Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Útilegumenn í Köldukvíslarbotnum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Útilegumenn í Köldukvíslarbotnum

Maður hét Erlendur Helgason. Hann var uppalinn í Landsveit, undarlegur og einrænn og manna þagmælskastur. Hann var lausingi lengst ævi sinnar og fór norður á hvurju sumri og verzlaði með hesta. Seldi hann þá í öðrum staðnum er hann keypti í öðrum. Oft fór hann með skreið norður á fjórum til sex hestum og stundum með rokka. Mönnum þótti undarlegt ráðlag hans og spurðust fyrir um athæfi hans nyrðra. Sannfréttist að aldrei kom hann með rokka norður og lítið af skreið jafnan. Héldu menn að hann hefði skipti við útilegumenn því aldrei vildi hann um þá tala ódrukkinn, en sagðist þó fullyrða að þeir væri til. Þegar hann var drukkinn sagði hann stundum nokkuð frá ferðum sínum einum manni, en aldrei ef fleiri voru. Svo sagði hann einu sinni drukkinn Ólafi bónda Höskuldssyni á Haga að útilegumenn væri í Köldukvíslarbotnum hinum syðri sem þar hétu Straumakvíslarbotnar. „Þá hefir Gunnlaugsen aldrei kannað heldur en hann hefir farið ofan í mig,“ sagði hann. Þar þóttist hann hafa komizt í mesta hættu. Hefði maður komið að sér og þrifið til sín grimmlega og hefðu þeir svipzt hart. Hann þóttist hafa náð til rótagrefils sem hann hafði oft með sér og með honum handleggsbrotið manninn. Þá hefði hann orgað hátt. Þá þóttist hann hafa rotað hann. Þá sagði hann hefði komið nokkrir (fjórir?) menn hlaupandi. Þá þóttist hann hafa hleypt í kvíslina upp á líf og dauða og komizt yfir. Þá hefði þeir sent hund eftir sér, en hann sagðist hafa rotað hann, þá hann klifraði upp bakkann. Þá kvað hann þá hafa manað sig að koma, en sagðist hafa manað þá á móti; þá sögðu þeir: „Þú nýtur þess það er langt til vaðsins.“ Þá kvað hann hafa skilið með þeim. Hið sama eða mjög líkt hafa fleiri eftir Erlendi drukknum. Hvort sem þetta er nú satt eða ekki, þá er það satt að eitt haust kom Erlendur ekki í vanalegan tíma suður. Þó fór hann oft snemma norðan, en kom seint suður og snemma sunnan, en seint norður. Og héldu menn hann væri dauður, en eftir veturnætur kom hann lausríðandi suður á Land og var þá blár og bólginn í rifnum klæðum. Engum manni sagði hann hvar hann hafði verið eða hvað fyrir hann hafði komið. Máske það hafi verið það sem áður er talið.