Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þorsteinn frá Silfrúnarstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Þorsteinn frá Silfrúnarstöðum

Þess er getið að á Silfrúnarstöðum í Skagafirði bjó bóndi nokkur; er ei getið nafns hans. Átti hann þrjá sonu; er ei getið um nöfn tveggja; vóru þeir af föður sínum settir til menntunar og koma þeir ei við þessa sögu. Þriðji son bónda hét Þorsteinn; ólst hann upp með föður sínum.

Það var eitt haust þá er Þórsteinn hafði þroska fengið að föður hans var vant margra geldinga af afréttum og eftir síðustu fjárleitir býr Þórsteinn ferð sína og hafði með sér reiðskjóta sinn rauðan að lit. Stefnir Þórsteinn þá fram á afréttir og fer víða og verður einkis var. Kom þá á hann kafald so mikið að hvergi sá frá sér. Hélt hann þó áfram þar til hann kemur á hæð nokkra; birtir þá lítið eitt upp kafaldið. Sér hann þá að hann er kominn á dalbrún eina. Stefnir hann ofan í dal þann og fer eftir honum unz hann finnur bæ einn. Ber hann þar að dyrum og kemur út kona. Biður Þorsteinn hana að skila til fyrirráðanda að hann vilji þar gista, en kona sú er út kom kvað það ei ráðlegt fyrir hann að biðjast þar gistingar. En Þorsteinn bað hana ei hafa orð á slíku, en skila því er hann beiddi. Gekk hún þá inn og skömmu síðar kemur fram stór maður; var hann að sjá bæði elli- og illilegur. Heilsar Þorsteinn honum og spyr hvert hann eigi húsum að ráða. Játti hinn því og var raust bónda hverki blíð né fögur. Biður Þorsteinn hann gistingar, en kall játti því; fór Þórsteinn til baðstofu, en bóndi gekk fyrir. Sér Þórsteinn [eigi] annað fólk í baðstofu en roskna konu og stúlku þá er fyrr var getið. Var Þórsteini veittur þar allgóður beini, en síðar vísar kona sú er til dyra kom honum til hvílu; er það í framhýsi; eru þar tvö hús og hvert innar af öðru; fylgir hún honum í hið innra húsið. Sér hann að hvílustokkur er mjög blóðstorkinn. Segir Þorsteinn að þar muni hafa verið breiddar gærur, en kona sú er honum fylgdi svaraði öngu. Síðan dregur hún af honum vosklæði og vill burt bera, en Þórsteinn bað hana láta þau kyr. Fer hún síðan leiðar sinnar. Getur Þórsteinn ei sofnað og klæðist skjótlega. Þuklar hann þá fyrir sér og finnur undir rúmi því er hann hafði í verið líkhami tveggja manna og nokkuð af mannabeinum. Tekur hann þá annan þann dauða og leggur í hvíluna og breiðir vandlega fatnaðinn yfir hann, leggst síðan undir hvílu þá hjá öðrum dauða líkhamanum.

Líður þá ei á löngu þar til hann heyrir ærið þrusk við bæjardyr. Litlu síðar er gengið hljóðlega í skálann og að hvílunni. Heyrir hann þá að afar mikið högg er lagt í hvíluna og sá það gjörði gengur síðan fram úr skálanum. Snarast Þórsteinn þá á eftir og gengur hljóðlega til baðstofu. Heyrir hann þá að sú eldri kona spyr bónda sinn hvernig gengið hafi. Lætur hann vel yfir því. Sagði hún þá: „Þar er hann frá.“ Fer Þórsteinn síðan til dyra og lýkur upp hurðu. Finnur hann þá so ramgjörvan grjótvegg fyrir sér að hann getur með engu móti rofið hann. Síðan snýr hann til skála og finnur stiga fyrir sér. Gengur hann þar upp og finnur fyrir sér krækta hurðu á stafni skálans. Fer hann þar út og gengur að hesthúsi sem var að bæjarbaki. Tekur hann þar út hest sinn hvern hann hafði þar um kveldið inn látið án vitundar heimafólks. Söðlar hann nú hest sinn. En þegar hann var að enda við það kemur bóndi út um sömu dyr og Þorsteinn hafði fyr farið. Hefir hann þá byssu og hleypir af henni. Kom skotið í hestinn og féll hann dauður niður. Snarast Þórsteinn þá að bónda; takast þeir þá sterklega á. Finnur Þórsteinn að mikill er aflsmunur því kall var ærið sterkur. Sókti kall fast á, en Þórsteinn verst. Kom so um síðir að kall mæðist meira því ellin bagaði hann. Féll hann þá, en Þórsteinn misþyrmdi honum fastlega og braut annan fótlegg hans. Biður kall Þórstein þá að gefa sér líf, en hinn kvað það ómaklegt, gerir honum þó kost á því ef kall vilji veita sér farar skjóta fyrir þann er kall hefði drepið. Sagði kall að þar skammt frá væru tólf hestar, mætti hann taka hvern hann vildi að fráskildum tveimur rauðskjóttum sem hann segir að synir sínir eigi. Þá spyr Þorsteinn hvar þeir sé, en hann kvað þá að fé. Getur Þorsteinn til að margt af því muni stolið vera. Þrætti kall þess ei. Spyr Þórsteinn hve margir bæir séu í dal þeim: Segir kall að þeir séu tveir. Fer Þórsteinn þá á stað. Finnur hann hestana eins og kall hafði til vísað; tekur hann báða þá rauðskjóttu og stefnir þangað hvaðan hann kom. Sér hann þá að tveir menn koma á móti honum og reka ærið margt fé. Er annar þeirra stærri en annar og þó báðir unglegir. Þekkir Þórsteinn þar forustusauð sem faðir hans á; var hann grár að lit. Setur Þorsteinn þá hund sinn á sauðina. Snúa þeir þá á rekstrarmennina og fara norður fyrir þá. Skipar þá sá eldri þeim yngra að hirða féð, en sjálfur ræðst hann á móti Þórsteini; segir hann að Þorsteinn hafi líkast til drepið föður sinn, en stolið hestunum. Þórsteinn kvað so vera. Ráðast þeir þá allhraustlega á og varð atgangur þeirra hinn harðasti. Kom so að Þorsteinn fellir útilegumann og spyr hann þá: „Hvurnig mundir þú hafa að mér búið, hefðir þú verið jafnt ráðandi og ég er nú?“ Hinn kveðst hann skjótt mundi drepið hafa. „Þá skaparðu þér kostinn,“ kvað Þórsteinn og drap hann þar. En þegar Þórsteinn var fyrir litlu upp staðinn kemur enn yngri bróðir. Gjörir Þórsteinn honum þá tvo kosti að sleppa fénu og fara heimleiðis eður fara sömu för og bróðir hans. Kvaðst útilegumaður heldur líf vilja og láta féð. Skilja þeir og fer Þórsteinn leiðar sinnar. Segir ei af ferð hans fyr en kemur til Skagafjarðardala. Fær hann þá fylgd heim til sín. Kom hann þá með margt fé þar úr sveitum, en þó flest sem faðir hans átti og margt þekktist ei. Varð mikill fagnaður að komu hans því bæði faðir hans og fleiri höfðu talið vonlaust að hann mundi aftur koma. Tóku þeir feðgar fé það er ei þekktist og þókti öllum þeir vel að því komnir. Enda so frásögn þessa.