Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þórður sakamaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þórður sakamaður

Það er ein gömul sögn að maður nokkur hafi komið haust eitt að Reykjanesi í Víkursveit og nefnt sig Þórð. Gisti [hann] þar nokkrar nætur að bónda þess er Jón hét. Átti Jón sá tvo sonu; hétu Grímur og Jón, efnilegir menn. Bóndi mæltist til að Þórður dveldi þar og réri til fiskjar með sonum sínum hvað hann gjörði, og féll vel á með þeim. Var Þórður maður stilltur og fátalaður, jafnan hljóður í skapi. Þar dvelur Þórður um veturinn og fellur vel á með þeim bónda; töluðu þeir löngum so ekki vissu aðrir en þeir. Um vorið eina nótt hvarf Þórður og þar með lítill bátur er bóndi átti. Gaf hann sig ekki að því, en synir hans spurðust fyrir um nálægar sveitir hvurt ekki yrði vart við Þórð, og kunni enginn til hans að segja. Þótti þeim bræðrum skaði í hvarfi bátsins, en þó meir Þórðar því aldrei höfðu þeir getað dregið báðir so mikið af fiski að Þórður ekki fiskaði betur haust það er hann réri með þeim. Líður nú á sumar fram.

Það var einn góðan veðurdag að þeir bræður róa, og er þeir hafa víða leitað og ekkert fiskað sjá þeir bát við haf að bera; halda nú þangað og er þar Þórður og hefur fiskað. Þeir renna nú færum og stendur fiskur á hvurju bandi. Þar sitja þeir að fiski um stund og hefur Þórður mjög hlaðið bát sinn. Sezt hann þá við árar og stefnir á Reykjaneshyrnu norðanverða. Þeir bræður tala nú sín á milli hvurt elta skuli og semst það með þeim; sækja nú róðurinn knálega, en ekki dregur saman að heldur. Lendir Þórður norðan undir hyrnunni, kastar upp fiski kallmannlega, tekur bátinn og ber á höfðinu upp í skriðu nokkra. Þar er hjalli einn og í honum hellir; þar inn ber Þórður bátinn og vill sækja fiskinn. Í því ber þá bræður að og ná þeir árum Þórðar sem lágu í fjörunni, og nokkru af fiski, en ekki ráða þeir á hann. Síðan róa þeir til Reykjaness og kemur Jón í fjöru, spyr þá því þeir flytji árar og segja þeir hvurnig þeir léku Þórð og hvar hann sé; eggja nú föður sinn að drepa hann. Kall svarar: „Það skal aldrei verða og farið sem fljótast og skilið Þórði ráninu og verið ekki so djarfir að segja nokkrum til hans.“ En so mikið virtu þeir bræður orð föður síns að þeir færðu Þórði aftur árar hans og fisk. Bar nú ekki neitt á Þórði annað en menn þóttust stöku sinnum verða varir hans á sjó.

Bóndadóttir frá Minni-Ávík smalaði út í hlíð nokkra í Reykjaneshyrnu sem Hagi heitir, ekki langt frá hellir Þórðar. Var það oft að henni dvaldist framar en efni þóttu til og eitt sinn spur faðir hennar hvað því valdi. Er hún treg að segja, en um síðir getur hún þess að maður sem Þórður heiti sé þar í fjallinu og sitji oft á tal[i] við sig því honum leiðist einveran. Bóndi varð hræddur og hélt þetta tröll eða huldumann; lætur því stúlkuna hætta fjárgæzlu og gegnir sjálfur þeim starfa um hríð.

Nú saknar Þórður stúlku sinnar og missir yndi og svefn. Gengur hann eina nótt til Ávíkur og nemur burt stúlkuna. Eru þau nokkurn tíma þar bæði, eignast son einn og kemur þeim það ásamt að Þórður rekur fé föður hennar til hellirs einu sinni í viku og mjólkar hún ær og hefur til handa sveininum. Þegar haustar taka þau á og lamb sem stúlkan átti í fé föður síns og slátra.

Víkur þá sögunni til bónda. Þegar dóttir hans er horfin fer hann til konu einnar gamallar sem orð lék á að væri margfróð og biður hana að vita hvað um dóttir sína líði. Kelling segir þá hið sanna og það með að Þórður sá sé austfirzkur maður og hafi hent það ófall að eiga barn með systir sinni; hafi síðan strokið og sé búinn að vera seytján ár í útlegð. Mælir hún eftir Þórði og biður bónda ekki amast við honum; segir hann mikilmenni og vænan dreng. – „Er dóttir þinni fullboðið að eiga hann því bráðum er á enda sektartími hans.“ Bóndi reiðist og segir það aldrei verða skuli að hann gefi þjóf slíkum dóttir sína. Kelling svarar: „Það mun þinn bani verða ef þú hlýðir ekki mínum ráðum.“

Skilja þau bæði reið. Safnar bóndi mönnum og fer að leita Þórðar; hittir so illa á Þórð að hann er að gjöra að fiski í fjöru niðri. Komast þeir í hellirinn, ná burt stúlkunni og barninu, en Þórður klifrar í hamar einn þar skammt frá. Sækir bóndi og hans menn eftir. Þórður tekur steina og sendir þeim ekki mjúklega. Meiðast margir, en þrír dóu, var bóndi einn þeirra; hverfa síðan frá með sneypu. En Þórður hefst við í hellrum [og] skútum, leggst nú á fé og stelur. Fer hann víða um Strandir og er það sögn sumra að Aðalvíkingar yrðu hönum að bana með galdri á tuttugasta útlegðarári, en aðrir segja hann stryki í hollenzka duggu og næði áður stúlkunni og barninu.

Þannig er Þórðarhellir nú á dögum: Dyr hans eru so lágar að inn verður að ganga hálfboginn. Liggur hann niðrá við þegar eins faðms langt er inn komið. Er hann þrjár álnir á hæð út við allt um kring, inn í miðju fullar fimm, tíu álna langur, fimm til sex breiður; í miðjunni er bálkur eða veggur hlaðinn úr köntuðu grjóti. Á öllum röndum hans eru lagðir langir steinar hvur við ann[an]. Bálkur þessi er þrjár álnir langur, ein og hálf breiður og eins á hæð. Rjáfur hellirsins er hvelft. Lítil er birta í hönum og ekki er þar lestrarbjart um hádag. Kaldur óþefur er í honum og lá mér[1] við ógleði þegar inn kom. Sandskriða brött liggur úr stórgrýttri fjöru til hjallans sem hellirinn er í, en hjallinn er á að gizka átta til tíu faðma hár. Slétt er bergið og svartlitt. Ekki sér dyr hellirsins fyr en að þeim er komið. Inngangur hans er hér um tveggja álna breiður og stórgrýtishrúga nokkur framan fyrir og hylur op hans.

  1. Þ. e. Tómasi Guðmundssyni á Gróustöðum í Geiradal.