Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þorsteinn á Pund og Gestur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorsteinn á Pund og Gestur

Það hefur ekki sjaldan borið við að þess hafi orðið vart að útilegumenn hafi farið í kaupstaði og er það líklegt að þeir þurfi ekki síður að birgja sig að nauðsynjum en byggðamenn. Fyrir tólf eða fjórtán árum kom maður einn í Reykjavík til kaupmanns sem nú er dáinn, og nefndi sig „Þorstein á Pund“. Hann vildi enga aðra vöru en salt og korn og engin kaup eiga við kaupmanninn nema á náttarþeli. Þegar menn fóru að skoða hesta hans kom það upp að þeir voru járnaðir með hornskeifum. Þóttust menn þá ganga úr skugga um að þetta væri útilegumaður.

Um sama leyti hér um bil kom sá maður á Eyrarbakka til Guðmundar Thorgimsens sem kallaði sig Gest; hann þóttist vera austan úr Landssveit, en bærinn sem hann lézt búa á er ekki til í þeirri sveit. Þessi maður þótti óframfærinn og undarlegur í háttum sínum og vildi ekki segja hvar hann væri vanur að hafa kaupskap; þó spurði hann um allra algengustu hluti til hvers þeir væru hafðir, t. d. fataboltar. Hann var skeggjaður mjög, í sauðmórauðri mussu, og gamlan hatt slæman á höfði. Hann lagði inn hjá kaupmanninum mikið af ull og tólg, en tók út aftur óvenjulega mikið af járni og salti og nokkuð lítið af brauði. Síðan hvarf hann úr búðinni án þess menn tækju eftir. Fór kaupmaðurinn þá að líta eftir reikningi hans og sá að nærri var um útteknar vörur og innlátnar svo að ekki munaði meir en einum fimm mörkum sem hann hafði oftekið út. Það ætla menn að verið hafi sami maðurinn sem kom með tveimur öðrum að Austurnesi við Þjórsá í ofsaveðri svo ekki var ferjutækt. Hann bað þó bóndann að að flytja þá kumpána yfir ána, en hann afsakaði sig og sagði að ófært væri að flytja í því veðri, en gekk þó með honum að farangri þeirra félaga. Þegar þessi maður hitti félaga sína skipar hann þeim að leggja aftur á hestana og láta upp. Það sá bóndi að þessi maður hafði langa stöng og bætti þó við hana með því að skrúfa neðan í hana langan járnbrodd, fór svo á undan og hinir á eftir með lestina og lagði í Þjórsá á vaðleysu þar sem hún slær sér mest út fyrir ofan ferjustaðinn og reyndi á undan með stönginni. Það sá bóndi seinast til ferða þeirra að þeir komust með allt sitt heilu og höldnu yfir ána. Ofan til í Landssveit varð enn vart við þrjá menn um sama leyti sem lágu þar í áfanga við mórautt prjóntjald og héldu þeir norður á afrétt þegar þeir lögðu upp, eftir því sem förin lágu.