Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þórálfur útilegumaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þórálfur útilegumaður

Stúlka nokkur átján vetra gömul, að nafni Valgerður, sat hjá kindum húsbónda síns er bjó á Hofi í Skagafjarðardölum. Það vildi til að hana vantaði seint um sumarið sex ær og leitaði hún þeirra langt á fjöll upp, og þegar hún var nær því yfirkomin af þreytu varð fyrir henni dalverpi nokkurt og sá hún þar kotbæ lítinn. Hún gekk heim að bænum, barði þar að dyrum. Kom þar út karl gamall og heldur ófrýnilegur; spurði hún hann að nafni og hvar hún stödd væri; hann nefndist Þórálfur og kvaðst eiga dal þennan, meira varðaði hana eigi um að vita. Sagðist hann búa þar með kerlingu sinni, en vera barnlaus og hefði hann seitt hana til sín og skyldi hún þar vera og þjóna þeim. Valgerður var þar um veturinn í góðu haldi, en undi lítt, því dauflegt var í kotinu, því karl stóð yfir kindum á degi hverjum um veturinn, en kerling hans var fámálug og fremur úlfbúðarfull og forn í skapi. Sá Valgerður þar engar bækur og ei vissi hún hverja trú þau höfðu; en á hverju kvöldi las karl bæn þessa að henni sýndist mjög trúræknislega:

„Skeggalvaldur, skjólið þitt
skíni yfir landið mitt
svo enginn geti á það hitt
af öllum landsins lýðum;
forða þú oss hríðum,
forða þú oss hríðum.“

Um vorið gat Valgerður strokið frá þeim og til heimilis síns. En ekki auðnaðist mönnum að hitta á dal þennan aftur, því þeger leit var gjörð kom svo mikil þoka að leitarmenn fýstust að snúa heimleiðis aftur, og var það eignað fjölkynngi Þórálfs.