Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Þorsteinn og Guðlaug

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Það voru einu sinni rík hjón á bæ. Þau áttu tvær dætur; hét önnur Guðrún og hin Guðlaug. Faðir þeirra hét Grímur, en Guðrún móðir. Og þar skammt frá bjöggu hjón fátæk, og hét hann Jón og kona hans Guðbjörg. Þau áttu einn son sem hét Þorsteinn. Þau gátu ei alið hann upp fátæktar vegna og komu þau honum til Gríms til uppfósturs því Grímur var bróðir Jóns. Nú ólust upp dætur Gríms og fóstursonur hans og segir sagan þau hafi verið hin efnilegustu.

Einu sinni verður Grímur var við að þau [Þorsteinn og Guðlaug] hverfa frá bænum á hvurju kvöldi og þykir honum þetta slæmt. Einu sinni fer hann á eftir þeim og sér hann þá hvar þau standa og eru að skrafa við einn dálítinn skóg. Færir hann sig þá nær og heyrir að þau binda fastmæli sín á milli að Þorsteinn segist öngva aðra skuli eiga en hana og hún segir það sama ef hún megi ráða. Nú gengur Grímur heim aftur og lætur ekki á neinu bera. Daginn eftir talar hann einslega við Guðlaugu dóttur sína og segir hún hafi illa gjört að binda þessi fastmæli við Þorstein án sinnar vitundar. Henni verður illt við þetta og veit að faðir sinn hefur nálægt verið þegar þau gjörðu þetta með sér þó þau vissi ekki af því.

Eitt sumar ríður Grímur á alþing og lætur Þorstein fara með sér, en Guðlaugu þykir fyrir að missa Þorstein þó hún láti ekki á því bera. Einn góðan veðurdag eru mæðgur að þurrka hey, en þegar líður á daginn verður hann svo úrkomulegur að þær taka saman heyið. Þegar þær eru búnar syfjar Guðlaugu svo hún leggur sig út af, en biður Guðrúni systur sína að vekja sig ef hann yrði mjög úrkomulegur. En þegar hún er sofnuð verður hann svo ljótur að Guðrún segir móður sinni að hún ætli að taka inn þvottana fyrir systir sína og gengur út. En þegar hún er komin út man hún ekki hvað hún ætlaði að gjöra og er úti stundarkorn; gengur svo inn til móður sinnar. Móðir hennar spyr hana að hvurt hún sé búin að taka inn þvottinn. Hún segir þá eins og var að hún hafi gleymt því. Svo fer móðir hennar út og ætlar að taka inn þvottinn; það fer á sömu leið, og sjá þær nú að Guðlaug má til að taka inn þvottinn. Svo vekja þær hana og segja henni þetta. Guðlaug segir sér muni vera ætlað það sjálfri og gengur út. Er hann þá svo dimmur að hún sér hvurgi; fer samt og tekur þvottinn. Í því sér hún hvar tveir menn koma ríðandi með söðlaðan hest. Þá ætlar hún að flýta sér í bæinn, en þeir verða fljótari að ná henni og láta hana í söðulinn og ríða svo á stað. En þeim mæðgum leiðist eftir Guðlaugu svo þær ganga út. Sjá þær þvottinn á hlaðinu; leita svo í kringum bæinn að Guðlaugu, en sjá hana hvurgi. Þykir þeim mikið fyrir þessu. Litlu eftir þetta kemur Grímur heim. Þegar hann heyrir þetta verður hann fár við, en Þorsteinn þó enn meir svo hann leggst í rúmið og liggur fram á vetur. En Grímur fær sér menn að leita og svo er leitað í tvo daga og finnst hún hvurgi; en Þorsteinn kemst á fætur aftur um veturinn. Sumarið eftir leggst Þorsteinn aftur um sama leyti sem Guðlaug hvarf og liggur það sumar allt. En það er að segja frá því að Grímur vill að Þorsteinn eigi Guðrúni dóttir sína, en hann vill það ekki. Þó verður það að þau trúlofast. En um veturnæturnar dreymir Þorstein að hann þykist vera að leita að Guðlaugu og gengur lengi þar til hann kemur að háu hrauni og það finnst honum vera Ódáðahraun; gengur svo meðfram hrauninu þar til hann sér í dalverpi. Hann gengur þangað. Sér hann þá stórt vatn og rennur á úr vatninu. Hann gengur svo að vatninu og með ánni. Kemur hann þá að húsaþorpi og var þá komið kvöld. Hann ber á dyrum; þar kemur út gamall maður. Þorsteinn spyr hvur ráði hér fyrir. Honum er sagt hann heiti Egill. Þorsteinn biður að lofa sér að vera og er hann sagður velkominn. Svo er honum fylgt í baðstofu. Þar sér hann stúlku eina er situr undir barni. Þegar hann er búinn að sitja langan tíma sér hann hvar tvö börn koma fram á pallinn og fara að leika sér. Þykist hann sjá að börnin hafi svip af Guðlaugu. Og þegar lítil stund er liðin kemur fram fyrir mikils háttar maður með bækur og fer að lesa. Þegar hann er búinn að lesa kemur fram fyrir kvenmaður; hún lítur til hans og brosir. Þar þykist Þorsteinn þekkja Guðlaugu og í því vaknar hann.

