honum. Áttu þeir þá að stefna í suðaustur til hestanna. Bar nú aldan af, svo hestarnir hvurfu þeim. Þeir riðu fram á ölduna. Þá þutu upp undan öldunni fjórir menn og hlupu á hestana sem voru jafnmargir, og hleyptu óðfluga austur á sandana og stefndu nálægt á Hágöngur. Einn hesturinn var sérdeilis fljótur, hinir í góðu meðallagi. Allir voru hestarnir ljósleitir. Jósep elti þá fyrst og vildi fá þá í tal því hann ætlaði þeir væru úr Holta- eða Landsveit, en þeir biðu ekki eftir honum, heldur hertu því meir á sér. Hann fór þó eftir þeim nokkuð austur á sandana og hugði að förunum. Það voru meðalstór spor eftir flatjárnaða hesta. Ásgrímur kallaði eftir Jósep og bað hann snúa aftur og vera ekki að elta „þessa djöfla“. Jósep sýndist ekki heldur ráð að fara lengra og snéri aftur. Þeir komu í brík þá undir öldunni sem mennirnir spruttu upp úr og sáu þar bæli þeirra. Þótti þeim líklegast þeir hefði etið þar mat. Ekki sáu þeir að þeir hefðu neitt meðferðis. Þeir Jósep riðu nú til félaga sinna og fóru allir suður og sögðu frá þessum atburði. Var þá þegar skrifað merkum mönnum í Rangárvallasýslu og beðnir að spyrjast fyrir ef nokkrir menn vóru á fjalli um þær mundir eða við fiskvötn, og sannfréttist að það var ekki.