Og fáum dögum eftir að Þorstein dreymir þetta fer hann einn morgun snemma á fætur, kemur til Gríms fósturföður síns og biður hann að fá sér nesti og nýja skó. Grímur spyr hvað hann ætli; hann kveðst ætla að leita að Guðlaugu dóttir hans. Síðan býr hann sig til ferðar og Grímur fær honum sinn bezta reiðhest; síðan fylgir það honum á leið og biður hann heilan aftur koma. Svo ríður Þorsteinn lengi þar til hann kemur [að] einu hrauni og [sér] hann það er sama hraunið sem hann dreymdi; fer af baki, tekur nesti sitt og fer að borða, en sleppir hestinum því hann sér hann getur ekki riðið lengra vegna stórgrýtis. Ég get ekki verið að orðlengja það: Það fer allaðeinu eins og hann dreymdi. Þegar hann kemur að bænum kemur sami karlinn út eins og áður og þegar hann kemur inn sér hann sömu mennina sem hann dreymdi. Svo er honum fært að borða. En um kvöldið þegar búið er að lesa kemur Guðlaug fram fyr[ir]. Hann heilsar henni, en hún brosir og gengur ofan. Síðan er Þorsteini fylgt til rúms í eitt dálítið hús. En þegar allir eru háttaðir kemur Guðlaug til Þorsteins og verður þar mikill fagnaðarfundur. Segir hún honum frá þegar mennirnir tóku hana úr föðurgarði meðan þeir hefði verið á þingi og segist nú vera gift manninum sem hafi lesið í kvöld er heiti Egill og séu þau búin að eiga tvö börn sem hann hafi séð í kvöld. En það er að segja frá því að Grímur fékk Þorsteini öxi og bað hann að drepa öngvan með henni nema ef hann ætti hendur sínar að verja. Nú biður Guðlaug Þorstein að vera þar um veturinn. En um nóttina heyrir Þorsteinn að gengið er hljóðlega um bæinn. Klæðir hann sig skjótt og gengur út. Þegar hann kemur fram í bæjardyrnar sér hann hvar Egill stendur úti. Hann hugsar með sér hann skuli drepa Egil þegar hann gangi inn, fer á bak við hurðina og stendur þar og er hann þar um stund. Þá talar Egill til hans og segir honum sé ekki til neins að standa þarna, hann viti vel hvað hann ætli að gjöra. Gengur þá Þorsteinn út og býður honum góðan dag. Síðan ganga þeir báðir inn í stofu og fer þá Egill að segja honum frá hvurnin á því standi að hann búi hér í þessum dal og segir að faðir sinn hafi búið í Skagafirði er Halldór hafi heitið og sé hann nú dauður. „Lét hann kenna mér til prests. Síðan vildi hann láta mig biðja Guðlaugar sem nú er kona mín, en ég vildi það ekki sökum þess að hún var þér trúlofuð, en faðir minn vildi það öngvu síður að ég bæði hennar þó hún væri þér trúlofuð. En um þessar mundir varð systir mín ólétt eftir mig og flutti faðir minn mig í þennan dal og systir mína líka. Síðan tók hann Guðlaugu og flutti hana hingað og gifti okkur hér. Og þess vegna lét ég þig dreyma drauminn svo þú færir að leita að Guðlaugu og gætir fundið hana. Nú skaltu vera hér í vetur bæði þér og konu minni til skemmtunar.“

Nú líður veturinn. Á sumardaginn fyrsta gefur Guðlaug Þorsteini dálítinn kistil fullan af peningum. Hann þakkar henni fyrir. Nú spyr Guðlaug mann sinn að hvað hann ætli að gefa Þorsteini í sumargjöf. Egill segist muni gefa honum það sem honum þyki mikið vænnra um en kistil þennan, og segist ætla að gefa honum konu sína með sér, biður nú Þorstein fara heim og sækja fósturforeldra sína og Guðrúni systir Guðlaugar; – „og skal ég verða búinn að ná manni úr sveit til mín handa Guðrúni. En þig ætla ég að gifta konu minni og skulum við eiga hana báðir.“

Síðar býr Þorsteinn sig til heimferðar og Egill ljær einn mann og hest til fylgdar þar til hann kæmist yfir Ódáðahraun. Skilst það nú allt með kærleikum. Segir svo ekki af ferðum Þorsteins fyrr en hann kemur heim. Er þá Grímur lagztur í rúmið af sorg út af Þorsteini. Hresstist hann brátt þegar hann sér Þorstein, og verður þar mikill fagnaðarfundur. Segir Þorsteinn hvurnin farið hafði fyrir sér í öllu þessu ferðalagi og þar með hvað Egill hafi boðið sér og beðið sig að koma með foreldra og systir Guðlaugar. En vorið eftir býr það sig til ferða og hættir ekki ferð sinni fyrr en það kemur í dalinn til Egils og er því fagnað vel. Er þá Egill búinn að ná tveimur mönnum úr byggð. Síðan giftir hann Guðrúni annan, en Ingibjörgu systir sinni annan. Svo giftist Þorsteinn Guðlaugu og eiga þeir Egill hana báðir. Býr það nú allt í dalnum nokkur ár þar til Egill andast og gjörir það heiðarlega útför hans. Síðan flytur það sig allt í byggð eftir dauða Egils og býr þar til ellidaga.